Orri Vigfússon fæddist á Siglufirði hinn 10. júlí 1942. Hann lést á Borgarspítalanum 1. júlí 2017.
Foreldrar Orra voru Vigfús Friðjónsson, f. 1918, d. 2008, útgerðarmaður, og Hulda Sigurhjartardóttir, f. 1920, d. 2007. Systkini Orra eru Friðjón Óli, f. 1946, d. 2013, og Sigríður Margrét, f. 1954.
Orri kvæntist árið 1970 Unni Kristinsdóttur frá Akureyri, f. 3. júlí 1942. Börn þeirra eru: 1) Vigfús, f. 1972, veiðimaður, kvæntur Guðrúnu Ósk Óskarsdóttur, f. 1975, lögfræðingi. 2) Hulda, f. 1974, verkefnastjóri hjá Tækniskólanum. Dætur hennar a) Unnur Álfrún, f. 2010, 2) Margrét Álfdís, f. 2010, c) Álfhildur Iða, f. 2016.
Orri var alinn upp á Siglufirði og flutti til Bretlands árið 1959. Þar tók hann stúdentspróf við breskan menntaskóla og stundaði nám í viðskiptafræði við London School of Economics þar sem hann útskrifaðist 1964.
Við heimkomuna til Íslands tók hann við framkvæmdastjórn Japönsku bifreiðasölunnar sem þá var í eigu fjölskyldunnar. Fyrirtækið flutti inn bíla frá Toyota-verksmiðjunum í Japan og þótti óðs manns æði að ætla að flytja inn japanska bíla til Íslands. Eftir það starfaði Orri hjá Félagi íslenskra iðnrekenda á þeim árum þegar Íslendingar voru að ganga í EFTA. Félagsmönnum var umhugað um að efla íslenska framleiðslu og leita nýrra leiða og möguleika á þeim vettvangi. Á þeim tíma var farið í gang með starfsemi Íslensks markaðar á Keflavíkurflugvelli og tók Orri sæti í stjórn fyrirtækisins. Orri starfaði hjá Félagi íslenskra iðnrekenda í fjögur ár og var eftir það forstjóri Glits hf. um nokkurra ára skeið.
Þá gegndi hann fjölmörgum ábyrgðarstöðum og var áberandi í íslensku viðskiptalífi. Hann sat meðal annars í stjórn Íslandsbanka um árabil og í stjórn Íslenska sjónvarpsfélagsins sem þá rak og átti Stöð 2. Hann hafði líka miklar mætur á tónlist og sat um tíma í stjórn Íslensku óperunnar.
Helst verður hans minnst fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem hann vann fyrir verndun Norður-Atlantshafslaxastofnins. Hann stofnaði NASF, verndarsjóð villtra laxastofna, þar sem hann gegndi einnig formennsku. Í tæpa þrjá áratugi barðist hann fyrir því að laxveiðum í sjó yrði hætt og laxinum leyft að snúa aftur á hrygningarstöðvar í ám beggja vegna Atlantshafsins. Hann naut virðingar náttúru- og umhverfissinna víða um heim og hlaut fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal hina íslensku fálkaorðu, riddaraorðu frá dönsku drottningunni, viðurkenningar frá Times Magazine og The Economist og riddaraorðu frá frönsku ríkisstjórninni. Árið 2007 fékk hann The Goldman Environmental-verðlaunin, sem eru ein af virtustu umhverfisverðlaunum heims. Hann var tekinn inn í frægðarhöll eða The Hall of Fame alþjóðasamtaka sportveiðimanna á síðasta ári.
Útför Orra fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 10. júlí 2017, klukkan 13.

