Bragi Húnfjörð Kárason fæddist á Blönduósi 13. febrúar 1949. Hann lést 25. júní 2018.
Bragi var sonur hjónanna Kára Húnfjörð Guðlaugssonar frá Þverá í Norðurárdal, f. 3. júlí 1918, d. 29. október 1952 og Sólveigar Bjarnadóttir frá Grímsstöðum í Lýtingsstaðahreppi, f. 30. mars 1925. Systkini hans eru Rakel Kristín Káradóttir, f. 7. mars 1951, Kári Karlsson, f. 14 ágúst 1955, giftur Hjördísi Sævar Harðardóttir, f. 18. júlí 1963, Guðfinna Karlsdóttir, f. 4. febrúar 1958, Bryndís Karlsdóttir, f. 23. febrúar 1962. Bragi eignaðist dótturina Þórunni Helgu, f. 17. febrúar 1977 með Sigríði Hermannsdóttur og á hún tvö börn Sóleyju Báru og Aron Darra.
Bragi ólst upp á Þverá hjá afa sínum og ömmu, Guðlaugi Sveinssyni og Rakel Bessadóttur ásamt föðurbróður sínum Þorláki Húnfjörð Guðlaugssyni.
Bragi stundaði nám á Bændaskólanum á Hvanneyri 1966 til 1968 og lauk prófi í búfræðum. Bragi tók við búi af afa sínum og ömmu og bjó ásamt föðurbróður sínum á Þverá alla tíð.
Útförin fer fram frá Hólaneskirkju, Skagaströnd, í dag, 9. júlí 2018, klukkan 13.
Bragi var hjartagóður, viðræðugóður og með afskaplega hlýja nærveru. Hann hafði líka ríkan húmor og var bráðhnyttinn. Eflaust kom hann ekki öllum þannig fyrir sjónir, hafandi búið sem einbúi í eyðidal góðan part úr ævi. Þverá í Norðurárdal var úr alfaraleið, þar til nýi fjallvegurinn kom. Slíkar aðstæður gera menn feimna í margmenni, en mér hlotnaðist sú gæfa að kynnast Braga við líf og störf á Þverá.
Það á ég Kára föðurbróður að þakka, sem hringdi í mig vorið 1989 og sagði mér að nú yrði Bragi einn í sauðburði með yfir 400 fjár. Eða með orðalagi Kára, með 400 rollukvikindi!. Þó Lalli frændi byggi enn á Þverá, þá var hann kominn á áttrætt og orðinn nokkuð fótafúinn. Hvort ég væri til í að fara norður og aðstoða Braga yfir sauðburðinn. Ég var 18 ára drengstauli og hafði verið í sveit áður, þegar úr varð að ég fór á Þverá um leið og prófum lauk. Skemmst er frá að segja að þar var eingöngu unnið, etið og sofið. Þó gafst alltaf tími til skrafs á leiðinni milli húsa og bæjar.
Í þeim samtölum fann ég fyrir mann, sem var opinn, íhugull, stórfróður og minnugur á fólk víða um sveitir, lifandi og liðið. Hann var líka minnugur á kennileiti, enda var Bragi eins og gangandi landakort og nákvæmari ef eitthvað var. Í síðasta ferðalagi okkar núna um daginn, sagði hann mér að Landmælingar hefðu leitað til sín og annars manns, til að setja inn og staðfesta örnefni. Þeir skiptu með sér landssvæðum og Bragi bætti inn þó nokkrum örnefnum og leiðrétti fleiri!
Bragi var líka einstakur hlustandi. Hann hlustaði af athygli, spurði nánar út í sumt og bjó til brandara úr öðru. Þannig skapaði hann traust og fann léttari tón í alvarlegum umræðuefnum. Þessi hlustun og hin sterka nærvera Braga reyndist ungum, kvíðasömum manni mikill styrkur og mörg næstu vor á eftir, fór ég norður í sauðburð. Stundum efaðist ég um að vera mikil aðstoð manninum sem var vanur að gera allt einn og vippaði kindum milli króa ef á þurfti, nautsterkur eins og hann var.
