Guðmundur Kristján Magnússon fæddist á Brekku í Langadal í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp 27. október 1927. Hann lést á Landakoti í Reykjavík 2. mars 2018.

Foreldrar hans voru Magnús Jensson á Brekku og síðar á Hamri, f. 30.8. 1896, d. 19.9. 1969, og Jensína Arnfinnsdóttir, f. 7.6. 1894, d. 30.11. 1986. Systkini Guðmundar voru: 1) Jón Arnar Magnússon, f. 6.8. 1926, d. 24.1. 2002, maki Elín Erna Ólafsdóttir. 2) Jens Magnússon. f. 6.10. 1928, d. 7.2. 1930. 3) Kristín Magnúsdóttir, f. 25.10. 1929, d. 9.7. 2011, maki Ingvar Jónsson. 4) Sigríður Gyða Magnúsdóttir, f. 7.5. 1931, maki Eiríkur Jónsson. 5) Margrét Guðrún Magnúsdóttir. f. 9.6. 1932, d. 22.11. 1994, maki Matthías Bjarnason. 6) Halldór Magnússon, f. 9.6. 1933, d. 22.5. 1976, maki Hulda Engilbertsdóttir. 7) Ragnar Heiðar Magnússon, f. 19.11. 1935. 8) Edda Magnúsdóttir, f. 5.7. 1937, maki Guðni Jónsson.

Hinn 11. júní 1955 kvæntist Guðmundur Kristínu Steinunni Þórðardóttur, f. 12.10. 1928, d. 12.4. 2005. Foreldrar hennar voru Þórður Halldórsson á Laugalandi, f. 22.11. 1891, d. 26.5. 1987, og Helga María Jónsdóttir, f. 2.2. 1898, d. 8.4. 1999. Guðmundur og Kristín eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Snævar, f. 3.7. 1956, maki Anna Guðný Gunnarsdóttir, dætur þeirra eru Kristín Valgerður og Steinunn Jóhanna. Fyrir átti Snævar soninn Jakob Má með fyrrverandi eiginkonu sinni Kristen M. Swenson. Fyrir átti Anna Guðný synina Ástþór Inga Sævarsson og Gunnþór Tuma Sævarsson. 2) Þórunn Helga, f. 14.7. 1959, d. 8.11. 2012. Sonur hennar og Steindórs Karvelssonar er Fannar Karvel. Börn hennar og Kolbeins Péturssonar eru Natan, Salka og Arnfinnur. 3) Magnea Jenny, f. 2.4. 1963, dóttir hennar og Finnboga Kristjánssonar er Ragnheiður Kristín.

Guðmundur ólst upp á Brekku í Langadal fram til 1945 þegar fjölskyldan fluttist út að Hamri við Ísafjarðardjúp. Hann stundaði nám við Héraðsskólann í Reykjanesi. Hann vann lengi vel við vegagerð við Djúpið. Síðar keyptu hann og Kristín jörðina Melgraseyri árið 1955 af föðurbróður Kristínar, Jóni Fjalldal. Þar ráku þau stórt bú mestan sinn starfsaldur. Guðmundur sá um póstafgreiðslu á Melgraseyri, móttöku Djúpbátsins og sat auk þess bæði í hreppsnefnd og sýslunefnd til margra ára.

Þau fluttu til Hveragerðis 1986. Þar vann Guðmundur hjá Ullarþvottastöðinni, Olíufélaginu og við garðyrkjustörf. Árið 1993 fluttu þau í Kópavog og Guðmundur hélt áfram að vinna hjá Olíufélaginu. Árið 2001 fluttu þau Kristín í Jökulgrunn 11 í Reykjavík.

Minningarathöfn verður um Guðmund í Kópavogskirkju í dag, 15. mars 2018, og hefst klukkan 13.

Jarðsett verður frá Melgraseyrarkirkju föstudaginn 16. mars og hefst athöfnin klukkan 14.

Guðmundur var fæddur 27. október 1927 að Brekku í Langadal við innanvert Ísafjarðardjúp, annað barn hjónanna Magnúsar bónda og Jensínu húsmóður. Hann var því á nítugasta og fyrsta aldursári í ár. Guðmundur var einn af sjö systkinum. Búið var ekki stórt í sniðum að Brekku sem var hefðbundið bú, með kýr og kindur. Jörðin lá ekki að sjó en lá á milli Arngerðareyrar, sem er að sjó en að framan að Kirkjubóli. Hafði því haga í kjarri og lyngi upp á Brekkuháls að sunnanverðu. Að norðanverðu er  Langadalsá sem er laxá og meðfram henni eru grasi vaxnar eyrar og mýrar að neðanverðu.

