Lofthildur Kristín Loftsdóttir (Hidda) fæddist 23. ágúst 1928. Hún lést á Landakotsspítala 2. júlí 2017 eftir stutta legu þar.

Hún var næstelsta dóttir hjónanna Lofts Georgs Jónsonar, f. 20.9. 1902 í Arney á Breiðafirði, d. 20.2. 1969 í Reykjavík og Laufeyjar Tómasínu Einarsdóttur, f. 4.7. 1909 að Bjargi í Grindavík, d. 9.10. 1991 í Reykjavík.

Alsystkini Lofthildar eru Eyrún Lára Þórey, f. 13.10. 1926, d. 30.1. 1993, maki Gunnar Björgvin Gíslason; Guðmunda, f. 17.11. 1930, maki Eyjólfur Júlíus Kristjánsson, d. 1991; Helga, f. 4.5. 1939, maki Gunnar Kristjánsson, d. 2014; Eiríkur Jón, f. 7.9. 1944, d. 28.12 1945; Hrefna Björk, f. 11.2. 1947, maki Hjörtur Hafsteinn Karlsson. Hálfbróðir samfeðra Skarphéðinn Kristinn, f. 27.7. 1922, d. 28.6. 2001, maki Erla Kristín Þorvaldsdóttir, d. 2010.

Lofthildur giftist Ragnari Franzsyni 30. júlí 1948. Foreldrar hans: Franz Ágúst Arason, f. 13.8. 1897, d. 23.11. 1983, og Þórunn Sigríður Stefánsdóttir, f. 5.1. 1897, d. 9.8. 1928. Uppeldisfaðir Ragnars var Hannes Stefánsson, f. 2.7. 1892, d. 2.1 1974. Lofthildur og Ragnar stofnuðu heimili að Bólstaðarhlíð 13. Börn þeirra sex að tölu eru: 1) Hannes Þór, f. 3.8. 1947, maki Ólöf Stefánsdóttir. Börn þeirra: Lilja Hildur, f. 26.2. 1968 og Stefán Þór, f. 2.8. 1980, maki Aðalheiður Dröfn Bjarnadóttir. 2) Bergþór, f. 30.12. 1948, maki Þórdís Friðfinnsdóttir. Börn þeirra: Tómas Friðfinnur, f. 29.7. 1967, maki Vigdís Hlín Friðþjófsdóttir; Lofthildur Kristín, f. 19.7. 1968, maki Arnfinnur Þór Jónsson; María Sif, f. 15.11. 1979, maki Ólafur Halldór Hafsteinsson; Arnar Þór, f. 29.3. 1985, sambýliskona Kristjana Símonardóttir; Aron Már, f. 29.3. 1985. 3) Eiríkur, f. 20.3. 1956, maki Jakobína H. Gröndal. Börn þeirra eru: Ragnar Halldór, f. 27.8. 1969, d. 27.5. 1976; Ingibjörg Kristín, f. 16.12. 1973, maki Ágúst Geir Ágústsson; Ragnar Halldór, f. 31.8. 1976 og Eiríkur Hafsteinn, f. 9.2. 1979. 4) Ragnar, f. 19.2. 1960, d. 23.1. 1993. Var giftur Maríu Vargas, börn þeirra eru: Fabian Daniel, f. 11.5. 1981 og Ragnar Estefan, f. 14.8. 1992. 5) Rannveig Sigríður, f. 12.1. 1965, maki Aðalsteinn Sigurvin Sverrisson. Sonur þeirra er Loftur Georg, f. 9.12. 1991. 6) Helga Magnea, f. 12.1. 1965, sonur hennar Hannes Ragnar Ólafsson, f. 18.11. 1983. Lofthildur átti einnig 25 langömmubörn og fjögur langalangömmubörn. Svo hún skildi eftir sig stóran hóp afkomenda.

Hidda kynntist Ragnari Franzsyni 1946. Þau hófu fljótlega sambúð og giftust 1948. Ragnar var lengst af sjómaður og skipstjóri á togurum. Var þar af leiðandi mikið fjarri fjölskyldu sinni vegna vinnu sinnar. Hidda var þá ein með fjölskylduna í landi, gat þá oft reynt mikið á hana þegar hópurinn var orðinn sex börn. En hún stóð alltaf sína plikt með sóma.

Útför Lofthildar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Það var í febrúar 1946 en þá var ég háseti á togaranum Skutli. Þegar ég kom í land fór ég í bakarí og keypti Sætabrauð  með kaffinu og fór með það til Möggu systur minnar. Hún bjó í kjallaranum á Lindargötu 29. Þegar ég kom með sætabrauðið var Magga systir ekki heima en þarna var stúlka sem ég hafði aldrei séð áður en hún var að passa Þórunni dóttur Möggu  sem  þá  var þriggja mánaða gömul. Það var eins og færi um mig rafstraumur ég var svo hrifinn af stúlkunni, í vandræðum mínum sagði ég viltu ekki vínarbrauð elskan. Það skipti engum togum að stúlkan hljóp út og skildi mig eftir með barnið.

