Dagný G. Albertsson fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi í N-Ísafjarðarsýslu 31. maí 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 24. ágúst 2018.

Foreldrar hennar voru Borghild Berntsdóttir Albertsson (f. Årseth) húsmóðir, f. í Noregi 8. júlí 1900, d. 1989, og Guðmundur H. Albertsson, kaupmaður, útgerðarmaður og oddviti Sléttuhrepps, f. á Marðareyri í Veiðileysufirði 20. maí 1896, d. 1952. Bræður Dagnýjar voru Reidar G. Albertsson kennari, f. 10. júlí 1928, d. 1982, eiginkona hans er Oddrún Jónasdóttir Uri, f. 3. október 1939, og Birgir G. Albertsson kennari, f. 27. maí 1935, d. 2009, eiginkona hans er Evlalía Kristín Guðmundsdóttur (Edda), f. 21. desember 1935. Börn Birgis og Evlalíu: 1) Borghildur kennari, f. 27. maí 1960, 2) Guðmundur Albert bóndi, f. 1. júlí 1961, 3) Gunnar Friðrik viðskiptafræðingur, f. 16. maí 1967, 4) Guðbjörg Helga hjúkrunarfræðingur, f. 15. janúar 1969.
Dagný hóf skólagöngu sína í barnaskólanum á Hesteyri en fór síðan í gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hún tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands árið 1951. Fyrsta árið kenndi hún í Glerárskóla á Akureyri en árið 1952 hóf Dagný kennslu við Melaskólann í Reykjavík og starfaði þar óslitið til ársins 1995. Dagný hlaut Fulbright-styrk árið 1965 til náms í Bandaríkjunum 1965-1966, m.a. við Georgetown University í Washington DC. Samhliða kennslu rak hún ásamt bræðrum sínum og móður verslunina Guðmundur H. Albertsson á Langholtsvegi 42, en sú verslun var upphaflega starfrækt á Hesteyri af föður hennar. Dagný var virk í starfi KFUM og K, og félagskona í Kristinboðsfélagi kvenna. Dagný var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir kennslustörf árið 1995.
Dagný var einhleyp og barnlaus en var engu að síður umvafin kærleiksríkri fjölskyldu. Hún átti stóran hóp vinkvenna, m.a. bekkjarsystur úr Kennaraskólanum sem héldu nánu sambandi samfellt í nær 60 ár. Nemendur hennar úr Melaskólanum skipta hundruðum og hafa margir hverjir haldið góðu sambandi við gamla kennarann sinn í áratugi.
Dagný undi sér best á æskuslóðum innan um fjöll og óspillta náttúru á Hesteyri í Jökulfjörðum þaðan sem hún flutti tvítug til Reykjavíkur. Hún hóf hins vegar að koma þangað reglulega til sumardvalar með bræðrum sínum og fjölskyldum þeirra á ný árið 1958. Dagný bar sterkar taugar til Noregs, móðir hennar var norsk og frændgarðurinn stór, þau tengsl skipuðu ávallt stóran sess í lífi hennar.
Útför Dagnýjar fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 4. september 2018, og hefst hún klukkan 13.

