Halldóra Maggý Hartmannsdóttir fæddist í Ólafsfirði 4. mars 1931. Hún lést í Reykjavík 21. mars 2018.
Foreldrar Halldóru voru hjónin María Anna Magnúsdóttir húsmóðir, f. 17.11. 1909, d. 5.4. 1999, og Hartmann Pálsson sundkennari og síldarmatsmaður, f. 5.1. 1908, d. 5.7. 1983. Systkini Halldóru eru Kristín María, f. 3.12. 1929, Ásta Margrét, f. 23.4. 1933, d. 24.12. 2007, Guðrún Elín, f. 10.12. 1935, Adda Sigurlína, f. 13.1. 1937, d. 2.1. 2008, Erna Sigurbjörg, f. 6.7. 1939, Ásdís, f. 9.1. 1945, og Haukur, f. 5.5. 1946, d. 16.5. 1946.
Árið 1954 giftist Halldóra Gunnlaugi Sigursveinssyni sjómanni frá Ólafsfirði, f. 22.12. 1929, d. 22.11. 1967. Foreldrar hans voru Gunnhildur Gunnlaugsdóttir húsmóðir, f. 10.5. 1902, d. 16.7. 1972, og Sigursveinn Árnason sjómaður, f. 8.8. 1903, d. 13.10. 1980.
Dætur Halldóru og Gunnlaugs eru: 1) Gunnhildur, f. 20.1. 1954, börn hennar eru: a) Pedro Gunnlaugur Garcia, í sambúð með Drífu Guðmundsdóttur, þeirra sonur er Rafael Dýri. b) Henrik Geir Garcia, í sambúð með Andreu Katrínu Guðmundsdóttur, þeirra dætur eru Ísabella Guðrún og Sunneva Ósk. 2). Bryndís, f. 17.8. 1958, eiginmaður hennar er Friðrik Svanur Kárason, f. 6.5. 1959, börn þeirra eru: a) Kolbrún Tara Friðriksdóttir í sambúð með Sigurði Sveinssyni, þeirra sonur er Ýmir Andri, fyrir átti hún soninn Svan Þór Heiðarsson. b) Sigursveinn Árni Friðriksson. 3). Harpa María, f. 11.12. 1961, börn hennar eru: a) Aron Freyr Leifsson, í sambúð með Eddu Doris, þeirra synir eru Hafþór Adam og Einar Kristinn. b) María Ýr Leifsdóttir.
Halldóra fór í húsmæðraskólann á Laugalandi og seinna meir sótti hún ýmis námskeið. Árið 1967 bjargaðist Gunnlaugur úr sjávarháska ásamt allri skipsáhöfninni á Stíganda Óf 25, en rúmum tveimur mánuðum síðar fórst hann í bílslysi. Fimm árum eftir fráfall Gunnlaugs flutti hún til Reykjavíkur með dætur sínar og bjó þar alla tíð. Eftir að Halldóra flutti suður vann hún meðal annars á saumastofu og á hjúkrunarheimili fyrir aldraða þar til hún lauk sínum starfsferli, þá 67 ára gömul. Halldóra bjó á heimili sínu þar til seint á síðasta ári, þegar hún mjaðmabrotnaði og náði sér ekki eftir það.
Útför Halldóru fór fram í Fossvogskirkju 6. apríl 2018 í kyrrþey, að ósk hinnar látnu.
ég er ekki þar, ég sef ekki.
Ég er þúsund vindar sem blása,
ég er glitrandi demantur á snjó,
ég er sólskinið á þroskuðu korni,
ég er haustregnið.
Þegar þú vaknar í morgunkyrrðinni
er ég hinn frái þytur hljóðlátra fugla
á ferli sem lauk þar sem hann hófst,
ég er dauft stjörnuskin næturinnar.
Standið ekki við gröf mína og grátið,
ég er ekki þar, ég dó ekki,
ég lifi áfram einhversstaðar,
ég lifi í hjörtum ykkar allra.
(Þýtt af sr. Halldóri Reynissyni.)
Með miklum söknuði í hjarta kveðjum við mömmu, klettinn í lífi okkar. Mömmu sem var alltaf svo ljúf og góð og bar hag allra fyrir brjósti. Það sem einkenndi hana var umburðarlyndi og umhyggja fyrir öllum og hún var alltaf til staðar fyrir afkomendur sína. Hún tók ávallt öllu með jafnaðargeði.
Ung að árum hitti hún Gulla sinn og þau gengu í hjónaband á gamlársdag 1954. Árið 1967 voru þau að koma sér upp nýju húsi, ásamt dætrunum sem voru orðnar þrjár og framtíðin blasti við ungu hjónunum. Engan gat grunað að það ár yrði pabbi tekinn frá okkur mæðgum. Í ágúst sama ár bjargaðist pabbi ásamt allri skipshöfn Stíganda ÓF 25 úr sjávarháska. Þeir voru týndir á hafi úti í fimm sólarhringa. Það var glatt á hjalla í Ólafsfirði þegar áhöfnin kom heilu að höldnu til hafnar 1. september. Sama kvöld sagði pabbi blaðamanni að vistin um borð í gúmbátnum hafi verið ágæt, en kuldinn hafi verið það versta. Aðeins tveimur mánuðum síðar, eða 22. nóvember lést hann í bílslysi á leiðinni frá Reykjavík til Ólafsfjarðar, aðeins 37 ára gamall. Það voru þung sporin fyrir mömmu þegar hún kallaði á okkur systur til að segja að nú yrði hún að vera bæði mamma okkar og pabbi. Þá stóð hún ein uppi með okkur þrjár, Gunnhildi 13 ára, Bryndísi 9 ára og Hörpu Maríu 5 ára. Mikið áfall var það fyrir hana en hún bar harm sinn í hljóði. En mamma átti góða að. Foreldrar hennar María og Hartmann og tengdaforeldrar hennar Gunnhildur og Sigursveinn veittu henni ómældan stuðning, ásamt systrum hennar, þeim Kristínu, Ástu, Guðrúnu, Öddu, Ernu og Ásdísi. Til gamans má geta þess að þær systur þóttu svo glæsilegar að þær voru kallaðar sjöstirnið.
