Elis Guðjónsson fæddist 9. ágúst 1931. Hann lést 20. desember 2016.
Útför hans fór fram 29. desember 2016.

Í dag hefði Elis Guðjónsson orðið 86 ára, en hann lést þann 20. desember 2016.

Ég kom til Grundarfjarðar 1975-76 og kynntist Ella þá lítilsháttar. En árin liðu og Elli var allt í öllu sem verkstjóri sveitarfélagsins í mörg ár. Ég kynntist Ella betur þegar ég var ráðinn sem hafnarvörður , þar unnum við saman í tæp 10 ár og betri vin og starfsfélaga hef ég ekki átt fyrr né síðar. Við vorum meira vinir en starfsfélagar og ekki minnkaði vinskapurinn þegar við fluttum að Grundargötu 27 og urðum nágrannar, enda sagði einn skipstjórinn að þetta væri fínt því nú gæti hann skammað okkur báða í einu á miðri innkeyrslunni hjá okkur.

Að vinna með Ella í 10 ár var mikil ánægja og forréttindi. Sporléttari mann hef ég ekki fundið, en á 10 árum rifjast margt upp allt mjög gott og skemmtilegt. Minnisstætt er þegar Elli fékk þá snilldar hugmynd að safna myndum af öllum skipstjórum sem róið höfðu frá Grundarfirði í lengri eða skemmti tíma en Gaui sonur hans sá um alla myndvinnsluna. En nú þurfti myndaramma fyrir allar þessar myndir, en Elli dó ekki ráðalaus. For í Hrannarbúðina og keypti tvo ramma, annan mjög ódýran smelluramma og hinn vandaðan viðarramma. Með þessa ramma fór hann svo á fund sveitastjóra sem var þá Björg Ágústsdóttir og sýndi henni þessa tvo myndaramma sem báðir voru með mynd af afa hennar Sigurjóni Halldórssyni. Björg var ekki lengi að velja og valdi vandaða viðarrammann. Þegar Elli kom svo niður í vigtarskúrinn sagði hann við mig og brosti breitt: Hún valdi viðarrammann, hún gat ekki hugsað sér að afi sinn væri í smelluramma.

Þá unnum við að því að fá skemmtiferðaskip til Grundarfjarðar og gekk það ekki þrautarlaust fyrir sig. Ég hringdi í ferðaskrifstofurnar og spurðist fyrir hvort hægt væri að fá skemmtiferðaskip til Grundarfjarðar og svörin sem ég fékk var að Gára sæi um skemmtiferðaskiptin. Þá var hringt í Gáru og borið upp erindið. Guðmundur í Gáru sagði að öll skiptin væru skráð í Ólafsvík og Stykkishólmi. Við buðum honum að þeir þurftu ekki að borga neitt ef það kæmi eitt skip til prufu. Guðmundur þakkaði gott boð en sagði að það þyrfti alltaf að borga hafnargjöld það væri í lögunum. Nokkrum dögum seinna hringir hann í okkur og segir að það komi lítið skip til okkar sem heitir Astra en það þurfið að útvega lóðs til að sigla því inn fjörðinn. Nú voru góð ráð dýr, hvað áttum við að gera? Það var engin lóðs í Grundarfirði. Þá datt okkur í hug að tala við Runna Gvendar og sögðum honum alla söguna og hvernig ættum við að leysa þetta. Runni bauðst til að lóðsa þá inn fjörðinn. Það væri bara gaman að vera skipstjóri á skemmtiferðaskipi. Hann vildi ekki taka neitt fyrir þetta því þetta væri bara gaman. Svo fengum við Gunnar Hjálmarsson og Berg Garðarsson til að sigla á móti þeim og láta þá elta sig inn fjörðinn. Ekkert þeirra sem við leituðum til vildu greiðslu af neinu tagi og ber að þakka þeim öllum fyrir sinn hlut við að gera Grundarfjörð að einni stærstu skemmtiferðaskipahöfn landsins. Þegar við Elli hættum á höfninni vorum við farnir að fá tilkynningar um að skipin væru skráð í Grundarfirði en ekki Ólafsvík og Stykkishólmi og skemmst frá því að segja að í ár eru skráðar 26 skipakomur á höfnina.

Með vaxandi skipakomu til Grundarfjarðar voru úrbætur í hafnarmálum nauðsynlegar, lenging stóru bryggju um 100 metra, nýja flotbryggjan því sú sem var fyrir var orðin mjög léleg enda aldrei notuð nema sem gönguleið í laxeldi. En þegar nýja flotbryggjan var vígð var hún nefnd Rósella í höfuðið á okkar Ella. Það væri við hæfi þar sem bátar skemmtiferðaskipa komu að með ferþega sem fóru í skoðunarferðir um Snæfellsnesið.

Elli var alveg einstaklega laginn við margt eins og þegar við vildum láta laga eitthvað eða bæta úr einhverju. Í eitt skiptið hringi hann í Magnús Stefánsson sem var þá sveitastjóri og bað hann að koma á sinn fund því hann ætlaði að sýna honum það sem hann vildi láta gera. Magnús kom og Elli bar upp erindið. Magnús sagði að það væri lítið um peninga svo þetta yrði að bíða um stund. Elli sagði við Magnús: Hugsaðu um þetta smá stund og gefðu mér svar á fimmtudaginn. Ef ég heyri ekkert frá þér lít ég svo á að þú hafir samþykkt þetta. Og með það fór Magnús. Við létum framkvæma þetta á föstudeginum. Elli sagði blessaður hafðu ekki áhyggjur af þessu hann er búin að gleyma þessu. Nokkrum dögum seinna kom Magnús ekki alveg hress með það að við hefðum farið í þessa framkvæmd. Elli sagði þá Var það ekki að samkomulagi að ef ekki kæmi svar á fimmtudaginn þá væri þetta samþykkt. Magnús var nokkuð sáttur við þessa framkvæmd því hún var til bóta.

