Árni Jón Baldvinsson fæddist 8. október 1952 á Ísafirði. Hann lést á sjúkrahúsi Færeyja 7. ágúst 2018.
Foreldrar hans eru Halldóra Benediktsdóttir, f. 9. október 1925, og Baldvin Árnason, f. 30. apríl 1924, d. 2. október 2014. Systkini Árna eru Erna Rún Baldvinsdóttir, f. 20.mars 1950, og Gunnar Baldvinsson f. 4. september 1954.
Árni giftist eftirfarandi konum: 1) Ingunni Guðmundsdóttur, þau giftust árið 1971 og áttu þau börnin Júlíu Björk Árnadóttur, f. 25. maí 1969, og Guðmund Rúnar Árnason, f. 26. desember 1974. 2) Minnie Karen Walton, þau giftust árið 1975 og áttu þau soninn Baldvin Árnason, f. 23. nóvember 1976. 3) Vilborgu Valgarðsdóttur, þau giftust árið 2000, þau áttu engin börn saman.
Eftirlifandi sambýliskona Árna er Poulina Jóanesardóttir og áttu þau engin börn saman.
Árni ólst upp í Kópavogi ásamt systkinum sínum. Hann lauk meistaraprófi við rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík, síðar sérhæfði hann sig sem ljósameistari.
Starfsferill Árna hófst í Þjóðleikhúsinu árið 1973-1985. Hann starfaði hjá RÚV 1985-2007, Jönköpings Landstheater 1991-1992. Ásamt því að taka að sér lýsingu og sviðsmynd fyrir ýmsa leikhópa, svo fátt sé talið; Alþýðuleikhúsið, EGG-leikhúsið og áhugaleikhópinn Hugleik sem fór með sýningar víðsvegar um Evrópu. Allt frá árinu 1983 fór Árni reglulega til Færeyja og tók að sér lýsingar á leikritum fyrir sýningar þar.
Árið 2007 fluttist Árni til Færeyja og bjó þar með Poulinu Jóanesardóttur og syni hennar Njál Jensen, þar vann hann við lýsingar á leiksýningum hjá Norðurlandahúsinu, Þjóðpalli Færeyja, sjónleikahúsi Þórshafnar og hjá ýmsum áhugaleikhópum. Árni hóf samstarf fyrir nokkrum árum við færeyska leikhópinn Teatur Grugg sem setti meðal annars upp leiksýninguna Hellisbúann sem þau fóru með víða um Færeyjar og einnig til Danmerkur.
Útför Árna fer fram frá Digraneskirkju í dag, 21. ágúst 2018, klukkan 11.
(Lesið upp við minningarathöfn í Sjónleikarahúsinu 12. ágúst sl.).
Það er svo stutt síðan, að Árni var að vinna hér í þessum sal. Sat hérna hjá okkur og skipulagði hvernig ljósið ætti að vera í sýningunni. Sat við tölvuna uppi á svölunum og vann. Það er svo stutt síðan.
Fyrsta vinnuferð Árna til Færeyja var farin á 9. áratugnum í sambandi við uppsetningu á þekkta leikritinu Brúðuheimilið í Norðurlandahúsinu. Það varð upphafið að löngu og þroskandi samstafi við ljósameistarann mikla, hann Árna okkar, samstarfi, sem hefur þróast áfram og auðgað sviðslistina á ríkari hátt, en við gerum okkur grein fyrir.Leikhópurinn Gríma kallaði oft í Árna til Íslands þegar stórar leiksýningar voru settar upp, og í hvert skipti var það kraftaverki líkast. Töfrandi og hrífandi lýsing hans hóf sýninguna upp yfir hversdagsleikann og gaf henni listræna vængi. Það var fengur fyrir okkur, að hann síðar fluttist til Færeyja. Oft á tíðum, þegar eitthvað gekk ekki, eins og það átti, og við vissum ekki okkar rjúkandi ráð, varð okkur á orði: Árni kippir þessu í liðinn, þegar hann kemur. Og það gerði hann, aftur og aftur. Hann var með í óteljandi uppfærslum hjá Grímu bæði í Norðurlandahúsinu, á Meiaríinu og í Leikhúsinu hérna í Havn og síðar einnig á Þjóðpalli Færeyja, Havnar Leikfélagi og hjá ýmsum áhugaleikfélögum um allt land, í menntaskólasöngleikjum, leiksýningum Kennaraháskólans, á alls konar hljómleikum .... já, listinn er langur. Á sviði ljóshönnunar og ljóssetningar hérna í Færeyjum er fátt sem Árni á ekki hlutdeild í, og fyrir hans tíma var eiginlega myrkur á sviðinu. Sviðsljós var einungis að kveikja og slökkva, en Árni kom með kunnáttu, innsæi og listræna innlifun á sviði ljóshönnunar, skapaði virðingu fyrir greininni og gerði kröfur til fagmennsku og gæða.
