Þorbjörn Haukur Liljarsson fæddist 29. júní 1972. Hann lést 15. október 2018.
Foreldrar Þorbjarnar eru Guðrún Hauksdóttir, f. 1. september 1955, og Liljar Sveinn Heiðarsson, f. 5. desember 1952.
Systur Þorbjarnar eru: Dagrún Fanný, f. 29. október 1981, sambýlismaður hennar er Fannar Freyr Bjarnason, og Lilja Guðrún, f. 24. mars 1986, sambýlismaður hennar er Styrmir Már Sigmundsson.
Dóttir Þorbjarnar er Alexandra Líf, f. 12. mars 2007, móðir hennar er Hanna Guðbjörg Þorgrímsdóttir.
Útför Þorbjarnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 22. október 2018, klukkan 15.
Þó sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý,
því burt varst þú kallaður á örskammri stundu
Í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða
Svo fallegur, einlægur og hlýr
En örlög þín ráðin - mig setur hljóða
Við hittumst ei aftur á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma
Gæta að sorgmæddum, græða djúp sár
Þó kominn sért yfir í aðra heima
Mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður H. Lárusdóttir)
Að fylgja barni sínu til grafar er þyngra en tárum taki. Við það myndast
tómarúm sem erfitt er að meðhöndla. Hugurinn hreinlega snýst um sjálfan sig
og maður nær engum áttum. Í gær átti ég þrjú börn í dag aðeins tvö.
Myndast hefur stórt skarð í fjölskyldu okkar við fráfall þitt elsku sonur.
Líf þitt var ekki auðvelt en samskipti okkar voru alltaf ljúf. Þinn grái
húmor sem allir elskuðu, hlýjan og kærleikurinn voru mest áberandi í okkar
samskiptum. Mikið á ég góðar minningar fra dvöl ykkar Hönnu þinnar. Þið
komuð í heimsókn til okkar Thomasar sumarið 2006, siglduð með Norrænu.
Þetta átti jú að vera þriggja vikna sumarfrí hjá ykkur sem urðu að þremur
árum. Við áttum yndislega tíma saman.
Svo fæddist Alexandra Líf prinsessan ykkar, sem þú sást ekki sólina fyrir,
á sjúkrahúsinu í Hróarskeldu þann 12. mars 2007. Hve stoltur þú varst að
tilkynna mér að fallegasta barn í heimi væri fætt. Hún er líka gullfalleg,
vel gefin og hjartahlý stúlka sem á erfitt með að skilja það að pabbi sé
dáinn. Þú getur verið svo stoltur af henni og getur treyst því að við
hjálpumst að við að hlúa að Alexöndru og hafa hana alltaf í bænum okkar og
með okkur.
Yndislegi Þorbjörn minn, hvað ég verð glöð við þá hugsun er þú varst á
mótorhjólinu þínu sem gaf þér svo mikið og alla þá gleði sem þú fékkst út
úr því sporti. Það hefur alltaf verið þannig með þig, ef þú keyptir þér
eitthvað þá var það alltaf það besta á markaðnum. Besta hjólið, besta
trommusettið, flottasti síminn.
Þú áttir alltaf þann draum að hjóla niður Evrópu, þú sagðir: Rosalega væri
það gaman. Sá draumur rættist ekki en að hjóla gaf þér bara svo mikið að
Evrópa gat beðið.
Þú varst mikill fjölskyldumaður og í edrúmennsku þinni var það alltaf
fyrsta verk að hugsa til fjölskyldu þinnar og að eiga sem flestar stundir
með okkur. Stundirnar með Alexöndru Líf þinni voru þér dýrmætar. Systur
þínar voru þér kærar og við foreldrarnir alltaf ofarlega í huga þínum.
Samband okkar einkenndist af miklum kærleik. Við vorum mjög náin og vissum
ef eitthvað bjátaði á, þurftum við ekki að hringja til að fá staðfestingu,
við vissum það bara. Við fjölskyldan þín yljum okkur nú í sorginni við
allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman.