Nokkrum dögum seinna bauð ég Möggu systur og manninum hennar í bíó og bað ég Möggu um að taka fallegu stúlkuna með, það gekk eftir hún kom með. Ég og fallega stúlkan sátum saman  í aftursætinu  á bílnum, í   brekkunni í Öskjuhlíðinni tók ég í hönd hennar og hún svaraði handartakinu, við héldumst í hendur alla leið suður í Hafnarfjörð og alla bíómyndina sem ég sá ekki, ég sá bara stúlkuna við hliðina á mér, þetta voru okkar Hiddu fyrstu kynni. Um jólin 1946 trúlofuðum við okkur og 3. ágúst 1947 fæddist frumburðurinn sem við gáfum nafnið Hannes Þór og 30. júlí 1948 vorum við gefin saman af séra Jóni Thoroddsen. Ég man ekki eftir neinu tilstandi frá foreldrum okkar en  við héldum upp á daginn með tertu og kertaljósi í litlu íbúðinni okkar í Bólstaðahlið 13.

Hún Hidda mín var einstök þegar ég var í stýrimannaskólanum varð ég að vinna til að framfleyta okkur, ég vann meðan á sláturtíðin stóð yfir frá klukkan fimm til níu á kvöldin við það að svíða hausa , svo að ekki var mikill tími aflögu til að lesa.  Hidda var betri en  enginn, hún var búin að kynna sér það sem ég var að læra og kunni hún sumt utanað eins og  siglingareglurnar, áður en  við fórum að sofa, spurði hún mig út úr því sem ég var að  læra.   Starfið sem ég valdi mér varð til þess að ég var oft í burtu mánuðum saman, þegar ég kom heim eftir langa útiveru var hátíð í bæ. Hún Hidda mín var mjög myndarleg og góð húsmóðir, það var allt í toppstandi, íbúðin hrein og fín og börnin vel klædd og hugguleg.  Ég minnist þess hvað við nutum þess að vera saman heilt sumar í Þýskalandi, við bjuggum á fínu hóteli og ferðumst um Þýskaland þvert og endilangt.  Við vorum líka þrjá mánuði í Englandi og það voru dýrðardagar, og seinna nutum við þess að vera saman Vinja de mar  í Chile þá á sjötugsaldri. Hidda mín þú varst kjarkmikill og dugleg, þegar Beggi dengurinn okkar varð fyrir því að missa auga fórst þú með hann daglega til læknis í mánuð. Þegar ég var úti Chile komst þú til mín og ekki vantaði kjarkinn, þú fórst frá Íslandi til Hollands og þaðan til Argentínu og svo til Úragvæ og þaðan til Chile.  Flugvélin átti að koma klukkan tvö um nóttina, og ég beið á flugvellinum í Santiago. Flugvélar komu hver á eftir annarri og ekki bólaði á Hiddu minni, ég var farinn að halda að hún hefði villst á leiðinni. Þegar klukkan var að verða fimm um morguninn birtist hún og rogaðist með poka með tveim líters flöskum af brennivíni, yfirmaður minn í Chile kom til Íslands og hafði  smakkað brennivín og líkað vel og þannig stóð á brennivíninu.Það var sama þar og heima, ég var á sjónum en eins og ég sagði áður, áttum við indæla daga á Vinja de mar.

Hidda átti góða vinkonu í Chile og hún naut þess að vera með henni, þessi vinkona var dönsk og hét Laila hún var gift Jens Valdimarssyni sem starfaði hjá Friosur sem er útgerðarfyrirtæki Chile en ég var skipstjóri á karlsefni sem nú hét Friosur 3. Hidda naut þess að ferðast með með Lailu vinkonu sinni um Chile, það má því seigja að Laila hafi bjargað málunum, ég var svo mikið út á sjó. Hún Hidda mín var glæsileg og höfðingleg kona, til marks um það ætla ég að seigja smá sögu. Hidda var á flugvellinum í Kojakó í Chile, hún sat á stól og var að bíða eftir að vera sótt, um svipað leiti kemur flugvél með forsetaefnið sem tók við af Pinoceht. Það var hópur af fyrirmönnum sem stóðu í hóp saman en Hidda  sat á stólnum skammt frá, forsetaefnið strunsaði framhjá hópnum beint til Hiddu og heilsaði henni með virtum.

Elsku Hidda mín það gaf oft á bátinn, smá skvettur en ein holskefla reið yfir þegar Ragnar sonur okkar var myrtur , það er hryllingur sem aldrei fer frá manni. Elsku Hidda mín það eru 71 ár síðan við héldumst í hendur á leið í Hafnarfjörð, en þegar þú andaðist þá hefði ég átt að halda í höndina þína, því miður gat ég það ekki. Elsku Hidda mín ég þakka þér fyrir hvað þú varst mér góð þrátt fyrir mína mörgu galla. Ég veit að amma þín, litli bróðir þinn, Raggi og Lára systir þín hafa tekið á móti þér hinumegin.


Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg,
en anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
(Jónas Hallgrímsson.)

Ragnar.

Elsku mamma mín  hve sárt það er að þurfa að kveðja þig. Það var svo gaman að hlusta á sögurnar þínar um æskustöðvarnar í Grindavík, lífsbaráttan var hörð og mennirnir sóttu sjóinn á opnum bátnum og sumir áttu ekki afturkvæmt. Þú varst viðlesinn og miðlaðir óspart  af fróðleik til barna og barnabarna, þú hafðir sterka réttlætiskennd og þoldir ekki mismun og óréttlæti þú fagnaðir fjölbreytileikanum og allir voru velkomnir inn á þitt heimili.

Þú kenndir okkur að vera heiðarleg og koma eins fram við alla jafnt menn sem dýr. Þú varst fyrirmyndar húsmóður og maturinn þinn var engum líkur. Þú bjóst til heilu sögurnar og ævintýrin sem þú sagðir okkur á kvöldin þau  lifa í minningunni. Þú sagðir okkur frá Guðrúnu ömmu þinni  og hversu vænt þér þótti um hana þið fóruð á hverjum sunnudegi saman til kirkju þegar þið bjugguð í Grindavík.  Ung að árum kynntist þú sorginni  þegar þú misstir bróður þinn Eirík en  hann var á öðru ári.  Aftur barði sorgin að dyrum þegar þú misstir drenginn þinn hann Ragnar og Láru systur þína með viku millibili . Styrkur þinn var mikill og þú hafðir alltaf eitthvað að gefa þrátt fyrir mótlæti í lífinu. Þú varst glæsileg kona og eftir þér var tekið hvar sem þú komst. Þú varst trúuð og  við gleymum aldrei orðum þínum þegar þú sagðir við okkur að einn dagur hjá guði væri heil eilíf á jarðríki. Nú ertu kominn til þeirra sem þú  saknaðir og unnir svo mikið og  þú tekur á móti okkur elsku mamma þegar kallið kemur. Þitt uppáhalds ljóðskáld var Einar Benediktsson, því viljum við kveðja þig með ljóði eftir hann og bæn sem þú kenndir okkur í æsku.

Hvíl í friði elsku mamma.


Móðir. Ég sigli minn sjó fram á haust.
Til suðurs hver fold er í kafi.
En Sóley rís úti, sveipuð laust
í svellgljá og kvoldroða-trafi.
Hér á að draga nökkvann í naust.
Nú er ég kominn af hafi.

Í borga og stranda streymandi sveim
mín stjarna leit til þín í vestur;
því hvar er svo fátt sem í hópsins geim,
eða hljótt sem þar glaumur er mestur?
Og venur það ekki viljann heim
að vera hjá sjálfum sér gestur?

Í förum, við öldu og áttar kast,
margt orð þitt mér leið í minni.
Draumarnir komu. Ég lék og þú last
í lítilli stofu inni.
Hvort logn var á sæ eða bára brast,
þú bjóst mér í hug og sinni.

Við spor hvert um Bifröst, að Heljar hyl,
til himins vor tunga hjó vörðu.
Þú last þetta mál með unað og yl
yngdan af stofnunum hörðu.
Ég skildi að orð er á Íslandi til
um allt sem er hugsað á jörðu.

Þú elskaðir stökunnar máttuga mál,
myndsmíð vors þjóðaranda,
þar ættirnar fága eldgamalt stál
í einvistum fjalla og stranda,
við öræfamorgunsins brúnabál,
við brimþunga mannauðra sanda.

Frá árbjarma fyrstu æsku ég man
óm þinna glötuðu stefja.
Enn finnst mér ég heyra fjallasvan
í fjarska sín vegaljóð hefja.
Svo finn ég, hjá ísunum, móðurman
í mjúku fangi mig vefja.

En þar brástu vængjum á fagnandi flug,
sem frostnætur blómin heygja.
Þar stráðirðu orku og ævidug,
sem örlög hvern vilja beygja.
Mér brann ekkert sárar í sjón og hug
en sjá þínar vonir deyja.

En bæri ég heim mín brot og minn harm,
þú brostir af djúpum sefa.
Þú vógst upp björg á þinn veika arm;
þú vissir ei hik eða efa.
Í alheim ég þekkti einn einasta barm,
sem allt kunni að fyrirgefa.

Og þegar ég leiddi í langför mitt skip
og leitaði fjarlægra voga
ég mundi alltaf þinn anda og svip.
Þú áttir hjarta míns loga.
Og þitt var mitt ljóð og hvert gígjugrip.
Þú gafst mér þinn streng og þinn boga.

Dagar þíns lífs, þínar sögur, þín svör,
voru sjóir með hrynjandi trafi.
Móðir. Nú ber ég þitt mál á vör
og merki þér ljóðastafi.
Til þess tók ég fari, til þess flaut minn knör.
Til þess er ég kominn af hafi.




Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)



Rannveig og Helga.