Sagt er að ljós slökknar þegar einhver deyr. Þetta á ekki við um Árna. Ljós hans skín skærar og bjartar með hverjum degi sem líður, því eiginleiki hans var að gefa frá sér. Alls staðar þar sem hann var var hann reiðunbúinn að gefa góð ráð og leiðbeiningar, ekki bara í sambandi við ljós, heldur líka í sambandi við innréttingu á húsnæði og sviði. Einnig hefur Árni kennt og hvatt unga aðstoðarfólkið okkar með faglegum áhuga, og ég held ekki að ég taki of djúpt í árinni er ég segi, að hann hefur verið drifkraftur og hvatt fleiri Færeyinga til náms í faginu. Þessir nemendur Árna bera ljós hans áfram á leiðinni og fara eflaust að hvetja aðra á sömu braut, rétt eins og Árni hefur gert. Við í Grugg upplifðum einatt, þegar orka Árna var á þrotum, að hann hringdi í unga aðstoðarmenn sína og bað þá um aðstoð, t.d. að klífra upp í stiga og að hengja upp ljós, og ætíð voru þeir fúsir að koma og hjálpa til... augljóst að þeim þótti vænt um Árna og báru virðingu fyrir honum. Ég veit að hann var þakklátur fyrir það.
Árni var hluti af leikhópnum Teatur Grugg, og við höfum haft mikla ánægju af að vinna með honum, ekki síst þrjú undanfarin ár. Við höfum undirbúið leiksýningar og sett þær á svið bæði hérna í Leikhúsinu og á ýmsum stöðum bæði í bænum og úti á landi. Hann var hugmyndaríkur og hafði fram á síðasta dag alls konar áætlanir. Við upplifðum innblástur og skapandi orku, þrjósku og eldsál - sem sjúkdómurinn gat ekki stoppað. Ég get nefnt sem dæmi, að fyrir síðustu jól settum við upp jólasýningu hérna í húsinu, þar sem Árni sá um ljósin - og á sama tíma vann hann að krefjandi verkefni á Vogey, og þrátt fyrir slappleika keyrði hann á milli staða í hálku og vondu veðri ... ótrúlega viljasterkur, eitt drive úr öðrum heimi, sem við getum bara speglað okkur í og reynt að tileinka okkur.
Já, hans verður sárt saknað - og núna er ekki lengur hægt að grípa til símans og hringja í Árna ... sem ætíð var reiðubúinn að aðstoða, hvort sem verkefnið var lítið eða stórt. Svarið var alltaf: Já, ekkert mál, við reddum því.
Við öll, samstarfsmenn Árna, munum alltaf hafa ljós hans með okkur, bæði ómeðvitað og meðvitað, og njóta þess veganestis, sem hann hefur gefið okkur, hæfileikann að sjá möguleika frekar en hindranir, að setja okkur markmið, vinna og efla eigin færni og finna lausnir heldur en að binda hnúta, halda áfram frekar en stoppa.
Kæra Poulina og þið öll sem stóðuð honum næst. Sorgin, söknuðurinn og tómleikinn eftir eiginmann, pabba, afa, bróður, son, já, Árna ykkar allra, verður nú partur af lífinu. Gleðin og þakklætið fyrir að hafa átt hann verður vonandi huggun á þessum erfiðu tímum.
Kæri Árni, þitt eigið ljós er ekki slökknað. Okkur ber skylda til að bera það áfram, og það munum við gera. Á heiðskíru kvöldi, þegar við horfum upp í himininn og sjáum stjörnuhrap, rifjast upp fyrii okkum gamalt stjörnuhrap á Meiaríinu, gert úr nælonþræði og öðru sem þú hannaðir ... og einhvern tíma þegar við sjáum sérstakt ljósbrigði yfir Nólsey, og sólin sendir stafi sína gegnum skýin og lýsir á blett, sem við höfum ekki séð áður, minnust við þín brosandi, okkar eigin ljósameistara, sem kenndi okkur, að án myrkurs og skugga er ekkert ljós. Takk fyrir allt, kæri Árni - og eins og þú sjálfur hefðir sennilega sagt á slíkri stundu: SKÁL!
Kærar kveðjur frá okkur í Teatur Grugg,
Ria og Súsanna.