Kristrún Sigurbjörg Ellertsdóttir fæddist á Akureyri 15. maí 1935. Hún lést á Landspítalanum 22. september 2018.
Foreldrar hennar voru Ellert Þóroddsson vélstjóri, f. 26. september 1903, d. 3. júlí 1972, og Hólmfríður Stefánsdóttir, f. 29. nóvember 1911, d. 7. ágúst 2013.
Systkini hennar eru Þórhallur Stefán, f. 1933, d. 1963, Gauja, f. 1937, Páll Einar, f. 1942, d. 1965, Gunnar f. 1944, d. 2002, og Guðmundur Ásgeir, f. 1950
Eiginmaður Kristrúnar var Þorsteinn Steingrímsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, f. 25. mars 1933, d. 5. október 2011. Foreldrar hans voru Steingrímur Jónsson, f. 15. desember 1902, d. 7. desember 1972, og Aðalrós Björnsdóttir, f. 24. september 1910, d. 7. júlí 1991.
Barn Kristrúnar og Þorsteins er Kolbrún, f. 30. október 1956, maki Matthías Loftsson, f. 30. mars 1955. Hennar börn eru Þorsteinn Rúnar Kjartansson, f. 29. ágúst 1980, barn hans er Kolbrún Birna, f. 3. desember 2010, og Lilja Björg Kjartansdóttir, f. 4. ágúst 1982, maki Erlendur Ingi Jónsson, f. 11. mars 1982, börn þeirra eru Ástbjörg Lilja, f. 15 desember 2005, Elísa Ósk, f. 22 október 2012, og Kamilla Marie, f. 31 mars 2016. Börn Matthíasar eru Kristján, f. 1979, maki Oddný Jónsdóttir, f. 1985, börn þeirra Hafdís, f. 2012, og Sigurbjörg Emelía f. 2016, og Erna, f. 1982.
Kristrún fluttist eins árs til Grímseyjar og bjó þar til fimm ára aldurs. Þá fluttist hún með foreldrum sínum aftur til Akureyrar og ólst þar upp og lauk barnaskólaprófi eins og það hét þá og vann síðan við ýmis störf. Kristrún greindist með berkla í ágúst 1951, þá 16 ára gömul. Var hún þá send til lækninga á berklahælið á Kristnesspítala, þar sem hún lá fram til jóla það ár, en ný lyf voru þá komin á markaðinn, sem hjálpuðu til við bata hennar. Á Akureyri kynntist Kristrún Þorsteini og þau giftu sig 24. september 1955 og hófu búskap á Hríseyjargötu á Akureyri.
Eftir að Þorsteinn lauk námi í bifvélavirkjun bauðst honum staða sem verkstjóri á véladeild Vegagerðarinnar á Reyðarfirði og fluttu þau Kristrún til Reyðarfjarðar sumarið 1957 með Kolbrúnu þá níu mánaða gamla. Eftir nokkurra ára búsetu á Reyðarfirði byggðu þau sér hús við Mánagötu 18 á Reyðarfirði og bjuggu þar, uns þau fluttu suður til Reykjavíkur 1979. Í Reykjavík bjuggu þau lengst af í Eyjabakka 14 og Kristrún bjó þar áfram eftir að Þorsteinn féll frá.
Útför Kristrúnar verður frá Bústaðakirkju í dag, 2. október 2018, klukkan 13.

Hvernig sem eilífðar tímarnir tifa,
trúin hún græðir sem vorblærinn hlýr.
Myndin þin, brosið og minningin lifa,
meitluð í huganum svo fögur og skír.
(Friðrik Steingrímsson)



