Kristinn Sveinbjörnsson fæddist í Reykjavík 29. maí 1945. Hann lést á Landspítalanum Grensási 20. febrúar 2018.
Foreldrar hans voru Sveinbjörn Sigurðsson, f. 3. okt. 1919, d. 27. maí 2005, og Helga Kristinsdóttir, f. 1. júní 1923. Systkini Kristins eru: 1) Sigurður Sveinbjörnsson, f. 1949, maki Dagný Jónasdóttir, f. 1948, 2) Árni Sveinbjörnsson, f. 1952, maki Áslaug Sigurðardóttir, f. 1953, 3) Sveinbjörn Sveinbjörnsson, f. 1955, maki Soffía Theodórsdóttir, f. 1965 4) Anna María Sveinbjörnsdóttir, f. 1961.
21. mars árið 1970 giftist Kristinn Valgerði Bjarnadóttur, f. 1942, þau skildu 1994. Börn þeirra eru 1) Helga Kristinsdóttir, f. 12. des. 1969, maki Helgi Hjartarson, f. 1968, börn þeirra eru Sigrún, f. 1996, Kristinn, f. 2001, og Valgerður, f. 2003, 2) Berglind Kristinsdóttir, f. 4. feb. 1971, maki Axel Valur Birgisson, f. 1969, börn þeirra eru Álfheiður Edda, f. 1998, Anna Vala, f. 2001, og Bergþór, f. 2005, 3) Elínóra Kristinsdóttir, f. 5. jan. 1974, maki Karl Konráðsson, f. 1972, börn þeirra eru Katrín Ásta, f. 1999, Eiríkur Atli, f. 2002, og Karólína, f. 2006, 4) Herdís Kristinsdóttir, f. 28. sept. 1977, maki Rafn Hermannsson, f. 1975, börn þeirra eru Emilía Ósk, f. 2000, Júlía, f. 2004, og Rut, f. 2009, 5) Bjarni Kristinsson, f. 30. maí 1983, maki Ingunn Loftsdóttir, f. 1983, börn þeirra eru Tómas Bogi, f. 2006, Erik Þór, f. 2008, og Nína Dröfn, f. 2011.
Kristinn ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann tók landspróf og var einn vetur í Menntaskólanum í Reykjavík og fór síðan í Iðnskólann í Reykjavík og lauk sveinsprófi í húsasmíði. Að því loknu fór hann í nám til Kaupmannahafnar í Byggeteknisk Højskole þar sem hann lærði byggingafræði. Að loknu námi í byggingafræði vann hann einn vetur á teiknistofu í Kaupmannahöfn. Eftir að hann sneri aftur til Íslands vann hann fyrstu árin hjá Fasteignamati ríkisins og síðar hjá Húsameistara ríkisins þar sem hann vann allan sinn starfsferil. Kristinn vann einnig sjálfstætt og var með Teiknistofu Kristins Sveinbjörnssonar. Kristinn var afkastamikill húsateiknari og eftir hann standa mörg einbýlishús, iðnaðarhús, skrifstofuhús, sumarbústaðir o.fl.
Á námsárunum í Kaupmannahöfn kynntist Kristinn Valgerði. Þau fluttu til Íslands árið 1969 og hófu búskap í Safamýri 27. Árið 1972 fluttu þau í Traðarland 12 í Fossvogi, í hús sem Kristinn byggði. Þar bjuggu þau til áramóta 1991/1992. Þá fluttu þau í Hvassaleiti 60, einnig í hús sem Kristinn byggði. Eftir að Kristinn og Valgerður skildu bjó Kristinn í Eskihlíð í stuttan tíma en fljótlega flutti hann í Kringluna 87 þar sem hann bjó allt til dauðadags.
Kristinn verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 2. mars 2018, klukkan 13.

Elsku pabbi nú ertu farinn frá okkur, þú sem virtist eiga níu líf. Það var ótrúlega sárt að kveðja þig nú eftir þann tíma sem við höfum átt saman undanfarið. Það eru einmitt sjö mánuðir frá því þú dast heima hjá þér og hryggbrotnaðir. Því fylgdi lömun frá brjósti. Þetta varð þér og okkur nánustu aðstandendum þínum mikið áfall. Í sameiningu náðum við smám saman sátt við breytt lífsgæði þín og færni. Þessari umbyltingu á lífi þínu fylgdu daglegar heimsóknir okkar til þín oft á erfiðum stundum, en þó áttum við saman virkilega dýrmætan og góðan tíma. Þú varst nú orðinn háðari okkur og við urðum líka háðari þér. Í byrjun þessara veikinda dansaðir þú við dauðann og barðist fyrir lífi þínu með ótrúlegri seiglu. Þegar þú dróst öndunarvélina úr þér í sumar, sýndir þú að þú varst ekki tilbúinn að fara og þyrftir að sinna ákveðnu verkefni áður en þú yfirgæfir Hótel jörð. Á þessum tíma sýndir þú og sannaðir þrautseigju þína enn og aftur.

