Björn Hermannsson fæddist á Ysta-Mói í Fljótum í Skagafirði 16. júní 1928. Hann lést 13. mars 2018.
Foreldrar hans voru Hermann Jónsson, bóndi og hreppstjóri, f. 1891, d. 1974, og Elín Lárusdóttir húsfreyja, f. 1890, d. 1980. Systkini Björns voru: Halldóra, f. 1912, Lárus, f. 1914, Níels, f. 1915, Rannveig, f. 1916, Hrefna, f. 1918, Sæmundur, f. 1921, Haraldur, f. 1923, og Georg, f. 1925. Þau eru öll látin.
Björn kvæntist þann 5. júní 1952 Rögnu Þorleifsdóttur frá Hrísey, f. 3. apríl 1929, hjúkrunarkonu, sem lifir mann sinn. Foreldrar hennar voru Þorleifur Ágústsson, fiskmatsmaður, f. 1900, d. 1984, og Þóra Magnúsdóttir, húsfreyja, f. 1901, d. 1989.
Börn Björns og Rögnu: 1) Þorleifur, f. 1952, d. 2002, m. Hlín Brynjólfsdóttir, f. 1953. Börn: a) Ragna Hlín, f. 1977, m. Guðmundur Jörgensen, f. 1975, þau eiga þrjú börn. b) Kári Björn, f. 1987, m. Kolbrún Ýrr Ronaldsdóttir, f. 1987. 2) Þóra, f. 1955, m. Jón H.B. Snorrason, f. 1954. Börn: a) Berglind, f. 1978, m. Emil Árni Vilbergsson, f. 1976, þau eiga þrjú börn. b) Olga Hrönn, f. 1984, s. Steindór Ellertsson, f. 1985, þau eiga eitt barn. c) Elín Helga, f. 1990, s. Arnar Björgvinsson, f. 1987. 3) Gústaf Adolf, f. 1957, m. Guðrún Gunnarsdóttir, f. 1957. Börn: a) Kristín Brynja, f. 1983, hún á tvö börn. b) Gunnar Óli, f. 1989. c) Ragnar Freyr, f. 1992, s. Daníel Ingi Þórisson, f. 1984. 4) Hermann, f. 1963, m. Eiríka Guðrún Ásgrímsdóttir, f. 1962. Börn: a) Björn Orri, f. 1989, b) Ásgrímur, f. 1992, s. Hrafnhildur Birta Valdimarsdóttir, f. 1998. c) Hjörtur, f. 1995, s. Bera Tryggvadóttir, f. 1997. 5) Jónas, f. 1967, m. María Markúsdóttir, f. 1974. Börn: a) Björn Ísfeld, f. 2004. b) Bryndís Huld, f. 2008. Fyrir átti Jónas tvær dætur: a) Veronika Kristín, f. 1990. b) Hekla, f. 1995. Fyrir átti Björn soninn Lárus Má, f. 1952, d. 2014. Barn: a) Kári Fannar, f. 1980, m. Eva Björk Heiðarsdóttir, f. 1983, þau eiga tvö börn.
Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1955. Björn tók virkan þátt í félagsmálum og var í stjórn Stúdentafélags Akureyrar og á háskólaárum m.a. formaður Stúdentaráðs. Hann varð héraðsdómslögmaður 1957 og hæstaréttarlögmaður 1965. Björn var erindreki Framsóknarflokksins á Norðurlandi 1955-57. Árið 1957 hóf hann störf í fjármálaráðuneytinu, fyrst sem fulltrúi og síðar skrifstofustjóri, þar til hann var skipaður tollstjóri í Reykjavík frá 1973. Hann var jafnframt skipaður til að gegna starfi ríkistollstjóra frá 1987. Þeim embættum gegndi hann til starfsloka 1998. Hann var fulltrúi Íslands í Norrænu tollskrárnefndinni 1964-72 og formaður hennar 1967-68. Hann sat fundi Norræna tollasamvinnuráðsins og var formaður þess 1973 og 1980. Björn var fulltrúi Íslands í tollanefnd EFTA 1970-72. Hann var skipaður af ríkisstjórn í sáttanefnd í vinnudeilum 1975-76. Auk þess átti hann sæti í fjölda nefnda um rekstur ríkisfyrirtækja og um tollamálefni innanlands sem utan.
Útför Björns fer fram frá Háteigskirkju í dag, 27. mars 2018, kl. 13.

Það var í byrjun febrúar 1970 að undirritaður kom til starfa sem fulltrúi í Fjármálaráðuneytinu, nýútskrifaður úr HÍ. Þá var Magnús Jónsson frá Mel, sá farsæli og heilsteypti  stjórnmálamaður, fjármálaráðherra, og Jón Sigurðsson lögfræðingur, sá frábæri embættismaður, ráðuneytisstjóri.
Í brúnni sem skrifstofustjóri í tolladeild ráðuneytisins var Björn Hermannsson, lögfræðingur, ættaður úr Fljótum í Skagafirði, sonur þeirra mætu hjóna Hermanns Jónssonar, bónda og oddvita frá Ysta-Mói, og konu hans Elínar Lárusdóttur.
