Jón Magnús Sigurðsson fæddist í Mið-Tungu í Tálknafirði 22. janúar 1933. Hann lést á Landspítalanum 20. júlí 2017.

Foreldrar Magnúsar voru Sigurður Ágúst Einarsson, f. 2.8. 1909, d. 3.3. 1991, og kona hans, Guðrún Árný Sigurðardóttir, f. 21.6. 1908, d. 12.2. 1994. Þau hjón bjuggu á Tálknafirði.

Systkini Magnúsar eru: Sigríður Jóna, f. 1931, Gísli Sólberg, f. 1935, Fríða, f. 1936, Hreiðar, f. 1940, Árni Ottó, f. 1944, og Guðmunda Jónína, f. 1951.

Hinn 24.4. 1960 gekk Magnús að eiga Bertu Vilhjálmsdóttur, f. 27.10. 1932, d. 24.7. 2013. Foreldrar hennar voru Vilhjálmur Guðjónsson, f. 28.5. 1892, d. 13.7. 1947, og kona hans, Katrín Aðalheiður Hallgrímsdóttir, f. 20.12. 1892, d. 1.4. 1950. Þau hjón bjuggu á Akureyri.

Börn Magnúsar og Bertu eru: 1) Katrín Aðalheiður, f. 26.11. 1960, gift Hilmari Má Arasyni, f. 30.10. 1962. Börn: a) Tinna Kristinsdóttir, f. 11.11. 1985. Hennar maður er Guðni Valentínusson, f. 10.2. 1985, og þeirra sonur Hlynur Darri, f. 25.2. 2016. b) Ísak Atli, f. 27.3. 1998. c) Aron Bjartur. f. 29.7. 2002. 2) Kári , f. 26.12. 1962. Hans börn: a) Elva Dögg, f. 30.8. 1996. b) Kristófer Atli, f. 8.9. 1998. c) Birkir Hrafn, f. 15.1. 2008. 3) Sigríður Lára, f. 28.11. 1965, sambýlismaður Mats Johan Emanuel Jansson, f. 1.2. 1966, dætur þeirra: a) Madeleine Hafrún, f. 15.9. 1995. b) Helene Hafdís, f 25.7. 1997. 4) Guðný, f. 6.9. 1970. Hennar börn: a) Magnús Óskar Hálfdánsson, f. 15.1. 1997. b) Elías Kári Sigurðsson, f. 18.5. 2003. c ) Helga Mjöll Sigurðardóttir, f. 30.8. 2004.

Magnús ólst upp hjá foreldrum sínum í stórum systkinahópi í Tálknafirði og gekk þar í barnaskóla. Hann fór ungur að vinna, stundaði alla tíð sjómennsku og störf sem tengdust sjómennsku og fiskverkun. Á fullorðinsárum sótti hann sér réttindi sem saltfisksmatsmaður og minni skipstjórnarréttindi. Á Tálknafirði reisti Magnús ásamt eiginkonu sinni Bertu fjölskyldunni hús sem þau nefndu Hlíð og bjuggu þar alla sína hjúskapartíð og Magnús allt til dauðadags.

Útför Magnúsar fer fram frá Tálknafjarðarkirkju í dag, 29. júlí 2017, kl. 13.30.

Það var mildur sumardagur þegar hann pabbi minn kvaddi þennan heim og hélt í sína för í eilífa Sumarlandið og í dag er komið að kveðjustund. Eftir sitja ótal ljúfar og dýrmætar minningar um þessa hvunndagshetju og eina af hetjum hafsins, sem elskaði fólkið sitt, fjörðinn sinn og landið sitt.

Minningar um samverustundir heima og  á ferðalögum streyma fram og í minningunum er alltaf bjart og hlýtt í kringum hann. Maggi pabbi var fallegur á sál og líkama, elskulegur faðir, tengdafaðir, afi og langafi.  Hægur, jafnlyndur og ljúfur og talaði aldrei illa um nokkurn mann en átti það til að gera góðlátlegt grín. Hann kunni kannske ekkert sérstaklega við sig í miklu fjölmenni en hann hafði gaman af því að spjalla við fólk og alltaf var stutt í húmorinn, bros og hlátur. Hann var gjafmildur og lét ætíð okkur fjölskylduna ganga fyrir í öllu, talaði alltaf með stolti um afkomendurna og  hafði metnað fyrir fyrir þeirra hönd.

Pabbi var Tálknfirðingur með stóru T í  firðinum fagra var hann fæddur og þar ól hann allan sinn aldur. Honum þótti óendanlega vænt um þennan stað og gladdist þegar vel gekk, sagði stoltur frá nýjum atvinnutækifærum, góðum aflabrögðum,  húsbyggingum og fleiru, en tók það líka nærri sér þegar illa gekk.

