Þorsteinn Kragh fæddist í Reykjavík 9. maí 1961. Hann lést af slysförum á heimili sínu í Reykjavík 18. nóvember 2017.
Foreldrar hans voru Lína Kragh verslunareigandi og tannsmiður, f. 26. ágúst 1938, d. 16. október 1992. Faðir Þorsteins var Hillary Femia.
Þorsteinn var annar í röð fjögurra systkina, elstur er Sveinn Kragh, f. 14. janúar 1959, síðan kom Þorsteinn, þá Kjartan Guðbrandsson, f. 11. október 1966, og svo Eydís Gréta Guðbrandsdóttir, f. 7. febrúar 1970. Þau systkini voru sammæðra, faðir Kjartans og Grétu heitir Guðbrandur Kjartansson læknir, f. 22. september 1941.
Þorsteinn Kragh og Guðrún Jónína Ragnarsdóttir, f. 18. október 1962, eignuðust dóttur, Kristínu Kragh, f. 27. mars 1986, eiginmaður Petter Stuberg, f. 7. ágúst 1984. Börn þeirra eru Jóhannes Kragh Stuberg, f. 25. júní 2007, og Kristian Kragh Stuberg, f. 2. júní 2011.
Þorsteinn ólst upp í Reykjavík, á Húsavík, Raufarhöfn, Hvammstanga og Akranesi. Eftir gagnfræðaskóla vann Þorsteinn margvísleg störf, stundaði sjómennsku, fór á vertíð, vann við sauðburð og sveitastörf og sá um eftirlit og fóðrun dýra á Sædýrasafni Íslands. Þorsteinn stundaði kokkanám og fljótlega eftir námið stofnaði hann fyrirtæki, Lotion Promotion, og í framhaldi af því varð hann umboðsmaður margra hljómlistarmanna. Þorsteinn flutti til landsins fjöldann allan af listamönnum, meðal annars var hann umboðsmaður GCD og Bubba Morthens um tíð, KK, Jet Black Joe, Richard Scobie, Heru ásamt verkefnum fyrir hljómsveitinna Blur.
Þorsteinn Kragh var skipuleggjandi ásamt Gulla Briem að undirbúningi tónleikanna 46664 Mandela Foundation.
Það verkefni endaði í heimildarmynd, Meeting Mr. Mandela, og sá Þorsteinn um skipulagningu og fararstjórn sem endaði á fundi hópsins við Nelson Mandela í Suður-Afríku.
Af stærri verkefnum hans hér heima má nefna tónleika hljómsveitanna Ash, Pulp og Blur, tónleika tenóranna José Carreras í Laugardalshöll og Placido Domingo í Eigilshöll, Richards Clayderman í Laugardalsöll og skipulagningu á útihátíðinni Uxi 1995. Þar mættu meðal annars listamenn eins og Björk og The Prodigy.
Eins flutti Þorsteinn inn einn frægasta hestahvíslara heims, Monty Roberts sem troðfyllti reiðhöll Víðidals 2006.
Þorsteinn hélt áfram að vinna með Monty eftir Íslandsför og setti upp sýningar um allan heim.
Útför Þorsteins Kragh verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 28. nóvember 2017, klukkan 15.

Lífið í sinni breiðu mynd er vandrataður vegur.
Vegur þorsteins Kragh bróður míns, vinar og kennara er efni í heila bók eða bíómynd um ótrúlegt lífshlaup sem einkenndist af miklum ævintýrum sem og sigrum og sorgum.
Sögurnar eru margar. Sumar þeirra ótrúlegar og afrekin líka.
Æska okkar systkinanna var ekki alltaf dans á rósum og glíman sem þar átti sér stað varð á endanum sú gríma sem hann bar með sér til lokadags.
Við hlið mína stóð Denni alltaf sperrtur og til taks. Denni bróðir leiddi mig áfram ef eitthvað bjátaði á. Hann kenndi mér svo mikið enda maður sem gat leyst allar þær aðstæður sem lífið býður uppá góðar eða slæmar. Af Denna lærði ég margt margt gott. En heimurinn getur verið harður og hann undirbjó mig vel og kenndi mér að takast á við þannig aðstæður líka.
Denni var einstakur herramaður, stórglæsilegur og gat vafið fólki um fingur sér ef hann ætlaði sér svo. Denni var alltaf í toppformi og snyrtimennskan uppmáluð. Ef Denni var á undan í bað gastu þurft að bíða lengi þangað til þú komst að.
Eins og sannur stóri bróðir  kenndi Denni mér að verja sjálfan mig og keyra bíl 12 ára. Það var hugsanlega líka farið yfir það hvernig ætti að fá lánað bensín af löggubílum. Hann sýndi mér líka hvernig hægt væri að ferðast um heiminn án þess að plana neitt fyrirfram. Hann gat fundið út úr öllu sem skipti máli eins og hvar hægt væri að finna næturstað og mat með lítilli fyrirhöfn og helst frítt.
