Fjóla Ólafsdóttir fæddist að Kleifum í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi 10. júní 1922. Hún lést 10. apríl 2018.
Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Hálfdánarson, f. 4.8. 1891, d. 1973, og María Rögnvaldsdóttir, f. 13.1. 1891, d. 1989. Fjóla átti 14 systkini: Ósk, f. 1916, d. 2010, Guðrún, f. 1917, d. 2009, tvíburarnir Karítas, f. 1919, d. 1919, og Einar, f. 1919, d. 2010, tvíburarnir Kristín, f. 1920, d. 2009, og Rögnvaldur, f. 1920, d. 1964, Lilja tvíburasystir Fjólu, f. 1922, d. 2009, Jónatan, f. 1925, tvíburarnir Helga Svana, f. 1926, og Hálfdán, f. 1926, d. 1999, tvíburarnir Halldóra, f. 1928, d. 2013, og Haukur, f. 1928, d. 2014, tvíburarnir Ólafur Daði, f. 1932, d. 1992, og María, f. 1932, d. 2018, fósturbróðir þeirra var Ármann Leifsson, f. 1937, d. 2006.
Fjóla og Pétur Jónsson, f. 1921, d. 1995, sonur Elísabetar Bjarnadóttur og Jóns Guðna Jónssonar, gengu í hjónaband á jóladag 1943 og hófu búskap í Bolungarvík. Þaðan lá leið þeirra að Breiðabóli í Skálavík, svo í Þjóðólfstungu, þá Meiri-Hlíð, svo í Bolungarvík og að lokum til Þorlákshafnar.
Fjóla og Pétur eignuðust börnin: 1) Friðgerði, f. 1943, maki Magnús Þ. Snorrason, þau eiga fimm börn, 14 barnabörn og sex barnabarnabörn, 2) Jón Guðna, f. 1947, maki Ester Hallgrímsdóttir, þau eiga fjögur börn, 13 barnabörn og níu barnabarnabörn, 3) Ólaf, f. 1947, maki Kristrún Ástvaldsdóttir, þau eiga þrjá syni, 4) Sigurð, f. 1948, sambýliskona Anna Manikutdlak, hann á fimm börn og fjögur barnabörn, 5) Elísabetu Maríu, f. 1949, maki Jakob H.S. Ragnarsson, þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn, 6) Fjólu, f. 1957, maki Arnulf Eriksen, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn.
Fjóla verður jarðsungin frá Þorlákskirkju í dag, 21. apríl 2018, klukkan 14.
Ég lá og lét mig dreyma þar til hún var búin að fylla þær fötur sem hún gat borið og var á niðurleið. Þá bauðst ég skömmustuleg til að hjálpa henni að bera og rúllaði svo niður hlíðina á eftir henni. Ekki skánaði það þegar kom að því að hreinsa; ég hreinsaði eitt ber, borðaði eitt og kramdi eitt. Ömmu blöskraði nú stundum vinnubrögðin svo ég var þá send yfir að á eftir vatni á meðan amma hreinsaði berin af einskærri vandvirkni. Ég trúi ekki að það hafi nokkur maður fundið ber í þessu fjalli þegar hún var búin að tína nóg.
Svona flugu dagarnir í Djúpinu amma vann en ég þvældist fyrir á milli þess sem ég hrökklaðist undan organdi kríunni svo amma hló að gunguskapnum. Mér þótti eðlilegt að hún gæti hlegið enda var það aldrei kollurinn á henni sem var hæsti punktur.
Kvöldin voru svo draumi líkust. Eftir kvöldmat var spilað. Amma átti aldrei orð yfir það hvað ég var rög að segja í kana og átti það til að hoppa yfir mig, vitandi sem var að ég myndi segja pass. En hún gat sko sagt. Alltaf. Fyrir henni var spilið varla byrjað fyrr en hún var búin að fara í svona mínus 100 stig áður en hún byrjaði svo að klifra upp eftir stigatöflunni.
Er hægt að hugsa sér mikið sælli bernskuminningar en síðsumars í Djúpinu hjá ömmu og afa? Meira að segja fatan sem okkur var sagt að pissa í á nóttunni er falleg þegar horft er til baka, þrátt fyrir að vera ryðfreknótt og hafa geymt þvag úr a.m.k. þremur kynslóðum.
Í seinni tíð, þegar amma hafði horft á eftir ástinni sinni einu í gröfina, tóku hlutirnir vissulega breytingum en amma var samt enn svo töff. Hún var enn svo orðheppin, hispurslaus og fyndin. Hún var enn upptekin af því að vera vel til fara og enn selskapsljón.
Einhverju sinni þegar amma kom í ferð vestur gisti hún hjá mér í nokkrar nætur. Hún kom almennt seinna heim en ég enda fölnaði félagslífið mitt í samanburði við hennar. Eitt kvöldið lá ég fyrir framan sjónvarpið og horfði á mynd þegar hún kom heim. Nei, ertu að horfa á þennan? Sagði hún og benti á Gregory Peck. Ég var nú alltaf svo skotin í honum. Ég hugsaði með mér að við amma værum greinilega með svipaðan smekk á karlmönnum og var þegar farin að glotta þegar hún sagði en hann var nú ekkert fyrir kerlingar þessi svo það þýðir ekkert að hugsa um það!
Í annarri heimsókn hennar vestur var verið að vígja Óshlíðargöngin. Það óð á henni þegar hún fór í fyrsta sinn í gegnum göngin og hún átti ekki nógu stórkostleg orð til að lýsa þeim svo hún skipti um gír og fór að lasta forsetann, með vel völdum orðaflaumi sem fáir gætu leikið eftir. Ég hló alltaf þegar amma lét út úr sér ófögur orð og þarna var engin undantekning á. Mikið var hún samt fljót að mýkjast á vígsluhátíðinni þegar forsetinn hafði bæði talað fallega um Bolungarvík og þakkað mér fyrir ræðuna sem ég flutti. Hún trítlaði aftan að honum þar sem hann stóð og talaði við mig, tók laust í ermina á honum og sagði ljómandi af gleði og gæsku ég er nú amma hennar, þú verður líka að þakka mér.
Amma var alltaf svo stolt af hópnum sínum og eins mikil eftirsjá og það er að henni og öllum þeim sögum sem aldrei verða sagðar þá skilur hún einmitt eftir sig stóran og dásamlegan hóp sem allur á sögur, minningar og þakkir.
Hvíldu í friði elsku amma mín. Í rúma tvo áratugi saknaðir þú hins helmingsins, hélst tryggð við hann og hugsaðir til endurfunda. Hverju sem hver trúir þegar kemur að almættinu og veröldinni þá held ég að við trúum öll að nú séuð þið aftur saman og við gleðjumst.
María Elísabet (Mæja Bet).