Helga Ósk Kúld fæddist 28. júní 1942 í Reykjavík. Hún lést 21. september 2017.
Foreldrar hennar voru Arinbjörn S. E. Kúld frá Ökrum á Mýrum, f. 1911, d. 2007, og Aðalbjörg Guðný Guðnadóttir Kúld frá Neskaupstað, f. 1918, d. 1979. Bræður Helgu eru Hilmar Jón, f. 1940, og Eyjólfur Heiðar, f. 1945. Fyrri maður Helgu var Ólafur Bergmann Ásmundsson, f. 1940, d. 2010. Helga og Ólafur skildu 1968. Dætur þeirra eru þrjár, sú elsta Aðalbjörg, f. 11. janúar 1959. Hennar börn eru Ólafur Bergmann, f. 14. janúar 1978, d. 10. apríl 1996. Sara Dögg, f. 5. febrúar 1982, d. 17. júlí 1996. Hörður Freyr, f. 31. júlí 1988. Arinbjörn, f. 28. ágúst 1992. Arinbjörn á tvö börn, Ólaf Frey og Amalíu Dögg. Seinna áttu þau Halldóru, f. 13. nóvember 1961. Hennar börn eru Jóna Mjöll, f. 6. nóvember 1978. Jóna á þrjú börn, Sólon Alexander, Hjördísi Helmu og Jörgen Mikael. Lena Huld, f. 20. september 1980. Lena á eitt barn, Stefán Pál. Rúnar Sigurður, f. 31. október 1983. Gréta Málfríður, f. 10. september 1998. Máni, f. 14. júní 1999, d. 14. júní 1999. Sú yngsta er Heiðrún, f. 16. nóvember 1963. Hennar börn eru Thelma Dögg, f. 5. febrúar 1991, og Andri Þór, f. 6. júní 2002. Helga átti síðar Guðlaugu Helgu Helgudóttir Kúld, f. 8. janúar 1975. Guðlaug á eitt barn, Arnar Frey, f. 28. júlí 1995. Helga var gift sínum besta vini, Stefáni Brynjólfssyni, f. 6.1 október 1942. Voru þau gift í rúm 40 ár. Hún ólst upp í Reykjavík og Miklaholti á Mýrum. Helga Ósk Kúld starfaði sem saumakona hjá Lystadún og síðar til marga ára hjá föður sínum sem rak fatahreinsun, A-Kúld, að Vesturgötu 23, Reykjavík. Á seinni árum lauk hún sjúkraliðanámi og starfaði lengi vel sem sjúkraliði á Landakoti.
Útförin fer fram frá Neskirkju í dag, 2. október 2017, klukkan 13.

Elsku hjartans amma mín kvaddi okkur eftir langa baráttu við krabbamein. Sterkari konu er erfitt að finna, tvisvar sinnum sigraði hún krabbann.Hann tók sig aftur upp í vor og hafði þá betur. Það var ótrúlegt hvað hún Helga amma mín var alltaf jákvæð og staðráðin í því að ná tökum á veikindum sínum. Styrkur hennar var gífurlegur og sýndi hún það í öll þessi þrjú skipti. Ef að styrkurinn týndist og efasemdir komu þá ræddum við það líka, sem var mikilvægt. Hún var alltaf hreinskilin og talaði opinskátt um það sem var. Ég er alveg viss um að það hafi komið henni langt í sinni baráttu. Ég og amma vorum nánar, hún var meira eins og mamma fyrir mér og vorum við afskaplega góðar vinkonur.