Við systkinin höfum alltaf eytt góðum stundum saman og verið náin. Að taka þátt í þessu verkefni með þér var okkur öllum mjög lærdómsríkt og nú erum við enn nánari. Þökk sé þér. Það má segja að við höfum öll fengið nýtt upphaf með þér, tækifæri á að deila tilfinningum og notalegum samverustundum sem nú ylja okkur. Við systkinin, mamma, tengdabörn og barnabörn nutum þess að koma til þín og verja með þér tíma. Það var auðséð að þú naust þessara samverustunda og við erum sammála að þessi tími var blessun fyrir okkur öll, þrátt fyrir allt. Þú tókst þessari umbyltingu í lífi þínu með ótrúlegu æðruleysi og voru það ekki bara við sem tókum eftir því heldur flest allir sem umgengust þig á þessum tíma. Þú varst alltaf þakklátur fyrir heimsóknirnar okkar á spítalann og passaðir alltaf að þakka okkur fyrir komuna. Þú fékkst afbragðs góða þjónustu á spítölunum sem þú dvaldir, en við erum öll sammála að best hafi þér liðið á Grensás þar sem þú varst frá september 2017 og fram að dánardegi og þökkum við innilega fyrir allt sem gert var fyrir þig þar.

Þú varst alveg einstakur pabbi, óhætt er að segja að þú varst engum líkur. Ekki varstu dæmigerður faðir, ef hann er til? Þú varst mjög skapandi og frumlegur, hugsaðir alltaf út fyrir boxið. Bæði í uppeldi og vinnu. Þú varst mjög eftirminnilegur fyrir okkur krakkana og börnin í hverfinu með hinum ýmsu uppátækjum þínum. Þú leyfðir okkur að sigla á vötnum á gúmmíbát í veiðiferðum á sumrin. Þegar við vorum ekki í veiðiferðum fylltir þú sama bát af vatni og við vorum komin með heitan pott í garðinn. Settir upp risa flugdreka langt upp í himininn, sem þú halaðir upp með stjörnuljósi á veturna við aðdáun allra krakkana í hverfinu. Æskuheimili okkar var eins og félagsmiðstöð og önnur börn sóttu í að leika á heimili okkar.

Pabbi, þú varst brautryðjandi sem oft tekur á. Þú varst elstur fimm barna foreldra þinna Helgu Kristinsdóttur húsfreyju/framkvæmdastjóra og Sveinbjörns Sigurðssonar byggingarmeistara. Á eftir þér komu þrír bræður; Sigurður (Siggi), Árni (Addi), og Sveinbjörn (Denni) og yngst var það prinsessan Anna María. Þú varst fyrsti í þinni fjölskyldu sem fórst í tækniskóla, en faðir þinn og allir bræður eru smiðir. Litla systir þín fór einnig í iðnnám og er gullsmiður, Anna María Design. Þú lagðir land undir fót og lærðir byggingafræði en langaðir þó meira að vera arkitekt eins og Guðmundur Kr. móðurbróðir þinn. Árið 1967 tókst þú inntökupróf í arkitektúr en það var fjöldatakmörkun sem var þér ekki hliðholl. Það má þó segja að þú upplifðir þann draum að vissu leyti áratugum síðar þegar einkasonur þinn Bjarni útskrifaðist úr því námi. Þú stóðst þig vel í þínu námi í byggingafræði og varst hæstur í bekknum. Eins og áður segir varstu mjög skapandi og frumlegur og eftir þig standa ótal byggingar sem lifa þig. Það var stór stund þegar þú bauðst okkur út að borða í Skíðaskálann í Hveradölum sem þú teiknaðir og vannst í samvinnu við Erlend útskurðarmeistara í Hveragerði. Annað samstarfsverkefni ykkar var Hótel Geysir í Haukadal sem nú hefur því miður vikið fyrir nútímalegri byggingu. Þú varst óvenju duglegur til vinnu, ósérhlífinn og þér féll varla verk úr hendi, lengst af vannst þú hjá Húsameistara ríkisins sem þá var og hét.  Þegar heim var komið tók við aukavinna sem þú sinntir að einhverju leyti langt fram eftir aldri. Síðar þegar við börnin þín voru að kaupa okkur húsnæði sem sum þurfti að standsetja, varstu alltaf innan handar til að gefa góð ráð og aðstoða. Sumir lýsa þér þannig að þú vildir alltaf allt fyrir aðra gera, en varst minna að velta fyrir þér eigin líðan, heilsu og þörfum.

