Erla Scheving Thorsteinsson fæddist í Reykjavík 2. mars 1936. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seljahlíð 30. júlí 2017.
Foreldrar hennar voru Magnús Scheving Thorsteinsson forstjóri og Laura Gunnarsdóttir Havstein húsmóðir. Auk Erlu eignuðust þau Davíð Scheving Thorsteinsson, f. 1931, Gyðu Bergs, f. 1931, og Gunnar Magnús Scheving Thorsteinsson, f. 1945. Fyrir átti faðir Erlu Hilmar Foss, sem fæddur var 1920. Magnús faðir Erlu kvæntist seinni konu sinni, Sigríði Briem Thorsteinsson, árið 1953.
Ung giftist Erla Ólafi Hersi Pálssyni flugstjóra. Þau slitu samvistir árið 1984. Erla og Ólafur eignuðust fjögur börn: 1) Magnús, framkvæmdastjóra, f. 1958, kvæntur Dýrleifu Örnu Guðmundsdóttur verkfræðingi, f. 1966. 2) Sigríði, ljósmyndara, f. 1960. 3) Þórhildi Lilju, lögfræðing, f. 1967, gift Jóni Pálma Guðmundssyni viðskiptafræðingi, f. 1961. 4) Ólaf Pál, stúdent, f. 1974. Hann lést árið 2003 eftir langvinn veikindi.
Barnabörnin eru átta: Erla María, Tinna Empera, Íris Lóa, Sigurbergur, Ólöf Sunna, Kristófer Máni, Erla María, Emma Elísa og langömmubarnið er Fálki litli Gnarr Frostason.
Erla ólst upp á Laufásvegi 62 í Reykjavík og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hún gekk síðar í húsmæðraskóla í Sviss, London og Boston. Erla hóf búskaparár sín í Álfheimum en fjölskyldan bjó síðan um skeið á Tómasarhaga áður en hún sló sér niður í Brekkugerði árið 1974.
Erla var lengst af heimavinnandi.og ól önn fyrir fjölskyldu sinni af einstakri alúð og umhyggju. Hún tók einnig virkan þátt í starfsemi líknarfélaga og vann lengi í þágu Kvenfélags Hringsins og hjá Rauða krossinum.
Erla sinnti einnig ömmuhlutverkinu af ástúð og elju.
Síðustu áratugina var uppáhalds- og aðalstarf Erlu þó ömmuhlutverkið og því sinnti hún af slíkri ástúð og elju að unun var á að horfa. Erla hafði næmt auga fyrir litrófi mannlífsins, einstakan húmor og hæfileika til að njóta líðandi stundar. Hún var skemmtilegur persónuleiki, með hjarta úr gulli, eignaðist vini hvar sem hún kom og mátti ekkert aumt sjá.
Útför Erlu fer fram frá Seljakirkju í dag, 9. ágúst 2017, klukkan 15.

Það myndaðist stórt skarð innra með mér þegar ég kveð móður mína eftir langa þrautagöngu veikinda, ég sakna hennar.  Ég hélt á einhvern hátt að ég væri undir það  búin að kveðja hana,  því að við ræddum svo oft um dauðann, sem er óumflýjanlegur hluti af ævi hvers manns. Hún þráði hvíldina, að vera laus við verkina sem felldu lífsfjaðrir hennar síðustu árin.

Mamma var lánsöm að fæðast inn í fjölskyldu sem var elsk að listum, enda var hún einstakur fagurkeri. Við grínuðumst oft með það að mamma hefði ekki fæðst með silfurskeið í munni, heldur með heila skúffu af pússuðum silfurskeiðum. Afi og amma voru miklir listunnendur og studdu alla helstu listamenn þjóðarinnar, alla tíð. Því prýddu verk þeirra veggi heimilisins og
sumar af mínum bestu minningum tengjast því þegar ég ráfaði herbergi úr herbergi sem voru full af ótrúlegum munum og málverkum. Þessi reynsla var mín fyrsta upplifun af fagurlistum sem kom sér vel þegar ég lagði fyrir mig ljósmyndum á seinni árum. Á þessu heimili ólst móðir mín upp.