Er mér voru færðar þær fréttir að þú værir dáinn var það mín fyrsta hugsun
hvað við nutum samverunnar um daginn. Góði Guð hvað ég er þakklát fyrir þá
gæðastund. Við keyrðum um götur borgarinnar, heimsóttum þinn kæra bæ
Kópavog og kíktum inn í Hafnarfjörð.
Þú talaðir um að langt væri síðan þú hafir setið í bil og ekið um
borgina.
Það sem okkur finnst sjálfsagt og eðlilegt var þér upplifun og lúxus.
Ég sótti þig í Gistiskýlið.
Ég gekk á móti þér og við föðmuðust og settumst inn í bílinn.
Við héldumst i hendur. Þér var kalt á höndunum. Þú lagðir hönd mína á hné
mitt og báðar þínar hendur ofan á mína. Þarna fann ég þinn gleymda
hæfileika, heilunina. Flæðið og hitinn sem kom frá þér var
ótrúlegur.
Við ókum fyrst niður á Ingólfstorg, spjölluðum við vini þína sem gaf mér
mikið og ég veit, þeim líka. Við ókum áfram, þú kysstir mig oft á kinnina
og við héldumst í hendur.
Þú sýndir mér staðina sem þú hefur sofið á undir berum himni þegar í ekkert
hús er að venda eða náðir ekki í Gistiskýlið fyrir tiltækan tíma.
Mikið þótti þér vænt um starfsfólkið í skýlinu. Þau hafa reynst þér svo
vel.
Við rifjuðum upp gamla daga. Ókum framhjá Hlíðarveginum, gamla húsinu
okkar, þú sagðist eiga góðar minningar þaðan. Þú talaðir um Fríðu ömmu,
enda varstu svo mikið hjá Fríðu ömmu og Hauki afa og þið Haukur afi voruð
svo líkir.
Við héldumst í hendur í bílnum, okkur leið vel. Við töluðum um dauðann. Þú
hræddist hann ekki. Þú hefur dáið áður, verið lífgaður við og vissir hvað
beið þín.
Mér fannst þú svo þrútinn þennan dag og spurði þig hvort þú fyndir eitthvað
til t.d. í sambandi við hjartað. Þú svaraðir snöggt: Nei! ég er
stálhraustur.
Móðurhjartað og innsæi sá annað, ég sá hvað þú varst þreyttur, þreyttur á
sál og líkama.
Ég ylja mér við þá hugsun um hvað við nutum þessarar stundar saman. Það var
fallegur glampi í augunum þínum og svo glaður yfir því að við skyldum
hittast, það sá ég og fann. Þannig leið mér líka.
Þú varst svo stoltur af mér yfir því að ég ætlaði að leggja mitt af mörkum
fyrir ykkur sem eigið í ekkert hús að venda. Ykkur sem þurfið hlýju og
öryggi rétt eins og við öll.
Ykkur sem eigið rétt á því að geta gengið inn um ykkar dyr á ykkar
heimili.
Þeirri baráttu held ég áfram, elsku Þorbjörn minn.
Við ætluðum að hittast aftur um jólin er ég kæmi til Íslands og eiga aftur
svona góða stund saman. Við lukum þessari gæða samveru okkar á
Ingólfstorgi. Við fórum út úr bílnum og föðmuðumst.
Ég horfði á eftir þér haltra niður tröppurnar og þú blandaðist vinum
þínum.
Vinum þínum sem voru þínir samferðamenn án heimilis og án öryggis og
hlýju. Þessu þarf að breyta strax.
Það voru mér þung skref að stíga inn i bílinn aftur og aka í burtu.
Ég grét allan daginn fram á nótt.
Elsku yndislegi fallegi sonur.
Takk fyrir samveruna, við sjáumst síðar.
Þín
mamma.