Þorsteinn Þorvaldsson, Steini, fæddist á Akranesi 30. júní 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 2. apríl 2018.

Foreldrar hans voru Þorvaldur Ólafsson, f. 14. september, d. 16. maí 1944, og Sigríður Eiríksdóttir, f. 22. nóvember 1883, d. 28. maí 1934. Þorsteinn var yngstur 10 systkina: Valdís (hálfsystir), Ólafía, Tómas, Sigurður, Málfríður, Margrét, Eiríkur, Teitur og Ólafur. Þau eru öll látin.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Elín Hanna Hannesdóttir, f. á Akranesi 9. október 1927. Foreldrar hennar voru Hannes Júlíus Guðmundsson og Herdís Ólafsdóttir á Dvergasteini. Kjörsonur Þorsteins og Elínar er Hannes Þorsteinsson, f. 17. júlí 1952, kvæntur Þórdísi Guðrúnu Arthursdóttur, þau skildu. Synir þeirra eru Þorsteinn, f. 1978, börn hans eru Grétar Júlíus og Frosti, sambýliskona Inga Henriksen, hún á þrjú börn, og Bjarni Þór, f. 1981, börn hans eru Elín Þóra og Urður Elísa, eiginkona Helga Björk Jósefsdóttir, hún á einn son.

Þorsteinn kvæntist 7. desember 1946 og hjónabandið varði til dauðadags, í tæp 72 ár.

Þorsteinn bjó á Akranesi allan sinn aldur, Þau hjón bjuggu lengst af á Vesturgötu 139, sem þau byggðu (1953-1971) og á Hjarðarholti 11 (frá 1984).

Hann vann fyrst sem verkamaður og sjómaður en lengst af sem vélamaður í frystihúsum Fiskivers, Heimaskaga og HB&Co. Hann tók Hið minna mótornámskeið Fiskifélags Íslands 1944 og Hið meira mótornámskeið FI 1945-46 og öðlaðist vélstjóraréttindi.

Hann gegndi um langa hríð starfi fréttamyndatökumanns í árdaga Sjónvarpsins (1967-1993) og hann hélt fjölda ljósmyndanámskeiða fyrir unglinga.

Auk myndatöku átti Þorsteinn ýmis áhugamál. Hann var í slökkviliðinu, var formaður Véladeildar VLFA í nokkur ár, vann að slysavarnamálum sjómanna á yngri árum. Hann var einn stofnenda Golfklúbbs Akraness, síðar Leynis, og formaður frá 1967-1981, heiðursfélagi frá 1985. Heiðursfélagi ÍA frá 2006.

Þorsteinn gerðist snemma félagi í Oddfellowstúkunni Agli og var til dauðadags. Kona hans var einnig félagi í stúkunni Ásgerði frá stofnun og er enn.

Við starfslok tók Þorsteinn upp líkamsrækt og stundaði göngur og hjólreiðar svo eftir var tekið. Hann hljóp hálfmaraþon og götuhlaup fram til áttræðs. Hann bjó að einstaklega góðri heilsu vel fram yfir nírætt.

Útför Þorsteins fór fram í kyrrþey að ósk hans sjálfs, frá Akraneskirkju 11. apríl 2018.

Það er hverju barni mikilvægt að eiga öruggt og traust heimili, foreldra sem skapa því hugarró.  Þannig voru Þorsteinn og Elín þegar ég nýfæddur var settur í þeirra hendur.  Kletturinn minn, hann pabbi var fastur fyrir, traustur og öruggur.  Verndandi. Ljúfur, samt ákveðinn og um fram allt skilningsríkur á þarfir og eðli litla sonarins. Mamma full af væntumþykju og kærleika.

Þorsteinn hafði ekki búið við jafn gott atlæti í æsku.  Missti móður sína 10 ára og föður sinn tvítugur.  Hann ólst upp í stórum systkinahópi sem byggði upp húsið á horni Bragagötu og Freyjugötu, nú Akurgerði 4.  Hann fór ungur að vinna, fór á sjóinn, í vist hjá systur sinn, henni Lóu, á Neðra-Hálsi í Kjós, vann í hermannaeldhúsi í Hvalfirði á stríðsárunum og lærði þá ágæta ensku. Hann lærði vélstjórn í lok stríðsins og fór aftur á sjóinn.

Svo kynntist hann Ellu, stelpu úr næsta húsi, Dvergasteini.  Þau giftust á Aðventunni 1946 og hófu búskap sem stóð samfleitt í um 72 ár, alla tíð á Akranesi.  Þeim gekk ekki að eignast barn saman svo ég var svo heppinn að finna þau sem biðu óþreyjufull og tilbúin, full væntumþykju eftir að finna kjörbarn. Það var 1952.  Saman fluttum við ári síðar í nýja húsið okkar sem var í byggingu í Mýrinni, Vesturgata 139.  Þar ólst ég upp og varð að ungum manni.

