Rafn Kristján Hólm Viggósson fæddist 11. maí 1931. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu 15. nóvember 2017.

Foreldrar hans voru Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir, f. 25. janúar 1902, d. 5. janúar 1976, og Gísli Viggó Sigurjónsson, húsgagnabólstrari og bókbindari í Reykjavík, f. 8. ágúst 1902, d. 4. mars 1957.

Rafn átti þrjú systkini. Þau eru Bentína Sigrún Hólm Viggósdóttir, f. 18. febrúar 1939, Ragnheiður Kristín Hólm Viggósdóttir, f. 24. nóvember 1934, d. 21. mars 1987, Benedikt Sigurjón Hólm Viggósson, f. 16. okt. 1944, d. 29. janúar 1978.

Hinn 11. maí 1961 kvæntist Rafn Svandísi Guðjónsdóttur, f. 16. feb. 1929, d. 13. ágúst 2014. Börn Rafns og Svandísar eru Guðjón Þór Rafnsson, f. 5. ágúst 1958. Sambýliskona hans er Ingrid Kaufmann, f. 5. ágúst 1957. Barn þeirra er Anna Carlström, f. 1985. Fyrri sambýliskona er Lise-Lotte Carlsten, börn þeirra eru Joakim Carlsten, f. 1988, Johannes Carlsten, f. 1985, kvæntur Richa Carlsten. Guðrún Jóhanna Rafnsdóttir, f. 18. nóvember 1959, gift Gunnari S. Gunnarssyni, f. 8. desember 1958. Börn þeirra eru Árni Rafn, f. 1980, sambýliskona Júlía York Khoo, f. 1982. Þór, f. 1982, og Svandís, f. 1991, sambýlismaður Kjartan Jón Bjarnason, f. 1991. Rafn Rafnsson, f. 30. maí 1964, sambýliskona Sif Sigurðardóttir, f. 5. október 1966. Börn þeirra eru Jón Emil, f. 2004, Eyþór, f. 2008, og Atli, f. 2008. Anna Birna, f. 1987, gift Karli Sigurðssyni, f. 1989. Börn þeirra eru Sigurður Orri, f. 2013, og Baldur Rafn, f. 2017. Fyrir átti Svandís Viðar Hafstein Eiríksson, f. 7. júní 1952, kvæntur Guðrúnu Guðmundsdóttur, f. 7. mars 1955. Börn þeirra eru Guðmundur Hafsteinn, f. 1979. Linda, f. 1976, gift Sigurði Björnssyni, f. 1975. Börn þeirra eru Bjarki Már, f. 1997. Katla, f. 2003. Anný, f. 2012, og Þórey, f. 2014.

Rafn Lauk námi í húsgagnabólstrun, starfaði við þá iðn alla tíð og rak eigið verkstæði meðan kraftar leyfðu allt til ársins 2011. Hann stundaði badminton um margra ára skeið, sat í varastjórn TBR frá 1966–1975 og varaformaður þar árið 1976. Kosinn formaður BSÍ (Badmintonsambands Íslands) árið 1976 og gegndi því starfi í sjö ár. Var sæmdur gullmerki TBR 1973, gullmerki BSÍ 1992 og gullmerki ÍSÍ 1981. Hann var kosinn heiðursfélagi TBR 1998.

Útför Rafns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 24. nóvember 2017, klukkan 13.

Árið var 1957 móðir mín þá 28 ára gömul  hittir ungan mann, þau felldu hugi saman og ári síðar stofnuðu þau heimili á Laugarvegi 50b.Ungu konunni fylgdi þá fimm ára gamall strákpatti. Unga manninum þótti það nú enginn fyrirstaða og gerðist þar með fósturfaðir, en það hlutverk átti hann eftir að glíma við í fjölmörg ár. Strákpatanum fannst það nú svolítið skrýtið að vera ekki bara einn með móður sinni eins og hann var vanur, allt í­ einu kominn einhver maður í spilið.

