Eyjólfur Gíslason fæddist í Miðhúsum í Garði 28. apríl 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21. nóvember 2017.
Hann var sonur hjónanna Gísla Matthíasar Sigurðssonar, f. 13.7. 1895, og Ingibjargar Þorgerðar Guðmundsdóttur, f. 2.8. 1898. Eyjólfur átti 13 systkini en þrjár systur, Svava, Ingibjörg og Ingibjörg Anna, lifa bróður sinn. Eyjólfur fór í fóstur fjögurra ára gamall í Presthús í Garði til hjónanna Odds Jónssonar, f. 25.október 1886, og Kristínar Hreiðarsdóttur, f. 19. ágúst 1888. Uppeldissystkini Eyjólfs voru fjögur. Árið 1957 giftist Eyjólfur Helgu Þórdísi Tryggvadóttur, f. 28.3. 1938. Hún er dóttir Tryggva Einarssonar, f. 23.11. 1914, og Bjargar Guðlaugsdóttur, f. 2.11. 1913. Eyjólfur og Helga eiga átta börn. 1. Gísli Matthías, f. 26.1. 1955, maki Ólafía Ólafsdóttir, þau eiga tvö börn, Gísli átti tvær dætur fyrir og eru barnabörn sjö. 2. Magnús, f. 12.1. 1957, unnusta Þóranna Guðmundsdóttir, Magnús á þrjá syni og tvö barnabörn. 3. Kristín f. 27.1. 1958, maki Hólmberg Magnússon, þau eiga fjögur börn og tíu barnabörn. 4. Gunnar Björn, f. 1.2. 1960, unnusta Susana Ni. Börn Gunnars eru sex og barnabörnin tvö. 5. Ingibjörg Þorgerður, f. 3.7. 1960, hún á tvö börn og átta fósturbörn, fósturbarnabörnin eru tíu. 6. Kristbjörg, f. 17.9. 1966, maki Arnar Magnússon, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn. 7. Guðrún, f. 20.2. 1968, maki Sean Brennan, þau eiga þrjár dætur og fjögur barnabörn. 8. Eygló f. 9.1. 1971, unnusti Árni Ingason. Eygló á tvo syni, tvö fósturbörn og eitt barnabarn.
Eyjólfur vann sem vélstjóri í Hraðfrystihúsum Gerðabáta frá 17 ára aldri. Hann var til sjós á aflaskipunum Víði II, Sigurpáli, Jóni Finnssyni og Ásgeiri Magnússyni, svo eitthvað sé nefnt. Hann sigldi til Rússlands með Hamrafellinu. Eyjólfur vann í vaktavinnu hjá Loftleiðum, síðan Flugleiðum, í tæp 25 ár. Á milli vakta keyrði hann vörubíl á móti Einari Tryggvasyni mági sínum. Hann vann síðustu starfsár sín í Öryggisgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Eyjólfur var heiðursfélagi Knattspyrnufélagsins Víðis. Hann spilaði og þjálfaði með knattspyrnufélaginu Reyni, Sandgerði og Víði, Garði. Hann var viðriðinn knattspyrnufélagið Víði meira og minna í 60 ár. Hann var formaður, meðstjórnandi, endurskoðandi og húsvörður í Víðishúsinu.
Útför Eyjólfs fer fram frá Útskálakirkju í dag, 29. nóvember 2017, klukkan 15.
