Stefán Jörgen Ágústsson fæddist í Reykjavík 24. mars 1977. Hann lést á heimili sínu 8. apríl 2018.
Foreldrar hans eru Þorgerður Nielsen f. 31. mars 1957 í Reykjavík, dóttir hjónanna Ragnheiðar Stefánsdóttur, f. 27. apríl 1930, og Ólafs Werner Nielsen, f. 14. apríl 1928, og Ágúst Böðvarsson f. 22. júní 1955 í Hafnarfirði, sonur hjónanna Rögnu Hjördísar Ágústsdóttur, f. 23. ágúst 1919, d. 22. júlí 1997, og Böðvars B. Sigurðssonar, f. 19. maí 1915, d. 22. júní 1996. Systkini Stefáns Jörgens eru: 1) Ragna Hjördís, f. 21. janúar 1983, maki: Guðjón Þór Sæmundsson, f. 20. maí 1983, börn: Ágúst Bent f. 25. febrúar 2007, Davíð Smári, f. 25. apríl 2008, Lilja Marie f. 11. ágúst 2010, Árni Stefán, f. 27. mars 2016. 2) Ólafur Böðvar, f. 14. mars 1984, maki: Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 20. janúar 1989, börn: Daníel Myrkvi, f. 1. febrúar 2008, Matthías Werner, f. 17. mars 2010. 3) Óskar Logi, f. 15. ágúst 1994 unnusta: Isabelle Bailey, f. 3. ágúst 1998. Stefán Jörgen vann við tæknibrelluförðun. Hann stundaði hönnunarnám við Iðnskólann í Hafnarfirði árin 1993-1995. Þá lærði hann og starfaði undir handleiðslu förðunarlistamannsins og Óskarsverðlaunahafans Dick Smith og lauk prófi frá bréfaskóla hans árið 1995. Stefán var að miklu leyti sjálfmenntaður en sótti og kenndi ótal námskeið í listinni hér heima. Þá sótti hann einnig námskeið og sýningar í Englandi, þar lærði hann m.a. hárkollugerð, hárvinnu og hárgötun sem hann þróaði áfram. Stefán vann í Pinewood Studios árið 2009 við myndina The Wolfman í hárvinnuhópi Rick Baker, sem fékk Óskarinn 2010 fyrir besta árangur í förðun í sömu mynd. Sögusafnið prýða verk Stefáns að stórum hluta, hann vann á byrjunarstigi safnsins í Garðabæ árin 2001-2003, þar kenndi hann þeim sem þar unnu vinnu með hár, hárgötun, mótavinnu, afsteypugerð o.fl. Skrifarinn í Sögusafninu er afsteypa af andliti Stefáns. Hann hannaði og gerði handbrúðurnar Búbbana fyrir Stöð 2 árið 2006. Einnig er hann frumhönnuður Glanna glæps í þáttunum um Latabæ árið 2003 og árið 1999 hannaði hann, leikföng, sparibauka og handbrúður fyrir Latabæ. Hann starfaði hér og erlendis fyrir lítið þekkta, landsþekkta sem heimsfræga leikara, leikstjóra og listamenn. Kvikmyndir: It Hatched 2017. Austur 2014. Eddan, tilnefning fyrir gervi ársins 2012 í Algjör Sveppi og töfraskápurinn. Algjör Sveppi 2014-2009. Eddan 2011 fyrir gervi ársins í The Good Heart. Djúpið 2011. The Wolfman 2009. Reykjavík Rotterdam 2008. Köld slóð, Mýrin, Flags of Our Fathers, Letters from Iwo Jima, The Last Winter 2006. A Little Trip to Heaven 2005. Myrkrahöfðinginn 1997. Sjónvarp: Búbbarnir 2006. Leikhús: Sindri silfurfiskur 2009. Gosi 2007. Söfn: Stefán var við vinnu og kennslu á verkstæði Sögusafnsins 2001-2003 í kynningarmyndbandi safnsins. Stefán vann við á þriðja tug kvikmynda frá 1990-2017 einnig vann hann fyrir leikhús, söfn, sjónvarp o.m.fl.
Útför Stefáns fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 26. apríl 2018, klukkan 15.
Með nærveru þinni, einlægni og töfrum gladdir þú alla í umhverfinu. Þú varst slíkur töframaður að þú fékkst mestu fýlupúkana á svæðinu til að brosa. Þú hræddir líftóruna úr fjölda manns með mögnuðu verkunum þínum og þú munt halda því áfram um ókomna tíð. Verkin þín, hvort sem þau eru í sjónvarpi, leikhúsi, auglýsingum, kvikmyndum, á safni eða heima hjá heppnum aðdáendum, munu lifa áfram.
Þú varst mikil tilfinningavera og tjáðir þig á annan hátt en með orðum. Ég gleymi því aldrei þegar við höfðum nýlega kynnst þá bræddir þú til farsímahulstur og útbjóst fiðrildi sem flögraði ofan á stalli, þetta var ein sú fallegasta gjöf sem ég hef fengið. Allt sem þú snertir varð að gimsteinum.
Ég var þvílíkt heppin að hafa fengið að kynnast þér Stefán og brallað alls konar. Góðar stundir í Hjallabrekkunni með ömmu þinni og afa, skemmtilegar heimsóknir á Álftanesið til foreldra þinna og systkina og í Jóruselið til mömmu og pabba þar sem mamma sprakk bókstaflega úr hlátri við að hlusta á brandarana þína. Alls konar boð hjá fjölskyldum og vinum okkar beggja og síðast en ekki síst stundirnar þegar við vorum ein saman að dunda heima.
