Heppin Jenny Colgan segist heppin að hafa getað haldið áfram að skrifa í næstum tuttugu ár og að sér gangi sífellt betur og betur.
Heppin Jenny Colgan segist heppin að hafa getað haldið áfram að skrifa í næstum tuttugu ár og að sér gangi sífellt betur og betur. — Ljósmynd/Charlie Hopkinson
Skoski metsöluhöfundurinn Jenny Colgan segist hafa farið að skrifa bækur vegna þess að hún hafi ekki verið ekki góð í neinu öðru. Skáldsaga hennar, Litla bakaríið við Strandgötu, skaust á topp Eymundsson snemma í sumar.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Skoski rithöfundurinn Jenny Colgan sló í gegn hér á landi með skáldsögunni Litla bakaríið við Strandgötu í sumar. Þetta var fyrsta bók Jenny Colgan sem kemur út á íslensku, en alls hefur hún sent frá sér 24 bækur fyrir fullorðna og tvær barnabækur, auk þess sem hún hefur skrifað átta vísindaskáldsögur undir nafninu Jenny T. Colgan.

Vertu mjög heppin

Þrátt fyrir þessi afköst og vinsældirnar sem hún hefur notið segist hún hafa leiðst út í skriftir nánast fyrir tilviljun: „Það má eiginlega segja að ég hafi farið að skrifa bækur af því ég var ekki góð í neinu öðru. Ég vann á spítala um tíma og var ömurleg í því starfi. Svo reyndi ég fyrir mér sem uppistandari og var ferlega léleg í því líka og spreytti mig við teiknimyndir, en er ekki nógu góð að teikna. Það kom mér því í opna skjöldu þegar handrit sem ég hafði sent til útgefanda var samþykkt til útgáfu. Inntak sögunnar ætti sennilega að vera: ekki gefast upp, en ég held að það gæti eins verið: vertu mjög heppin.“

Eins og heiti bókanna bera með sér þá tengjast þau oft stöðum: Litla bakaríið við Strandgötu heitir fyrsta bókin á íslensku en svo eru bækur eins og Hittu mig í Bollakökukaffihúsinu, Vesturbæjarstelpur, Fallegasta súkkulaðibúð Parísar, Sumareldhúsið á ströndinni og svo má telja. Colgan segir líka að bækur hennar byrji yfirleitt með stað í kollinum á henni, frekar en persónu. „Mér finnst mikilvægt að sjá fyrir mér samfélag eða ímynda mér hvernig það væri að búa annars staðar eða flytja eitthvað annað. Ég er mikið á ferð og flugi og finnst frábært að koma á nýja staði, mér finnst allir staðir skemmtilegir.“

Þurfti að læra að elda

Á vefsetri útgefanda Litla bakarísins við Strandgötu , Angústúru, er bókin kynnt sem ástarsaga með uppskriftum og víst eru í henni uppskriftir, eins og sú sem sjá má hér til hliðar. Colgan segir að hún hafi farið að bæta uppskriftum í bækur sínar þegar hún bjó í Frakklandi um tíma. „Þá voru börnin mjög lítil og í Frakklandi er í raun ekki hægt að kaupa tilbúinn mat, maður þarf bara að læra að elda. Ég gerði það því, smám saman og með harmkvælum, og fór að skrifa um það. Mér til furðu kunni fólk að meta uppskriftirnar. Það eina sem þú þarft að vita er að ef ég get eldað eftir þeim þá getur þú það örugglega líka.“

- Það er ekki hægt að segja annað en að þér hafi gengið flest í haginn sem rithöfundi, kom það algerlega flatt upp á þig?

„Það hljómar kannski kjánalega, en ég var ung og barnaleg í hugsun þegar ég byrjaði að skrifa og bjóst alls ekki við neinu. Ég man að ég reiknaði út hvað ég þyrfti nákvæmlega að hafa í tekjur ef ég myndi líka vinna sem þjónn. Það er því óhætt að segja að allt sem gerðist eftir það hefur komið mér á óvart. Ég er ótrúlega heppin með að hafa getað haldið áfram að skrifa í næstum tuttugu ár og mér gengur sífellt betur og betur, sem skrifast vissulega á heppni að einhverju leyti en þó aðallega á það að ég er með svo góðan útgefanda og fæ svo mikinn stuðning.“

Mikil fagnaðarlæti

- Litla bakaríið við Strandgötu varð mest selda bók á Íslandi þegar hún kom út. Langar þig til að ávarpa íslenska lesendur þína?

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég kemst á toppinn og ég mun alltaf minnast þess hvað það var mikil gleðifrétt. Það urðu mikil fagnaðarlæti og mig langar svo mikið til að koma í heimsókn,“ segir Jenny Colgan og bætir við á íslensku: „Þakka ykkur fyrir!“