Pálmi Þorsteinsson fæddist á Akureyri 2. febrúar 1947. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 3. janúar 2018.
Foreldrar hans eru Guðfinna Óskarsdóttir, f. 1928, og Þorsteinn Pálmason, f. 1924, d. 1992. Systkini Pálma eru Magnús, f. 1950. Óskar, f. 1954. Auðunn, f. 1960, og Auður, f. 1965. Eiginkona Pálma er María Axfjörð, f. 1953. Börn þeirra eru 1) Arnhildur, f. 1972, sambýlismaður hennar er Skarphéðinn Ívarsson, f. 1966. Börn þeirra eru a) Björg, f. 1989. b) Arnar, f. 1998. 2) Þorsteinn Pálmason Axfjörð, f. 1975, eiginkona hans er Elísa Heimisdóttir, f. 1980. Börn þeirra eru a) Kristófer Daði Axfjörð, f. 2005. b) Signý María Axfjörð, f. 2009.
Að loknu undirbúningsnámi á Akureyri fór Pálmi í nám til Álasunds í Noregi þar sem hann lærði byggingatæknifræði við Möre og Romsdal Tekniske skole. Að námi loknu 1971 hóf hann störf við tæknideild Húsavíkurbæjar þar sem hann síðar starfaði sem byggingarfulltrúi og bæjartæknifræðingur en hann starfaði samfleytt í 30 ár hjá Húsavíkurbæ. Árið 1998 hóf Pálmi störf hjá Vegagerðinni fyrst á Húsavík en frá árinu 2001 sem þjónustustjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, en það ár fluttu hann og eiginkona hans aftur til Akureyrar. Pálmi var mjög virkur í félagsstörfum og hafði mörg áhugamál. Til dæmis var hann einn af forsvarsmönnum rallkeppna sem haldnar voru árlega á Húsavík á níunda áratugnum. Hann var einn af stofnendum Flugklúbbs Húsavíkur en Pálmi lærði til einkaflugmanns og átti um tíma hlut í lítilli flugvél, ásamt félögum sínum. Hann var virkur félagi í Golfklúbbi Húsavíkur, sat þar í stjórn og tók þátt í uppbyggingu hans, og var félagi í Rótarýklúbbi Húsavíkur um tíma. Eftir að hann flutti til Akureyrar æfði hann krullu ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Vegagerðinni. Þeir tóku þátt í krullumótum innanlands og utan, og liðið hans, Kústarnir, varð Íslandsmeistari árið 2007. Pálmi hafði áhuga á listum, menningu og heimspeki og sótti ýmsa viðburði. Hann lét af störfum hjá Vegagerðinni vegna aldurs haustið 2016.
Útför Pálma fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. janúar 2018, klukkan 13.30.

Okkur Axfjörð-systkinin langar að skrifa nokkur orð um mág okkar Pálma Þorsteinsson. Pálma, þennan hægláta og trausta mann sem við vorum svo lánsöm að fá inn í fjölskylduna þegar hann giftist Maríu systur okkar og eiga svo samneyti við hann allt þar til hann varð að játa sig sigraðan í baráttunni miklu.
Við vorum flest á unglingsárum þegar Pálmi kom inn í líf okkar. María er elst okkar Arnhildar barna þannig að þegar þau Pálmi giftu sig hefur Búa örugglega fundist hann vera orðinn fullorðinn eins og Maja, en við hin vorum bara börn eða unglingar. Alma og Ingileif voru svo yngstar þannig að við systkinin vorum á ýmsum aldri þegar við kynntumst Pálma fyrst.
Unglingunum fannst hann auðvitað vera kynslóð eldri en þeir, þótt ekki munaði svo mörgum árum í aldri, en fljótlega fundum við öll að þarna var kominn góður vinur og félagi sem ekki var svo bundinn við kynslóðir. Stundum vorum við jafnaldrar en stundum var hann fullorðinn maður sem hægt var að leita til sem slíks. Pálmi var næmur á að lesa hvenær hann átti að vera jafningi, hvenær hann þurfti að vera fullorðni maðurinn og hvenær vinur og félagi. Hann náði góðum tengslum við aðra og skipti þá ekki miklu máli á hvaða aldri þeir voru - á sinn hæverska og hreinskiptna hátt. Hann virti skoðanir og siði annarra og þegar hann sagði sína skoðun gat honum verið slétt sama hvort viðmælandanum líkaði hún eða ekki. Hann gekk bara út frá því að fá sömu virðingu og hann sýndi öðrum.
Við systkinin kynntumst Pálma í mörgum hlutverkum en hann var fyrst og fremst mágur okkar. Óaðskiljanlegur og ómissandi helmingur tvíeykisins yndislega, Maju-og-Pálma, en hann var líka yfirmaður sumra okkar á tímabili, vinur, ráðgjafi, leigusali, gestur og ekki síst gestgjafi nú seinni árin ásamt Maríu.
Einhvern vegin finnst okkur ekki gott að skrifa minningargrein um Pálma. Honum hæfir betur eitthvað sem er fullt af gleði, húmor og vitrænum samræðum um allt eða ekkert. Hann átti svo sannarlega sinn þátt í þeirri stemmingu, þeirri ást, umhyggju, gleði og samkennd sem varð til í Sólbrekkunni. Stemmingu sem allir sem þangað komu fundu og öllum er svo dýrmæt en enginn getur samt lýst nákvæmlega. Þarna var áhyggjuleysi ungdómsáranna í algleymi og Pálmi og Maja urðu einhvern veginn sjálfkrafa höfuð systkinahópsins og þangað gátum við alltaf leitað með gleði okkar og sorgir.
Sum okkar systkinanna voru virkir þátttakendur í Rallýævintýrinu á Húsavík þegar Pálmi var formaður Bifreiðaíþróttaklúbbs Húsavíkur á upphafsárum hans og vann mikið starf í að skapa Húsavíkurrallýunum það frábæra orð sem af þeim fór á þessum tíma. Geiri var á kafi í að gera auglýsingar á rallýbíla, Jónas keppti í rallýi og flest okkar tóku virkan þátt í rallýstarfinu með einum eða öðrum hætti - sællar minningar. Þegar Pálmi lét svo af formennsku keppti hann sjálfur í rallýi, bæði sem ökumaður og kóari. Margt var nú spjallað við eldhúsborðið í Sólbrekkunni á þessum tíma. Oft höfum við systkinin nefnt það okkar á milli seinni árin hve mikla þolinmæði og skilning Pálmi sýndi okkur Axfjörðunum á þessum tíma þegar við á köflum nánast tókum yfir heimili þeirra Maríu í Sólbrekkunni á Húsavík. Fyrir það erum við honum þakklát þótt við höfum ef til vill ekki verið nógu dugleg að segja honum það nú á fullorðinsárunum.
Öllum til mikillar gleði fylgdi þessi stemming þeim heiðurshjónum Maríu og Pálma í Klettaborgina þegar þau fluttu til Akureyrar og sannaðist þar að hlýjan fólst ekki í húsinu sjálfu heldur manneskjunum sem þar bjuggu og fluttu hana svo með sér til Akureyrar. Þau náðu því að eiga 45 ára brúðkaupsafmæli aðeins fjórum dögum áður en Pálmi kvaddi.
Hversu oft ætli við höfum setið við kaffiborðið í Sólbrekkunni eða Klettaborginni og bullað, galsast og drukkið þunna kaffið - sem reyndar hefur verið að styrkjast seinni árin? Þar var Pálmi ómissandi með sinn góða húmor og hlýju. Þá gat umræðan snúist um bókstaflega allt milli himins og jarðar. Við gátum rennt í gegnum undirbyggingu vega í mýrlendi, bókmenntir, limrur, mótorhjól, trúmál og dægurmálin eða bara galsast eitthvað og verið glöð. Meira að segja á dánarbeðinum þegar honum var fullljóst hvert stefndi hélt hann sínum gamla góða húmor, tók hjartalaga piparkökurnar, sneri þeim á hvolf og kallaði þær rassa. Eigum við ekki að fá okkur rass núna? spurði hann og lét kökuna setjast aðeins í kaffið. Þær eru betri á bragðið svona rassblautar, sagði hann og gaf þumal upp. Kjarkur hans þegar hann horfðist í augu við dauðann var aðdáunarverður.
Það tóm sem brotthvarf Pálma skilur eftir í fjölskyldunni verður ekki fyllt en við eigum minningarnar og þær eru svo óendanlega dýrmætar. Sem betur fer hafa börn þeirra Pálma og Maríu erft mannkosti foreldra sinna og þannig lifir Pálmi Þorsteinsson í þeim á einhvern hátt. Því má segja að hann hafi bæði skilað góðu dagsverki og góðum genum áfram til afkomenda sinna.
Við vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð um leið og við kveðjum Pálma Þorsteinsson með miklum söknuði og umfram allt þakklæti.

Friðjón, Steinunn, Friðgeir, Arnaldur, Jónas Reynir, Hildigunnur, Alma og Ingileif.