Í dag er komið að kveðjustund, elskuleg frænka mín Dagný G. Albertsson hefur nú kvatt þessa jarðvist eftir langa og góða ævi. Hún var sátt við líf sitt og óttaðist ekki endalokin enda kristin trú kjölfesta í lífi hennar. Sorg og söknuður leita á hugann, en óteljandi ljúfar og dýrmætar minningar sitja eftir. Dagný frænka var einstök kona, hún var allt í senn, ákveðin, ósérhlífin og vinnusöm en jafnframt umhyggjusöm og glaðleg. Dagný leit á okkur bróðurbörnin sem sín eigin og átti drjúgan þátt í uppeldi okkar systkinanna og var umhugað um velferð okkar og afkomenda.
Dagný fæddist á Hesteyri í Jökulfjörðum árið 1925 og þar sleit hún barnsskónum og átti góða æsku. Hún hóf skólagönguna við barnaskólann á Hesteyri og fór síðan í gagnfræðaskólann á Ísafirði þar sem hún naut leiðsagnar Hannibals Valdimarssonar o.fl. Dagný kom vel undirbúin til náms enda hafði Borghild móðir hennar sem var norsk, kennt henni að lesa og skrifa á norsku, en norska var töluð á bernskuheimili hennar. Þegar byggð lagðist í eyði á Hesteyri undir lok seinna stríðs tók fjölskyldan sig upp og fluttist til Reykjavíkur, þar sem faðir hennar opnaði á ný verslunina Guðmundur H. Albertsson sem hann hafði starfrækt áður á Hesteyri.
Þrátt fyrir að hafa flutt frá Hesteyri rúmlega tvítug, átti Hesteyri eftir að skipa stóran sess í lífi Dagnýjar en þangað kom hún á sumrin nær óslitið frá árinu 1958. Við systkinin áttum margar dásamlegar stundir með frænku okkar og foreldrum á Hesteyri, árum og áratugum saman í yndislegri og ósnortinni náttúru. Þær dýrmætu stundir verða varðveittar í hjörtum okkar um ókomna tíð.
Dagnýju var margt til lista lagt. Hún bakaði og skreytti dýrindis rjómakökur handa okkur fyrir afmæli og aðra viðburði í fjölskyldunni. Kleinurnar hennar voru mikið sælgæti og var freistandi að lauma sér inn í matarbúrið á Hesteyri þar sem kleinuboxið var geymt. Dagný var af þeirri kynslóð að hún fór vel með og fylgdist náið með því að við krakkarnir kláruðum af matardiskunum, en þær voru ófáar skálarnar af rabarbara- og bláberjagraut sem við borðuðum á Hesteyri. Dagný var hannyrðakona og prjónaði m.a. á okkur systkinin margar fallegar peysur sem við klæddumst við ýmis tækifæri. Dagný var einnig góður ljósmyndari og eftir hana liggur einstakt safn ljósmynda sem spannar tæplega 70 ára tímabil og nær yfir marga af helstu viðburðum í lífi hennar og fjölskyldunnar.
Aðfangadagskvöld á Langholtsveginum voru sveipuð ævintýraljóma. Okkur systkinunum fannst það mikil forréttindi að ganga um Búðina innan um leikföngin og jólaljósin. Minningar frá Langholtsveginum eru ótalmargar og umhyggja Dagnýjar fyrir móður sinni Borghild var okkur öllum ljós ásamt þeim systkinakærleik sem ríkti á milli hennar, Reidars og pabba.
Dagný ferðaðist mikið um ævina og var einungis 5 ára gömul þegar hún fór til Noregs í fyrsta sinn til ársdvalar árið 1930. Upp frá því var hún alla tíð í góðu og nánu sambandi við ættingja sína í Noregi sem einnig komu oft til Íslands. Þau voru fjölmörg löndin sem Dagný heimsótti á langri ævi en sennilega stendur uppúr árið sem hún dvaldi í Bandaríkjunum á Fulbright námstyrk sem kennari. Það ár eignaðist hún marga góða vini til lífstíðar. Dagný var gjafmild með eindæmum og sem ungum dreng þótti mér alltaf spennandi að opna frá henni afmælis- og jólagjafir og aðrar tækifærifærisgjafir. Á ferðalögum sínum erlendis var hún jafnframt með hugann við gjafir handa okkur sem vorum heima á Íslandi. Á þessum árum var vöruúrval minna og ýmis höft hér á landi og þá kom sér vel að búa yfir nokkurri útsjónarsemi. Minnisstæð er mér sagan sem hún sagði mér kankvís, um það þegar hún kom heim með flugi frá Bretlandi í kringum 1960, íklædd þremur þykkum ullarkápum sem ætlaðar voru henni og mágkonum hennar tveim. Dagný var glaðlynd og kunni að segja skemmtilega frá, mest hló hún yfirleitt af sjálfri sér - það var smitandi hlátur.
Dagný var kennslukona af Guðs náð og kenndi samfellt í rúm 40 ár í Melaskólanum í Reykjavík. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og náði einstökum árangri með marga af sínum bekkjum og undirbjó nemendur sína vel undir lífið og áframhaldandi nám. Vinnusemi var henni í blóð borin og man ég eftir ófáum kvöldstundum á Langholtsveginum þar sem frænka mín var að fara yfir stíla og annað námsefni. Hún gerði kröfur til nemenda sinna, en mestar kröfur gerði hún þó til sjálfs síns eins og þeir sem hana þekktu vita.
Dagný átti því láni að fagna að eiga vinkonur úr Kennaraskólanum til lífstíðar og hittust þær mánaðarlega í saumaklúbbi í hartnær 60 ár. Hún helgaði einnig drjúgum tíma á árum áður í störf fyrir KFUK og Vindáshlíð, ásamt því að vera virk í starfi Kristniboðsfélags kvenna. Þau störf voru henni kær.
Við Dagný áttum alla tíð einstaklega gott og náið samband. Hún var sú besta frænka sem ungur drengur getur hugsað sér að eiga. Umhyggjan var mikil og oft kom hún með glaðning handa litlum dreng þegar hann var lasinn eða eitthvað minniháttar bjátaði á. Dagný naut þess trausts að vera sú eina sem fékk að klippa mig árum saman, enda vandaverk því á þeim árum var Bítlatískan allsráðandi.
Hin seinni ár höfum við frænka mín átt ófáar stundirnar heima hjá henni í Rauðhömrum og síðar á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem við höfum rætt liðna tíma og hún fyllt upp í eyðurnar með það sem mig langaði að vita betur um lífið og tilveruna, ættingja og annað frá fyrri tíð. Þær stundir voru okkur báðum dýrmætar.
Dagný var ákveðin og sterk og tók áföllum í lífinu af miklu æðruleysi. Hún var einungis sextán ára gömul haustið 1941, þegar hún veiktist alvarlega af heilahimnubólgu og var henni vart hugað líf. Hún hins vegar reis upp úr rúmi alheil og söng sálma í litla herberginu sínu á Hesteyri í þann mund sem presturinn undirbjó kveðjustund. Upp frá því var hún sannfærð um mátt bænarinnar. Hin seinni ár þegar heilsan var farin að gefa sig var heldur aldrei að finna uppgjöf hjá henni. Hún var þakklát fyrir hvern dag og hafði ánægju af að fá heimsóknir frá gömlum nemendum, samferðarmönnum og ættingjum.
Ég vil í lokin þakka henni samfylgdina og allt það sem hún af einstakri umhyggju hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu.
Það er við hæfi að kveðja Dagnýju frænku með bæn sem var henni kær.

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(höf. ók)


Elsku Dagný, hafðu þökk fyrir allt og allt, þín er sárt saknað. Guð blessi minningu þína.


Gunnar Friðrik.