Ingibjörg Árnadóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 26. september 1935 á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 6. maí 2018.Hún var dóttir Árna Kristins Hanssonar húsasmíðameistara, f. 5.12. 1907, d. 2006, og eiginkonu hans Helgu Tómasdóttur húsmóður, f. 24.9. 1908, d. 1990.

Systur Ingibjargar eru Björg Ragnheiður, f. 1931, gift Ármanni J. Lárussyni, sem er látinn, og Ragnheiður Dóróthea, f. 1. september 1939, d. 23. maí 2013. Ragnheiður var gift Braga Sigurjónssyni bifvélavirkjameistara.

Eiginmaður Ingibjargar var Jón Ólafsson, húsgagna- og innanhússarkitekt og kennari, f. í Reykjavík 29. apríl 1938, d. 6. desember 2016.

Börn og barnabörn Ingibjargar og Jóns eru: 1) Guðný Sif, f. 22. maí 1962. Maki Halldór Eyþórsson, f. 19. maí 1959. Sonur hennar og Áka Snorrasonar: Snorri Freyr, f. 1987. Maki Margrét Lilja Gunnarsdóttir, börn þeirra Ragnar Aage, f. 2009, og Adda Sif, f. 2011. Sonur Guðnýjar og Halldórs: Eyþór Jakob, f. 1994. 2) Tómas Árni, f. 28. nóvember 1963. Maki María Jónsdóttir, f. 7. nóvember 1962. Börn: Jón Arnar, f. 1990, og Ingibjörg, f. 1993. 3) Helga Aðalheiður, f. 24. desember 1968. Maki Guðmundur Vilhjálmsson, f. 2. september 1967. Börn: Ingibjörg Ásta, f. 1996, Laufey Sigríður, f. 1999, og Vilhjálmur, f. 2003.

Útför Ingibjargar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 15. maí 2018, kl. 13.

Elsku Ingibjörg.

Ekki grunaði okkur þegar við fórum í skíðaferð til Val di Fiemme í byrjun árs 2002 að þar myndum við hitta fyrir manneskju sem ætti eftir að verða jafn stór hluti af lífi okkar og raun bar vitni. Fyrsta kvöldið þegar við vorum settir á borð í kvöldverðarsalnum með tveimur öðrum einstaklingum, þér og Philip sem einnig var einn á ferð, vorum við ekkert allt of kátir. Því yfirleitt viljum við vera tveir útaf fyrir okkur á ferðalögum okkar um heiminn. Þessi ráðstöfun reyndist hins vegar vera mikil blessun, ekki bara fyrir okkur heldur einnig fyrir allt samferðafólk okkar. Fljótlega kom í ljós að þessi fjögurra manna hópur small einstaklega vel saman og það var mikið grínast og hlegið. Svo mjög að aðrir samferðamenn töluðu vart saman við kvöldverðinn en hlustuðu þeim mun meira á sögurnar og hlátrasköllin frá litla fjögurra manna borðinu. Þar varst þú í fararbroddi, mannblendin og glaðvær.
Þegar skíðaferðinni lauk héldum við góðu sambandi og úr varð vinátta, eins náin og vinátta getur orðið. þú varðst fljótlega okkar besti og kærasti sameiginlegi vinur.

