Laufey Dís Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 26. apríl 1958. Hún lést á heimili sínu í Vogagerði 1 í Vogum á Vatnsleysuströnd 17. september 2018.Faðir hennar var Einar Leó Guðmundsson skósmiður, f. 4.12. 1928, d. 26.1. 1989, og móðir hennar er Margrét Erla Einarsdóttir, f. 11.5. 1931. Systkini hennar eru Ragnheiður Aldís, f. 17.12. 1950, d. 7.8. 2013, Sólveig, f. 14.5. 1952, d. 17.4. 2001, Einar Marel, f. 14.5.1952, Arnbjörg, f. 18.10. 1953, og Erla Björk, f. 4.7. 1963.
Maki hennar er Þorsteinn Frímann Sigurgeirsson flugmaður. Fyrirverandi eiginmenn og maki eru 1) Magnús Þór Einarsson, f. 9.4. 1942, þau gengu í hjónaband 1979 en skildu 1987. Börn þeirra eru a) Ríkharður Leó, f. 8.8. 1979. Unnusta hans er Ingibjörg Árnadóttir, f. 10.11. 1982. Þau eiga synina Ríkharð Leonard, f. 6.7. 2011, og Ragnar Tý, f. 11.1. 2014. b) Telma Dögg, f. 12.5. 1982. Maki hennar er Óli Sigdór Konráðsson, f. 1.6. 1988. Sonur Telmu er Mikael Leó, f. 22.5. 2002. 2) Gísli Guðnason, f. 8.6. 1943. Þau bjuggu saman frá 1988 en slitu sambúð 1992. Dóttir þeirra er Margrét Erla, f. 10.5. 1990. Maki hennar er Sigurði Lúther Lúthersson, f. 6.2. 1989. 3) Hafþór Hafsteinsson, f. 13.4. 1959. Þau giftust 1994 en skildu 1998. Dóttir þeirra er Elísa Hafdís, f. 2.5. 1993. Maki hennar er Þráinn Júlíusson, f. 25.5. 1993.
Laufey ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í skóla þar en var einn vetur á Hólmavík hjá Fjólu föðursystur sinni. Hún fór í sveit á Súluvelli á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu hjá Jóni og Guðmundu og var í skóla einn vetur fyrir norðan.
Hún giftist Magnúsi Þór Einarssyni, bílstjóra og framreiðslumanni, og eignaðist son sinn, Ríkharð Leó, árið 1979. Bjuggu þau á Eggjavegi 3 í Smálöndunum. 1982 eignaðist hún dóttur sína, Telmu Dögg. Þau fluttu í Hraunbæ en keyptu sér hús á Álftanesi. Skildu þau 1987. Tók hún saman við Gísla Guðnason og flutti í Breiðholt 1988. Fluttu þau í Neskaupstað 1989. Eignaðist hún svo dóttur 1990, Margréti Erlu. Sleit hún sambúð við Gísla 1992 og fluttist til Reykjavíkur. Hún kynntist Hafþóri Hafsteinssyni sjómanni og eignaðist Elísu Hafdísi 1993 og flutti í Stykkishólm og Flatey á Breiðafirði 1994. Þau giftust 1994 en skildu 1998. Laufey bjó í Reykjavík í nokkur ár en 2004 flutti hún ásamt dætrum sínum, Margréti og Elísu, á Blönduós.
Laufey kynnist Þorsteini Frímanni Sigurgeirssyni og bjuggu þau saman hennar síðustu ár. Laufey og Þorsteinn bjuggu í Hveragerði í nokkur ár. Þau fluttu svo í Voga á Vatnsleysuströnd 2016.
Laufey samdi mörg falleg ljóð, skrautskrifaði og teiknaði mikið. Eftir hana liggja mörg ljóð og var eitt þeirra birt í Morgunblaðinu og sum voru lesin upp í útvarpi.
Laufey var jarðsungin frá Grafarvogskirkju 28. september 2018.

Á einum fallegasta degi þessa hausts þegar sólin skein svo skært og litbrigði náttúrunnar voru svo falleg. Laufin á trjánum voru að breyta um lit og falla til jarðar þá haustaði í minni sál við fréttin sem hún Margrét Erla dóttir þín færði mér seinnipart þessa dags,  að þú elsku Laufey mín hefðir orðið bráðkvödd á hádegi.