Þó að formleg skólaganga hafi verið stutt var hann menntaður maður. Alla tíð  fróðleiksfús og víðlesinn. Kunni þá list að lesa í náttúrunna, veður, plöntur og dýr.  Fylgdist alltaf vel með bæði landsmálum og heimsfréttum,  fótbolta og öðrum íþróttum og nóg var  að hringja í hann ef maður missti að fréttum í dagsins önn og það var alveg víst að maður fékk bæði fréttina og hans fréttaskýringu með.

Ég veit að hann hefði gjarnan viljað hafa haft tækifæri til að mennta sig meira og hann hvatti okkur börnin sín til að sinna námi okkar vel. Það var aðallega fyrir hans orð sem ég tók þá ákvörðun að halda í framhaldsnám og allan þann tíma sem ég stundaði námið var hann mjög forvitinn um hvað ég væri nú að stúdera þá stundina  kynnti sér oftast viðfagsefnið til að geta spjallað um það hvort sem það var algebra eða félagsfræði.

Pabbi byrjaði ungur að vinna eins og þá tíðkaðist. Fyrir fermingu var hann byrjaður að beita og beitning, sjómennska og  önnur störf tengd sjónum urðu hans ævistarf, þó aldrei losnaði hann almennilega við sjóveikina. Á síldarárunum í  landlegu á Siglufirði kynntist hann svo  ástinni í lífi sínu, henni Bertu sem var þá í vist þar í bæ. Þau voru samrýmd hjón og það var erfitt fyrir hann að þurfa að fylgjast með veikindum hennar og svo kveðja hana fyrir fjórum árum, en við trúum því að nú hafi þau hist á ný.

Pabbi var  stundum lengi  fjarverandi á uppvaxtarárum okkar barnanna og stundum urðum við hálf feiminn við hann þegar hann kom aftur heim af sjónum, en ein af ljúfum æskuminningunum er að bíða niðri á bryggju eftir pabba  að kvöldi dags. Jón Júlí skreið inn  fjörðurinn spegilsléttan og öryggið og hamingjan í brjóstinu  fullkominn þegar við leiddumst inn götuna, inn í Hlíð í húsið sem  hann og móðir mín  reistu og bjuggu í alla sína hjúskapatíð. Seinna á lífsleiðinni var svo gott að sækja hugarró og hlaða batteríin í návist hans, frá honum streymdi alltaf þessi hlýja, ást og ró.

Hann sinnti öllum verkefnum lífsins vel og af trúmennsku og var fús til að takast á við ný verk þegar þau bar að höndum. Eftir að mamma veiktist  tók  hann að sér heimilið að mestu leyti, bakaði brauð og kökur og eldaði matinn og eitt af tilhlökkunarefnum afkomendanna við að koma í heimsókn vestur var að fá steikta fiskinn hans afa sem var bara bestur í heimi.

Í honum bjó líka smá töffari sem hafði gaman af því að vera svolítið flott klæddur og hafði gaman af hraðskreiðum og flottum bílum þó svo að hann hafi ekki haft ráð á að eignast slíka bíla  þá  held ég  að hann hafi ráðið nokkru um það að fyrsti bíll  Kára bróður varð stór amerískur kaggi  sem pabbi hafði gaman af því að keyra og oftar en ekki skaut hann okkur skelk í bringu þegar hann keyrði bílinn sinn á örlítið meiri hraða en við töldum  ráðlegt.

Kemurðu með ég ætla að fara í smá bíltúr, og svo var keyrt út að Hrauni, niður á bryggju og inní botn, hann var að fylgjast með stöðunni á öllu í Tálknafirðinum. Það var líka í þessum bíltúrum og við eldhúsborðið í Hlíð sem innilegar samræður fóru fram og hann laumaði að okkur sögum og fróðleik um liðna tíð eða það sem hann hafði nýlega lesið í blaði eða bók. Við eldhúsborið var gjarnan tekið í spil, suduku þrautir leystar og lagður kapall. Eitt  af ráðum hans til okkar var að muna alltaf eftir  að hafa spilasokk nálægan. Þá getur þú  náð hugarró, þjálfað hugann og ef þú villist leggur þú bara kapal og von bráðar verður einhver komin til að skipta sér af og bjarga þér úr villu.

Stólinn hans við eldhúsgluggann í Hlíð er nú auður, þaðan sem hann fylgdist með náttúrunni og bæjarlífinu alltaf  með sjónaukann innan seilingar, en við sem eftir sitjum þökkum fyrir að hafa  verið svo heppinn að hafa átt hann sem  fyrirmynd í lífinu, föður, afa og vin.

Minningin mun ætíð lifa í hjörtum okkar allra. Hvíl þú í friði .

Þín

Katrín (Kata) og Hilmar.