Karl Harðarson fæddist í Reykjavík 2. ágúst 1959. Hann varð bráðkvaddur á Spáni 5. október 2018.

Foreldrar Karls eru Geirlaug Karlsdóttir, skrifstofukona, f. 1. október 1936 á Ísafirði, og Hörður Sófusson, vélstjóri, f. 15. október 1935 í Reykjavík. Karl á eina systur, Bryndísi, f. 31. maí 1967.

Karl kvæntist 18. september 1982 Ragnheiði Láru Jónsdóttur þroskaþjálfa, f. 27. febrúar 1958. Ragnheiður Lára er dóttir hjónanna Önnu Fríðu Stefánsdóttur, fiskverkakonu og húsmóður, f. 6. október 1934 á Akureyri, d. 15. maí 2005, og Jóns Yngva Þorgilssonar, járnsmiðs, f. 11. janúar 1931 í Vestmannaeyjum, d. 9. október 1988. Karl og Ragnheiður Lára eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Hörður, f. 11. nóvember 1987, sambýliskona hans er Bylgja Dögg Sigmarsdóttir, f. 28. apríl 1991, þau eiga dótturina Emblu, f. 2. maí 2018. 2) Haukur, f. 24. október 1990, sambýliskona hans er Elsa Sól Gunnardóttir, f. 5. október 1989. 3) Auður, f. 16. nóvember 1994, sambýlismaður hennar er Jón Stefán Hannesson, f. 9. maí 1991.

Karl lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1978. Á árunum 1982-1988 starfaði Karl sem lagermaður hjá bókaútgáfu Arnar og Örlygs. Árið 1988 hefur Karl störf hjá Eimskipafélagi Íslands. Hann var m.a. forstöðumaður fyrir starfsemi fyrirtækisins í Noregi á árunum 2003-2006. Þar áður var hann yfir frysti- og kæliskipaþjónustu Eimskips. Á árunum 1993-1996 var Karl stundakennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi flutningafræði. Árið 2006 söðlaði Karl um og stofnaði fyrirtækið ThorShip, sem er alhliða þjónustufyrirtæki í fraktflutningum og sinnir vikulegum siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu. Karl var forstjóri félagsins til hinsta dags. Árið 2012 var Karl annar tveggja stofnenda hollenska skipafélagsins Cargow B.V. sem sinnir stórflutningum frá verksmiðjum Alcoa á Reyðarfirði og Mosjöen í Noregi til Rotterdam. Cargow hefur nú fimm flutningaskip í förum, en fjögur þeirra eru nýsmíði sem fyrirtækið hefur látið smíða í Kína. Bera þau einkennisnöfnin Frigg W, Sigyn W, Freyja W og Sif W.

Karl var alla tíð mikill KR-ingur og var m.a. í forsvari fyrir Píluvinafélag KR á árunum 2007-2013.

Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 25. október 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Í dag kveðjum við kæran vin, Karl Harðarson. Við Kalli bundumst vináttuböndum þegar við vorum á barnsaldri. Við ólumst upp í Vesturbænum, sem þá var enn í mikilli uppbyggingu. Blokkir voru byggðar við Reynimel, Meistaravelli og víðar. Foreldrar Kalla, Hörður og Geirlaug, voru ein af mörgum Vesturbæingum sem byggðu sér íbúð á Meistaravöllum 33 í nágrenni við KR-völlinn. Þar ólst Kalli upp fyrstu árin við mikið ástríki foreldra sinna og í þessu umhverfi bundumst við æskufélagarnir traustum vináttuböndum sem entust ævilangt.
Æskuárin hjá okkur strákunum í Vesturbænum á þessum tíma liðu áfram við leiki og störf og í minningunni var eilíft sólskin. Fótbolti skipaði stóran sess í lífi okkar strákanna og mörgum dögum var varið á KR-vellinum og víðar við þá iðju.
Það kom fljótlega í ljós að Kalli var vel til forystu fallinn í leikjum okkar strákanna og minnist ég þess að einn sólskinsdaginn, þegar verið var að malbika vesturhluta Hagamelsins, þá samdi Kalli um það að við malbikunarmennina að við mættum eiga afgangsmalbik sem ekki var notað við vegabæturnar. Þetta nýttum við strákarnir svo til þess að leggja malbikaða vegi fyrir bílana okkar í húsgrunni í nágrenninu.
Æskuárin liðu og Kalli naut góðs uppeldis foreldranna og við tóku unglingsárin. Við fórum ýmsar leiðir hvað nám varðar og nýir vinir og skólafélagar komu til sögunnar. Kalli fór í Verslunarskólann og eignaðist þar nýjan vinahóp, en alltaf héldust tengslin við gömlu æskuvinina. Á unglingsárunum unnum við strákarnir ýmsa verkamannavinnu, s.s við götumálun, í fiski hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur, á íþróttavöllum og við höfnina hjá Eimskip.
Á þessum árum, sem í minningunni einkennast af eilífri gleði og skemmtilegum samverustundum okkar vinanna, er fjársjóður sem ekki mun týnast. Oftar en ekki var verið á Kaplaskjólsveginum hjá Kalla, en heimili Harðar og Geirlaugar stóð okkur vinunum alltaf opið og alltaf var okkur vel fagnað, þótt oft hafi verið fyrirferð í í hópi lífsglaðra unglinga.
Hörður var alltaf ræðinn og gaf sér tíma til að fylgjast með vinunum og vildi vita hvernig okkur gengi í vinnu og skóla, að ógleymdum afrekum okkar í fótboltanum hjá KR.
Þegar Kalli hafði lokið prófi frá Verslunarskólanum og eftir störf hjá Eimskip fór fór hann í framhaldsnám til London í rekstri flutningaskipa (shipping).
Að loknu því námi fór hann aftur til starfa hjá Eimskip og var fljótlega orðinn einn af framkvæmdastjórum þess félags. Hann vann sig upp þar til frekari metorða enda var hann afburða snjall, traustur, útsjónarsamur og vel liðinn af samstarfsfólki.
Að nokkrum árum liðnum var hann gerður að framkvæmdastjóra Eimskips í Noregi með búsetu í Fredriksstad. Að loknum störfum hjá Eimskip stofnaði Kalli ásamt Bjarna Hjaltasyni skipafélagið Thorship og rak það til dánardægurs.
Það var gaman að fylgjast með uppgangi fyrirtækisins og það kom okkur ekkert á óvart að fyrirtækjareksturinn gengi vel, þar sem Kalli var annars vegar. Við fengum að fylgjast með uppbyggingunni og framtíðaráformunum og marga bíltúrana fórum við saman þar sem oftar en ekki var ekið niður að höfn. Eftir slíkar ferðir var maður öllu fróðari um hinar ýmsu tegundir fraktskipa og hvaða vörur var verið að flytja því Kalli var góður að útskýra hlutina á einfaldan hátt enda hafði hann um tíma kennt verðandi farmönnum flutningafræði meðfram störfum sínum hjá Eimskip.
Á Verslunarskólaárunum kynntist Kalli eiginkonu sinni, