Guðmundur Haraldsson fæddist í Reykjavík 18. júlí 1941. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 2. desember 2017.
Foreldrar hans voru hjónin Haraldur Guðmundsson prentari og tónlistarmaður og Lilja Gréta Þórarinsdóttir húsmóðir.
Systkini Guðmundar eru Þuríður Margrét, f. 1943, Hlöðver Smári, f. 1950, og Matthildur Rós, f. 1954.
Guðmundur giftist 23. október 1964 Sigrúnu Geirsdóttur leikskólakennara, f. 16. ágúst 1943. Foreldrar hennar voru Geir Vilbogason bryti, f. 18. október 1912, d. 16. maí 1995, og Sigurbjörg Sigfinnsdóttir húsmóðir, f. 5. október 1918, d. 19. ágúst 2015.
Guðmundur og Sigrún bjuggu í Neskaupstað. Börn þeirra: 1) Haraldur Grétar, f. 27. febrúar 1965, d. 1. júlí 2007. Börn hans og Eydísar Lúðvíksdóttur eru Hafdís Lilja, f. 1990, og Guðmundur, f. 1991. 2) Berglind, búsett í Neskaupstað, f. 23. maí 1967, maki Heimir Þorsteinsson, f. 1966. Börn þeirra eru Tinna, f. 1993, Örvar Steinn, f. 1996, og Katla, f. 1999. 3) Bergrós, búsett á Álftanesi, f. 23. maí 1967, maki Gísli Gíslason, f. 1964. Þau eiga Særúnu Rós, f. 2014. Fyrir á Gísli Eyleifu Ósk, f. 1996, og Gísla Veigar, f. 1998. 4) Gerður, f. 18. ágúst 1970, maki Grétar Örn Sigfinnsson, f. 1977. Börn þeirra eru Arnór Berg, f. 2004, Patrekur Aron, f. 2006, og Helena Ýr, f. 2010.
Guðmundur ólst upp í Reykjavík til 13 ára aldurs fyrir utan nokkur ár sem fjölskylda hans bjó í Vestmannaeyjum. Þegar hann var þrettán ára gamall flutti fjölskyldan til Neskaupstaðar.
Guðmundur lærði prentiðn í prentsmiðju Jóns Helgasonar í Reykjavík og í Nesprenti í Neskaupstað og lauk námi árið 1964. Hann tók við rekstri Nesprents af föður sínum árið 1969 og keypti fyrirtækið árið 1972. Þar var hans ævistarf til ársins 2016 þegar fyrirtækið var selt.
Guðmundur spilaði á trompet og trommur. Hann var einn af stofnfélögum í Lúðrasveit Verkalýðsins, þá 11 ára gamall. Hann var virkur í Lúðrasveit Neskaupstaðar og ýmsum tónlistarviðburðum í bænum. Einnig var hann félagi í Rótarýklúbbi Neskaupstaðar.
Síðustu tvö ár glímdi Guðmundur við krabbamein.
Guðmundur verður jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju í dag, 8. desember 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Þegar vinir kveðja jarðlífið leitar hugurinn til baka. Hvernig vinskapur varð til, endurnýjaðist og hélst á meðan báðir lifðu. Þannig var það í tilfelli okkar Guðmundar Haraldssonar, eða Dedda eins og hann var jafnan kallaður af þeim sem vel til þekktu.

Skömmu eftir fermingu bauðst mér far til Austurlands með manni sem hafði ákveðið að flytja austur til þess að starfa þar. Sá hét Gunnar Gunnarsson og margir Héraðsbúar þekktu síðar undir nafninu Gagarín í Geimstöðinni. Hann hafði fengið tilboð um aðstöðu á Eiðum og þangað var ferð hans heitið. Við ókum á Bedford bifreið landleiðina norður og til Austurlands. Ferð sem tók tvo daga því bæði vegir og fararskjóti voru börn síns tíma.
