Ásthildur Salbergsdóttir fæddist í Reykjavík 25. ágúst 1939. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. september 2018.
Foreldrar hennar voru hjónin Ingiríður Vilhjálmsdóttir, húsmóðir á Suðureyri og í Reykjavík, f. 14.11. 1906 í Reykjavík, d. 18.5. 2013, og Salberg Guðmundsson, vélstjóri og verkamaður á Suðureyri, f. þar 26.6. 1912, d. 31.8. 1952.
Ásthildur giftist Friðrik F. Söebech, f. 30.12. 1931, þann 18. febrúar 1967. Foreldrar hans voru hjónin Emilía Guðbjörg Þórðardóttir Söebech, húsfreyja í Reykjavík, f. 15.6. 1903, d. 26.12. 1968, og Þórarinn Söebech járnsmiður, f. 31.5. 1890, d. 12. 1. 1962. Ásthildur og Friðrik eignuðust tvö börn, Berglindi, f. 8.8. 1967, og Þórarin, f. 14.12. 1969. Kona Þórarins er Stefanía Unnarsdóttir, f. 3.2. 1973. Börn þeirra eru: Birta Kristín Stefánsdóttir, f. 20.7. 1997, Ásta Fanney, f. 29.5. 2000, og Friðrik Fannar, f. 9.8. 2001.
Börn Friðriks af fyrra hjónabandi eru Katrín Kristín Söebech, f. 27.10. 1955, og Theódór Júlíus Söebech, f. 16.10.1958.
Systkini Ásthildar: 1) Svanhildur Salbergsdóttir, f. 23.10. 1937, d. 9.5. 1977. Var gift Sigurði F. Mar, f. 10.11. 1933. Dætur þeirra eru: Kristín Ingibjörg, Birna og Steinunn. 2) Vilhelmína Þórdís Salbergsdóttir, f. 19.2. 1942. Maki: Jóhann G. Hálfdanarson, f. 24.9. 1939. Synir þeirra eru: Salberg og Þorgeir. 3) Guðmundur Hermann Salbergsson, f. 31.3. 1945, d. 28.5. 1993. Eftirlifandi eiginkona hans er Karólína Árnadóttir, f. 30.10. 1947. Dætur þeirra eru Hrund og Sigríður.
Ásthildur fæddist í Reykjavík en fjölskyldan flutti árið 1941 að Suðureyri við Súgandafjörð. Salberg faðir hennar lést árið 1952 og árið 1956, þegar Ásthildur var 17 ára, flutti Ingiríður móðir hennar með börnin til Reykjavíkur. Ásthildur lauk fullnaðarprófi frá Barnaskóla Suðureyrar og síðar tók hún námskeið í Iðnskólanum í Reykjavík og fékk réttindi sem bókbindari. Fyrstu árin vann hún í Sælgætisgerð, Sjóklæðagerðinni og Þórskaffi en árið 1959 hóf hún störf í Prentsmiðjunni Odda, sem þá var á Grettisgötu. Í Odda starfaði hún þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2006, að frátöldum þeim níu árum sem hún tók hlé til að vera heima með börn og þeim sumrum sem hún vann við síldarsöltun á Raufarhöfn 1962 og 1963 og á Hótel Valhöll á Þingvöllum 1965 og 1966.
Ásthildur tók virkan þátt í starfi Þjóðdansafélags Reykjavíkur frá 1961 til 1966.
Útför Ásthildar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 21. september 2018, klukkan 15.

Við Ásta vorum systur og við vorum líka vinkonur.  Gátum leitað hvor til annarrar þegar þurfti.
Við ólumst upp á Suðureyri við Súgandafjörð og eyddum þar bernskudögunum við leiki og störf. Ásta var rösk til allra verka og vann sín verk hávaðalaust.  Á laugardögum áttum við systurnar þrjár að þrífa húsið. Mér finnst hún hafa sjaldan skipt skapi nema þegar hún varð pirruð á henni yngri systur sinni sem var ekki hrifin af húsverkum og rak hún hana út með þeim orðum að það væri ekkert gagn í henni, þú þvælist bara fyrir - sem var alveg rétt.
Eftir að pabbi lést árið 1952 fluttum við suður og bjuggum fyrst á Leifsgötu í lítilli kjallaraíbúð. Þar sváfu þær Svana og Ásta í stofunni en við Gummi inni í svefnherbergi hjá mömmu. Mamma keypti svo íbúð í Miðtúni sem var heldur rýmri og þá fékk Ásta sérherbergi því Svana var flutt að heiman. Hún eignaðist góðar vinkonur í síldinni fyrir austan og héldu þær hópinn lengi og flestar lengst af ævinnar.
