Margrét Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 13. mars 2018.
Foreldrar hennar voru Magnús Einarsson, f. 25. desember 1912, d. 4. september 1985, og eiginkona hans Dagbjört Eiríksdóttir, f. 20. júlí 1914, d. 8. maí 1977. Systkini Margrétar eru Jón, f. 1934, Erla, f. 1935, Þráinn, f. 1938, Magnea, f. 1940, Páll, f. 1946, og Eðvald, f. 1954. Magnea er sú eina af systkinahópnum sem er enn á lífi.
Þann 22. nóvember 1969 giftist Margrét Kristjáni Einarssyni, f. 4. janúar 1935, d. 26. janúar 2003. Foreldrar hans voru Einar Tómasson og Ragnhildur Jónsdóttir.
Börn Margrétar og Kristjáns eru: 1) Gunnar Örn matreiðslumeistari, f. 4. júlí 1958. Synir hans eru Kristján Már, f. 1986, Gísli Þór, f. 1992, og Ólafur f. 1999. 2) Ragnhildur Margrét, f. 10. ágúst 1967, gift Hannesi Richardssyni viðskiptafræðingi. Börn þeirra eru Gunnur Ýr, f. og d. 13. mars 1991, Fannar Freyr, f. 1993, Richard Rafn, f. 2000, og Margrét Mist, f. 2002.
Margrét ólst upp í Reykjavík. Hún vann við ýmis störf, lengst af í Smjörlíkisgerðinni, Hæstarétti og versluninni Víði í Austurstræti. Árið 1998 keypti Margrét ásamt eiginmanni sínum söluturninn Hallann, Laufásvegi 2, og rak hún og starfaði við söluturninn til ársins 2006, eða til sjötugsaldurs, fyrstu árin með eiginmanni sínum Kristjáni en síðustu þrjú árin ein.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 15.

Fyrir tæpum 35 árum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Margréti og Kristjáni eða Möggu og Kidda eins og þau voru ávallt kölluð. Þá höfðum ég og Gunni sonur þeirra verið að draga okkur saman um nokkurt skeið og Möggu fannst kominn tími á að berja stúlkuna augum og bauð sér því í heimsókn.  Ég held henni hafi ekkert litist neitt sérstaklega vel á mig í byrjun. En frá þeim tíma átti eftir að ríkja á milli okkar mikill og góður vinskapur, jafnvel þó að á stundum værum við ekki á eitt sáttar um alla hluti.
Magga ólst upp í Bjarnaborginni, sú þriðja í hópi sjö systkina. Tæplega 22 ára að aldri eignaðist hún Gunnar Örn og fyrstu árin bjuggu þau mæðginin tvö saman undir kvisti í Bjarnaborginni. Kristjáni Einarssyni eða Kidda, eiginmanni sínum og lífsförunaut, kynntist hún svo nokkrum árum síðar þegar hún fór að vinna í Smjörlíkisgerðinni og hófu þau búskap fljótlega upp úr því. Ragnhildur Margrét bættist svo í hópinn árið 1967 og nokkrum árum síðar fluttust þau í Þórufell í Breiðholti. Þórufell átti eftir að vera heimili þeirra til dauðadags.
Magga vann á ýmsum stöðum í gegnum tíðina, þar má helst telja Smjörlíkisgerðina, Hæstarétt og verslunina Víði í Austurstræti. Á öllum þessum stöðum naut félagsveran Magga sín. Sem dæmi um það má nefna að þegar hún vann við skúringar í Hæstarétti eignaðist hún marga vini þar innandyra og var tæpast haldin sú veisla þar að henni og Kidda væri ekki boðið. Það sama má segja um verslunina Víði, þar var Magga árum saman fyrsta kassadama og eignaðist þar fjölda vina úr mismunandi lögum samfélagsins, jafnt háa sem lága.
Þegar árin með Möggu og Kidda eru rifjuð upp, er ekki hægt annað en að minnast heimsóknanna í Þórufellið. Magga og Kiddi voru með eindæmum gestrisin sem sýndi sig í því að oft var þéttsetinn bekkurinn í stofunni þeirra. Systkini Möggu voru þar tíðir gestir og þá sérstaklega yngsti bróðir hennar hann Eðvald eða Elli, sem átti alltaf vísan næturstað í Þórufellinu, þó plássið væri kannski ekki mikið. Að auki voru nágrannar og aðrir vinir alltaf velkomnir. Kiddi var kokkur mikill og hafði yndi af að laða fram stórsteikur. Það var líka svo sérstakt með pottana í Þórufellinu að í þeim var alltaf nægur matur fyrir alla þá sem áttu leið hjá í það og það skiptið.
Sonur okkar Gunna var fyrsta ömmu- og afabarn Möggu og Kidda. Þegar í ljós kom að hann væri strákur var aldrei neitt annað í myndinni hjá Gunna en að hann yrði skírður Kristján í höfuðið á Kidda fósturpabba sínum. Mér er sérlega minnisstætt þegar við stóðum í kirkjunni og tilkynntum nafnið á drengnum hvað Kidda þótti vænt um nafngiftina.