Þegar austur kom ákvað ég að hafa samband við Dedda gamlan skólabróður sem hafði flust með foreldrum sínum til Neskaupstaðar nokkru áður því föður hans hafði boðist starf eystra sem prentsmiðjustjóri auk þess að taka við stjórn tónlistarskóla og lúðrasveitar.
Leiðir okkar höfðu legið saman í Langholts- og Vogahverfinu þegar við vorum níu ára. Við hófum skólagöngu í Laugarnesskóla og síðan í Langholtskóla eftir að hann var tilbúin til notkunar. En svo skildu leiðir. Við fluttum báðir úr þessum heimkynnum. Ég vestur á Vesturgötu en Deddi til Neskaupstaðar. Því var ekki auðvelt um samgang.
Ekki þarf að orðlengja það að Deddi tók mér vel þegar ég hringdi til hans og sagðist vera á Neskaupstað. Hann sagði mér að koma og svo fór að ég dvaldi nokkrar vikur hjá fjölskyldu hans í Neskaupstað. Vinnusemi var rík í Norðfirðingum og var ég unglingurinn settur til ýmissa starfa meðan á dvölinni stóð.
Á þessum austfirsku sumardögum endurnýjuðust kynni okkar og vinskapur og þegar Deddi kom til Reykjavíkur að nema prentiðn bjó hann hjá foreldrum mínum fyrstu vikurnar í höfuðstaðnum meðan hann var að leita eftir húsnæði.
Deddi var músíkalskur. Hafði tónana í blóðinu frá föður sínum og hafði líka lært að blása. Fljótlega var hann farinn að spila í lúðrasveit og hann plataði mig meira að segja til að spila á stóru trommuna í Lúðrasveit verkalýðsins þegar hún var kölluð til viðburða. Hljómsveitin hafði aðstöðu í húsnæði Sósíalistaflokksins við Tjarnargötu sem síðar fékk nafnið Alþýðubandalagið. Einhverju sinni vorum við Deddi eftir þegar aðrir voru farnir. Þarna var útvarpstæki sem við kveiktum á og stilltum á útvarp hersins á Miðnesheiði. Jón Böðvarsson sá mæti íslenskumaður var í húsinu og þegar hann heyrði ameríska hreiminn frá tækinu var hann fljótur að koma til að skipa okkur að slökkva. Ekki væri við hæfi að hlusta á kanaútvarpið í húsi herstöðvarandstæðinga.
Svo liðu árin. Deddi var ætíð aufúsugestur þegar hann átti erindi til Reykjavíkur sem gat verið nokkuð oft enda farinn að reka prentsmiðju í Neskaupstað. Á sama hátt fórum við hjónin austur til heimsókna og nutum þess að ferðast um Austurland undir leiðsögn hans og Sigrúnar konu hans. Ég minnist einnig utanlandsferða til Kölnar, London og Birmingham. Frá þeim ferðum er margs að minnast eins og öllum samskiptum og samveru við þau hjón. Varúð og hófsemi einkenndu þennan stæðilega mann dökkan á brún og brá. Mann sem bar sig einstaklega vel og tekið var eftir.
Þegar hlutabréf í Síldarvinnslunni voru sett á markað festi ég kaup á nokkrum bréfum. Nægilega mörgum til þess að öðlast aðgang að aðalfundum. Deddi hafði ekki áhuga á þess konar viðskiptum en sótti jafnan aðalfundina í mínu umboði og hafði gaman af. Áhugi hans á velgengni i heimbyggð kom fram með þessum hætti.
Nú hefur Guðmundur Haraldsson, eða Deddi, kvatt. Ferðin norður og austur á Bedfordinum forðum var til þess að hnýta kynni okkar hnútum sem aldrei röknuðu. Að honum gengnum situr eftir minning um góða dreng félaga og vin í nær sjö áratugi.
Við vottum Sigrúnu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð og minning um kæran vin lifir.

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson og Þorbjörg Guðmundsdóttir.