Elsku vinkona, í gegnum árin eru tónleikarnir, ferðalögin, leikhúsferðirnar og matarboðin á báða bóga orðin óteljandi. Það var einstaklega gaman að sækja þig heim enda varstu framúrskarandi kokkur, gestrisin og glaðlynd. Á þeim kvöldum var yfirleitt alltaf fiskur á borðum og margt spjallað og mikið hlegið. Þú lifðir áhugaverðu lífi og hafðir starfað víða, bæði innanlands og erlendis og það var einstaklega gaman að heyra þig segja frá reynslu þinni og hlusta á sögur af þér og samferðafólki þínu. Þú hafðir einstaklega gott minni, mundir dagsetningar og atburði eins og þeir hefðu gerst í gær. Aldrei heyrðum við þig hallmæla neinni manneskju og þú reyndir alltaf að sjá það jákvæða í öllu því sem lífið bauð upp á hverju sinni. Þú sýndir okkar lífi og reynslu einnig mikinn áhuga og það var gaman að segja þér frá því sem á daga okkar dreif. Við gátum rætt um allt milli himins og jarðar. Þú fylgdist mjög vel með því sem var að gerast og varst vel lesin. Við ræddum um ferðalög, myndlist, leiklist, tónlist og auðvitað skeggræddum við þjóðmálin. Engu máli skipti hvort við vorum sammála eða ekki og ef við náðum ekki sameiginlegri lendingu þá hlógum við bara að þvermóðskunni og snérum okkur að næsta umræðuefni. Þú hafðir einstaklega skemmtilega kímnigáfu og varst fljót að átta þig á hvenær rætt var í alvöru og hvenær um spaug var að ræða og spilaðir með. Staðföst og alltaf réttlát. En við gátum einnig rætt saman á alvarlegri nótum og ef eitthvað bjátaði á varst þú ávalt boðin og búin til hjálpar. Sérstaklega ef um veikindi var að ræða því þú varst hjúkrunarfræðingur, af gamla skólanum, fram í fingurgóma.
Tvisvar sinnum fórum við saman til útlanda, fyrst til Zell am See á skíði og seinna til Kaupmannahafnar. Við eigum ljúfar minningar frá báðum þessum ferðum, sérstaklega frá dögunum í Kaupmannahöfn. Í þeirri ferð varst þú á heimavelli og það var dásamlegt að rölta með þér um borgina og hlusta á þig rifja upp kærar minningar frá því að þú bjóst og starfaðir þar.  Á kvöldin fengum við okkur síðan ekta danskan heimilismat á Københavner Cafeen eða smurt brauð á Café Sorgenfri.
Elskuleg,  í gegnum árin höfum við eignast margar dásamlegar minningar en einnig hefur þú fært okkur og sent marga skemmtilega og óvænta hluti. Gjarnan áttir þú það til að senda okkur póstkort eða bréf til að þakka fyrir samverustund sem við höfðum átt stuttu áður. Bréfin innihéldu þá gjarnan myndir sem þú hafðir tekið á þeim stundum og innilega kveðju til okkar sem þú hafðir skrifað með þinni einstaklega fallegu rithönd. Við vorum alltaf sannfærðir um að þegar kæmi að Nóbelsverðlaunum fyrir fallegustu rithöndina þá hefðir þú vinninginn. Þú hafðir gaman af því að skrifa og saman lögðum við grunninn að glæpasögu sem átti að gerast á skíðahótelinu í Val de Fiemme. þótt það hafi verið meira í gríni en alvöru er aldrei að vita nema að sagan komi á prent einn góðan veðurdag.
Ein gjöf sem þú færðir okkur er okkur sérstaklega hjartfólgin. Það eru tveir litlir handgerðir englar sem þú gafst okkur í tilefni jólanna fyrir nokkrum árum. Þessir englar hafa síðan þá, líkt og þú, skipað sérstakan sess í hjörtum okkar og jólahaldi. Síðastliðin sextán ár hefur þú verið hjá okkur í kvöldmat á öðrum degi jóla ef frá eru talin síðustu jól þegar þú dvaldir á sjúkrahúsi vegna veikinda. Það verða einmanaleg jól hjá okkur tveimur án þín en annar dagur jóla mun samt sem áður alltaf verða tileinkaður þér og við eigum englana tvo til að minna okkur á allar yndislegu samverustundirnar.
Elsku Ingibjörg, við vitum að fjölskyldan var þér allt í þessu lífi og missir hennar er mikill. Þú varst umhyggjusöm og stolt móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Sú ást og virðing sem ávallt kom fram til afkomenda þinna, foreldra, systra og tengdafólks í frásögn þinni var einstök.
Við vottum þeim Guðnýju Sif, Tómasi Árna, Helgu Aðalheiði og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Þeirra missir er mikill. Þér þökkum við af öllu hjarta dásamlega vináttu, einstaka umhyggju og skemmtilegar samverustundir í gegnum árin. Þú munt ávalt eiga þinn stað í hjörtum okkar elsku vinkona. Við söknum þín sárt.

Þínir vinir,


Steindór Kristinn Ívarsson og Jón Sigurðsson.