Jón og Guðmundur voru elstir systkina sinna og brölluð margt saman. Gerðu margar tilraunir út í náttunni og fiktuðu við að stífla læki og uppgötva lífríki náttúrunnar. Þeim datt m.a. í hug að leita að gulli og þóttust vongóðir um að finna það. Þeir komust yfir smásjá sem var ekki á hverju strái og þá opnaðist þeim stór heimur að rýna í örlíf og agnir. Þessi rannsóknar árátta kom sér vel síðar á lífsleiðinni. Á Arngerðareyri var samkomuhús, verslun og sláturhús. Þar gat oft verið mikið fjör. Það fannst þeim spennandi að fara og skoða sig um. Þar hittu þeir margt sérstætt fólk og forvitnilegt.
Guðmundur var tíu ára gamall þegar hann gerðist leiðsögumaður fyrir laxveiðimenn í Langdalsá, enda þekkti hann vel helstu veiðistaði þar. Hann ferjaði ferðamenn á hestum úr Ísafjarðardjúpi yfir í Þorskafjörð, á sama aldursári. Hann var því ákveðin frumkvöðull í ferðmennsku á þessum tíma. Hann teymdi klárinn upp bröttustu brekkurnar. Þar blasti við honum mikil sýn, Drangjökull í norðri, bláhvítur og blikandi. Strandafjöllin græjast fyrir hálendisbrúnina, hvöss og rismikil. Í vestur sér hann niður yfir allt Ísafjarðardjúp og lengst úti sér hann mótað fyrir fjöllum við Ísafjarðarkaupstað og á móti Snæfjöll við Jökulfirði norðanmegin. Æðey þar undir. Djúpið glampar gullitinni sólarlagsins og heiðarnar endalaust suður. Rjúpa flýgur upp við fætur hans með tólf unga á eftir sér. Og hestarnir kippast við og sökkva hófum sínum í mosann. Hann vippar sér á bak og nú falla öll vötn niður í Langadal.
Guðmundur var um fermingu þegar foreldrar hans kaupa jörðina Hamar sem var utar á Langadalsströnd. Þau flytjast þangað með búið en eiga áfram Brekkuna, þannig að þetta var mikið stækkun á búskapnum. Guðmundur fór í Reykjanes í skóla sem barn og unglingur. Þar var margt um ungmenni úr Ísafjarðardjúpinu og nágrenni. Námið var nátengt umhverfinu, náttúru og menningu. Þar var mikill jarðhiti, sem var auðvelt að hafa gróðurhús og sundlaug. Skólinn lagði áherslu á sjálfbærni og menningarlegt samfélag sem spratt upp með gömlu héraðsskólunum. Nemendur voru þátttakendur í uppbyggingu skólans sem tengdi þá traustum böndum með því að starfa saman af sameiginlegum áhugamálum. Ekkert vekur jafn sanna gleði og óeigingjarnt starf í þágu stærri heildar. Ekkert bindur menn traustum böndum við einhvern stað, en að vinna honum eitthvað til nytsemdar, með ráðnum hug. Þetta mótaði Guðmund. Er þetta eitthvað sem skólar ættu að taka upp í dag?
Guðmundur var útsjónarsamur. Hann réðist í það að kaupa sér vörubíl og gerði hann út í vegagerð. Þá var verið að gera veg yfir Þorskafjarðarheiði sem lá niður Langadal og inn í Djúp. Síðan voru lagðir vegir að hverjum bæ, út Langadalsströnd og um sveitina. En ekki var farið alla leið út Djúpið sunnanvert fyrr en síðar. Við vegavinnuútgerð var Guðmundur í nokkur sumur.
Þessi tími var um miðja síðustu öld, þegar uppgangur í landinu var farin að hafa áhrif inn til sveita. Samgöngur jukust með vegsamandi og byggðar voru bryggjur fyrir ferju um Djúpið. Ein slík bryggja var byggð við Melgraseyri á Langadalsströnd, næsta bæ við Hamar. Það var því komin tenging við Ísafjarðakaupstað. Þar var athafnasvæði á vegarenda að sunnan sem skapaðist við bryggjuna. Það var því samfélagsþróun í Djúpinu. Þar hittist fólk gjarna þegar Fagranesið stoppaði við með nýlenduvörur úr Kaupfélaginu en tók þá við afurðum úr sveitinni, svo sem mjólk, egg, kjöt og grænmeti svo dæmi sé tekið. Þarna var því fyrsti vísirinn af ferðamannastraumi. Var þá jafnt útlendingar og íslendingar. Þessum athöfnum tók Guðmundur virkan þátt í.
