Adolf Jakob Berndsen fæddist á Karlsskála, Skagaströnd, 28. desember 1934. Hann lést á dvalarheimilinu Sæborg á Skagaströnd 27. ágúst 2018.

Foreldrar hans voru Guðrún Laufey Helgadóttir, f. 6.11. 1903, d. 15.4. 1987, og Ernst Georg Berndsen, f. 2.6. 1900, d. 21.8. 1983.

Systkini Adolfs eru Helga Guðrún, f. 1931, eiginmaður hennar var Gunnlaugur Árnason, d. 2016, og Karl Þórólfur, f. 1933, d. 12.2. 1995, eiginkona hans var Ingibjörg Fríða Hafsteinsdóttir.

Eftirlifandi eiginkona Adolfs er Hjördís Sigurðardóttir, f. 20.11. 1938, þau gengu í hjónaband á páskadag 1958. Foreldrar Hjördísar voru Sigurður Guðmonsson, f. 1904, d. 1981, og Hallbjörg Jónsdóttir, f. 1909, d. 1987. Börn Adolfs og Hjördísar eru: 1) Adolf Hjörvar, f. 19.1. 1959, sambýliskona hans er Dagný Marín Sigmarsdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru: a) Sverrir Brynjar, f. 1981, sambýliskona hans er Steinunn Sigurgeirsdóttir. Sonur þeirra Hektor Hrafn en fyrir átti Sverrir dótturina Iðunni Ólöfu með Ingveldi Gísladóttur. b) Sonja Hjördís, f. 1986, sambýlismaður Atli R. Þorsteinsson. Sonur þeirra er Sigmar Víkingur. c) Sigurbjörg Birta, f. 1996. 2) Guðrún Björg, f. 6.9. 1961, maður hennar er Lúðvík J. Ásgeirsson, f. 1959. Börn þeirra: a) Adolf Þór, f. 1983, kona hans er Helga D. Jóhannsdóttir. Synir þeirra eru tvíburarnir Aron Breki og Oliver Atlas. b) Birgir, f. andvana 1990. c) Ásta Hallý, f. 1991, sambýlismaður Friðrik M. Björnsson. Sonur þeirra Stefán Frosti. d) Hjördís Laufey, f. 1993, sambýlismaður Reynir Magnússon. Fyrir átti Lúðvík soninn Stefán, f. 1980, d. 1998. 3) Steinunn Berndsen, f. 9.5. 1963, sambýlismaður Gísli Snorrason, f. 1960. Synir þeirra eru: a) Birkir Rafn, f. 1981, kona hans er Margrét Rúnarsdóttir. Börn þeirra eru Snorri Rafnar og Arna Steinunn. b) Arnór Snorri, f. 1988, sambýliskona Inga Jóna Grétarsdóttir. Sonur þeirra er Baltasar Gísli. Fyrir átti Inga synina Anton Leví og Jón Axel. 4) Hendrik Berndsen, f. 20.7. 1966, sambýliskona hans er Bára Björnsdóttir, f. 1966. Börn þeirra eru: a) Sigurður Ernst, f. 1993, sambýliskona Salóme Sigurmonsdóttir. b) Aníta Birna, f. 1998, c) Hendrik Snær, f. 2000, d. 2001. d) Hendrik Ingi, f. 2001. e) Gunnar Karl, f. 2003. 5) Sigurður Berndsen, f. 14.8. 1978, kona hans er Harpa Vigfúsdóttir, f. 1978. Börn þeirra eru: a) Embla Björt, f. 1999. b) Marín Björt, f. 2004. c) Bjartþór Daði, f. 2006. d) Dagbjört Drífa, f. 2008. e) Bjartey Hjördís, f. 2015.

Adolf ólst upp á Skagaströnd og bjó þar alla sína ævi. Hann eignaðist snemma eigin vörubíl og þjónustaði fyrirtæki og einstaklinga í héraðinu og sinnti olíudreifingu fyrir BP. Hann tók við starfi umboðsmanns Olís árið 1973 af föður sínum og gegndi því til ársins 2004. Auk þess að sjá um umboðið rak hann um árabil Söluskála Olís á Skagaströnd. Má segja að hann hafi starfað fyrir olíufélagið í um 50 ár.

Adolf sat í sveitarstjórn á Skagaströnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1964-1994, þar af var hann oddviti sveitarfélagsins 1978-1990. Hann var um árabil stjórnarmaður og stjórnarformaður frystihússins Hólaness hf., auk þess að vera um tíma einn af stærstu eigendum félagsins. Adolf var ágætur harmónikkuleikari og spilaði víða á dansleikjum á árum áður. Hann var áhugamaður um veiðimennsku, ekki síst á sjó.

