Magnúsína Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 16. júní 1923. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 5. febrúar 2018.
Foreldrar hennar voru Vestur-Skaftfellingar frá Herjólfsstöðum í Álftaveri; Bjarni Bjarnason, f. 24. janúar 1891, d. 10. desember 1980. Pálína Bjarnadóttir, f. 2. nóvember 1895, d. 29. júlí 1985. Bræður hennar voru Bjarni Sigurður, f. 23 desember 1920, d. 7. september 1997, og Skarphéðinn, f. 30. maí 1925, d. 13 mars 2012.
Magnúsína giftist 16. júní 1950 Ragnari Jónssyni, f. 4. ágúst 1921, foreldrar hans voru Jón Ívarsson og Aðalheiður Ólafsdóttir. Ragnar lést 12. nóvember 1980. Magnúsína og Ragnar eignuðust tvær dætur;
1) Sólrún Lilja, f. 26. ágúst 1950, maki Jóhannes Norðfjörð, f. 5. nóvember 1949. Börn þeirra eru a) Ragnar, maki Kristín Björk Viðarsdóttir, b) Heiða Björk, sambýlismaður Andrew Shaw c) Íris, maki Helgi Páll Einarsson og d) Magnús Freyr, maki Berglind Sigurjónsdóttir.
2) Pálína Aðalheiður (Heiða), f. 23. júlí 1954, maki Oddur Jósef Halldórsson, f. 24. nóvember 1953. Börn þeirra eru a) Halldór Þórður, maki Hafdís Bjarnadóttir b) Anna Lilja, maki Erlingur Brynjúlfsson og c) Sigrún Edda, sambýlismaður Andreas Bönding Jakobsen.
Eru langömmubörnin ellefu og eitt langalangömmubarn.
Magnúsína fluttist nokkurra daga gömul út í Viðey. Um tveggja ára aldur flutti hún á Njálsgötu 29 ásamt fjölskyldu sinni og bjó þar til sjö ára aldurs. Árið 1930 flutti fjölskyldan á Álftanes, fyrst að Brekku og ári síðar að Svalbarða þar sem þau bjuggu til ársins 1940. Þá flutti fjölskyldan að Sogamýrarbletti 20 í Sogamýri, sem nú heitir Rauðagerði 74 sem var í eigu fjölskyldunnar til ársins 2012.
Magnúsína lauk barnaskólaprófi frá Bjarnastaðaskóla á Álftanesi. Hún stundaði nám við kvöldskóla og lauk að auki einum vetri við Húsmæðraskólann í Hveragerði. Hún starfaði við verslunarstörf og var í kaupavinnu í Ölfusi og í Fljótshlíð. Hún hjálpaði einnig til á heimili móðurbróður síns Vilhjálms um árabil. Eftir að dætur hennar fæddust helgaði hún sig uppeldi þeirra og vann auk þess við verslunarstörf með hléum. Eftir lát Ragnars vann hún lengst af í versluninni Glugganum við Laugaveg.
Útför Magnúsínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 23. febrúar 2018, klukkan 13.
Það sem er okkur öllum efst í huga er sumarhúsið okkar í Kjósinni, Brekkukot. Þarna var ófáum stundum varið á sumrin með fjölskyldunni, enda var þetta uppáhalds staðurinn hennar ömmu. Hún naut þess að vera þarna í dýrðinni, eins og hún sagði sjálf, innan um allan fallega gróðurinn sem hún og afi gróðursettu. Hún sagði alltaf við okkur passiði hrírslurnar þegar við vorum úti á blettinum fyrir framan að leika okkur með bolta og við bárum mikla virðingu fyrir því. Á hverjum morgni í Brekkukoti, vaknaði maður við góða kaffilykt og flottasta morgunverðarhlaðborð sem maður gat hugsað sér, með öllu heimatilbúna bakkelsinu. Má þar nefna skonsunrar, marmarakökurnar, jólakökurnar og formbrauðið. Eftir morgunverðarhlaðborðið var oft sest út á pall með kaffibollann, hlustað á fuglasönginn og notið dýrðarinnar. Á kvöldin fórum við fjölskyldan oft í bíltúr niður að vatni (Meðalfellsvatn) eða inní botn (í Hvalfirðinum) og þá naut hún þess að vera ein eftir í bústaðnum, kveikja á kertum og búa vel um öll rúm, þegar við komum til baka. Það þótti okkur alveg ótrúlega notalegt og lifir sterkt í minningunni. Við getum öll séð hana fyrir okkur, standandi á pallinum, veifandi okkur með stórum handahreyfingum, þegar við vorum að koma eða fara frá Brekkukoti.