Eitt af aðalverkefnum mínum fyrstu árin var að vinna undir stjórn Björns í tolladeild ráðuneytisins. Björn var afar farsæll embættismaður, traustur, vandvirkur og gjörhugull og sanngjarn í öllum sínum störfum, svo ekki var að fundið. Þá var hann sjálfum sér samkvæmur í öllum embættisgjörðum og fastur fyrir ef á þurfti að halda, bæði inn á við og út á við. Það var því mikið lán og góður skóli fyrir ungan mann að fá að vinna undir stjórn Björns sem þá hafði unnið rúm 10 ár í ráðuneytinu við mjög góðan orðstír.
Ísland hafði hinn 1. janúar 1970 gerst aðildarríki að Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA, og var aðalverkefni tolladeildar ráðuneytisins, í samvinnu við Viðskiptaráðuneytið, þar sem Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri var við stjórnvölinn, með dyggri aðstoð Valgeirs Ársælssonar fulltrúa, að vinna að aðlögun innlends iðnaðar að fríverslun innan EFTA.
Þetta var að sjálfsögðu alger bylting í samkeppnisumhverfi íslensks iðnaðar og krafðist umbyltingar á íslensku tollskránni eftir skuldbindingu okkar um niðurfellingu verndartolla á innfluttum iðnvarningi í þrepum frá aðildarlöndum EFTA, samhliða niðurfellingu allra innflutningsgjalda á vélum og hráefnum til íslenskra iðnfyrirtækja til að mæta þeirri samkeppni sem af fríversluninni leiddi.
Þetta krafðist jafnframt umfangsmikils samstarfs við fjölda aðila, m.a. við Félag íslenskra iðnrekenda og umfangsmikils alþjóðlegs samstarfs, bæði innan EFTA en einnig við önnur Norðurlönd,  en þau, fyrir utan Finnland, voru stofnaðilar að EFTA ásamt Austurríki, Bretum, Portúgölum og Svisslendingum. Leitaði ráðuneytið sérstaklega eftir samstarfi við Dani og miðluðu kollegar okkar í danska fjármálaráðuneytinu okkur fúslega af þekkingu sinni og reynslu á þessu sviði.
Í raun voru þetta trúlega mestu kaflaskipti í atvinnusögu Íslendinga á 20. öld, eða frá heimskreppunni miklu, og í raun mun meiri tímamót en EES-samningurinn 1993.
Þetta risavaxna verkefni var af hálfu Fjármálaráðuneytisins undir stjórn Björns Hermannssonar og verður ekki annað sagt en að það hafi verið frábærlega af hendi leyst, sérstaklega ef litið er til þess hversu fámenn stjórnsýslan var á þessum árum, enda var oft unnið myrkranna á milli, oft  alla daga vikunnar.
Nokkrum árum síðar var aðildinni að EFTA síðan fylgt eftir með fríverslunarsamningi við Evrópusambandið, eða í mars 1973.
Hinn 1. janúar 1973 var Björn, að verðleikum, skipaður tollstjóri í Reykjavík, og síðar ríkistollstjóri, sem hann gegndi með heiðri og sóma, þar til hann lét af störfum árið 1997 eftir meira en 40 ára farsælan embættisferil, og sem ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hafi borið skugga á.
Í einkalífi var Björn mikill gæfumaður, enda kvæntist hann fágætri öndvegiskonu, Rögnu Þorleifsdóttur hjúkrunarfræðingi, og varð þeim fimm barna auðið. Ragna lifir mann sinn.
Íslendingar almennt gera sér trúlega oft ekki grein fyrir því hve embættismenn landsins vinna oft af mikilli trúmennsku og ósérhlífni við hin erfiðustu verkefni sem stærri þjóðir hafa her manns til að leysa af hendi. Ef til vill er það vegna þeirrar athygli sem stjórnmálamenn þjóðarinnar fá á hverjum tíma og jafnvel gera kröfu til, en hræddur er ég um að lítið yrði úr þeirra afrekum ef þeir ekki hefðu við að styðjast afburða fólk í Stjórnarráði og  stjórnsýslu landsins, sem í raun ræður miklu meira um framvindu góðra mála og framfara landsins alls heldur en oft á tíðum stjórnmálamennirnir vilja vera láta, hvaðan svo sem úr flokki þeir koma. En þetta hefur íslensk stjórnsýsla afrekað í 100 ár eða allt frá fullveldi Íslands 1918.
Mættu stjórnmálamenn gjarnan minna þjóðina oftar á að hún stendur í mikilli þakkarskuld við stjórnsýslu landsins, sem í raun ef tekið er tillit til allra aðstæðna, er í Meistaradeild Evrópu hvað gæði og heiðarleik snertir, svo notað sé orðfæri úr íþróttaheiminum.
Í þeirri sveit frábærra embættismanna mun nafn Björn Hermannssonar skína skært um ókomin ár.
Við fráfall Björns er efst í huga þakklæti fyrir þá mótandi leiðsögn sem hann veitti mér á yngri árum og fyrir samstarf okkar og vináttu sem aldrei bar skugga á.
Við Ásthildur sendum Rögnu og afkomendum öllum innilegar samúðarkveðjur.




Þorsteinn Ólafsson.