Útför hans fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 7. september 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Hjartans þakkir fyrir allt, elsku pabbi minn.
Þú varst einstakur maður, sterkur karakter sem setti fjölskylduna ávallt í forgang, hugsaðir um hana fyrst en síðast um þig sjálfan. Þú varst vakandi yfir velferð okkar í leik og starfi öllum stundum. Fyrir börnin mín var yndislegt að koma til þín og mömmu á Skagaströnd þar sem væntumþykjan var ofar öllu. Alltaf varstu að gauka að þínu fólki, börnin mín muna vel er þau komu til ykkar þá gafstu þeim seðil og súkkulaði í hvert sinn. Til Reykjavíkur komstu einnig alltaf færandi hendi.
Ég hef alla tíð dáðst af þínum dugnaði, heiðarleika, vinnusemi og gjafmildi.
Þú hefur alltaf reynst mér svo vel, gafst góð ráð og útskýrðir hvernig best mætti standa að verki sem hefur mótað mig að þeim manni sem ég er í dag. Þínar leiðbeiningar og varnarorð hafa gefið mér og minni fjölskyldu öruggt líf, enda varstu forystumaður þess að finna okkur fallegt og gott heimili í Reykjavík.
Ég byrjaði mjög ungur að vinna fyrir þig og afa við afgreiðslu á bensínstöðinni og að þjónusta skip. Eitt að því fyrsta sem þú kenndir mér var heiðarleiki, vinnusemi og að standa mig. Þú treystir mér fyrir svo mörgu þó ég væri ungur drengur, fyrir stórum sem smáum verkum, því þú gafst þér allaf tíma til að leiðbeina mér. Ég var farinn að keyra þína bíla ansi snemma.
Ég á hlýjar bernskuminningar af ferðum okkar í vörubílnum þar sem þú kenndir mér allt um akstur. Oft fékk maður að grípa í stýrið hjá þér, eins og margir fengu, þar kviknaði minn bílaáhugi. Við fórum víða í olíu, út á skaga eða inná strönd, oft við erfiðar aðstæður. Í þá daga var olíukynding í öllum húsum og mikill fjöldi afhendingarstaða. Áður fyrr varstu með lausan tank á vörubílnum svo það var sannkölluð bylting, vinnulega séð fyrir þig, þegar þú fékkst loksins olíubíl, pabbi minn. Í minni æsku voru þínir matar- og kaffitímar teknir á hlaupum. Þú notaðir þá tíma, kvöld og helgar til að fara með olíu, því á daginn varstu með vörubílinn í fullri vinnu við höfnina, frystihúsið eða annað.
Þú vannst allt tíð gríðarlega mikið og ert duglegasti maður sem ég hef unnið með. Þú byrjaðir að vinna með pabba þínum sem ungur drengur við höfnina, bæði á sjó og við BP-umboðið. Þegar þú eignaðist þinn fyrsta vörubíl aðeins 20 ára sást þú um alla olíuútkeyrslu fyrir BP í austur Húnasýslu. Vörubílinn áttir þú skuldlausan enda varstu ekki fyrir það að skulda og slíkan hugsunarhátt kenndir þú börnum þínum. Síðar varstu kosinn til hreppsnefndar til 30 ára, lengst af þeim tíma varstu oddviti staðarins.
Á þeim tímum var þungt í atvinnumálum og erfitt að fá lán til rekstrar man ég eftir. Ófáar ferðir fórstu suður að redda málum og fá fyrirgreiðslu til halda hjólum atvinnulífsins gangandi á staðnum, þú gafst aldrei upp enda vildir þú gera sem allra best fyrir þinn stað. Þú varst dugnaðarforkur, sast í stjórnum fyrirtækja meðal annars frystihússins Hólaness og þar að auki sástu alfarið um söluskála Olís, endalaus vinna.
Þú varst að alla daga og oft langt fram eftir nóttu enda var hvorki opnunar- né lokunartími í umboði þínu, alltaf tilbúinn til þjónustu. Ég skil ekki ennþá í dag hvernig þú komst yfir þetta allt saman, elsku pabbi minn.
Þú vannst fyrir BP/Olís alla þína ævi og varst vel metinn. Eitt sinn var ég í góðra vina hópi með vinnufélögum úr Olís í Reykjavík, þar sem Óli Kr. Sigursson í Olís var meðal okkar, aðspurður af félaga mínum hverjir væru hans bestu umboðsmenn á landinu nefndi hann Adolf á Skagaströnd og Hinna á Siglufirði. Svar hans kom mér ekki á óvart því þú varst nákvæmur og passasamur fyrir Olís líkt og þú ættir fyrirtækið sjálfur.
Afi sagði mér að þú hefðir verið löngu búinn að taka við umboðinu af sér, en vildir að hann væri skráður umboðsmaður svo hann fengi greidd laun. Þú hugsaðir einstaklega vel um þína foreldra, eins og elsku afi sagði hann hefði ekki geta rekið sitt heimili án þín. Þú hjálpaðir oft fólki í vanda án þess að flíka góðmennsku þinni.
