Erla Dürr fæddist í Reykjavík 6. nóvember 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 27. febrúar 2018.
Foreldrar hennar voru Heinrich Dürr, verkfræðingur í Þýskalandi, f. 1910, d. 1969, og Sigrún Eiríksdóttir húsmóðir, f. 1911, d. 1990. Systur Erlu eru Hjördís, f. 1934, Hildegard María, f. 1938, d. 2012, og Anna Sigríður Pálsdóttir (sammæðra), f. 1947.
Hinn 21. nóv. 1953 giftist Erla Guðjóni Magnússyni, rafvirkjameistara og bifreiðastjóra, f. 1931, d. 2009, þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Magnús Hinrik, dýralæknir, f. 1954, maki Ása Einarsdóttir framhaldsskólakennari, f. 1953. Barn Magnúsar af fyrra hjónabandi með Ingibjörgu Bragadóttur, f. 1954, d. 2017, er Bragi Hinrik, f. 1973, sambýliskona Svandís Magnúsdóttir, f. 1973, börn: Fannar Logi, f. 1998, Magnús Hinrik, f. 2004, og Sigurður Ingi, f. 2011. Börn Magnúsar og Ásu eru Erla Dürr, f. 1986, Hulda, f. 1991, og Einar Þorgeirsson, f. 1981 (sonur Ásu). 2) Páll Rúnar, f. 1960, fasteignasali, maki Sigurlaug Ásta Val Sigvaldadóttir táknmálsfræðingur, f. 1968. Börn Páls af fyrra hjónabandi með Kristínu Elínborgu Sigurðardóttur, f. 1961, eru Sigurður Rúnar, f. 1980, börn: Hekla Kristín, f. 2001, Kristján Egill, f. 2012, og Jóel Þeyr, f. 2017. Guðjón, f. 1986, maki Ida Marianne Smáradóttir, f. 1986, börn: Viktor Páll, f. 2008, og Emilía Isabel, f. 2012. Egill, f. 1988, unnusta Andrea Ósk Gunnarsdóttir, f. 1990. Páll Kristinn, f. 1990, sambýliskona Guðný Eik Arnarsdóttir, f. 1994. Dóttir Páls og Sigurlaugar er Steinunn Bjargey, f. 2005. 3) Kristinn, verkfræðingur, f. 1964, maki Marianne Elisabeth Klinke hjúkrunarfræðingur, f. 1973. Börn Kristins af fyrra hjónabandi með Diep Ngoc Phan, f. 1963, eru Stella Mai, f. 1992, sambýlismaður Jens Kristian Steinmetz Beck, f. 1989, barn Alexander, f. 2017. Sandra Linh, f. 1996, sambýlismaður Christian Bang Kristensen, f. 1994. Börn Kristins og Marianne eru Magnús, f. 2004, og Björn, f. 2007.
Hinn 8. ágúst 1987 giftist Erla seinni eiginmanni sínum, Þórhalli Halldórssyni verkfræðingi, f. 1922, d. 2010. Börn Þórhalls eru Helgi efnaverkfræðingur, f. 1949, Rósa sjúkraliði, f. 1951, Halldór matreiðslumaður, f. 1957, og Guðmundur Þór framkvæmdastjóri, f. 1963.
Erla vann við verslunarstörf alla sína starfsævi, lengst af sem verslunarstjóri hjá Bræðrunum Ormsson hf.
Útför Erlu fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. mars 2018, klukkan 13.
mbl.is/minningar

Það er mikið ævintýri að eiga systur, margar systur. Það var gæfa mín að ég fékk fjórar systur í fæðingargjöf, systur sem tóku mér opnum örmum þegar ég kom í þennan heim. Það má nærri geta að líf þeirra allra breyttist við það að lítil systir kom inn í líf þeirra, barn sem átti ekki sömu mömmu eða sama pabba og þær. Það er ekki víst að það hafi alltaf verið auðvelt. En ég fann það alltaf hvað þeim þótti innilega vænt um mig, hvað þær elskuðu mig hver á sinn hátt. Sú elsta, Þuríður dóttir pabba var mér sem önnur góð móðir, ég ólst upp með hinum þremur, dætrum mömmu, Hjördísi, Erlu og Hildegard, í tryggu skjóli foreldra minna. Við höfðum allar okkar hlutverk í þessari stóru fjölskyldu.