Ég get alveg sagt þér að ég fékk besta uppeldi sem hægt er að fá. Ég er yngst í stóra syskinahópnum mínum og auðvitað uppáhaldið þitt fyrir vikið. Það fór aldrei á milli mála að ég var uppáhaldið þitt þó ég segi sjálf frá. Systkini mín vildu þó meina að frekjan í mér væri ástæðan fyrir því að allt væri látið eftir mér. En ég og þú vorum nú ekki sammála því. Okkar samband var mjög sérstakt og má til dæmis minnast á að við keyptum alltaf tannbursta handa hvor öðru þegar við fórum til útlanda, enda áttum við það sameiginlegt að huga vel að tannhirðu. Þú varst alltaf svo góður, alltaf svo þolinmóður, alltaf svo hjálpsamur og gerðir allt fyrir fjölskylduna þína. Að ala upp stóran barnahóp á þessum tíma þýðir að þið færðuð fórnir. Þið settuð okkur ávallt í fyrsta sæti og ykkur í annað sæti. Þið tókuð okkur oftar en einu sinni til Kaliforníu í heimsókn til systra þinna Öllu og Svövu, þrátt fyrir langt ferðalög sem einkenndist af tengiflugum og lélegri enskukunnáttu. Ég man þegar þú komst að horfa á mig spila þegar ég keppti í fótbolta- og handbolta og gafst þér alltaf tíma í það þrátt fyrir að hafa hann ekki. Þú keyrðir mig í Keflavík til að kaupa Shoot and Match blöð svo ég gæti klippt út allar myndirnar með Manchester United, en við áttum það sameiginlegt að halda með þeim. Ég gleymi því ekki þegar ég fermdist og veislan var haldin heima. Mamma vildi að ég tæki öll plakötin niður en þér fannst það ekkert þurfa og sagðir að ég myndi samt sem áður ekki gleðja Sigga Ingvars, því að hann væri svo mikill Liverpool aðdáandi. Ég fékk því að halda plakötunum, þökk sér þér. Ég man líka þegar ég bað þig um pening til að fara í bíó. Ég passaði mig að spyrja þig en ekki mömmu þar sem að þú gafst mér líka afgang fyrir nammi. Þú settir líka alltaf peninga í jakkavasana þína því þú vissir að við systur áttum það til að leita að nammipening. Þegar ég fór að heiman gerðir þú allt fyrir mig. Þú varst alltaf reiðubúinn til að leiðbeina mér um fjárfestingar eins og bílakaup. Þú fórst með mér í hvert einasta skipti sem ég keypti mér bíl að frátöldum síðustu árum, en þú spurðir samt sem áður hvort ég væri ekki örugglega á góðum dekkjum. Þú skoðaðir ekki bílinn sem ég er á núna, enda er hann meira og minna búinn að vera bilaður. Raunin hefði eflaust verið önnur ef þú hefðir skoðað bílinn með mér.
Þegar ég var að fæða Tryggva Hrannar var mamma meðal þeirra sem voru viðstödd. Þegar ég var komin í fæðingu hvíslaði hún að mér og spurði hvort að þú mættir vera viðstaddur, því þú hefðir aldrei fengið það tækifæri með þínum börnum. Ég svaraði því að sjálfsögðu játandi og ég sé þig ennþá fyrir mér eins og þetta hafi gerst í gær. Í bláa sloppnum með myndavélina hangandi um hálsinn, þú varst svo stoltur af mér. Ég get ekki ímyndað mér meiri dýravin, þú áttir alltaf hunda og svo tók ég við. Ég man hversu mikið þú fannst til með mér þegar ég missti Töru, þú syrgðir hana með mér eins og hún væri þinn eiginn hundur. Þegar mér leið illa þá leið þér illa. Síðan fékk ég mér annan hund, hana Leiu mína sem þú dýrkaðir. Hún féll frá langt fyrir aldur og ég fann aftur fyrir samkenndinni frá þér. Írena og Krummi hennar Kristbjargar veittu þér einnig ánægju og það gleður mig að þau fjögur fylgi þér í þinni hinstu ferð.
Elsku pabbi minn. Ég er svo stolt að vera dóttir þín. Það var í algjörum forgangi hjá þér að kenna okkur að bera virðingu fyrir mömmu okkar sem þú varst svo lánsamur að eiga. Ég er þakklát ykkur fyrir að kenna okkur að bera virðingu fyrir hvort öðru. Við berum líka virðingu fyrir þér elsku pabbi minn, einfaldlega fyrir að vera þú.
Elsku pabbi minn. Takk fyrir að vera besti pabbi í heimi. Takk fyrir að vera besti afi í heimi. Takk fyrir að koma okkur áfram í lífinu og taka við öllum eins og þeir eru. Hafðu ekki áhyggjur af mömmu, við munum hugsa jafn vel um hana og þið hafið hugsað um okkur.
Við sjáumst síðar elsku pabbi.
Þín litla dóttir, Eygló
Eygló Eyjólfsdóttir
Afi elsku afi Eyji.
Mikið verður nú skrýtin tilveran eftir að þú ert farinn frá okkur. Þegar ég
horfi á ömmu núna er mikið tómarúm því þið hafið alltaf verið okkur hin
heilaga tvenna. Óaðskiljanleg og svo dásamleg. En nú er hún eftir hjá okkur
og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að heiðra minningu
þína með að hugsa um ömmu eins og prinsessu í þínum anda.
Ég er svo ótrúlega heppin. Ég er fyrsta barnabarn ömmu og afa af svo
ótrúlega mörgum. Ég fékk að eyða ómældum tíma í Laufási hjá ömmu og afa
þegar ég var lítil. Við áttum heima ekki svo langt frá þeim svo það var
gott að geta verið sem mest í heimsókn hjá þeim. Þar sem ég var líka svo
heppin að móðurafi minn var líka í miklu uppáhaldi eins og afi þá fannst
mér það svo góð hugmynd sem mjög ung stúlka að safna öfum. Mínir voru svo
ótrúlega vel heppnaðir og flottir að það var bara gott að eiga þá sem
flesta. En þó kom aldrei neinn í staðinn fyrir þá þessar elskur enda þeir
engum líkir.
