Einar Gunnar Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 8. júní 1934 og ólst upp á Njálsgötu 69 og frá 1948 á Langholtsvegi 143. Hann lést 14. ágúst 2018.
Einar Gunnar var kaupmaður og stofnandi verslunarinnar Litavers.
Foreldrar hans voru Ásgeir Valur Einarsson veggfóðrarameistari, f. 15. ágúst 1911, d. 25. mars 1988, og Sigríður Beinteinsdóttir, f. 26. júlí 1913, d. 1. september 2011.
Einar Gunnar giftist Guðríði Guðmundsdóttur, f. 22. nóvember 1931. Þau skildu. Börn þeirra: 1) Hannes, f. 25. apríl 1957, giftist Guðrúnu Sigurðardóttur, f. 3. janúar 1960. Þau skildu. Eiga þau eitt barn. Sambýliskona Hannesar er Guðrún Ólafsdóttir, f. 14. janúar 1946, og á hún tvö börn. 2) Örn, f. 29. nóvember 1959, giftur Nínu Stefánsdóttur, f. 6. apríl 1962. Þau eiga fjögur börn. 3) Ómar, f. 6. apríl 1961, giftur Höllu Magnúsdóttur, f. 2. júní 1967. Eiga þau tvö börn.
Síðari eiginkona Einars Gunnars er Sigrún Hjaltested, f. 8. febrúar 1936. Börn hennar eru: 1) Pétur Guðmundsson, f. 11. apríl 1957, giftur Guðrúnu K. Bachmann, f. 19. mars 1953. Eiga þau tvö börn. 2) Rúna H. Guðmundsdóttir, f. 6. ágúst 1958, gift Heimi Karlssyni, f. 18. mars 1961. Rúna á eitt barn frá fyrra hjónabandi en þau eiga tvö börn saman. 3) Bragi Guðmundsson, f. 26. mars 1962, giftur Hjördísi Sævarsdóttur, f. 6. júní 1964. Eiga þau þrjú börn. 4) Snævarr Guðmundsson, f. 28. október 1963, í sambúð með Sigríði Guðnýju Björgvinsdóttur, f. 20. nóvember 1958. Snævarr á tvö börn frá fyrra hjónabandi. 5) Snorri Guðmundsson, f. 28. nóvember 1963, giftur Lindu Guðmundsdóttur, f. 1. október 1961. Snorri á eitt barn frá fyrra hjónabandi.
Útför Einars Gunnars fer fram frá Bústaðakirkju í dag,
24. ágúst 2018, klukkan 13.
Á uppvaxtar árum okkar stofnar pabbi Litaver sf. og hafði hann stórtækar hugmyndir með það fyrirtæki. Við bræðurnir hófum að starfa hjá honum, fyrst um sinn á sumrin ásamt nokkrum ættingjum og vinum. Á þessum tíma áttum við heima á Grensásvegi 60. Stuttu síðar fluttum við í Langagerði 118. Pabbi og mamma höfðu mjög gaman af því að ferðast um landið og nokkur sumur í röð fórum við gjarnan í tjaldútileigur öll fjölskyldan og einnig tíkin Twiggy . Oftast var farið austur á Laugarvatn og oft var komið við í Laugarási þar sem ættingjar áttu sumarhús en einnig var Borgafjörðurinn vinsæll hjá okkur. Iðulega þegar lagt var af stað í Borgarfjörðinn, hafði pabbi sérstaklega gaman af því að koma við á bænum Hurðarbaki hjá hjónunum Sigríði og Bjarna . Það má segja að við bræðurnir höfum lært að synda þar, því á Hurðarbaki var lítil sundlaug sem hann fór gjarnan með okkur í. Þetta þótti okkur bræðrum afar skemmtilegt og vorum við fljótir að ná tökum á sundinu.