Amma Magga var mikill náttúruunnandi og kenndi okkur að meta náttúruna og lífríki hennar. Má þar nefna, þegar hún bauð elstu barnabörnunum með í fuglaskoðunarferðir með Ferðafélagi Íslands á vorin. Hennar uppáhalds fugl var Krían, sem mörgum þykir mjög ágengur fugl, en hún náði alltaf að sjá það fallega og jákvæða í þessum mikla vorboða. Við fórum mikið í bíltúra um helgar og naut amma þess að koma með okkur og auðvitað kom hún með gott heimatilbúið nesti. Við fórum mikið útá Álftanes, sérstaklega á vorin til þess að athuga hvort Lóan eða Krían væri komin. Einnig fórum við oft suður með sjó og fannst henni alltaf svo stórkostlegt að horfa á brimið. Þegar við keyrðum hana aftur heim, stóð hún út úr bílnum og bankaði alltaf svo skemmtilega með hringjunum sínum á bílrúðuna í kveðjuskyni.
Á heimili ömmu var alltaf tekið vel á móti öllum sama hvort maður var barn eða fullorðin. Hún naut þess að vera gestgjafi og það tók alltaf yndisleg matar- eða bökunarlykt á móti manni þegar komið var í heimsókn. Þegar við gengum upp tröppurnar að hurðinni mátti alltaf heyra klingjandi eldhúshljóð. Amma bjó í lítilli íbúð með litlu eldhúsi, en sagði alltaf við okkur maður býr ekki til betri mat í stærra eldhúsi og það var svo sannarlega rétt og sýnir líka hversu nægjusöm hún var alltaf. Það var alltaf notalegt og rólegt heima hjá henni. Það var oft sem maður hreinlega sofnaði í sófanum hjá henni um miðjan dag og rumskaði við það að hún var að setja yfir mann teppi og pakka manni vel inn. Þá sagði hún oft maður sofnar ekki nema að maður þurfi á því að halda. Frá því við munum eftir okkur héldum við alltaf aðfangadagskvöld heima hjá ömmu Möggu, sem við eigum okkar bestu minningar af. Þar var mikið lagt uppúr venjum og var kvöldið alltaf eins uppbyggt. Oft var grínast og sagt við sitjum eins og við erum vön þar sem allir áttu sitt sæti við matarborðið. Það var yndislegt að koma rétt fyrir kl 18 og finna góðu jólalyktina og tók amma alltaf á móti okkur með svuntuna og sagði Gleðilega hátíð.
Snyrtimennskan og vandvirknin var alltaf í fyrirrúmi hjá ömmu og allt sem hún gerði var gert svo vel og ekki með hangandi hendi eins og hún sagði oft. Hún fór vel með allt og það var allt svo hreint og fínt hjá henni. Allir hlutir áttu sinn stað á heimilinu og fallega gengið frá, meira segja voru viskastykki og tuskur straujaðar. Þetta horfðum við ávallt á með mikilli virðingu og aðdáun.
Í garðinum hennar var lítið blómabeð upp við húsvegginn og þar ræktaði amma falleg og nokkuð sérstök blóm á sumrin sem hún var mjög stolt af. Henni fannst gott að sitja þarna upp við veggin í sólinni á sumrin.
Hún vildi alltaf allt fyrir okkur gera og sagði oft maður á aldrei svo lítið að maður geti ekki gefið með sér, en aftur á móti máttum við aldrei hafa fyrir henni, það fannst henni óþarfi. Hún var ekki mikið fyrir athyglina en í góðum hópi var húmorinn hennar aldrei langt undan. Hún átti ótal frasa sem við notum enn þann dag í dag og getum hlegið af allskonar augnablikum þar sem hún var hrókur alls fagnaðar. Amma var rosalega fróð og fannst okkur hún kunna allt og vita allt, og þá sérstaklega í tengslum við Ísland, náttúruna, bókmenntir og matargerð. Hún las mjög mikið og oft leituðum við til hennar með verkefni í íslensku og opnaði hún fyrir okkur nýja sýn á íslenskum ljóðum og sögum. Amma var mikil hannyrðakona og eru til mörg falleg verk eftir hana. Þegar hún passaði okkur, á meðan að mamma og pabbi fóru til útlanda, tókum við oft upp prjónana og amma leiðbeindi okkur.
Nú kveðjum við elsku ömmu okkar og eftir sitja endalausar fallegar minningar sem hlýja okkur. Hún kenndi okkur svo margt sem við getum tekið sem veganesti út í lífið, eins og að horfa alltaf jákvæðum augum á hlutina, vera þolinmóð og vera þakklát fyrir það sem við höfum.
Elsku amma okkar hvíldu í friði og guð geymi þig.
Við elskum þig,
Halldór, Anna Lilja og Sigrún Edda.