Þú hafðir yndi af veiði enda góð skytta, mér er minnisstætt þegar við fórum saman til rjúpna, oft í múlann, eða til svartfuglsveiða sem var spennandi og gaman í senn. Yndisleg var veiðiferð sem við feðgarnir fórum allir saman í Laxá í Aðaldal. Þar lékstu á alls oddi með harmonikkuna, er við héldum til Húsavíkur spilaðirðu fyrir gesti á veitingastaðnum við höfnina. Við bræðurnir nutum góðs af og fengum allt frítt af veitingastaðnum þökk sé þinni spilamennsku. Þitt helsta áhugamál var harmonikkuleikur, spilaðir á böllum og skemmtunum sem ungur maður. Þú hvattir fólkið þitt til að læra á hljóðfæri og mættir á ófáa tónleika til að heyra börnin mín spila, enda þá farið að hægjast á vinnu hjá þér. Harmonikkumótin með þér og Sigga syni eru mér sérstaklega eftirminnileg, þegar þið spiluðuð saman og þú brostir allan hringinn.
Við fórum í margar útileigur saman, sérstaklega á efri árum. Ég minnist þeirrar ferðar sem ég plataði þig til að koma með uppá hálendið, þú hefðir notað orðið að ég hefði narrað þig. Í útileigunum skein væntumþykja þín, þú verndaðir og snérist í kringum börnin. Alltaf var harmonikkan og maltið með, í öllum ferðum, og manni leið vel þegar þú gast aðeins slappað af.
Þú og mamma byggðuð sumarhús í Borgarfirði um 1990 og þar áttum við tveir margar góðar stundir saman að smíða. Aldrei kvartaðir þú yfir þreytu þó vinnudagar þínu væru langir. Bústaðurinn átti síðan eftir að verða þinn yndisreitur, fjölskyldan kom þarf oft saman og þá var gaman.
Velferð íslenskrar náttúru var þér ávallt ofarlega í huga, þú unnir þínu landi og vildir helst ekki héðan fara. Ég var svo heppinn að fara með þér í eina af þínum tveimur utanlandsferðum árið 1999 þegar Aníta mín var aðeins eins árs og Siggi sonur fimm ára. Maður hefur hlegið mikið og fyllst þakklæti við að skoða myndbandsklippurnar af þessari ógleymanlegu ferð okkar í Danaveldi, dásemd ein.
Pabbi, þú varst afar traustur maður og bindindismaður alla tíð, sterkasti drykkur sem fór inn fyrir þínar varir var malt. Þú hugaðir að því hvað þú settir ofan í þig, enda varstu alltaf heilsuhraustur og í góðu líkamlegu formi.
Þegar ég flutti suður þá kom ég á hverju sumri í sjö ár að leysa þig af með umboðið, einn mánuð í senn. Þú fórst ekki strax í frí því þú vildir að við værum aðeins saman, sem var yndislegur tími og það var gott að vinna fyrir þig, pabbi minn. Við vorum alla tíð í nánum samskiptum, sérstaklega eftir að ég flutti suður. Við töluðumst saman á hverjum degi í símann sem er dýrmætt í minningunni. Það var mikið högg fyrir mig þegar þú gast ekki lengur talað í síma vegna veikinda þinna síðar.
Þú gast ekki hætt að vinna þó þú værir hættur með umboðið, 79 ára að aldri dastu mjög illa á höfuðið við að bera smurolíufötur í skemmunni. Atvik þetta varð þess valdandi að heilsa þín fór versnandi svo þú gast ekki lengur búið heima. Það var ekki þér tamt að láta aðra hugsa um þig en þú fékkst góða ummönnun á hjúkrunarheimilinu Sæborg á Skagaströnd, sem ég er mjög þakklátur fyrir.
Þú varst sérstaklega góður pabbi og einstaklega barngóður. Þú talaðir oft um að stórfjölskyldan væri þitt ríkidæmi sem vel þyrfti að hugsa um og mætti ekki líða skort.
Það sýnir hvað við erum heppin að eiga ykkur mömmu að, þegar að Hendrik Snær okkar veiktist. Þið komuð suður og tókuð yfir okkar heimili óumbeðin svo við Bára gátum verið hjá honum öllum stundum á spítalanum. Ég mun aldrei geta endurgoldið þann greiða og verð ykkur ævinlega þakklátur fyrir ykkar ómetanlega stuðning, sérstaklega andlega, á þeim erfiða tíma.
Elsku pabbi minn, ég hef alltaf kviðið fyrir þessum degi síðan ég man eftir mér. Takk, takk, takk, elsku pabbi fyrir allt. Ég vona að þér líði vel núna, ég veit að foreldrar þínir, bróðir þinn og sonur minn taka vel á móti þér.
Ég mun passa vel uppá elsku mömmu og styrkja þitt fólk í okkar sorg.
Ég elska þig.

Þinn sonur,



Hendrik (Hinni).