Guðmundur Konráðsson fæddist á Seltjarnanesi 24. ágúst 1944. Hann lést 12. nóvember árið 2015 á hjúkrunarheimilinu Ísafold.
Foreldrar hans eru þau Guðrún Svava Guðmundsdóttir fædd í Reykjavík og Konráð Gíslason fæddur í Hafnarfirði. Hann átti tvær systur, þær Málfríði og Guðlaugu, og tvö hálf systkini, þau Bertu og Albert. Guðmundur ólst upp á Seltjarnanesi og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Í níu sumur var hann í sveit á Þambárvöllum á Ströndum, þar undi hann sér einstaklega vel. Um 16 ára aldur fór hann til sjós, bæði á varðskipum og farskipum, undi hann hag sínum vel þar næstu árin. Hann hóf nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík 19 ára gamall og lauk þar farmannaprófi árið 1966, þá tæplega 22 ára gamall.
Að útskrift lokinni réð hann sig sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni þar sem hann starfaði í tvö ár og var farsæll og framtíðin björt hjá ungum stýrimanninum. En þá gripu örlögin inn í sem hafði afgerandi áhrif á líf hans næstu 20 árin.
Árið 1968 gerðist hann kompásviðgerðar- og leiðréttingamaður áttavita í skipum er faðir hans veiktist, en faðir hans starfrækti kompásviðgerðir og leiðréttingar.
Guðmundur giftist eiginkonu sinni, Guðmundu Andrésdóttur, fæddri á jólum í Vestmannaeyjum árið 1945, hinn 22. júlí 1967 en þau höfðu kynnst nokkrum árum áður. Guðmunda lést 23. febrúar 2018. Þau eignuðust fjögur börn, þau Konráð járnsmið, Bryndísi handverkskonu, Svavar sjávarútvegsfræðing, og Guðlaugu þjónustufulltrúa. Aftur gripu örlögin inn í líf Guðmundar með grimmilegum hætti í desember 1987 sem lamaði allt starfsþrek hans allt til æviloka.
Útför Guðmundar var gerð frá Garðakirkju 19. nóvember 2015.
Nú þegar tíminn er í kapphlaupi við lífsklukkuna þá hugsa ég til okkar góðu kvöldfunda síðustu æviárin hans. Áður fyrr þegar heilsa hans leyfði fórum við daglega í göngutúr, stundum nokkrum sinnum á dag. Næg voru umræðuefnin enda erfði ég lífskoðanir hans að mörgu leyti, deildum við því ekki ósvipaðri lífsýn. Öllu var velt upp og ekki hvað síst hver er fyrirætlan með þessu stutta jarðneska lífi en það er svo margt í hinni daglegu tilveru sem okkur er ekki ætlað að skilja.
Pabbi sagði mér oft hvað það hefði verið mikið frelsi að alast upp á Seltjarnarnesinu í alls konar leikjum og opinni ferskri náttúru. En einna mest og best naut hann sín sem sveitastrákur norður á ströndum en í níu sumur dvaldi hann við sveitastörf á Þambárvöllum, staður sem var honum einna kærastur í minningunni. Hann elskaði sveitina sína og að vera innan um dýrin. Sagt er að ef manneskja er góð við dýrin þá er hún í grunninn góð manneskja, þannig var pabbi, hann var góð manneskja í stórri merkingu þeirra orða.
Lífið er á eilífri ferð og sem baldinn unglingsstrákur storkandi örlögunum og sumum reglum samfélagsins ákvað faðir minn að setja mér ungum manninum skilyrði hvað sem mér fannst um þessa uppeldisaðferð, þá bý ég enn að henni.
13 ára gamall kynntist ég starfi föður míns og öllu því stórmerkilega lífi sem því fylgdi. Á þessum árum leyfði faðir minn mér að koma með í allt að hundrað kompásleiðréttingar á ári og í allar stærðir og gerðir af skipum. Hafði ég gaman af að geta aðstoðað hann. Um margra ára skeið leiðrétti faðir minn segulkompásinn í allt að 70% af íslenska skipaflotanum. Mér, ungum drengnum, fannst starf pabba míns og allir skrýtnu og merkilegu kallarnir sem hann hitti, algjör ævintýraheimur.
Þó að á engan jaxlinn sé hallað þá held ég að pabbi minn hafi verið einhver handsterkasti maður sem ég hef kynnst, sveiflandi sér upp lóðrétta brúarstigana upp á brúarþak með tækjatöskuna sína eða stóran kompás í hinni hendinni. Já það var ekki spurt að því hvað klukkunni sló, segulkompásinn skyldi leiðréttur við brottför. Engan mann hef ég séð eða hitt sem hefur þolað eins mikinn kulda og föður minn verandi uppi á brúarþaki í brunakulda í nánast öllum veðrum, verkinu skyldi ljúka og af fagmennsku, veðrið beit ekki á hraustmennið sem hann var.
Ekkert er sjálfgefið í samskiptum fólks og engin gengur vísum að hvað það varðar og á það einnig við um foreldra og börn og öfugt.
Draumur og hugur föður míns stefndi annað en í kompásleiðréttingar. Árið 1968, einungis 24 ára er faðir hans veikist er hann kallaður til ábyrgðar. Mikil ábyrgð var sett á herðar föður míns af foreldrum sínum að halda uppi fjölskyldufyrirtækinu, ungur maður með fjögur kornabörn við þröngar aðstæður.