Denni var með ákveðna náðargáfu, óbeislaða orku sem á sér varla hliðstæðu og hæfileika sem fæstum er gefið.
Hann nýtti þessa hæfileika sína í samskiptum við samferðamenn og það átti heldur betur eftir að nýtast honum vel.
Denni átti stórann virkja þá orku sem í mér býr og hann var aldrei langt undan þegar ég var að keppa.
Á mínu síðasta Íslandsmóti árið 2005 sem ég tók þátt í og sigraði var hann aðstoðarmaður minn. Betri mann í það verkefni var ekki hægt að finna. Hann var sjálfskipaður í verkefnið þegar hann var á landinu. Vinnusemin og orkan var þvílík ásamt hæfileikanum til að hnoða saman því ómögulega sem hann honum virtist alltaf takast.
Ferill Denna er ótrúlegur. Það eru ekki margir sem hafa bæði unnið í Hvíta húsinu í Washington DC sem og á Bessastöðum. Denni afrekaði það líka að setjast niður með Johnny Cash baksviðs og ræða málin eins og menn gera.
Denni var mesti fjallagarpur sem ég hef kynnst. Hann átti það til að spóla einn án útbúnaðar upp ókleifar hlíðar fjalla á mettíma.
Fyrir mér í æsku var Denni ódauðlegur og ósigrandi. Það var eins og hann gæti allt og engin vandamál voru þannig að gæti ekki leyst þau af sinni alkunnu snilld.
Denni kynnti mig fyrir músík. Meðal annars  músik Utangarðsmanna og viti menn örfáum dögum seinna var sjálfur Bubbi Morthens staddur í herberginu mínu. Fyrir mig 14 ára strák var þetta óraunverulegt en samt satt.
Það þurfti lítið til að gleðja bróðir minn. Ef þú færðir honum góða bók að lesa ljómaði hann allur og sökkti sér í lestur. Það var mikill lestur á okkar heimili almennt og hann var víðlesin um allt milli himins og jarðar.
Denni var hvorki kristinn né kirkjunnar maður. Hann var hins vegar mjög andlega þenkjandi. Hann sá, upplifði og lærði meira en flestir á þessari jörð í gegnum sín andlegu ferðalög víða um heim. Hann þekkti  bæði ayurvedisk fræði austursins og shamanísk fræði Andesfjalla í vestri.
Denni var mikill dýravinur hann elskaði dýr. Þar skipti engu hvort það væri ísbjörninn í sædýrasafninu eða saklaus kanína á vappi um Elliðarárdalinn. Dýr hændust að honum, að vísu ekki ísbjörninn í sædýrasafninu en Denni reyndi nú samt. Ekki má gleyma háhyrningnum Keiko sem var geymdur í umsjá Denna og sædýrasafnsins á meðan hann beið eftir að verða fluttur til USA. Denni var ekki lengi að hoppa í kerið og taka sundsprett með honum.
Denni var gull og gersemi á sama tíma en óargardýrið sem var þrjóskara en ég sjálfur var aldrei langt undan. Þessi þrjóska færði hann nær og nær því dökka afli sem hann átti stundum erfitt með að beisla.
Denni missti hluta af sinni orku og lífsafli þegar hann fór í fangelsi og var aldrei samur eftir það.
Fyrir Denna að vera lokaður inni var það eins og fyrir villtan hlébarða að fara í dýragarð.
Þetta frjálsa ótakmarkaða óbeislaða afl sem einkenndi manninn sem var búin að ferðast um allan heim rúmlega tvítugur, tína appelsínur á samyrkjubúi í Ísrael og kyrja með munkum í kína var skyndilega fast innan veggja Litla-Hrauns sem seint verður talinn góður staður.
Denni var sannur vinur minn, við vorum alls ekki sammála um marga hluti nú síðustu ár en það skipti ekki máli. Denni var mér ómetanlegur bróðir, hann kenndi mér svo margt.
Styrkur manna og þrautsegja getur virkilega hamlað því ferli sem fylgir uppgjöf og sátt.
Sá styrkur hamlaði Denna í þau skipti sem almættið rétti honum tækifæri í þá átt sem hefði komið honum til bættrar heilsu og hamingju.
þess í stað stoppaði lestin og farmurinn er þungbær og þversagnakenndur.
Denni var bara of góður stundum og það er eins og sú góðmennska hafi merkt einhverskonar skömm fyrir það að hafa lent í innilokun.
Ég finn fyrir mikilli sorg að þurfa að kveðja bróður minn á svipaðann hátt og við sáum á eftir mömmu okkar. Þetta er því miður staðreynd sem ég og aðrir geta vonandi lært af.
Ég á sem betur fer ótæmandi brunn af góðum minningum sem lifa og mun ég ávallt minnast hans í gegnum þær minningar sem aldrei verða teknar burt.
Það sárasta sem hann kenndi mér er það sem situr núna eftir í hjarta mínu.
Spurningin af hverju? Því verður ekki breytt og veginn veljum við sjálf.

Kjartan Guðbrandsson.