Fyrirtækið Litaver stækkaði nokkuð ört og fjölmargir voru farnir að vinna hjá pabba. Fljótlega vorum við bræður einnig allir farnir að vinna hjá honum í fullu starfi en mislengi þó. Pabbi hafði stórtækar hugmyndir og var djarfur að hrinda þeim í framkvæmd. Hann bjó til fjölmargar auglýsingar sem sýndar voru í sjónvarpinu og bjó m.a. til hið fræga slagorð Ertu að byggja? Viltu breyta? Þarftu að bæta? LITAVER . Einnig var hann með nýstárlegri auglýsingar og setti hann m.a. eitt skiptið upp gríðarlega stóran loftbelg sem staðsettur var í mikilli hæð fyrir ofan búðina á Grensásveginum. Þeir sem áttu leið um Miklubrautina og nærliggjandi götur, sáu þetta stóra fyrirbæri, en á því stóð stórum stöfum: LITAVER. En loftbelgurinn fékk ekki að vera lengi í friði og endaði með því að einhver skaut á hann með loftriffli svo hann sveiflaðist út og suður og reif upp fjölmörg sjónvarpsloftnet. Allt kom þetta fram sjónvarpsfréttunum sem var kannski stærsta auglýsingin fyrir Litaver. Pabbi gerði létt grín að þessu öllu saman eftir á og hélt ótrauður áfram.
Eftir skilnaðinn við móður okkur hélt pabbi áfram sínum rekstri og stækkaði fyrirtækið enn frekar með fjárfestingum og byggingum. Stuttu síðar hóf hann sambúð með eftirlifandi eiginkonu sinni, Sesselju Sigrúnu Hjaltested. Þau giftust og bjuggu allt sitt hjónaband í Grundargerði 8 í Reykjavík.
Árið 1994 þá fékk pabbi kransæðastíflu og fór í stóra hjartaaðgerð. Það breytti lífi hans nokkuð og það sama ár seldi hann Litaver. Hann fór þá að hafa meira og meira samband við okkur bræðurna og við ákváðum að hittast reglulega einu sinni til tvisvar í viku á bílaplaninu þar sem gamla Litaver var. Svo keyrðum við saman upp í Litlu kaffistofu og fengum okkur bestu súpu í heimi að okkur fannst. Þessu héldum við áfram í mörg ár og einnig áttum við skemmtilegt ferðalag með honum þegar við feðgarnir förum allir til Spánar eða Tenerife sem var þá kannski ekki eins vinsælt og það er í dag. Ferðunum í Litlu kaffistofuna fóru fjölgandi því stundum fórum við þrisvar sinnum í viku og þar var mikið hlegið og margir gamlir góðir hlutir rifjaðir upp. Eftir því sem árin liðu, fór heilsu pabba hrakandi og við bræðurnir erum þakklátir fyrir allar samverustundirnar með honum á þessum seinni hluta ævi hans.
Fyrir um 10 árum síðan þá veikist pabbi nokkuð alvarlega og fór á Borgarspítalann í Fossvogi. Á tímabili þurfti að tengja hann við öndunarvél og nú voru allir á því að hann væri að fara kveðja þennan heim því útlitið var ekki gott. Benni bróðir pabba sagði þá við okkur strákana: Hann pabbi ykkar er ekkert að fara. Þau orð stóðust. Lífskrafturinn í honum var það mikill að hann náði nokkuð góðum bata og gat labbað út af spítalanum. Við feðgarnir gátum þá haldið áfram sama mynstrinu, farið upp í Litlu kaffistofu eða á aðra staði og fengið okkur að borða saman í hádeginu. Fyrir fjórum árum síðan var heilsa hans orðin það léleg að hann fékk pláss á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum en fram að því hafði Sigrún kona hans sinnt honum af mikilli eljusemi og umhyggju. Við bræðurnir héldum áfram að gera reglulegar ferðir til hans á Droplaugarstaði og fórum gjarnan með hann í bíltúra sem honum þótti alltaf gaman. Þess á milli naut hann frábærrar umönnunar starfsfólksins á Droplaugarstöðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Nú kveðjum við þig pabbi með söknuði og geymum allar góðar minningar í hjörtum okkar. Við bræðurnir erum sammála um það að lífið heldur áfram á andlega sviðinu og viljum við trúa því að vel verði tekið á móti þér og vonandi sjáumst við aftur síðar.
Hannes, Örn og Ómar.