Sigríður Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 26. mars 1955. Hún lést á heimili sínu í Hveragerði 23. október 2017.
Foreldrar Sigríðar voru Ásta Lára Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur, fædd á Rifi, Snæfellsnesi 23. desember 1921, d. 19. apríl 2007, og Stefán Páll Björnsson læknir, fæddur í Viðey 8. janúar 1919, d. 22. desember 1999. Eftirlifandi bræður Sigríðar eru: a) Guðmundur Jóhann Stefánsson, fæddur 4. júní 1951, giftur Bylgju Bragadóttur, b) Björn Stefánsson, tvíburabróðir Sigríðar, fæddur 26. mars 1955, giftur Örnu Sigríði Guðmundsdóttur, c) Stefán Lárus Stefánsson, fæddur 6. mars 1957, giftur Guðrúnu Bryndísi Harðardóttur og d) Steingrímur Páll Stefánsson, fæddur 7. október 1960, var giftur Nancy Ulbrandt.
Eftirlifandi eiginmaður Sigríðar er Sigurgeir Snorri Gunnarsson, f. 25. apríl 1953.
Sigríður útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands og tók síðan stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla og innritaðist síðan í hjúkrunarfræðina í Háskóla Íslands og útskrifaðist 1987.
Minningarathöfn um Sigríði fór fram í Fossvogskapellu 15. nóvember 2017.
Útför Sigríðar fer fram frá Ásheimum, Efra-Ási í Hjaltadal í dag, 18. nóvember 2017, klukkan 14. Jarðsett verður í Hofsóskirkjugarði.
Segja má að stórfjölskyldan, að gömlum íslenskum sið, hafi búið þarna við Laugavegin en Stefán og Ásta Lára ólu önn fyrir öllum sínum börunum þar, Björn afi og Sigríður amma bjuggu þar fram á sína síðustu daga og um skeið bjuggu þar einnig föðurbróðir Sigríðar, Skúli Björnsson, kona hans Áslaug Ágústsdóttir og dóttir þeirra Sigríður. Þær nöfnurnar voru mjög nánar á uppvaxtarárunum.
Í stað þess að flytja í stærra húsnæði með sína stóru fjölskyldu afréð Stefán læknir að byggja við húsið sem fyrir var þannig að með tímanum varð rýmra um barnaskarann. Hverfið sem Sigríður ólst upp í var kjöruppeldissvæði fyrir börn en það byggðist upp af ungum fjölskyldum hvaðanæva af landinu. Á svæði sem afmarkaðist af efsta hluta Hverfisgötu, enda Rauðarárstígs, efsta hluta Skúlagötu og hluta Laugavegs fyrir ofan Hlemm var innilokað svæði þar sem finna mátti Stínuróló, fótboltavöll, körfuboltagrind og leiktæki ýmiskonar, sem sagt draumasvæði fyrir börn.
Það hefur ekki verið grín að vera eina systirin í þessum strákahópi en ekki slettist mikið upp á vinskapinn þar sem Stefán og Ásta Lára héldu vel utan um þennan barnahóp. Frelsið til athafna var margfalt meira en börn fá í dag og algengt var að börn færu út að morgni og kæmu ekki heim fyrr að kvölda tók og kvöldverður var á næsta leyti. Samt var það svo að strákar léku sér við stráka og stelpur léku sér við stelpur. Það var þó einn sameiginlegur vettvangur sem systkinin á Laugavegi höfðu um árabil, en það var hið svokallaða Kanasjónvarp frá herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Læknishjónin voru svo forsjál að kaupa örugglega eitt fyrsta sjónvarpstæki í Reykjavík árið 1960, þar sem Kanasjónvarpið náðist í Reykjavík en var svo lokað fyrir það 1967. Setið var löngum stundum yfir ótextuðum Bonanza, Rawhide, Seaview og fleiri klassískum þáttum sem og helstu perlum bandarískra bíómynda. Þessi ár var sjónvarpið helsta dægrastyttingin á Laugavegi og Sigríður og bræður hennar áttu þar ógleymanlegar stundir, sérstakalega á laugardagskvöldum þegar Ásta Lára gaf hópnum súkkulaðiköku með hvítu kremi og ísköldu mjólkurglasi.
Þegar upp var staðið frá þessu ótextaða áhorfi bandarísks sjónvarpsefnis til sjö ára þá var hvorki að heyra né sjá að systkinin hafi orðið fyrir teljandi menningarskaða en flest þurftu þau ekki að opna enska kennslubók fyrr um fimmtán ára aldur, en voru löngu fyrir það altalandi og skrifandi á enska tungu.
Æskuminningarnar um Siggu systur þeirra tengjast áhyggjulausum dögum við leiki í hverfinu eða ferðum með foreldrunum út fyrir bæinn á spennandi svæði sem Stefán læknir þekkti frá sinni barnæsku eins og skotæfingasvæði bresku og bandarísku herjanna í Grafavogi þar sem krakkarnir skriðu um æfingaskotgrafir og kepptust við að hirða skothylki frá stríðsárunum. Ef mikil fjara var, þá var farið um þær og týndar sjalgæfar steinategundir sem sjást ekki lengur á þessum slóðum. Stefán læknir var einnig á undan sinni samtíð því hann keyrði sína stóru bandarísku bíla löturhægt á leiðinni í bæinn og ef sást seljanleg vín eða gosflaska eftir sóða þess tíma þá hlupu krakkarnir til og hirtu flöskurnar sem síðan voru seldar og ágóðanum varið til nammikaupa.
Endalausar ferðir voru farnar út fyrir bæinn í steinatínslu sem Sigga tók þátt í og lagði jafnan til atlögu við stærstu hnullungana enda fór svo að lokum að vegna þessa samstillta átaks fjölskyldunnar fylltist bílskúrinn og Blazerjeppi Stefáns læknis komst þar varla fyrir.
Sigríður bjó lengst af heima hjá foreldrum sínum en illu heilli missti hún tiltölulega ung heilsuna þannig að starfsferillinn varð alltof stuttur og hún gat ekki notið til fulls þeirrar miklu menntunar sem hún hafði aflað sér á hjúkrunarfræðingssviðinu. Síðustu æviárin bjó Sigríður með Snorra sínum, eins og hún kallaði hann, í Hveragerði og þar lést hún við hliðina á honum að nóttu til mánudaginn 23. október. Þau höfðu gengið í hjónaband sólríkan laugardag 30. september að viðstöddum nánustu skyldmennum í afskaplega fallegri athöfn. Þá gat engum rennt í grun að Sigga ætti stutt eftir.
Sigríður systir var kistulögð mánuði síðar á sólríkum laugardegi í kapellunni í sjúkrahúsinu á Selfossi í fallegri athöfn að viðstöddum nánast sömu skyldmennum sem viðstödd voru brúðkaup hennar.
Guð blessi minningu Siggu okkar.
Guðmundur Jóhann Stefánsson, Stefán Lárus Stefánsson.