Það er einkennileg tilfinning þegar hitt sjálfið manns, sem á latínu nefnist; alter ego, er allt í einu  horfið. Við Orri hittumst fyrst á Siglufirði í júlí 1947, báðir 5 ára. Ég, borgarbarnið, með mömmu og pabba í Sólvangi, sumarhúsi Ole Tynes afa míns í Skútudal, hann innfæddur grallari sem þekkti alla leyndardóma Siglufjarðar eins og puttana á sér. Við vorum frændur eitthvað aftur í ættir, en urðum þetta sumar og næstu 1-2 sumur eins og samlokur. Svo tók við 6 ára sveitadvöl hjá mér og hann á kafi í síld með pabba sínum. Ekkert samband var milli okkar aftur fyrr en á menntaskólaárum er við, fyrir hreina tilviljun, hittumst í sama hópnum og allt í einu rifjuðust upp minningarnar frá ævintýrum sumranna góðu og við bókstaflega féllumst í faðma af gleði og eiginlega örkuðum saman okkar æviveg. Þegar Ragnheiður Sara , eignkona mín, kom inn í líf mitt skipti það mig eitt máli hvað Orra og Unni fyndist um hana, ekki hvað mömmu og pabba fyndist. En, öll umvöfðu þau hana vináttu og hlýju og Orri var svo svaramaður minn í brúðkaupinu okkar. Ég er guðfaðir barna þeirra, Vigfúsar og Huldu, og hann guðfaðir sona okkar, Hafsteins Orra og Ingva Arnar. Allt okkar líf fram til andláts hans var samofið á einn eða annan hátt, við vissum alltaf hvað hinn var að brasa og töluðum stundum í síma 10 sinnum á dag. Við vorum ekki alltaf sammála en eiginlega alltaf sammála um að vera ósammála þegar svo bar við.

Við stofnuðum saman verndarsjóð villtra laxa fyrir 27 árum og skrifuðum eins og asnar upp á 500 þúsund dollara víxil til að borga Færeyingum fyrstu greiðslu fyrir að hætta að veiða lax í sjó.
Orri sá svo um á allnokkrum árum að safna peningum til að borga þennan blessaða víxil upp. Leiðir okkar í NASF skildi er ég skynjaði að ástríða vinar míns var orðin slík að hann taldi að náttúran ætti fyrst að njóta vafans og maðurinn svo. Ég vildi að maðurinn nyti vafans og svo náttúran. Vinátta og væntumþykja okkar breyttist lítið.
Orra Vigfússonar er minnst um allan heim náttúrverndarsinna sem afreksmanns. Erlendir framámenn telja að hann hefði verið á ca. 5-10 manna lista til að hljóta Nóbelsverðlaun fyrir umhverfisvernd ef þau hefðu verið til. Umhverfissamtök um allan heim, ekki bara þau sem eiga land að Atlantshafinu, hafa veitt honum sínar æðstu viðurkenningar og verðlaun en það sem honum þótti kannski vænst um var íslenska fálkaorðan. Ég hripa þessi kveðjuorð í veiðihúsi hans í Berglandi í Fljótum, klæddur í gömlu
flókainniskóna hans, í veiðiferð með guðsonum hans og tveimur af þeirra sonum. Ég finn nálægð hans svo sterka að það liggur við að ég sjái sjálfinu bregða fyrir. Mér finnst hann segja í guðs bænum ekki skrifa væmna vellu. Ég grét með ekka, er ég fékk að vita að hann væri farinn og finn herping í brjóstinu þegar ég skrifa þessar línur. En ekki væmna vellu, það var ekki hans stíll. Það segir sína sögu um Orra Vigfússon að fyrir nokkrum árum valdi heimstímaritið Time hann í hóp 100 áhrifamestu aðila í heimsbyggðinni og fyrir 23 árum heiðraði Karl Bretaprins hann í St. James-höll í Lundúnum í fjölmennu boði og virðingarvottar sem honum hafa hlotnast í millitíðinni eru fleiri en hægt er að telja.
Samkvæmt tölfræðinni er ekki alltof langt í að ég fari mína för í veiðilendurnar miklu og ég reikna með að þá munum við aftur fallast í faðma og arka saman vorn eilífðarveg.
Elsku Unni, Vigfúsi, Huldu, Guðrúnu tengdadóttur, afastelpunum þremur, Sörmu litlu systur og ekki síst Kristínu hægri hönd hans í áratugi, sendum við, Ragnheiður Sara og synir, okkar hlýjustu kveðjur og þakkir.
Hvíl í friði elsku vinur.

Ingvi Hrafn Jónsson.