Helga Haraldsdóttir fæddist 8. maí 1957 í Reykjavík. Hún lést 10. mars 2016.
Útför Helgu fór fram í kyrrþey.
Hún Helga systir hefði orðið 61 árs þann 8. maí næstkomandi.
Ég var aðeins 1 og 1/2 árs þegar ég varð stóra systir þín. Mamma sagði mér
að ég hefði verið algerlega dáleidd af þér og tók titilinn sem stóra systir
mjög hátíðlega. Í hvert skipti sem þú misstir snudduna var ég þar til að
gefa þér hana aftur.Við urðum fljótt mjög nánar systur og lékum okkur saman
í sandhrúgunni í bakgarðinum þangað til við vorum orðnar nógu gamlar til að
fara á róló.
Við vorum mjög ólíkar að eðlisfari og eiginlega snerist hlutverkið litla
systir/stóra systir við á þessum tíma. Þú varst sú sem safnaðir skóflunum
og sandfötunum okkar saman þegar við fórum heim frá róló og boltunum og
sippuböndunum þegar við urðum aðeins eldri. Þú varst alltaf ótrúlega dugleg
að passa upp á dótið okkar.
Á kvöldin færðum við rúmin okkar saman og sú sem var síðust í rúmið þurfti
að gilla (kitla) hina 100 sinnum á hendinni, þú vannst næstum því alltaf og
yfirleitt varstu sofnuð áður en ég komst upp í hundrað.
Þú varst mjög kvöldsvæf og alger morgunhani A++ alveg öfugt við mig sem er
B++, sem sýndi sig best þegar við vorum í Vindáshlíð. Við vorum saman í
herbergi og vorum alltaf vaktar um miðja nótt þ.e. eldsnemma, til að
draga fánann að húni og syngja morgunsönginn. Þér tókst alltaf einhvern
veginn að forða mér fá uppvaskinu, þeir sem komu of seint fengu uppvaskið,
með því að koma mér upp úr rúminu og út að fánanum og svo opnaði ég augun
þegar við settumst að morgunverðinum. Takk litla systir.
Í Vindáshlíð var ískaldur lækur og þar áttum við sjálfar að þvo sokkana
okkar, en ég man aldrei eftir því að hafa þvegið mína, samt voru þeir
alltaf þvegnir og fínir þegar ég þurfti að skipta um sokka. Takk litla
systir.
Þú varst yfirleitt glöð, kát og skemmtileg og gast gleymt þér heilu dagana
í dúkku- og búðarleik. Oft reyndir þú að fá mig með í leikinn en ég hafði
bara ekki þolinmæði til þess, nema einu sinni. Þú hafðir fengið svona litla
búð og dollu með Machintos í jólagjöf. Búðin var með fullt af litlum
skúffum, skápum og hillum. Þú varst aldrei mikið fyrir að borða nammi alveg
öfugt við mig sem var alger nammigrís og þarna sat ég allan daginn og
keypti nammimola þar til búðin lokaði kl. 18.00 og þú skemmtir þér alveg
konunglega.
Við systurnar fórum allar í dans og þar varst þú í essinu þínu. Að fara í
fallegan kjól, kápu og svarta glansandi lakkskó, það varst bara þú. Ég man
eftir því að það var tekin mynd af okkur og þá kipptir þú kjólnum aðeins út
fyrir kápuna svo hann sæist.
Við fórum oft með mömmu og pabba í berjamó, flestallir voru með berjatínur,
en ekki hún Helga litla systir mín, þú tíndir alltaf með höndunum og það
sýndi sig yfirleitt að þú varst ekkert með minna af berjum en við hin þegar
við vorum búin að hreinsa draslið frá, fyrir nú utan það að öll berin þín
voru stór og falleg.
Við áttum yndislegt sumar á Seyðisfirði hjá Helgu og Kalla móðurbróður
okkar. Þú varst nú alger grallari og til í ýmislegt, eins og þegar við
fengum róðrabát póstmeistarans að láni. Það vantaði nú reyndar árarnar,
en við fundum bara 2 flatar spýtur og svo rerum við af stað. Einu sinni
lentum við undir bryggjunni og vorum rétt komnar fram hjá holræsisrörum
þegar innihaldið gusaðist út úr þeim og munaði aðeins hársbreidd að við
fengjum það yfir okkur, þá sagðir þú stopp og póstmeistarinn fékk frið með
bátinn sinn.
Við skiptum liði á unglingsárunum en væntumþykjan var alltaf til staðar.
Við giftumst og eignuðumst börn og þar sem samskipti voru ekki eins auðveld
þá og í dag leið stundum langur tími milli þess að við hittumst, en þegar
við svo komum saman var glatt á hjalla.
Það var alltaf gott að koma til þín og yndislegustu stundir sem ég man
eftir eru í eldhúsinu þínu, fyrst á Bugðulæk og svo á Rauðalæknum.
Þú bjóst alltaf yfir svo mikilli ró ef á þurfti að halda en um leið svo
frábærlega skemmtileg og með smitandi yndislegan dillandi hlátur.
Þar sem ég bjó mikið út á landi og síðan erlendis voru samskiptin miklu
minni en ég hefði óskað. Það kom þó að því að það varð ódýrara að hringja
og síðustu árin leið varla svo dagur að við værum ekki í símsambandi.
Við gátum talað saman í tímavís. Við bæði hlógum og grétum saman á gleði-
og sorgarstundum, af öllu milli himins og jarðar og svo spiluðum við Bridge
á netinu. En fyrst og fremst elskuðum við hvora aðra.
Helga mín litla systir. Það hefur alltaf verið sérstakt band á milli þín og
mín. Það er svolítið langt á milli endanna í augnablikinu, en það slitnar
aldrei. Ég sakna þín og þú munt alltaf búa í hjarta mér og vera að eilífu
elsku litla systir mín.
Við systurnar fjórar áttum yndislega æsku saman, Rannveig elst og Dagmar
yngst. Það var stórt skarð höggvið í systrahópinn þegar þú kvaddir og við
söknum þín allar meir en orð fá lýst, en geymum dýrmætar minningar um elsku
systur okkar í hjörtum okkar.
þín systir
Sigrún Haraldsdóttir.