Leiðir okkar Gunna skildu fljótlega, en tengdafjölskylduna var ég svo heppin að þurfa aldrei að skilja við. Fyrstu árin var ég ein með Kristján, fyrst heima hjá foreldrum mínum í Skaftahlíðinni og seinna fluttum við mæðginin í Möðrufellið, litla íbúð sem var í næsta nágrenni við Möggu og Kidda. Á þeim árum sem við Kristján Már bjuggum hjá mömmu og pabba í Skaftahlíðinni kom Kiddi ófáar ferðirnar færandi hendi til mömmu og pabba með fullar hendur matar til að létta undir með þeim. Á milli foreldra minna og Möggu og Kidda myndaðist góður vinskapur og höfðu mamma og Kiddi einstaklega gaman af að ræða landsmálin og pólitík í hvert sinn sem þau hittust.
Magga og Kiddi komu líka ófáar ferðirnar færandi hendi til okkar Kristjáns í Möðrufellið og er mér sérstaklega minnisstætt eitt skiptið þegar Magga og Kiddi höfðu brugðið sér til Englands. Á þessum tímum gekk mikið Turtles-æði yfir hjá ungum drengjum og það leyndi sér ekki að Magga og Kiddi höfðu fengið einhverja nasasjón af því, því eftir heimkomu komu þau í heimsókn með troðfulla ferðatösku af Turtles-gersemum. Upp úr töskunni voru dregnir sokkar, nærföt, náttföt, buxur, peysur að ógleymdum leikföngunum. Eins voru þau alltaf til í að passa og ekki leiddist Kristjáni að fara í pössun í Þórufellið, þar vafði hann ömmu og afa um fingur sér og fékk ýmsu framgengt sem hann hefði aldrei fengið heima hjá sér, hvort sem það var pylsa í morgunmat eða annað sem bara leyfðist hjá ömmu og afa.
Alla tíð fylgdu þau heiðurshjón okkur Kristjáni vel eftir og tóku jafnan þátt í gleði okkar og sorgum. Þá skipti engu þó ég færi að búa með öðrum manni og eignast með honum börn. Þannig hafa yngri börnin mín aldrei kallað Möggu annað en ömmu og alltaf litið á hana sem slíka. Árið 1998 ákváðu Magga og Kiddi að fara út í eigin atvinnurekstur og keyptu söluturninn Hallann við Bókhlöðustíg. Þar stóðu þau samhliða vaktina næstu árin. Kiddi missti heilsuna á þessum árum, en vann þó í Hallanum allt til dauðadags. Það kom engum á óvart sem þekktu til Kidda og Möggu að á örskömmum tíma í Hallanum höfðu þau eignast aragrúa nýrra vina, en það voru krakkarnir í MR sem flykktust í Hallann í frímínútum og keyptu sér peppó og kók.
Sumir þessara krakka sem komu í Hallann á þessum árum hafa alla tíð síðan haldið sambandi við Möggu.
Magga var alla tíð mjög kraftmikil þó smá væri og lét fátt stoppa sig í því sem hún ætlaði sér. Gott dæmi um það er að eftir að Kiddi féll frá hélt hún ótrauð áfram rekstrinum á Hallanum í nokkur ár. Það var ekki hlaupið að þessu fyrir hana, til dæmis hafði  hún sjaldan keyrt bíl, þó hún lumaði alltaf á skírteininu einhvers staðar. Hún var ekkert að víla það fyrir sér, heldur keypti sér lítinn, sjálfskiptan bíl og brunaði síðan allra sinna ferða. Það eru ófáar skemmtisögurnar af þeim túrum, t.d. þegar sú gamla brunaði galvösk á móti umferð.
Fyrir utan þá góðmennsku og væntumþykju sem Magga sýndi mér og mínum alla tíð þá hafði Magga þann skemmtilega eiginleika að hún tók sjálfa sig aldrei neitt sérlega hátíðlega og enginn hló hærra að eigin skakkaföllum en hún. Þessu einstaka viðhorfi hélt hún alla tíð.
Í desember 2016 varð Magga fyrir því áfalli að falla niður stiga heima hjá sér í Þórufellinu og náði hún aldrei heilsu eftir það. Frá þeim tíma dvaldi hún á hjartadeild Landspítalans, Landakotsspítala, Vífilsstöðum og undir það síðasta á hjúkrunarheimilinu Mörk þar sem hún andaðist þann 13. mars sl. Starfsfólki þessara stofnana er þakkaður hlýhugur og góðsemi í garð Möggu.
Elsku Gunni, Ragga, Dídí og fjölskyldur, ég votta ykkur innilega samúð mína.
Að lokum vil ég segja: Magga tengdó, takk fyrir allt og allt.









Ragna S. Óskarsdóttir.