Örlög þín voru ráðin þegar þú hittir mömmu Valgerði, sveitastúlku úr Hreppunum í Kaupmannahöfn 1967, sem var stóra ástin í lífi þínu.  Valgerður var þá í námi í tækniteiknun, en hafði áður unnið í íslenska sendiráðinu hjá Gunnari og Völu Thoroddsen. Tveimur árum síðar eignuðust þið frumburðinn Helgu sem síðar lærði í Þýskalandi og hefur starfað sem farsæll sjóntækjafræðingur og er ein af stofnendum Eyesland gleraugnaverslunar. Önnur í röðinni er Berglind sem er iðjuþjálfi, menntuð í Kaupmannahöfn og starfar í dag sem Virk ráðgjafi. Númer þrjú er Elínóra sem er listamaður/grafíker, listræn eins og þú og starfar sem grunnskólakennari, kennir m.a. smíði.  Fjórða dóttirin er Herdís sem einnig er grunnskólakennari og er nú í viðbótarnámi í HÍ. Loksins kom prinsinn Bjarni sem fetaði í þín fótspor og útskrifaðist sem arkitekt frá Kaupmannahöfn. Þú lagðir upp úr því að við eignuðumst góða maka og varst ánægður með val okkar. Hvert par um sig á þrjú börn sem samanlagt gera 15 barnabörn, sem gera 20 afkomendur. Þú varst stoltur af börnunum þínum þó þú værir ekki mikið að tjá þig um það og varst alltaf þakklátur þegar einhver hrósaði þeim við þig. Yfir barnabörnunum varstu agndofa, hversu vel barnabörnin þín eru sköpuð og varst virkilega stoltur af þeim og lést það í ljós.

En lífið býður upp á gleði og sorg. Það er greinilegt að það er ekki sama hvaða sjúkdóm maður fær, viðhorf samfélagsins eru mismunandi eftir því hverjir þeir eru. Mesta sorgin í lífi þínu er tengd andlegum veikindum sem hittu þig í blóma lífsins og rændu þig allt of mörgu. Heilsunni, vinnuþrekinu og það sem þér var kærast, hjónabandinu. Þrátt fyrir að þið hafið skilið fyrir um 24 árum síðan, var vinskapur ykkar einstakur og héldu margir að þið mamma væruð enn hjón. Þú varst alltaf heima hjá mömmu, fórst í búðina og þið borðuðuð saman. Á seinni árum varstu duglegur að setja í uppþvottavélina þegar nánasta fjölskyldan, 27 manns var boðið í mat, sem þið mamma voruð dugleg að gera. Þar voru þið enn að huga að ungahópnum ykkar í sameiningu. Þú varst alltaf mikill fjölskyldumaður þrátt fyrir að hafa ekki verið sá myndarlegasti í heimilisstörfunum framan af. Þú mættir í öll afmæli, elskaðir veislur og mannfögnuði. Síðasta afmælið sem þú komst í var 4. febrúar s.l. en dóttir þín og dóttursonur eiga afmæli þann dag. Rúmum tveimur vikum síðar ert þú dáinn, en við eigum mjög dýrmætar fjölskyldumyndir frá þessum degi.

Þú tókst því alvarlega að sjá fyrir þér og þínum og byggðir okkur tvö glæsileg hús. Það fyrra 1972, einbýlishús í Traðarlandi í Fossvoginum og það síðara parhús í Hvassaleiti. Þessi heimili sem þú og mamma bjuggu okkur veittu okkur öllum óendanlega mikið öryggi og skjól. Alltaf voru/eru þessi hús full af lífi og fjöri og ekki eru nema tvö ár síðan síðasta barnafjölskyldan flutti út. Með þessu veittuð þið okkur börnunum mikið forskot inn í framtíðina á erfiðum húsnæðismarkaði.

Þó að við getum stolt litið til baka með að hafa stutt vel við þig á erfiðum tímum í lífi þínu, þá er það mamma sem á mesta hrósið skilið. Hún var alltaf kletturinn þinn í yfir 50 ár.

Elsku pabbi að ferðalokum liggja fyrst og fremst ljúfar og góðar minningar um þig sem varst góður í gegn og vildir allt fyrir okkur gera. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.

Takk fyrir allt og hvíl í friði.


Helga, Bergind, Elínóra, Herdís og Bjarni.