Þegar ég man eftir mér fyrst voru þær þrjár uppteknar af því að vera unglingar, síðar færðumst við saman í aldri eins og gengur.
Hver og ein þeirra hafði áhrif á líf mitt, ólíkar konur, sterkar konur, geislandi persónuleikar, glæsilegar konur. Í uppvexti mínum voru þær eins og speglar sem ég skoðaði mig í. Þær voru fyrirmyndir mínar, hvort heldur að þær spegluðu það sem ég vildi líkjast eða það sem ég taldi mig þurfa að forðast. Allar gáfu þær lífi mínu lit og með aldri og þroska kunni ég betur að meta þær hverja og eina og þótti enn vænna um þær.
Sú yngsta var fyrst til að kveðja þennan heim. Hildegard María lést í október árið 2012, tæplega 74 ára gömul. Útför hennar fór fram í kyrrþey, að hennar ósk. En nú vil ég minnast hennar, þakka fyrir líf hennar og allt sem hún gaf mér með lífi sínu. Hún var allra kvenna fegurst, reyndar fegursta kona sem ég hef séð, fáguð og afar smekkleg. Hún var einstakur gestgjafi, hjálpsöm með eindæmum og gjafmild. Börnunum mínum var hún afar góð og fyrir mig vildi hún allt gera. Hún veiktist fyrst systranna af þeim erfiða sjúkdómi Alsheimer sem þær fengu allar þrjár alsysturnar. Síðustu árin fjarlægðist hún okkur ástvinina og hvarf  smám saman inn í þoku óminnisins. Eftir lifir mynd af henni, falleg mynd og minningarnar, afar dýrmætar minningar.
Í dag kveð ég aftur systur, geislandi gleðigjafann hana Erlu mína. Erla hafði einstaklega fallega útgeislun, hún var ótrúlega sjarmerandi kona og bar af sér góðan þokka. Það geislaði frá henni gleði og gáski og það var eftir henni tekið hvar sem hún kom.
Það var alltaf gaman og gott að vera nálægt henni Erlu, stundum gátum við þagað saman, oftast hlógum við saman. Ævinlega var hún kletturinn minn, alltaf við hlið mér þegar á bjátaði. Hún sagði mér ótal sinnum frá því hvernig hún strauk frá sumarbúðum við Úlfljótsvatn þegar að hún frétti að hún hefði eignast litla systur. Þannig tjáði hún mér ást sína, aftur og aftur. Það bar aldrei skugga á vináttu okkar Erlu. Synir mínir eiga ótal minningar um hana, þeir minnast hennar allir með þakklæti.
Við Erla höfðum daglega samband allt þar til að hún fór að veikjast af sama sjúkdómi og Hildegard, þá missti hún smám saman tengsl við raunveruleikann og fór að hverfa inn á lendur óminnisins. Það sem einkenndi Erlu er það hvað hún tókst á við sín erfiðu veikindi af miklu æðruleysi. Um hana á ég fjársjóð minninga sem munu vera mér huggun í sorg og söknuði.
Nú þegar ég kveð þessar elsku systur mínar, þakka ég Guði af hjarta fyrir að hafa leyst þær úr fjötrum sjúkdómsins, ég þakka Guði fyrir líf þeirra og elskusemi og bið hann að varðveita þær í ljósinu.
Ég bið góðan Guð að blessa góðu systur mínar sem eftir lifa, þær Þuríði og Hjördísi sem báðar glíma við erfiða sjúkdóma. Báðar eru þær miklar hetjur sem takast á við það sem lífið hefur fært þeim með fádæma æðruleysi. Guð blessi þær báðar, leiði þær og styrki.
Ég er rík kona að hafa fengið að deila lífi með þessum frábæru systrum, lífi sem er sneisafullt af dýrmætum minningum. Fyrir það þakka ég.






Anna Sigríður Pálsdóttir.