Þrátt fyrir mikla ást, blíðu og allsnægtir, varð mikill og persónulegur harmleikur í fjölskyldunni þegar mamma missti móður sína aðeins 14 ára gömul og markaði það hana allt sitt líf. Það birtist í ótta við að vera ein og yfirgefin.

Mamma sagði stundum við mig að hún gæti aldrei hugsað sér að vera gift sjómanni því fjarverurnar yrðu henni óbærilegar. Einveran átti ekki við hana.  Pabbi var flugmaður. Í þá daga var starf flugmannsins lítið öðruvísi en sjómannsins, fjarveran var mikil. Það reyndist mömmu erfitt. Hún þráði fjölskyldu en var oft ein með okkur systkinunum.

En það var ekki bara slæmt að vera gift flugmanni, því fylgdu fríðindi sem voru ekki sjálfsögð í þá daga. Við ferðuðumst mikið út um allan heim, sem mamma hafði reyndar gert frá því hún var ung. Hún var í essinu sínu þegar hún sagði okkur endalausar sögur af staðarháttum, öðrum löndum og menningu þjóða. Ferðalögin standa upp úr í bernskuminningum mínum, ekki bara út fyrir landsteinana, heldur ferðalögin innanlands líka. Hún naut þess að ferðast með okkur og segja okkur sögur.

Mamma var mikil draumórakona og það er eiginleiki sem hún erfði mig að og innrætti  af fullum krafti. Hún studdi mig ávallt í að námarkmiðum mínum í lífinu. Að geta bognað en ekki brotnað.  Hún hjálpaði mér að finna vinnu í útlöndum sumarið sem ég var 14 ára gömul, hún leyfði mér að fara í ævintýraferð til Mexíkó í ár, símalaus, rétt rúmlega tvítugri. Hún stóð sem klettur með mér þegar ég hélt út til náms í Kaliforníu, 26 ára gömul. Það var svo fallegt við hana. Hún hafði kjarkinn til að gefa mér frelsi og það er nokkuð sem ég hef vonandi getað gefið dætrum mínum.

Eitt það fallegasta við mömmu var gjafmildi hennar og endalaus umhyggja. Hún hafði stærsta hjarta sem ég veit um, mátti ekkert aumt sjá og var stöðugt að að hugsa um hvernig hún gæti glatt og létt undir með öðrum. Það var eithvað sem hún ólst upp við í foreldrahúsum, að  deila og hjálpa öðrum.

Mamma var stór þátttakandi í uppeldi Erlu Hlínar og Tinnu, enda var hún viðstödd fæðingu þeirra beggja. Hún reyndist þeim yndisleg amma og að mörgu leyti var hún hinn aðilinn í uppeldinu.  Elskaði þær skilyrðislaust og gaf þeim tíma en það er tíminn sem er svo dýrmætur.

Eftir að dætur mínar urðu eldri vildi hún vita allt um þær og þreyttist aldrei á að segja öllum stolt frá ævintýrum þeirra. Tinna mín í New York, Erla Hlín og Frosti, sem kom svo sterkur inn í líf Erlu, og svo Fálki., litli ömmuprins. Við skoðuðum snöppin þeirra, Facebookið og endalausar myndir af þeim saman. Mamma vildi sjá allt og vita allt um afkomendur sínar. Þar lá framtíðin og fegurðin.

Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir þessar stundir síðustu ár. Þær eru ófáar og eftir að hún flutti í Seljahlíð nýttist tíminn okkar meira í að njóta samveru hvor annarrar.

Án hennar hefði ég ekki náð að láta drauma mína rætast.
Eða eins og Shakespeare orðaði svo fallega:  Ævin stutta er umkringd svefni.
Elsku mamma, sofðu, ástin mín.

Sigríður Ólafsdóttir