Ég geymi í huganum minningar um ófáar ferðir í Góða hirðinn, við vorum eins og krummar í leit að gulli og þú kræfari en ég. Við vorum alltaf sammála um að þeir hlutir sem við völdum væru mestu gersemarnar af öllum og gengum alltaf glaðhlakkaleg út úr búðinni. Hugulsamur starfsmaður gerði það að vana að taka frá hluti sérstaklega handa okkur og það gladdi okkur mikið. Anatómíubækur voru í uppáhaldi hjá þér og grasafræðibækur hjá mér.
Þú safnaðir að þér verkfærum en fallegustu og frumlegustu verkfærin bjóstu til sjálfur. Þú þekktir hvern krók og kima þegar kom að úrvali í búðunum. Ég gleymi því ekki þegar við kíktum á heildsala sem seldi alls konar tannlæknadót og þú spurðir starfsfólkið spjörunum úr um alls konar sérhæfðar vörur. Hann var stundum skrítinn svipurinn á fólki, það hefur eflaust verið að velta því fyrir sér hvað þú vildir eiginlega gera við þessar tannlæknagræjur þar sem þú værir ekki tannlæknir.
Við heimsóttum ófáar sérvöruverslanir og þú þekktir alla sérvitru heildsalana í bænum, vissir alltaf hvar þú fengir besta verðið fyrir sílikon, gips og margt fleira. Þér fannst gaman að spjalla við heildsalana, þeir voru góðir kunningjar þínir og þið skeggrædduð um efnisnotkun, ég hlustaði og hafði gagn og gaman af.
Ég varð upp með mér þegar þú bauðst mér að hjálpa þér í vinnunni en ég kunni ekki neitt miðað við þig, var fín að teikna og ágæt í almennri grunntækni en kunni ekkert á mótagerð eða afsteypur. Þú varst mér innan handar ásamt Óla bróður þínum og Óskari bróður mínum þegar ég vann að lokaverkefninu í LHÍ og ég gleymi því seint. Ég minnist þín því líka í verkunum mínum og ég hugsa sérstaklega til þín þegar ég skapa karaktera en persónusköpun var þín sterka hlið, ein sterk hlið af svo mörgum.
Ég fylltist lotningu við að fylgjast með þér vinna, fagmennskan og ástríðan fyrir starfinu var svo mikil. Var oft orðlaus yfir útkomunni hjá þér, ef það var ekki rabbarbarasvampbrúða með fýlusvip þá voru það brunasár, litlir olíuleirskúlptúrar alsettir fínlegum smáatriðum, magnaðar skissur og anatómíustúdíur, öldrunargervi, afmynduð andlit eða brjóst, frosið mannslík eða hjarta sem þú pumpaðir blóði í gegnum, já og það með mekanisma sem þú fannst upp sjálfur. Undanfarin ár varstu orðinn afar fær í að skapa stafræna þrívíddarskúlptúra. Vinnuferlið við verkin þín var oft langt og margt að huga að, svigrúmið lítið því tímaramminn var jafnan þröngur og þurftir þú því að hafa hraðar hendur. Þú hafðir mikla færni og hæfileika og fannst alltaf leiðir til að leysa fjölbreytt verkefnin sem oft voru krefjandi.
Þú varst örlátur við alla, svaraðir ófáum símtölum frá öðrum listamönnum og ókunnugum sem báðu um tæknileg ráð. Þú svaraðir alltaf vinalega og hjálpaðir fólki, kenndir því án þess að fá nokkuð í staðinn nema vinahót. Það gladdi þig að geta hjálpað öðrum. Þú varst nefnilega laus við prjál og yfirborðsmennsku, komst fram við alla sem jafningja. Við áttum auðvelt með að rökræða um myndlist en við vorum reyndar gjarnan sammála um það hvað gat talist góð list og hvað ekki. Ég mat hrós frá þér umfram hrós annarra því þú varst hreinskilinn og ég bar mikla virðingu fyrir þér og vinnunni þinni.
Tónlistarsmekkurinn þinn var jafn hressandi og hann var fjölbreyttur. Þú söngst gjarnan með lögum og tókst Bee Gees-röddina reglulega, hreifst mann með í galsann. Lagið Úlpan með Fóstbræðrum fær mig enn til að hlæja því í huganum syngur þú það skælbrosandi í grænu úlpunni þinni.
Ég skynjaði reglulega hversu þakklátur þú varst fyrir að hafa átt kjarngóða æsku, enda umvafinn góðu fólki sem bar virðingu fyrir skoðunum þínum og þú ávallt hvattur til að sinna hugðarefnum þínum. Hreinskilni og húmor einkennir fjölskylduna þína svo það var oft glatt á hjalla þegar safnast var saman.
Þolinmæði og þrautseigja, næmni og innlifun, einlægni og ljúfmennska, dugnaður og þrjóska, miklar gáfur og færni, heilmikið stolt og ríkt ímyndunarafl með dassi eða réttara sagt hlassi af húmor einkenndi þig Stefán. Þú fylltir herbergi þegar þú gekkst inn í þau, fallegt brosið á myndarlegu andlitinu og höfuðið fullt af æðisgengnum hugmyndum. Gáfulegt augnaráðið leyndi sér aldrei og kankvís hláturinn, það hlær enginn eins og Stefán hugsaði ég alltaf og hugsa enn.
Elsku vinur, það er sárt að kveðja, takk fyrir ástina og góðu stundirnar. Þú býrð í hjarta mér alltaf og ég held áfram að hugsa til þín. Við sjáumst aftur, það er ég alveg viss um. Það býr í mér rík von að þér líði betur þar sem þú ert núna. Ég varðveiti minningarnar okkar um ókomna tíð. Þín
Sigurrós.