Sturla Þórðarson fæddist í Sauðanesi á Ásum í Torfalækjarhreppi 14. nóvember 1946. Hann lést 31. maí 2018.
Foreldrar hans voru Sveinbjörg Jóhannesdóttir frá Gaukstöðum í Garði og Þórður Pálsson kennari og bóndi í Sauðanesi. Systkini Sturlu eru Jóhannes Þórðarson múrari, kvæntur Herdísi Einarsdóttur, Sesselja Þórðardóttir aðstoðarskólastjóri, gift Ívari Þorsteinssyni, Páll Þórðarson bóndi, kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur, og Helga Þórðardóttir, bóndi og bókari, í sambúð með Margeiri Björnssyni.
Sturla var kvæntur Hildi Sigurgeirsdóttur, börn þeirra eru Snorri Sturluson tölvunarfræðingur sem er kvæntur Guðrúnu Birnu Finnsdóttur og þau eiga Sif Snorradóttur, Baldur Snorrason og Braga Snorrason og Auður Sturludóttir skrifstofumaður, sambýlismaður Benjamin Bohn, og börn þeirra eru Sunna Benjamínsdóttir Bohn, Óskar Benjamínsson Bohn og dóttir Bens og stjúpdóttir Auðar er Elísa Petra Benjamínsdóttir Bohn.
Seinni kona Sturlu er Unnur G. Kristjánsdóttir grunnskólakennari. Eldri dóttir Unnar og er María Birna Arnardóttir sem á dæturnar Ísafold F. Davíðsdóttur og Laufeyju Davíðsdóttur. María býr með Arnari Heimi Jónssyni. Sú yngri, Guðmunda Sirrý Arnardóttir, á soninn Christian Örn Funder Nielsen og sambýlismaður hennar er Kim Back.
Eftir barna- og unglinganám á Blönduósi lauk Sturla landsprófi og stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1965. Sturla nam tannlækningar við háskólann í Heidelberg í Þýskalandi 1967-1972. Sturla var aðstoðartannlæknir í Mannheim til 1974, flutti þá heim og gerðist tannlæknir á Blönduósi. Árið 2000 hóf Sturla störf á Tannlæknastofu Jóns Björns Sigtryggssonar í Keflavík og fór á eftirlaun haustið 2017. Sturla sat í hreppsnefnd Blönduóss 1978-86 og í bæjarstjórn Blönduóss 1994-2000. Sturla var í stjórnum ýmissa félaga s.s. Leikfélagi Blönduóss, Tannlæknafélags Norðurlands, Golfklúbbs Sandgerðis og var formaður Stangveiðifélags A-Hún.
Sturla lagði rækt við menntun og íslenskukunnáttu barna sinna og stjúpbarna enda snillingur í orðaleikjum og annarri orðsins list. Hann tók virkan þátt í áhugamálum og námi þeirra, s.s. tölvumálum, myndlist, ræktun og tækjadellu. Sturla tók fjölskylduna með í lax- og silungsveiði, bátsferðir og stóð fyrir fjölskyldusamkomum. Sturla hafði yndi af kveðskap og ljóðum, átti samfélag með hagyrðingum og var einnig góður ljósmyndari.
Útför Sturlu Þórðarsonar fór fram Fossvogskirkju 8. júní 2018.
Hann lék sér með orðin, bjó til úr þeim brandara, sneri þeim á hvolf, sneri út úr. Hann réð krossgátur, samdi vísur og ljóð og reyndi að skilja öll orð til hlítar. Hann hafði líka gaman af ólíkum tungumálum og átti auðvelt með að læra þau. Hann var alltaf að fara með einhverjar vísur eða orðaleiki og örva þannig ímyndunarafl allra sem á hlýddu. Þannig ólst ég upp við að velta fyrir mér orðum og njóta þeirra í fjölbreyttum myndum.
Pabbi kenndi mér líka svo margt annað. Hann gerði ekki mun á stelpum og strákum, leyfði okkur bara að vera eins og við vildum. Í hans huga máttu stelpur endilega ganga í öll störf og ég vildi gera allt eins og pabbi. Stundum setti ég rakfroðu á kinnarnar og skóf með borðhníf til að vera eins og hann. Hann sýndi mér grunnhandtökin í að saga spýtur og negla almennilega með hamri, hvernig nota skal hníf á réttan hátt og hvernig á að þekkja alls kyns tegundir af fuglum og trjám. Hann kenndi mér um veður og skýjafar og stýra seglbát og róa með árum. Hann kenndi mér líka á vélarnar í gömlu Benz-bílunum, nota tjakk og skipta um dekk. Hann fræddi mig meira að segja um ýmislegt um tennur, bein og önnur líffæri. Hann átti gamla höfuðkúpu sem honum hafði áskotnast þegar hann var í tannlæknanáminu. Svona eftir á að hyggja er það kannski ekki sjálfsagt að hafa alvöru hauskúpur sem stofustáss. En með henni útskýrði hann vel fyrir mér anatómíuna, sýndi mér hvar taugarnar liggja og hvernig kjálkavöðvarnir virka. Síðan hef ég hef bara tengt hauskúpur við notalega kennslustund í líffærafræði.