Þú valdir þér fallegan ferðadag, fallegasta dag haustsins. Við fréttina um andlát þitt gekk ég út í garð nokkurn og himnarnir grétu, skýfall. Heimurinn eiginlega hrundi við fréttina af því að þú værir farin, Laufey mín, horfin úr þessari jarðvist. Mér fannst eins og ég ætti eftir að fá að faðma þig þó ekki nema væri einu sinni.
En örlögin höguðu því þannig að við hittumst ekki oft í seinni tíð. Þú varst samt alltaf Laufey, mágkona mín og vinkona til margra ára. En lífið var þér ekki alltaf í hag, því er verr og miður. Eins og ég skynjaði þig og skildi þá var oft myrkur í þinni sál sem leiddi þig að lokum í miklar sálarkvalir, einangrun og þunglyndi. Þú hrópaðir eftir hjálp en ég vissi aldrei hvaða hjálp ég gæti veitt þér, elsku Laufey mín. Ég vildi vera þér vinur og gera hvað ég gat en þú, elskan, varst alltaf í leit að einhverju! Leit að ástinni, þeirri einu sönnu eins og þér fannst hún eiga að vera. Leit að hamingju eins og þú skyldir hana en umfram allt vantaði þig að finna að þú værir elskuð af þeim eina sanna og finna til öryggis í örmum þeirra sem þú elskaðir.
Þú áttir svo auðvelt með að elska, faðma og halda fast í þann sem fangaði hjarta þitt. En alltaf ferðaðist þú með sjálfa þig á bakinu, lagðist í hverskyns ferðalög yfir fjöll og höf í leit þinni að lífshamingjunni. En við sjálfan sig skilur enginn og þú tókst oft erfiðari og lengri leiðina í þinni leit. Það skal enginn dæma þig, því í mínum huga eiga allar tilfinningar rétt á sér, þetta voru þínar tilfinningar sem báru þig oft ofurliði. Að vera svo tilfinningarík sem þú varst er ekki auðvelt og og það flækir oft lífið. Það er auðvelt að særa þá sem hafa miklar og djúpar tilfinningar, sem þú sannarlega hafðir.
Einn er sá sem hafði greiðan aðgang að þínu opna hjarta og góðu sál, Bakkus og hans fylgdarsveinar. Bakkus varð á köflum þinn besti vinur og félagi, sem þú hallaðir þér að í gegnum sársaukann. Uppskera þess vinskapar var eins og hjá flestum þeim sem eiga oft vingott við Bakkus, sársauki og sorgarvíma.
Þú þessi hæfileikaríka hjarthlýja kona með svo ótal margar guðsgjafir vissir ekki af því hve hæfileikar þínir voru miklir. Eftir þig liggja ótal ljóð, ljóð sem þú samdir til allra sem þú elskaðir. Í ljóðum þínum til barna þinna segist allt sem þú segja vildir. Þú elskaðir börnin þín fjögur umfram allt, um það þarf ekki nokkur að efast, hvernig sem allt er og var.
Rithönd þín var svo falleg, ávallt skrautskrifuð. Alveg sama við hvaða tilefni þú ritaðir. Eyðublöð og ávísanir, ljóð og letur á blað, allt var skrautskrifað. Söngrödd þín var líka mjög falleg og þú varst úrvals kokkur og matseld þín var hreinræktuð list. Umfram allt sem kannski ekki allir vissu, lá listin í því að elska og geta elskað án skilyrða og fór þar fremst og sterkust móðurástin.
Umvefjandi mágkona og vinur, ég held ég fari rétt með að þú, elsku Lulla mín, þú varst uppáhalds frænka barna minna. Börnin mín vildu vera hjá þér og eins og sagt er, bragð er af þá barnið finnur. Lulla frænka var uppáhalds!
Þegar ég nú lít yfir farinn veg langar mig að minnast upphafs vináttu okkar. Tímann sem við áttum saman, þú, Laufey mágkona mín og ég.
Það var árið 1980 að Einar Marel bróðir þinn, kynnti mig fyrir sinni uppáhalds systur, Laufey Dís. Þú bjóst í Smálöndunum með Magnúsi Þór og drengnum ykkar Ríkharði Leó. Ég átti fyrir dóttur, Sigríði Dagnýju sem strax var tekin í fjölskylduna þína sem væri hún frænka allra barnanna sem fyrir voru í fjölskyldunni. Heima hjá ykkur bjó pabbi þinn, yndislegur maður, Einar Leó sem ég minnist ávallt sem tengdaföður þrátt fyrir að hann væri fósturfaðir Einars Marels. Mér fellur aldrei úr minni gæska þín og pabba þíns heitins þegar þið lögðuð á ráðin varðandi jólagjöf til dóttur minnar, Dagnýjar. Eitthvað vissuð þið að litlu dóttur mína vantaði kuldaskó en við Einar vorum auralítil. Ég var í námi á þessum tíma og við Einar að leigja í Karfavoginum góða. Úr jólapakkanum komu leðurskór, loðfóðraðir frá Steinari Waage. Hugulsemi ykkar var ekki lítil. Þetta er ein fallegasta gjöf sem ég man eftir og aldrei gleymist.
Ég og Einar Marel eignuðumst svo Þórð okkar og þið Maggi eignuðust Thelmu, við eignuðumst svo Hörð Einar. Nú voru börnin okkar orðin fimm talsins og mín börn voru þín og þín börn voru mín. Nær daglegur samgangur á milli okkar og börnin okkar léku sér saman. Svo var það barnavagninn þinn, brúni fíni flauelsvagninn. Þar lúlluðu börnin eitt af öðru , Ríkharður Leó þinn fyrstur, svo Þórður minn, Thelma þín, Hörður minn allt koll af kolli þar til loks hann Arnar minn lúllaði í honum. Við vorum af þeirri kynslóð, að lífið snérist um að nýta hlutina, eiga fyrir mat á borðið fyrir börnin okkar og láta föt ganga barn af barni. Þessir tímar voru nefnilega þannig að kærleikur, vinátta, hjálpsemi og sáluhjálp voru lykillinn að ríkidæmi.
Eitt það mesta ríkidæmi og gæfa sem mér hefur hlotnast í lífinu var þegar ég eignaðist allar þessar yndislegu mágkonur á einu bretti árið 1980 þegar Einar bróðir þinn og ég kynntumst. Allar mágkonur mínar tóku mér svo innilega vel. Þar kviknaði vinskapur sem gerði mig ríka.
Þessi tími kemur aldrei aftur en er vel geymdur í minninganna safni. Hann kallar fram gleði og þakklæti hvernig sem allt nú fór. Þið systur voruð mér sem fjölskylda en þið systkinin voruð alls sex talsins. Svo skrítið sem það er, ert þú þriðja systirin sem kveður þetta jarðlíf. Áður kvöddu okkur Aldís og Sólveig. Eftir standa Einar Marel, Arnbjörg og Erla björk.
Þær eru minnisstæðar heimsóknirnar til þín þegar þú bjóst í Flatey á Breiðafirði, af öllum stöðum! Þar voru margar samverustundirnar. Þú þá komin með fjögur börn Ríkharð, Thelmu, Margréti Erlu og Elísu Hafdísi. Hjá ykkur í Flatey vildi yngsti sonur minn Arnar vera og dvaldi sumarlangt með ykkur. Enda áttir þú alltaf svo mikið í honum. Þú sagðist eiga hann með mér strax við fæðingu. Baðst mig um þó ekki nema væri bara tærnar litlu.