Pabbi vann þá við vélstjórn í Fiskiveri, neðst á Skipaskaga.  Ég fékk snemma að vera með honum í vinnunni, leika mér undir vökulum augum hans en samt frjáls til að prófa og uppgötva.  Þarna skapaði pabbi mér tækifæri til að verða hugfangin af náttútunni, fjörunni og sjónum.  Mínar bestu bernskuminningar eru frá þessum tímum.  Heima í Mýrinni varð Kampurinn o fjaran og klettarnir með sínum óteljandi sílapollum að leikvangi æsku minnar.  Ég fékk rými til að upplifa, prófa, meiða mig smá og læra af því og lesa náttúruna.  Ómetanleg reynsla fyrir strák.

Ég minnist fyrstu launuðu vinnunar sem ég fékk.  Pabbi kom einn daginn heim með forláta vasahníf, þessi með brúna tréskaftinu.  Hann gaf mér hnífinn og sagði mér að fara til Sigga Hall og biðja um vinnu. Ég var held ég 9 ára.  Ég tölti niður á Kamp og spurði Dúdda hvort ég gæti fengið vinnu, og sýndi honum stoltur nýja hnífinn. Ég var ráðinn á staðnum.  Klifraði svo upp á risaháan stafla af þurri skreið og sat þar það sem eftir var vinnudagins og skar í sundur spyrðubönd og henti lausa fiskinum niður á gólf. Svona voru dagarnir út skreiðartíðina. Mín fyrsta vinna. Takk pabbi.

Pabbi kynntist golfíþróttinni fyrir tilviljun í Skotlandi 1956 í gegn um kunningja sem hann kynntist þar þegar hann kom þangað með bát í vélaskipti.  Hann var því áhugasamur þegar ákveðið var að stofna golfklúbb á Akranesi 1965.  Hann var einn stofnfélaga og ég fylgdi með, 13 ára, en var samt ekki skráður sem stofnfélagi, krakkinn.  Pabbi skapaði mér þar vettvang í íþrótt sem ég heillaðist af, á svo margan hátt.  Saman bjuggum við golfvöllinn til og héldum honum við með slætti og lærðum smám saman það nauðsynlegasta um golfvelli almennt.  Pabbi lét gamla Farmalinn snúast og flatarsláttuvélina, og ég sat á Farmalnum og hékk í flatarvélinni.  Pabbi varð formaður á 3. ári klúbbsins og var það í 13 ár samfleytt.

Pabbi hvatti mig áfram í námi. Sjálfur hafði hann bara skyldunám, auk mótornámskeiðanna sem hann tók 1944-46.  Eftir Landspróf fór ég í MH og varð stúdent. Hann studdi mig alltaf í mínum ákvörðunum og námsvali. Og borgaði brúsann. Eftir háskólanám settist ég að á Akranesi og þar hafði ég hann nálægan þegar fjölskyldan mín og konunnar óx úr grasi.

Pabbi var frábær afi fyrir syni mína tvo.  Ég var dæmigerður ungur faðir, vinnandi og tímalítill fyrir synina.  En afi var alltaf til staðar.  Þannig myndaði hann einstaklega góð tengsl við synina, var einskonar ofur-afi.  Þeir munu njóta tengslanna og upplifananna alla þeirra tíð.

Pabbi var sérlega heilsuhraustur og vel byggður og varð sjaldan misdægurt.  Hann og mamma höfðu hætt reykingum þegar ég var 12 ára, árið 1964.  Ég man aldrei eftir að hafa séð pabba og mömmu undir áhrifum áfengis, þótt þau lyftu glösum.  Betri fyrirmyndir gat ég ekki átt í þeim efnum.  Eftir starfslok 1994 tók pabbi að stunda reglulega líkamsrækt með slökkviliðsmönnum staðarins.  Upp úr því fór hann að hlaupa og ganga um holt og hæðir svo okkur mömmu þótti nóg um.  Hann hjólaði líka mikið.  Tók þátt í götuhlaupum á Akranesi og í Reykjavík, hálfmaraþon, 21,1 km í allnokkur skipti.  Svo hljóp hann undir Atlantshafið í gegnum Hvalfjarðargöng fyrir opnun þeirra 1998.  Það sama gerði hann í Færeyjum 2002, þá 78 ára.  Hann hljóp og hjólaði þar til sjónin fór að þverra og jafnvægið.  Þá var hann kominn hátt á níræðisaldur.

Pabbi hafði skapað sér orðspor fyrir heilbrigði og var sem slíkur partur af götumynd Akraness, gangandi eða á hjólinu sínu.  Þannig mun ég minnast hans, heilbrigðið uppmálað, hin fullkomna fyrirmynd.  Hann er líka í huga mínum hinn fullkomni uppalandi ungs forvitins drengs.  Hann studdi mig í öllu mínu lífi, í sólskini og stormum lífsins, allt til síðasta andartaks.  Það eru ekki nema tæpar 3 vikur síðan við ræddum saman um pólitík og dægurmál, eins og alltaf þegar ég kom til foreldra minna. Við hittumst 1-3 í viku síðustu árin.  Ég fór með pabba í skoðun á sjúkrahúsið vegna iðraverkja, en þaðan átti pabbi ekki afturkvæmt því alvarlegt vandamál uppgötvaðist og andaðist hann á öðrum í Páskum, þann 2. apríl.

Pabbi óskaði eftir útför í kyrrþey og bálför í kjölfarið.  Duftker hans mun hvíla í Akranes kirkjugarði.

Hannes Þorsteinsson.