Afi Eyi var með heitustu hendur í heimi enda aldrei kalt, enda var hann
líka með stærsta hjarta sem ég veit um. Plássið fyrir ást og umhyggju
stækkaði alltaf meira og meira eftir því sem við urðum fleiri eða fleira
fólk kom inn í líf hans. Hann elskaði að fá litlu börnin í heimsókn, kíkja
smá á litlu tásurnar og svo þegar þau stækkuðu þá var hann alltaf með
faðminn útbreiddan. Eitt sinn þegar ég fór með Lindu frænku á skauta á
síkinu fékk ég lánaða skauta sem voru aðeins of litlir. Við vorum nú ekki
að láta það trufla okkur við frænkurnar heldur hlupum niður að síki til að
geta skautað sem lengst. Eftir þónokkra stund fannst mér ég ekki finna
fyrir fótunum lengur, grenjaði eins og stunginn grís og Linda hljóp til
ömmu og afa. Afi, ofurhetjan mín, kom hlaupandi með henni til baka og bar
mig heim í Laufás. Þar komu heitu hendurnar hans að góðum notum enda kom
hann hita í litlu fæturna mína og huggaði mig með því að segja mér sögur af
sér þegar hann var ungur á skautum. Nú eru skautarnir hans komnir upp í
stofu til mín. En hann var stríðinn og elskaði að stríða ömmu. Glottið í
augunum og glampinn sem kom þegar púkinn kom í hann, svo ekki sé talað um
fallega brosið. Dásamlegt!
Afi minn, þessi fallegi maður, var ekki maður margra orða, en það var
kannski af því að hann komst ekkert oft að fyrir okkur öllum hinum. En
þegar hann fór á flug þá fór hann sko á flug. Hann sagði manni stoltur frá
því þegar hann hitti Frank Sinatra þegar hann lenti á Keflavíkurflugvelli
og auðvitað var það afi sem tók á móti honum, en hann vann við að taka á
móti vélunum sem lentu úr millilandaflugi til margra ára. Þegar hann talaði
um árin hjá Flugleiðum komu stjörnublik í augun þó hann var dapur yfir því
hvernig starfsferlinum lauk. Hann hafði dálæti að vita hvernig gengi hjá
mér í vinnunni á gamla vinnustaðnum hans, hvert ég væri að fara og hvaðan
ég væri að koma úr hinum stóra heimi. Það var svo fallegt. Afi var svo
sannarlega þúsund þjala smiður. Hann gat allt, kunni allt og lagaði allt. Í
skúrnum varði hann ómældum tíma í lagfæringar á hinu og þessu en þó
aðallega áhugamálinu sínu amerískum bílum. Ef eitthvað bilaði þá var hann
fyrstur til að koma með ráð hvað gera skyldi og alltaf stóðst það. Ég
gleymi því ekki þegar ég var líklega rétt um 4 ára en þá átti ég þríhjól
sem að mínu mati var orðið eitthvað slappt. Ég lét afa vita og bað hann að
koma og laga hjólið. Hann kom með olíusprautuna og smurði hjólið og sagði
svo: ,sko sjáðu, það er alveg eins og nýtt.
Þessi risastóra fjölskylda sem ég fæðist inn í er engri lík. Fyrir mér er
ég pínu eins og yngsta systirin en á svo líka svo dásamlega tengingu við
öll systkinabörnin mín. Við vorum stórfjölskyldan öll saman komin við
sjúkrarúm afa og eyddum síðustu andartökunum með honum. Það var okkur öllum
svo dýrmætt og ég trúi því að afi hefði ekki viljað hafa það á neinn annan
hátt. Hann var fjölskyldumaður frá hvirfli til ilja og vorum við fjársjóður
þeirra ömmu og afa. Ríkidæmi þeirra er svo miklu, miklu meira en flestra
annarra því ástin, virðingin, hamingjan og æðruleysið sem þau hafa kennt
okkur er mikilvægara en allt annað í lífinu.
Elsku fallegi afi minn. Ég kveð þig með söknuði, ást, virðingu og stolti.
Stolti yfir að vera komin af ykkur ömmu, ást fyrir að tilheyra ykkur og
virðingu fyrir því hversu fallega sýn á lífið þið hafið kennt okkur. Þú
verður alltaf í hjarta mér og ég mun leggja mig fram við að passa upp á
ástina þína og láta hana njóta sín eins og þú hefðir viljað. Ég kveð þig
með fallegum texta um rósina þar sem ég er og verð alltaf Rósin þín.
Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós.
Þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.
Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.
Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
(Guðmundur Halldórsson)
Ég elska þig og sakna.
Harpa Rós Gísladóttir.