Svanhildur Sveinbjörnsdóttir fæddist 26. september 1965. Hún lést 9. október 2017. Útför Svanhildar fór fram 19. október 2017.

Í dag er ár liðið frá því að ástkær eiginkona mín, besti vinur og sálufélagi lést, langt um aldur fram eftir harða og stutta baráttu við krabbamein.  Minn missir er mikill en mestur er hann þó hjá dætrum mínum tveimur sem syrgja móður sína sárt.  Þær fengu ekki mikinn tíma með henni og því er höggið þungt fyrir ungar stúlkur, sem eru að hefja lífið.  Sorgin er mikil og allt umlykjandi, en hún hefur breyst frá fyrstu mánuðum eftir andlát Svanhildar, kemur í bylgjum og það líður lengra á milli stundanna sem eru þungar og erfiðar.  Þessu sorgarferli er stundum líkt við á sem rennur til sjávar, það skiptast á fossar, lygnur og strengir, en áfram rennur áin og nær til sjávar að lokum.  Þetta ferðalag sorgarinnar varir væntanlega ævilangt fyrir okkur sem vorum næst Svanhildi.
En það eru fleiri en ég og dætur mínar sem syrgja.  Móðir hennar og faðir misstu yngsta barnið sitt sem var þeirra stoð og stytta síðustu ár.  Faðir Svanhildar lést skömmu síðar eftir að dóttir hans kvaddi þennan heim.  Systkini Svanhildar, makar þeirra og börn hafa misst kæra systur, og frændfólkið hennar sterka frænku sem allir litu upp til.  Sama má segja um foreldra mína, sem unnu tengdadóttur sinni mjög, einnig bræður mínir og makar þeirra, þó svo að samskiptin hafi verið minni en við skyldfólk Svanhildar.  Utar í hringnum eru æskuvinkonur hennar úr Mosfellssveit, sem án efa var illa brugðið við að heyra af veikindum hennar og andláti.  Einnig aðrar vinkonur og vinir úr sameiginlegum vinahóp, vinnufélagar, vinir og kunningjar úr viðskiptafræðinni og svo mætti telja áfram.  Svanhildur fór í erfiða geisla- og lyfjameðferð sem reyndi mjög á hana.  Hún ætlað að rísa á fætur og hitta fólkið sitt og vini, en henni vannst aldrei þrek eða tími til gera það, svo illskeytt var krabbameinið.  En ég veit að allt þetta fólk minnist Svanhildar með miklum hlýhug og væntumþykju.
Þrátt fyrir sáran missi og þá sorg sem fylgir, lifir minningin um einstaklega góða manneskju.  Svanhildur var ljóngáfuð og hugrökk persóna, hugrökk í víðri merkingu þess orðs.  Svanhildur var í raun töffari.  Það var fátt sem hún óttaðist í lífinu hvort sem það var aðstoð við dætur sínar við heimanám, smíða eldhúsinnréttingu, gera við sláttuorf eða heitan pott upp í sumarbústað.  Hún hafði allt að því óendanlega þolinmæði í leysa slík verkefni og ósjaldan leituðu fjölskyldumeðlimir til Svanhildar með ýmis vandamál og úrlausnarefni, bæði veraldleg og andleg.  Hún kom oftast með bestu lausnina.  Hún tókst á við veikindi sín og erfiða meðferð af miklu æðruleysi og yfirvegun, en hún vildi gera allt til að vernda og hlífa sínum nánustu við því áfalli sem dunið hafði yfir fjölskylduna.  Í þessu felst mikið hugrekki, vitandi sjálf um nær ólæknandi meinið.
Þær eru ófáar gleðistundirnar sem ættingjar og vinir áttu með Svanhildi, en hún gat verið grallari og til í að gera grín að öllu, þó mest að sjálfri sér.  Þá hló hún hæst.  Það var mikið hlegið á Frakklandsárunum, sem farin voru eftir menntaskóla, fyrstu búskaparárin, árin okkar í viðskiptafræðinni og síðar árin í framhaldsnámi í Köben, þessi ár voru ógleymanleg, lífið var yndislegt og blasti við.  Hún efldi með stelpunum okkar sjálfstraust og að koma heiðarlega fram við fólk en vera ávalt trúr sinni sannfæringu.  Eftir á að hyggja var það gæfuspor að Svanhildur varð heimavinnandi frá árinu 2006, þannig gaf hún dætrum okkar dýrmætan tíma.  Best leið Svanhildi í sumarbústaðnum okkar í Skorradal, umvafin vinum og ættingjum í fallegri íslenskri náttúru.  Þar gat Svanhildur baukað endalaust í ró og næði frá hversdagsamstri.  Við ákváðum að þetta yrði okkar griðastaður þegar eitthvað á bjátaði og söknuður herjaði á, eftir að hún hefði kvatt okkur.  Við minnumst allra okkar skemmtilegu ferðalaga til útlanda, þar sem hún var að sjálfsögðu skipuleggjandi og fararstjóri.  Ég reyni nú að taka við keflinu.  Lestin brunar áfram, sagði elsti bróðir minn þegar hann hafði misst svila sinn fyrr um vorið, eftir svipaða baráttu við krabbamein ... við verðum víst að halda áfram þessari ferð!
Blessuð sé minning Svanhildar, sem er ljósið í lífi okkar.

Arnar.