Á einu augabragði breytti byr framtíðar hans um stefnu, þannig að því miður varð aldrei aftur snúið. Harðneskjuleg lífsbaráttan tók við og allt sem fylgdi því að reka verkstæði í samstarfi við föður sinn. Þegar leið á árin og samstarfið þar sem alið var á skyldurækni og að halda virðingu og lífsgæðum uppi fyrir foreldra sína á kostnað sinnar eigin fjölskyldu, gerði allt samstarf þeirra feðga æ þyngra þegar á leið. Faðir hans reyndist honum erfiður og í raun hefði átt að selja fyrirtækið árið 1968 þegar faðir hans veikist en ekki árið 1987 þegar faðir minn veikist, þannig orðaði hann það sjálfur við mig.
Réttsýni kemur með víðsýni, sannarlega átti það við um föður minn samviskusemi og rík ábyrgð voru hans dýrmætu dyggðir engu að síður gripu örlaganornirnar inn í líf hans svo um munaði í desember 1987 sem varð til þess að hann gat ekki lengur starfað við starfið sem hann hafði sinnt í þágu öryggis sjómanna í tæp 20 ár. Þá kom heldur betur til styrk hönd móður minnar við daglegt líf hans.
Með sinni einstöku lund tókst honum ætíð að vera gífurlega sterkur með því að horfast í augu við sinn líkamlega ófullkomleika. Hann var gífurlega andlega sterkur, það skynjaði fólkið í kringum hann, aldrei talaði hann um sín veikindi en hann fékk gríðarlega þungan skammt af þeim, en fádæma sterkur hugur hans og gríðarsterkt hjarta voru hans akkeri. Án hugsunarinnar er maður ekkert sagði hann. Það urðu allir örlítið betri manneskjur að umgangast hann og engum duldist að þar fór gríðarstór þroskaður hugur fremstur.
Því þrátt fyrir stöðugar ágjafir og brotsjói tókst honum af sínum einstaka krafti, elju, dugnaði og ekki hvað síst af fádæma æðruleysi að halda ákveðnum líkamsstyrk, en hugur hans og hugsun var algerlega einstök og án þess að hugsa um það tvisvar og án þess að á nokkurn sé hallað sem ég hef umgengist á minni lífsleið þá var pabbi með algjört ofurminni það þekkja þeir sem hann umgengust og hélt hann því með sinni miklu reisn til hinsta dags.
Það nefna það allflestir að það að lenda í miklum veikindum að þá sjái þeir í raun fyrst hverjir eru vinir á raunarstund því gungurnar hverfa og eftir standa sannir og raungóðir vinir, fyrir þá var hann ævinlega þakklátur þrátt fyrir mikinn einmannaleika ekki hvað síst í blindu en faðir minn var alblindur í 28 ár. Vinur er sá sem í raun reynist sagði hann einu sinni við mig, það var líka nóg því ég man það síðan.
Ekki verður hjá því komist að minnast á einstakt samband móður minnar og föður, en hún var hans fallegasta djásn og yfirgaf hann aldrei. Á milli þeirra var einstök órjúfanleg ást sem grundvallaðist af afar djúpri virðingu, vináttu og miklum kærleik. Móðir mín var sterkari en harðasti demantur alla tíð í veikindum hans, hún var hetjan hans sem fyrst og fremst vék aldrei frá honum, það má segja að þau hafi haldist í hendur hálfan daginn og hjúfruðu sig upp að hvort öðru hinn helminginn af deginum, einstök ást eru léttvæg þegar minnst er á þeirra næstum 50 ára hjónaband.
Þrátt fyrir líkamleg veikindi föður míns ferðuðust þau töluvert erlendis enda bæði dugnaðarforkar, útsjónarsöm og hagsýn. Þau nutu þess að ferðast víða um Evrópu og eignuðust mikið að góðum vinum sem þau heimsóttu reglulega.
Léttur gat hann verið í lund og stríðinn og leiddist honum ekki að hlusta á eða segja sannar lygasögur af mönnum og málefnum og kunni hann þá list vel að segja skemmtilega frá. Starfa sinna vegna umgekkst hann ótal fjölda fólks og var hann með eindæmum mannglöggur sem skynjaði umhverfi sitt einkar vel og veðurglöggur var hann með eindæmum. Margir skipstjórnarmenn leituð oft ráða hjá honum er varðaði stærðfræði og siglingafræði hvers konar.
Eitt af því sem þroskaði mig og kenndi mér mikið undanfarin ár í samneyti við föður minn voru þriðjudagsfundirnir okkar. Við hittumst reglulega eins og gengur en ein stund var órjúfanleg og nánast heilög það var að við hittumst alltaf á þriðjudagskvöldum þegar flest var komið í daglega ró. Í sjö til átta ár hittumst við alltaf á þriðjudagskvöldum í tvo til þrjá tíma í senn fórum yfir stöðuna, lífið og tilveruna. Við hlökkuðum ævinlega til þessara stunda og vildum hafa þær svona, þarna myndaðist einstakt trúnaðarsamband sonar og föður þar sem allt var rifjað upp, í öllu pælt og frelsi hugsunarinnar fékk aðalhlutverk. Ég get seint þakkað fyrir þessar stundir og þær munu fylgja mér til hinstu stranda.
Pabbi hafði einlægan áhuga á velferð barna og barnabarna sinna og óskaði hann fregna af þeim við öll tækifæri. Jafnframt voru allar íþróttir honum mjög hugleiknar, en hann stundaði sund af mikilli elju sem ungur maður. Stangveiði var eitt af hans áhugamálum og var hann afar lunkinn stangveiðimaður.
Ásjóna minninganna er dýrmæt og engin er dáinn fyrr en hann er gleymdur að eilífu ... pabbi var flottur kall.
Ljós, friður og Guð blessi minningu þína, elsku pabbi minn.
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Svavar.