Það var mikið mannlíf og fjör sem fylgdi ungu fólki sem var á rekið við Guðmund í sveitinni. Þau komu saman á balli á Arngerðareyri. Á þar næsta bæ við Guðmund sem var Laugaland var stúlka á hans aldri, Kristín Steinunn Þórðardóttir. Þau hittust oft mitt á milli Hamars og Laugalands, sem var á Melgraseyri. Um miðjan sjötta áratuginn kviknaði ást með þeim. Í þeim samdrætti þeirra, síðsumars, áttu þau leið um hlaðið á Melgraseyri, hittu þau bóndann á bænum, Jón H Fjalldal, sem var föður bróðir Kristínu. Hann var snaggaralegur í öllum ákvörðunum og sá í hvert stefndi hjá þeim yngri. Hann leist þannig á þau að þau ættu framtíðina fyrir sér í sveitinni en hann væri á förum og hans dagar væru búnir í búskap. Honum fannst því alveg tilvalið að þau myndu kaupa af honum jörðina Melgraseyri. Skellti hann þessari hugmynd fram, sem þau tóku með jákvæðum athöfnum.
Þau hófu búskap á Melgraseyri sem var kosta jörð sem lá frá Hamri, meðfram Langadalsströnd og inn að Selá inn við Ármúla við Kaldalón. Jörðin nær upp á Melgraseyrarmúlann að Hraundalsháls. Í á milli Hamars og Melgraseyrar er Melgraseyrarskógur. Talsvert undirlendi er á eyrinni sem jörðin ber nafn af.
Þau héldu því áfram að byggja þessa jörð upp. Það kom sér vel að eiga vörubíl sem nýttist við alla flutninga, samgönur til og frá við búskapinn. Um þetta leiti gifta þau sig og eignuðust svo þrjú börn á átta árum.
Þar sem að Melgraseyri var miðstöð samgangna á landi og sjó, settu þau hjónin upp þjónustu eins og bensínafreiðslu frá Essó. Einnig höfðu þau póstafreiðslu eða bréfhirðingu að Melgraseyri. Í heimatúninu var bænhús og kirkjugarður sem er staðsettur þannig að útsýnið er vítt í allar áttir, inn og út Djúpið. Síðar byggðu sveitungarnir þar kirkja sem stendur þar nú. Það var því margir sem áttu erindi við þau hjónin. Enda tóku þau á móti fólki og allir fengu fæði og gistinu í boði þeirra.
Guðmundur hafði það hlutverk í sínum systkinahópi að vera álitsgjafi um ýmis álitamálum. Þau treystu honum fyrir áhyggjum sínum um hvað eina og þá einkum samskiptum systranna sem voru þrjár. Ekki var þetta nú merkilegt að leysa að honum fannst, en það eldist ekkert af þeim að hringja í Guðmund ef eitthvað bjátaði á. Þannig var það einnig með sveitunga Guðmundar, þeir leituðu til hans og báru undir hann flókin málefni eins og Guðmundur væri þeirra dómari, til að fá lausn hjá honum á þeim. Enda völdu þeir hann í trúnaðarstöður. Hann var sóknarnefndarformaður í mörg ár fyrir Melgraseyrarsókn. Hann var oddviti Nauteyrarhrepps og fulltrúi þeirra til sýslunefndar í Ísafjarðarsýslum. Formaður Búnaðarfélags Nauteyrahrepps og var í mörg ár formaður Veiðifélags Langár, svo dæmi sé tekið.
Hans aðalstarf var sauðfjárbúskapur sem krafðist ræktunar á jörð og fé. Fáeinir hestar sem þau áttu voru notaðir til ferðalaga innan um fé og smalamennsku. Margir ílengdust við að dvelja á Melgraseyri og þá einkum ungmenni sem nutu nærveru þeirra og til að læra af þeim lífsspekina.