Börnin okkar, mín og þín sóttust í félagsskap hvort af öðru. Öll uppi á háalofti í húsinu ykkar í Flatey. Ríkharður þinn var aufúsugestur í Hólaberginu hjá mér, svaf bara á milli bræðranna. Þetta var allt svo heimilislegt. Við fullorðna fólkið áttum það líka til að skemmta okkur saman, í Flatey, í Hólaberginu og stundum var skellt sér á bar saman. Það var ekki leiðinlegt hjá okkur, Lulla mín, og við vorum trúar og tryggar hvor annarri, áttum hvor aðra að í mótlæti sem meðbyr. Tryggðartröllið mitt sagðir þú alltaf um mig. Ekki veit ég hvort ég stóð undir því en ég vildi vera þér trygg og hjálpa þér sem mest ég mætti.

Þegar hamingjan bankaði upp á var það því miður svo að hún staldraði stutt í senn. Þú varst í þessu tómarúmi, rótleysi og oft uppfull af sorg sem þú kunnir ekki að vinna bug á. En allt hefur sínar ástæður. Rætur hugans geyma gömul sár, allt frá vöggu.
En svona fór nú þessi saga, sagan þín .
Ég votta börnum Laufeyjar; Ríkharði, Thelmu, Margréti Erlu og Elísu sem og fjölskyldum þeirra mínar dýpstu samúð. Einnig er hugur minn hjá Margréti Erlu, móður Laufeyjar, systkinum hennar, Einari Marel, Arnbjörgu og Erlu Björk og fjölskyldum þeirra ásamt sambýlismanni Laufeyjar, á þessum erfiðu tímum.
Ég bið góðan Guð að koma inn í aðstæður ykkar sem nú syrgið Laufeyju og gefa ykkur styrk í sorginni, trú og von til að halda áfram og rækta allt það góða, kærleikann.

Ég veit að þú, Laufey mín, vakir yfir þeim og veitir þeim vernd frá öllu illu. Góða ferð í Sumarlandið. Sakna þín alltaf, endalaust!




Margrét Harðardóttir.