Þegar ég var krakki og unglingur var hann alltaf að útskýra. Auðvitað var hann oft upptekinn eins og pabbar voru gjarnan frekar en mömmur á þeim árum. En ég kunni alltaf að meta það þegar hann gaf sér tíma, því hann kunni svo margt sem mér fannst alveg ótrúlega spennandi. Til dæmis mun ég alltaf tengja jólin við lyktina af rjúpum. Ekki bara lyktina af rjúpunni í eldhúsinu á aðfangadag, heldur líka ilminn af rjúpunum sem hann kom með í kippum í Wagoneernum eftir veiðiferðirnar í Skagafjörðinn. Hann var alltaf í dökkri lopapeysu og grænum veiðijakka og lyktaði af snjó og rjúpnablóði. Svo þegar ég var 11 eða 12 ára fékk ég að gera að rjúpunum sjálf. Hann kenndi mér að höggva fætur, vængi og haus, hamfletta og fjarlægja innyflin, passa upp á hjartað og fóarnið. Það sem skiptir máli hér er að hann treysti þessari litlu stelpu fullkomlega til að gera að þessum hvítu fuglum, jafnvel þótt það fæli í sér að handleika gor, blóð og beitta öxi. Hann hafði trú á mér og leyfði mér að læra þetta því ég vildi það. Það eru ekki allir feður sem leyfa dætrum sínum að vinna svona verk.
Ég vona að ég geti verið svona foreldri eins og pabbi. Hann hvatti mig áfram í hverju sem ég vildi gera. Hann hjálpaði mér þegar ég þurfti og leyfði mér að vera í friði þegar ég vildi. Hann studdi mig mikið þegar ég var að læra myndlist, smíðaði fyrir mig málaratrönur, blindramma og ræddi um málverk við mig. Enda var hann sjálfur listrænn að því leytinu líka, hefði í raun átt að mála meira sjálfur. Aldrei fann ég fyrir pressu frá honum og aldrei fannst mér hann vera óánægður með mig. Ég fann alltaf fyrir því að hann væri stoltur pabbi, stoltur af dóttur sinni sem hann leyfði að velja sínar eigin leiðir.
Það var það sem ég skildi seinna í lífinu, að pabbi var góður í að storka fyrirfram gefnum hugmyndum og klisjum. Hann þurfti ekki alltaf að fylgja hjörðinni og var kannski stundum með dálítinn uppsteyt. En hann mótmælti ekki bara til að mótmæla, heldur vildi hann virkilega greina hlutina, finna út hvað var rökrétt og hvað óskynsamlegt, hvað var rétt og hvað rangt, hvað var gott og hvað slæmt. Þannig var hann oft eins og sannur heimspekingur, spurði spurninga til að komast að hinu sanna, góða og fagra. Ekki af því að það væri svo praktískt, alla vega ekki fljótt á litið. Hann hafði bara svo gaman af að pæla í hlutunum. Ég trúi því að það séu verðmætustu eiginleikarnir, það er þannig fólk sem gerir lífið betra. Þannig fólk dregur vagninn fyrir okkur hin, fær okkur til að hugsa og spyrja mikilvægra spurninga.
Og þá komum við aftur að orðunum. Ég mun aldrei aftur heyra orð úr munni pabba. Við pabbi deildum alltaf sömu lífssýn, og hún er sú að þegar maður deyr, deyr maður bara. Sálin er ekki aðskilin frá líkamanum. En það er nú samt þannig að dauðinn hrifsar ekki allt burtu. Sá sem deyr lifir nefnilega ennþá í gegnum orðin sem hann sagði, því þau eru geymd í hugum okkar. Ég hugsa oft: hvað myndi pabbi segja?
Mín leið í lífinu mun alltaf vera lituð af pabba. Ég hef alist upp við að pæla í orðum, bókum og tungumáli, það er það sem mér finnst skemmtilegast að gera í dag. Mér finnst gott að hugsa til baka, hugsa um orðin hans pabba og allt sem hann kenndi mér, bæði í hugsun og framkvæmd. Þannig lifir pabbi áfram. Hann lék bangsapabba í Dýrunum í Hálsaskógi og mér finnst kveðjan til hans vera viðeigandi: Lengi lengi lifi hann sem listir allar kann!
Auður Sturludóttir.