Mamma bjó með okkur systur í Ólafsfirði í fimm ár eftir andlát pabba, en þá fluttum við til Reykjavíkur, í Álftamýri 36. Foreldrar hennar og systur voru þá öll flutt frá Ólafsfirði. Hún talaði oft um að hún hefði viljað mennta sig, en ekki haft tök á því. Hún var fróðleiksfús, vel lesin og sótti ýmis námskeið sér til ánægju. Þegar hún fór í háttinn fór hún ævinlega með bók til að líta í fyrir svefninn, krossgátu eða aðra hugarleikfimi. Mamma vildi aldrei að við hefðum áhyggjur af henni þegar hún fór eitthvað út, því setti hún alltaf miða á kommóðuna í ganginum um það hvert hún fór og hvenær hún kæmi aftur. Við hlógum oft að þessu, en þetta litla atriði lýsir umhyggjusemi hennar
Hún hafði mjög gaman af því að ferðast til annarra landa, en þrátt fyrir að þær ferðir væru ekki margar, þá naut hún þeirra sem hún fór í og þótti henni gaman að sýna okkur myndirnar sem hún tók á ferðum sínum, enda hafði hún gott auga fyrir fegurð. Ávallt þegar einhver afkomandi hennar fór erlendis, dró hún upp landabréfabókina til að vera með það á hreinu hvar í heiminum viðkomandi væri staddur og hvað um væri að vera í því landi. Mamma var mjög listræn líkt og hennar móðurfólk, allt sem hún tók sér fyrir hendur lék í höndunum á henni. Hún var endalaust að sauma á okkur ný föt og prjóna. Það var ekki nóg að við fengjum föt heldur fengu uppáhalds dúkkurnar okkar líka eins. Jafnvel þegar við vorum að vinna á sumrin úti á landi, fengum við sendan pakka með fötum sem hún hafði saumað á okkur. Hún var vandvirk og hafði einstaklega fallega rithönd svo talað var um.
Þar sem er hjartapláss þar er húspláss, en þau orð eiga vel við Álftamýrina sem var miðpunktur í lífi okkar. Vinkonur okkar voru alltaf velkomnar þangað og skipti þá engu máli hvort um heimsókn var að ræða eða næturgistingu fyrir fleiri en eina vinkonu. Aldrei fundum við fyrir því að íbúðin var ekki stór. Þetta var bara ekkert mál. Mamma var svo jákvæð fyrir því sem við tókum okkur fyrir hendur. Mamma vann mikið og sá til þess að okkur skorti aldrei neitt. Hún var réttsýn og raunsæ og aldrei heyrðum við hana kvarta. Hún sagði aldrei neitt slæmt um nokkra manneskju og talaði hún vel um þá sem höfðu á einhvern hátt aðstoðað hana í lífinu og þá sérstaklega eftir að pabbi lést. Þau nöfn fengum við oft að heyra. Já, heimurinn væri svo sannarlega betri ef það væru fleiri eins og hún.
Eftir að barnabörnin, augasteinar hennar, þau Pedro Gunnlaugur, Henrik Geir, Kolbrún Tara, Aron Freyr, Sigursveinn Árni og María Ýr, bættust í hópinn var sama upp á teningnum. Hún hafði endalausa þolinmæði gagnvart þeim og allt sem þau gerðu og gáfu henni geymdi amma. Hún átti skúffur fullar af sögum og teikningum sem þau höfðu gefið henni, allt frá nokkrum strikum á blaði yfir í fallegar myndir. Allt voru þetta listaverk í hennar augum. Það var oft glatt á hjalla þegar við systur og okkar fjölskyldur komum saman í Álftamýrinni. Þá var stofuborðið oft dregið til hliðar og farið í ýmsa leiki og þrautir og þá naut mamma sín. Henni leið aldrei eins vel og þegar hún fékk hópinn sinn í heimsókn. Enda voru barnabörnin hennar ávallt dugleg að heimsækja hana. Þegar hún lauk sínum starfsferli árið 1998, þá 67 ára gömul, gat hún varið meiri tíma með fjölskyldu sinni. Og nú eru barnabarnabörnin, sem henni þótti svo vænt um orðin sex talsins. Á 87 ára afmæli hennar, örfáum dögum áður en hún lést, áttum við öll yndislega stund með mömmu. Ekki grunaði okkur þá að þetta væri síðasta stund hennar með allri fjölskyldu sinni. Þær eru ómetanlegar minningarnar og myndirnar sem við eigum frá þeim degi. Mamma var glæsileg kona og bar sig vel, með sitt svarta hár fram á síðasta dag. Í Álftamýrinni bjó hún alla tíð. Við erum þakklátar fyrir hve lengi við fengum að njóta samvista við hana og fyrir allt sem hún gerði fyrir afkomendur sína. Nú er tómlegt í Álftamýrinni.
Við vitum að pabbi hefur tekið vel á móti henni þegar hann hitti hana loksins eftir 51 árs aðskilnað.
Blessuð sé minning þín, elsku mamma.
Gunnhildur, Bryndís og Harpa María Gunnlaugsdætur.