Uppúr miðjum níunda áratugnum, þegar David Bowie var á öðrum hverjum grammófóni ákváðu þau hjónin að flytja suður og koma búi sínu í hendur yngri fólks, sama og atvikaðist þegar þau hófu búskap. Þau voru nægilega hraust til að takast á við það og byrja annastaðar. Þau fluttu suður á land, til Hveragerðis þar sem að systkini þeirra voru nærri. Þau gengu bæði strax í störf syðra. Sonur þeirra Snævar tók við búinu og tengdadóttir,  Kristen Mary. Guðmundur kom öll sumur vestur, bæði í sauðburð, slátt og í leitar. Þá gekk hann í öll verk eins og hann bæri ábyrgð á öllu saman. Hann keypti jörðina Hamar af yngsta bróður sínum, með börnum síum til að geta dvalið þar nærri heimahögum í frítíma sínum. Þar voru þau oft fram á haust eftir starfslok. Þá fluttu þau í Kópavoginn og voru þar í nokkur ár þar til að heilsu Stínu fór að hraka. Þau fluttu þá í raðhús við Jökulgrunn, sem var þægilegt að komast um í. Guðmundur bjó einn eftir að kona hans dó og sá að mestu um sig sjálfur en hann naut aðstoðar dóttur sinnar, Magneu í mörg ár sem var alltaf í kall færi. Hún var á undan 112 í hjá honum, ef á þurfti að halda, ásamt dótturdóttur sinni, Ragnheiði.
Þrátt fyrir að vera komin í Reykjavík spáði Guðmundur í veðrið alla daga. Þá sá hann alltaf að blikur væri komnar á lofti og hvenær væri að koma vor. Gerði hann bílinn kláran, setti sumardekkin undir og fór svo í næsta hentuga færi vestur. Þó að hann væri ekki alltaf á rúntinum, endurnýjaði hann meiraprófið sitt eins og lög gera ráð fyrir. Síðustu ár ók hann alltaf vestur, það var ekkert mál fyrir hann en ekki í bænum.
Guðmundur hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og samfélaginu. Hlustaði á alla miðla, las blöð og bækur. Hann mætti alltaf til að kjósa, en honum fannst undir það síðasta að það kæmi ekki upp úr kjörkössunum sem var látið í ljósi fyrir kosningar.
Þegar Guðmundur var orðin nokkuð lasinn niður á spítala, fannst honum lítill tilgangur í því að liggja inn á spítala, fannst lítil framför hjá sér en fór eftir öllum reglum. Honum fannst hann hafi gert allt og skilað af sér búi sínu. En þetta var bara bið. Svo var hann sendur niður á bráðadeild til að fara í rannsókn. Þá fannst honum hann bara kominn í einhvern bragga og vildi fara þaðan. Spurði mig: Hvernig get ég farið vestur... er ekki bíll að fara? Já, sagði ég... ég er búinn að panta far fyrir þig. Hvað kostar farið... tuttugu... fjörtíu þúsund? Og leitaði að veski sínu.. ...ég borga farið..! Það er óþarfi, það er sjúkrabíll sem fer með þig vestur eftir í herberið þitt á Landakoti!
Þegar ég hitti hann aftur, sagði hann fátt. Hann verður var að ég er kominn inn í sjúkrastofuna á Landakoti og þá sagði hann: Finnbogi... get ég ekki fengið far með þér vestur...? Jú, svaraði ég... án þess að ræða það neitt frekar! Þetta voru síðustu orðaskipti okkar en áður snérist samtal okkar um það sem var fyrir vestan um mannlíf, sögu og náttúru.
Næst þegar ég kom var hann allur og andi hans farinn vestur. Þar er hans staður sem hann hefur haldið tryggð við alla sína ævi. Ekkert bindur menn traustum böndum við einhvern stað, en að vinna honum eitthvað til nytsemdar, með ráðnum hug... og ekkert vekur jafn sanna gleði og óeigingjarnt starf í þágu stærri heildar.
Á sjúkraborðinu voru bækur um sögur og sagnir að vesta ásamt einni maltflösku, Morgunblaðinu og heyrnartæki. Við hliðina lágu gleraugu sem höfðu lesið ýmislegt í gegnum tíðina.



Finnbogi Kristjánsson.