Mig langar að minnast föðursystur minnar Rúnu með nokkrum fátæklegum orðum.
Ég man fyrst eftir Rúnu í kringum fimm ára aldurinn í Hafnarstræti hjá ömmu Fríðu en mjög óljóst. Fín, vel til höfð kona sem gaf manni alltaf smá af tíma sínum. Síðan ekki fyrr en sumarið eftir í Mývatnssveit þegar ég bjó í Helluhrauninu þá sex ára að hún og Steini komu og voru í tjaldi fyrir neðan hlíðina, þau komu um kvöld og við gátum ekki vakað eftir þeim. Við Rósa systir vöknuðum spenntar morguninn eftir og máttum varla vera að því að borða morgunmat og hentumst út í tjald til þeirra. Ég man enn spenninginn. Þá voru sko fagnaðarfundir.Þegar ég flutti á Reyðarfjörð árið 1974, þá fluttum við úr Mývatnssveit og áttum til að byrja með heima í Mánagötunni hjá Rúnu og Steina. Vá hvað það var alltaf fínt hjá Rúnu frænku. Hún var uppáhalds frænkan. Ég man ég gekk um og þorði varla að setjast í stólana í stofunni, en þeir voru skemmtilegir það var hægt að snúa þeim í hringi og við gerðum það oft og mörgum sinnum, við máttum það ekki en gerðum samt. Minnist þess hvað mér fannst hún alltaf flott um fæturna, lakkaðar táneglur, berfætt í einskonar tréklossum með breiðu bandi yfir ristina, opnir í tánna, háum hælum og hljóðið þegar skórnir smullu upp í bera hælana, svona ætlaði ég sko að vera þegar ég yrði stór. Enda mátaði ég þá mjög oft og prófaði að ganga á þeim til að vita hvort þetta gerðist þegar ég gekk í þeim.
Rúna var oft að stússast í eldhúsinu og þar fékk maður að vera með, eitt skiptið fyrir jól leyfði hún okkur að gera loftkökur alveg sjálfum. Jólin hjá Rúnu og Steina var eitthvað sem er fast í minningunni. Það voru alltaf skemmtilegir tímar. Ég man ein jólin að það var kolvitlaust veður og Steini sótti okkur á Vegagerðarbílnum sem var kallaður Tuddi og fór með okkur upp í Mánagötu, rafmagnið fór af stuttu seinna og ekki var hægt að elda jólamatinn. Ég minnist þess ekki að við systur höfðum verið eitthvað órólegar yfir því heldur biðum við rólegar eftir að rafmagnið kæmi svo hægt væri að klára að elda matinn og halda jólin. Man að þetta var notaleg stund. Veðrið hamaðist fyrir utan, inni sátum við stilltar og hlustuðum á sögu sem Kolla las fyrir okkur við kertaljós. Svo kom rafmagnið og hægt var að klára að elda jólamatinn og opna síðan pakkana.
Þegar ég minnist Rúnu þá kemur upp í hugann brúnkaka hún bakaði svo góða súkkulaðiköku sem hún kallaði brúnköku. Mér fannst hún einhver sú besta kaka sem ég hafði borðað. Hún sagði síðan seinna meir að þegar ég gifti mig þá ætlaði hún að baka brúnköku handa mér og gefa mér í brúðkaupsgjöf, en það varð aldrei af því, þar sem ég  gifti mig aldrei.
Sumrin voru heldur ekki tíðindalaus. Rúna og Steini eiga þar sinn sess. Þá fékk maður að reitast í garðinum með henni. Tína ánamaðka fyrir veiðiferðirnar upp í Skriðdal. Útilegur í Atlavík og margt og mikið gert til skemmtunar. Fá að fara í bílinn með Steina og Rúnu var stundum hálfgerð samkeppni á milli okkar systra, yfirleitt vann Rósa enda  í uppáhaldi hjá þeim. Kannski leyfði ég henni líka að vera það. Ég fékk þá að vera ein í bíl með mömmu og pabba.
Eftir að ég fullorðnaðist og flutti að heiman inn á Akureyri þá minnkuðu ekki okkar samskipti. Hún kom oft og iðulega á Akureyri og þá vissi maður alltaf af því. Þau komu í heimsókn til mín og ég til þeirra. Þau kynntust börnunum mínum og þar vantaði ekki kærleikann.
Þegar ég fór svo að fara í útilegur fyrst eftir að ég varð ein með krakkana, hitti ég þau á Bakkaflöt. Ég brunaði með fullan bíl af dóti og hústjald. Steini aðstoðaði mig við að tjalda og nágrannafólk mitt sem var á tjaldstæðinu hafði orð á því hvað þessi maður væri nú almennilegur að hjálpa mér við að tjalda, vissi ekkert um tengslin okkar. Í þessari fyrstu útilegu minni með þeim varð til vinskapur milli míns yngsta, Snævars Atla, og Steina. Snævar einungis þriggja ára og Steina fannst hann þurfa að ganga á eftir honum og passa hann þegar hann var að vappa um tjaldstæðið. Snævar var ófeiminn og spjallaði við alla og Steini líka og þarna gerðist eitthvað þeirra á milli sem var órjúfanlegt til síðasta dags Steina.
Rúna fékk líka að kynnast honum þarna. Hann bauð sig velkominn hvenær sem var í tjaldvagninn til þeirra, fékk sér kex og á morgnanna borðaði hann ekki morgunmat hjá mér, heldur tölti til Rúnu og fékk Cheerios þar. Þetta gerði hann æ síðan ef við vorum einhversstaðar í útilegu. Rúna hafði oft orð á því hvað þetta hafi verið notalegt. Hann kom inn og sótti kex og út aftur. Eins talaði hún um hvað krakkarnir væru þægileg, aldrei neitt vesen eða ósætti.
Þegar amma Fríða flutti á elliheimili dvaldist Rúna aðeins lengur í íbúðinni hennar og við vorum að brasa ýmislegt fyrir ömmu. Það er stund sem ég gleymi seint. Við fórum saman út að borða, við fórum saman í bíó og við fórum saman í bíltúr inn í Eyjafjörð í jólahúsið og tókum svo einn stóran Eyjafjarðahring. Við vorum bara eins og vinkonur. Þá var líka ýmislegt rætt sem verður aldrei rætt aftur.
Alltaf var maður velkominn í Eyjabakkann ef maður var á ferð í borginni og ævinlega veisluföng borin á borð fyrir okkur. Ef okkur vantaði gistingu þá var það nú minnsta mál. Ég minnist þess að ekki að hafa gist mjög oft en það kom fyrir. En alltaf reyndi ég að fara í að minnsta kosti eina heimsókn ef ég var stödd fyrir sunnan.
En nú er hún farin en minningarnar ylja. Elsku Rúna, góða ferð og við biðjum að heilsa Steina. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og börnin mín. Mér finnst svo gott að vita að þau eigi líka minningar um þig og Steina.

Elsku Kolla, Matti, Steini, Kolbrún, Lilja Björg, Elli, Ástbjörg Lilja, Elísa Ósk, Kamilla Marie.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur.


Lísa Björk, Jón Gunnar, Lilja Rún, Snævar Atli