Þó hnaut ég um eitt, sem honum hafði aldrei hugkvæmst og það var aðstoð við inniverkin. Eitt kvöldið stakk ég upp á því að ég sæi bara alveg um uppvaskið á meðan hann tæki fréttir og veður. Og kannski myndi ég bara elda daginn eftir. Sjaldan hef ég séð mann verða eins forviða. Jú, þetta hljómaði bara skrambi vel, honum hefði bara aldrei nokkurn tíma dottið þetta í hug, enda verið í hans verkahring í nokkra áratugi. Mér var þetta bæði ljúft og skylt. Það flóknasta við þessa fremur fábrotnu eldamennsku, var að læra á sambandið milli gömlu Rafha-eldavélarinnar (þrjár hellur) og spennugjafans á heimarafstöðinni. Þegar hækkað eða lækkað var á eldavélinni, þurfti strax að hoppa nokkur skref að spennugjafanum og jafna spennuna. Væri þetta ekki gert samviskulega, mátti heyra það á sjónvarpinu sem kveinaði yfir spennusveiflunum! Eftir veðurfréttir labbaði Bragi svo aftur út í fjárhús og svaf þar yfir háannatímann.
Fyrsta minningin um Braga og rauða Bedfordinn. Við afi Einar vorum eitthvað að stússa á Neðstabæ, sennilega við girðingarvinnu. Það sést hreyfing í dalnum, Bragi er á ferðinni á vörubílnum. Við förum og heilsum upp á Braga. Afi fær sér í nefið, Bragi setur í pípu. Hann hætti reykingunum síðar, því hann varð svo djöfulli þungur í hausnum á morgnana. Löngu síðar vorum við í flutningum á Bedfordinum og ég spurði út í takkann sem lá utan á gírstönginni. Þetta var rafmagnsskipting sem skipti milli hálfgíra, þó bíllinn væri annars beinskiptur og þessu fylgdi saga.
Eitthvert vorið var Bragi í fjárflutningum milli héraða. Á miðri leið, þegar hann er á leið upp bratta fjallshlíð, mætir hann öðrum vörubíl, fullum af síld. Það er alveg hugsanlegt að annar þeirra hafi verið löglega lestaður. En ekki báðir. Vegurinn var þröngur og blautur, öðrum megin lá snjóskafl, hinu megin við brött fjallshlíðin. Báðir hægðu ferð og fóru út kant eins og mögulegt var. Þá finnur Bragi að vegkantinn byrjar að bresta, sauðféð færist út til hliðar og allur þunginn er nú þar sem hann á ekki að vera. Við vegkantinn, sem er um það bil að gefa sig. Hinn bílstjórinn sér hvað vill verða og reynir að skapa eins mikið pláss sín megin eins og mögulegt er. Ekki kemur til greina að stöðva, eina vonin er að reyna að halda ferð og ná bílnum aftur inn á veg. Kannski var vinstra framdekkið ekki á lofti, en þannig sá ég það allavega fyrir mér, svo ljóslifandi var lýsing Braga. Og þarna bjargaði rafmagnsskiptingin. Með henni gat hann skipt niður um hálfgír og gefið vélinni aukinn kraft, sem nú öskraði, á meðan bíllinn mjakaðist aftur inn á veginn.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi, að eiga dýrmætar stundir með Braga örfáum dögum fyrir andlátið. Á hverju ári höfum við amma Imma og Lena frænka farið í óvissuferð og gert vel við okkur. Það var ekki partur af planinu, en það hvíslaði að mér rödd að bjóða Braga með nú í ár, kannski hefði hann bara gaman af því. Köllum það tilviljun, köllum það innsæi eða Æðri mátt. Það sem skiptir máli er að Bragi tók vel í hugdettuna og við áttum afskaplega innilegar og afslappaðar stundir. Við keyrðum yfir Héraðsvötn og fræddumst um sögu Jóns Austmann, sem Bragi kunni auðvitað. Snæddum svo yndislegan hádegisverð í Lónkoti og eftirréttinn á Þverá, sem við fengum með okkur í nesti. Svo máttum við til með að kíkja á leikinn og þegar Messi stóð á vítalínunni, sagði Bragi með tilfinningu: Það ætla ég að vona að hann verji þetta hjá honum. Og svo fór.
Það var þétt faðmlagið þegar við kvöddumst og innileg kveðjuorðin þegar við töluðum saman í síma nokkrum dögum síðar. Degi síðar var Bragi allur.
Lífið er óútreiknanlegt og við vitum aldrei hvert okkar kveður næst. Allar samverustundir eru mikilvægar stundir, jafnvel þó þær virðist hversdagslegar. Hvíl í friði, Bragi minn, þú ert mér kær.
Helgi Þór Jónsson.