Það er alveg á hreinu að allt sem við kemur skvísulátum fékk ég frá henni og vorum við rosalega líkar á þeim sviðum. Þegar ég kíkti í heimsókn hjá ömmu og afa var ég varla komin inn úr dyrunum, þegar hún var farin inn á bað að sækja allskonar snyrtivöru, förðunarvörur eða naglalökk til að sýna mér sem hún hafði verið að kaupa. Við gátum talað endalaust í kringum það og prófað í eldhúsinu hjá ömmu. Hún var alltaf svo vel til höfð, hvort sem að hún var heima eða á leið út. Það sem er mér svo minnistætt er hversu vel hún ilmaði ávalt og það fann maður helst þegar hún tók utan um mann öllum stundum og gaf ekkert eftir með það. Hún var hreinskilin og lét mann alveg vita hvaða litir hentuðu manni í klæðnaði og hverjir alls ekki - þrátt fyrir að maður bæði ekki um það. Á móti var hún líka afskaplega ljúf og hrósaði manni í bak og fyrir ef eitthvað fór manni vel að hennar mati. Þú gast alltaf gengið að hreinskilnu og einlægu svari hjá ömmu og það kunni ég alltaf virkilega að meta. Oftar en ekki áttum við eins flíkur og þegar ég kom í heimsókn var hún ekki lengi að benda mér á hvað henni langaði í af þeim fötum sem ég klæddist. Hún verslaði gjarnan í sömu tískuvöruverslunum og ég svo það var ósjaldan sem við stöllur áttum eitthvað eins. Mér fannst það yndislegt og dýrmætt þrátt fyrir aldursmuninn á milli okkar. Við kenndum hvor annarri ótrúlega margt og lærði ég mikið af henni.

Síðustu tíu ár hjá ömmu var mikil barátta og var hún mikið út og inni af spítalanum á þeim tíma. Það stoppaði að sjálfsögðu ekki skvísulætin en það var ekki fræðilegur að fá hana út á gang á krabbameinsdeildinni nema hún væri í blússu og vel til höfð. Ef hún átti góða daga á spítalanum þá skellti hún á sig varalit og smá farða, þá aðallega fyrir hana sjálfa get ég ímyndað mér.

Ég fór reglulega og litaði augabrúnirnar hennar og þegar sjónin fór að minnka hjá henni þá bað hún mig alltaf að fylgjast með því að brúnirnar væru litaðar og mótaðar. Að sjálfsögðu þurfti það að vera í lagi ásamt lökkuðum nöglum. Það voru því ófá skiptin í eldhúsinu heima hjá ömmu eða á deildinni sem við lituðum augabrúnirnar hennar og kjöftuðum saman. Í dag eru þessar stundir ómetanlegar, þessir litlu og eðlilegu hlutir verða allt í einu hlutir sem að maður vildi að gætu átt sér aftur stað, þó það væri ekki nema einu sinni en. Þrátt fyrir ýmsar snyrtingar var amma alltaf hún sjálf. Hún vildi ekki sjá hárkollur né slæður og sagði að fólk yrði bara að taka henni eins og hún væri, að hún væri sköllótt og þannig væri það bara. Mér þótti alltaf ótrúlega gaman að heyra hana segja þetta, því þetta var svo einlægt frá henni. Húmorinn var alltaf til staðar í þessari baráttu hennar og líka þrjóskan. Hún var staðráðin í því að fara aftur heim og hélt alltaf í þá von. Baráttan í henni var svo mikil að maður var eiginlega handviss að hún kæmist aftur heim með góða heilsu. Þá sérstaklega eftir að hafa horft á hana sigra krabbameinið tvisvar áður, þá var vonin alltaf til staðar.

Fimmtudagskvöldið 21. september var virkilega erfitt og sérstakt kvöld. Það mætti halda að hún hefði beðið eftir mér, þar sem að amma kvaddi hálftíma eftir að ég kom. Hún hafði verið með góða meðvitund yfir daginn og leit ekki út fyrir að þetta væri hennar síðasta kvöld. Við héldumst þétt í hendur og ég náði að spjalla við hana. Þarna áttum við dýrmæta stund sem aldrei verður tekin af okkur og er ég ævinlega þakklát fyrir það.
Amma mín var stór hluti af mínu lífi og mun ennþá vera það þar sem ég mun minnast hennar, tala um hana og heiðra minningu hennar. Á sama tíma og við kveðjum á erfiðum tímum þá lifa ávalt góðar og mikilvægar minningar um hana. Amma mín var einstök kona sem var gaman af, hún var líka hörku kona sem barðist þar til síðustu stundu. Hún mun alltaf eiga sinn stað í hjarta mér og ég veit að hún heldur áfram að fylgjast með mér og horfa á mig dafna í lífinu, stolt af sinni stelpu. Því það var hún alltaf, stolt af mér og því sem ég gerði. Ég veit að það mun ekki breytast og hún mun minna mig á það annað slagið, eins og henni einni er lagið.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson)

Thelma Dögg Guðmundsen.