Það var ekki alltaf hægt að fá dekk til að nota sem fríholt. Hringt var í öll dekkjaverkstæði sem við fundum í símaskránni en það bar oftast lítinn árangur. Elli sagði við mig ég þarf aðeins að skreppa. En hann þurfti oft að skreppa. En í þetta skiptið fór hann ekki langt aðeins yfir í frystihús því hann hafði frétt að Klakkur SH væri að fara í siglingu. Fór hann því þangað til að hitta Stulla og spurði hvort ekki væri hægt að fá dekk frá Þýskalandi þegar Klakkurinn kæmi úr siglingunni. Stulli brást skjótt við lét fylla skipið af notuðum vörubíladekkjum. Þegar komið var til Grundarfjarðar þurfti að losa skipið fengum við vörubílstjóra til að taka dekkin og koma þeim að vigtarskúrnum.

Við Elli tókum 2800 myndir á þessum 10 árum sem við unnum saman á höfninni. Sveinn á Eiði skannaði þær síðan allar inn í tölvu og brenndi svo á disk en síðan var öllum myndunum skellt á heimasíðuna 123.is/rosiogbogga. En þar má finna myndir af bátum og mannlífi við höfnina. Það hefur mikið breyst við höfnina síðan við Elli vorum þar allsráðandi. Örfáir bátar og trillur og skemmtiferðaskip. Hver hefði trúað þessu fyrir 15 árum eða svo þegar Grundarfjarðarhöfn var með þeim stærstu í lönduðum fiski á landinu. En svona er lífið og minnkandi kvóti. En hvað er til ráða? Nú vantar Ella, hann hefði haft einhver ráð. En það hefði sennilega enginn farið eftir þeim hvort eð er. Þá er ósagt frá öllum þeim sem komu í kaffi til okkar í hafnarskúrinn og ræddu um landsins gang og ræddu hvar þeir voru á sjó um fiskiríið og ósjaldan voru þeir búnir að leysa öll vandamál landsins ef ekki heimsins yfirleitt fyrir kl 10 á morgnana, en engum ráðamanni datt í hug að notfæra sér þetta né hlusta á þessar snjöllu hugmyndir sem komu þar fram.

Þá var það á einum fundi hjá hafnarstjórn að rædd voru myndatökur á höfninni, en við vorum að taka um og yfir 200 myndir á ári. Ég sagði á fundinum að við yrðum kannski reknir fyrir alla þessar myndatökur því það kostar að framkalla allar þessar myndir. Þá sagði Björg: Þið verðið fyrst reknir þegar þið hættið að taka myndir því þær verða ómetanlegar heimildir þegar fram líða stundir.

Við Elli vorum ekki mjög vinsælir ef við þurftum að senda báta inn á garð. Eitt skipti sem oftar þurftum við að senda einn bát inn á garð, en það var sunnan rok og rigning. Nema hvað skipstjórinn sagðist ekki fara inn á garð nema við myndum sækja áhöfnina og keyra þá heim. Elli brást fljótt við og sagðist ná í þá og taka við endanum svo þeir gætu bundið bátinn við bryggju. Fór hann á Subarunum, tók við endanum og hjálpaði þeim að binda bátinn. Á leiðinni heim sagði skipstjórinn: Hvernig er þetta áttu ekki koníak, karl skratti? Skiptir það engum toga að Elli snarstoppar Subaruinn, rífur upp skottlokið, treður hendinni inn í skottið, lyftir upp einhverju dóti og dregur upp koníaksfleyg og réttir skipstjóranum fleyginn og segir: Klárið þetta áður en við komum inn í pláss. Skipstjórinn sagði mér seinna að þeir hefðu átt í mestu vandræðum með að klára úr fleygnum. Elli lét engan eiga neitt inni hjá sér.

Konan mín Elínborg og Bára kona Ella unn saman í Sæfangi og Elli hafði það fyrir vana að sækja þær og keyra þær heim. Eitt skiptið þegar hann er að keyra þær heim svínar hann fyrir bíl sem kom eftir Grundargötunni. Sá flautar og snarhemlar. Bára sagði: Þú svínaðir fyrir bílinn. Elli svaraði henni: Ég má þetta, ég á þetta, ég lagði þetta. (sem verkstjóri vann hann við og lagði flest allar götur í Grundarfirði).

Það er margt að minnast á 10 ára samstarfi eins og t.d. þegar við vorum með 7 stóra togara auk allra bátanna og allra trillanna. Allir þurftu þeir að fá löndun og síðan að koma öllum þessum skipum fyrir. Þá var gott að njóta skipulagsgáfna Ella til að láta þetta allt ganga upp.

Elli dundaði við margt og meðal annars hafði hann gaman að telja hvað konum sem unnu i frystihúsinu tækju mörg skref á milli tveggja ljósastaura fyrir framan kaupfélagið. Hann fann það út að þær tóku allar svipað mörg skref nema það vær ein sem tók flest skrefin.

Svona gæti ég haldið áfram endalaust en geymi aðrar minningar með mér. Þó það hafi verið 20 ár á milli okkar í aldri fann ég aldrei fyrir því. Að lokum, takk Elli, fyrir frábær 10 ár.


Rósant Egilsson.