Það er ekki öllum gefið að taka annarra manna börn að sér en það gerði fóstri minn Rafn. Ég var reyndar ekki lengi eina barnið á heimilinu því síðla árs 1959 voru komin tvö börn til viðbótar, þau Guðjón Þór fæddur 1958 og Guðrún Jóhanna fædd 1959. Fimm árum síðar eða árið 1964 fæddist þeim þriðja barn sitt Rafn og húsnæðið á Laugaveginum farið að þrengja að. Nú voru góð ráð dýr, ekki fannst ungu hjónunum koma til greina að fara á leigumarkaðinn sem þá, eins og nú var bæði dýr og ótryggur. Spáð var og spekúlerað um hríð t.d. að kaupa íbúð í byggingu í kópavogi eða í einu úthverfi Reykjavíkur, Vogahverfinu. Vogahverfið varð ofaná og fluttum við í nýbyggða blokkaríbúð í Ljósheimum 14 síðla sumars árið 1964. Eins og tíðkaðist þá var flutt í íbúðina hálfkláraða, en þvílíkur munur. Þarna höfðum við miklu meira rými enn á fyrra heimili og hverfið var að byggjast upp, mikið til af ungu fólki sem fyllti Vogaskólann. Skólinn sá varð brátt einn fjölmennasti skóli landsins. Eins og títt er enn þann dag í dag fer sjaldnast saman tónlistasmekkur unglinga og þeirra sem eldri eru, þannig var það með okkur fóstra. Hann hafði yndi af jazz af öllu tagi, en ég af hörðu rokki. Einhverju sinni fékk ég hann með mér inn í herbergi til að hlusta á nýjustu plötu Black Sabbath. Ekki leist Rafni á þá musik, fór inn í stofu og setti Louis Armstrong Armstrong á fóninn, sagði það vera eitthvað annað en þetta garg.

Það var ekki tekið út með sældinni einni saman að halda heimili með fjórum ungum börnum og vera að byggja yfir fjölskylduna nýtt húsnæði. Það var þá sem ég skynjaði dugnað, útsjónarsemi og samheldni Rafns fóstra míns og móður minnar. Snúa þurfti hverri krónu til að láta enda ná saman og vinna amk. tvöfalda vinnu. Það tók því við tímabil þar sem Rafn fóstri sást rétt í mýflugumynd um klukkan 19 til að borða kvöldmat. Svo var hann farinn aftur til vinnu fram undir miðnætti og unnið var flestar helgar líka, ef ekki til að afla tekna þá til að koma íbúðinni áfram í betra horf. Þetta reyndi á sambandið og oftar en ekki kastaðist í kekki milli hjónakornana, en þau stóðust þessa áraun. Það kenndi mér sem barni og unglingi að það er ástæðulaust að gefast upp þótt móti blási.

Rafn var húsgagnabólstrari og meistari í þeirri iðn. Ég hafði unnið mér inn vasapening með skóla á bólsturverkstæði sem hann starfaði á og vakti það seinna áhuga minn á að læra þá iðn. Rafn tók mig að sér sem nema í bólstrun. Því námi lauk ég undir handleiðslu hans og starfaði við það um árabil. Það er sælla að horfa björtum augum fram á veginn en að staldra of lengi í fortíðinni og jafnvel festast þar. Það kenndi Rafn fóstri mér sem og það að vinna fyrir því sem þú þarft - og vilt eignast, forðast að taka lán nema þá aðeins í ítrustu neyð. Hann gat verið harður húsbóndi og ekki var maður alltaf sáttur við hve lítinn tíma hann gaf fjölskyldunni. Seinna skildi maður að það var auðvitað af illri nauðsyn sem þannig háttaði til. Það má segja að harðastur hafi Rafn samt verið við sjálfan sig. Það kom berlega í ljós og er að mínu mati aðdáunarvert,  þegar hann liðlega sjötugur fékk heilablóðfall og lamaðist að hluta til á vinstra fæti. Hann dró ekki af sér í æfingum til að ná fyrri heilsu, styrkti líkamann með þrekgöngu upp og niður stiga í átta hæða blokkinni og í sjúkraþjálfun. Á skömmum tíma náði hann nærri fyrri styrk sínum, en var þá sleginn aftur niður. Aftur fékk hann heilablóðfall. Einhver hefði á þeirri stundu lagt árar í bát og gefist upp, en ekki Rafn. Auðvitað var þetta honum áfall en hann hélt ótrauður áfram og þjálfaði sig eins og mögulegt var, en því miður var ekki aftur snúið og styrkurinn kom ekki aftur. Smátt og smátt dró af honum og síðustu árin var rafskutla og hjólastóll þau hjálpartæki sem hann þurfti til að koma sér milli staða á Hrafnistu, þar sem hann dvaldi og leið afar vel síðustu árin sín.

Ég minnist fóstra míns Rafns Viggóssonar með þakklæti fyrir að hafa gengið mér í föðurstað frá fimm ára aldri.

Viðar H. Eiríksson.