Hún kynntist Friðrik þegar hún vann í Valhöll á Þingvöllum og þau giftu sig 18. febrúar 1967. Daginn sem þau giftu sig var Gummi bróðir veikur með mikinn hita og við rúmið. Næsta dag var ekki hitavottur í honum og hann gerði sér gott af afgöngum veislunnar. Ég stríddi þeim stundum á því að líklega hefði hann fengið hita af áhyggjum af systur sinni og verið efins um að sambandið entist, sem var þó ekki raunin og þeir Friðrik og Gummi voru alltaf ágætis vinir. Ásta og Friðrik eignuðust börnin Berglindi og Þórarinn og bjuggu lengst af í Selbrekku 21 í Kópavogi. Það hús keypti svo Þórarinn fyrir sig og sína fjölskyldu en þau Ásta og Friðrik fluttu í Grænlandsleið 49 og bjuggu þar síðan. Hún var mikil fjölskyldukona og hélt vel utan um hópinn sinn. Það var alltaf gott að koma til þeirra, bæði í Selbrekkuna og Grænlandsleiðina. Í nokkur ár komum við til þeirra á Þorláksmessu og borðuðum með þeim skötu með hömsum og hnoðmör að vestfirskum sið.
Pabbi varð bráðkvaddur árið 1952, Svana lést 1977 og Gummi árið 1993. Öll létust þau úr ættgengri hjartabilun sem ég er nú að kljást við. Ásta var sú eina sem slapp við þennan vágest en fékk krabbamein fyrir u.þ.b. fimm árum sem dró hana til dauða nú í byrjun september. Mamma aftur á móti varð 106 og hálfs árs. Aldrei verður fullþökkuð sú alúð og umönnun sem Ásta og Friðrik veittu mömmu en hún bjó hjá þeim í Selbrekkunni í mörg ár eða þar til hún fór á hjúkrunarheimilið á Víðinesi, þá orðin 96 ára og síðar á Mörk.
Við áttum líka margar góðar stundir saman systur eftir að Ásta veiktist. Við spiluðum skrafl af miklum móð og systurlegum því keppnisandinn var nú ekki meiri en svo að við aðstoðuðum hvor aðra ef vantaði staf og hin sá lausn. Spurðum bara átt þú ekki þennan staf þá gætirðu til dæmis notað hann hér!
Við skiptumst á púsluspilum og réðum krossgátur inn á milli. Hún átti spjaldtölvu og var Berglind búin að setja inn ýmsa leiki sem hún dundaði við eftir að handavinnutímabilinu lauk. Þegar hún varð veikari fór ég að lesa fyrir hana, fyrst hinar og þessar frásagnir t.d. að vestan en svo fengum við þá hugmynd að lesa Kapítólu. Við mundum báðar þá sögu frá þeim tíma þegar við vorum í barnaskólanum á Suðureyri og hún var lesin upphátt í handavinnutímunum. Ég kom í heimsókn til hennar daglega síðasta mánuðinn og las fyrir hana Kapítólu. Það kom ekki til greina að annar en ég læsi þá bók fyrir hana. Þessar stundir voru góðar þó stundum væri hún of þreytt til að hlusta. Þá hætti ég en sat áfram við rúmið hennar í þögn. Ekki tókst okkur að ljúka við Kapítólu áður en yfir lauk. Eitthvað hefur henni þótt ég vera afskiptasöm, sjálfsagt með réttu, því þegar ég spurði hjúkrunarkonuna um eitthvað í sambandi við umönnunina sagði hún vingjarnlega: Hætt þú nú að skipta þér af, sem ég lét mér að kenningu verða. Eitt sinn eftir að hún var orðin mjög þreytt og mátti lítt mæla var ég að fara. Ég hafði setið út við opinn gluggann og var köld á höndunum. Ég tók um hendurnar á henni til að kveðja og þá segir hún skýrum rómi: Ósköp er þér kalt á höndunum telpa. Þetta voru líklega hennar síðustu orð. Hún bar greinilega enn umhyggju fyrir litlu systur.
Ýmsir heimsóttu hana í veikindum hennar, bæði heima og á Líknardeildina og er þeim færðar þakkir. Þær komu oft Dídí og Didda frænkur okkar úr móðurættinni. Þórarinn og hans fjölskylda komu oft og litu líka eftir Friðrik en að öðrum ólöstuðum vil ég þakka henni Berglindi dóttur þeirra fyrir einstaka umhyggju og umönnun við þau bæði, forelda sína á þessum erfiðu tímum. Hún stóð eins og klettur við hlið þeirra, kom nánast daglega til móður sinnar og aðstoðaði jafnframt föður sinn við ýmis verkefni s.s. læknisferðir o.þ.h. Það er ómetanlegt.
Nú er kveðjustundin komin.  Ég sakna hennar systur minnar mikið og stundum kemur í hugann ef mig vantar upplýsingar um eitthvað: Ég spyr bara Ástu, hún veit þetta örugglega, en þá verð ég að bíta í það súra epli að hún er ekki lengur hér til svara.
Ég þakka allar samverustundir okkar í þessi 76 ár sem við vorum samferða. Á þær ber engan skugga.



Vilhelmína (Villa).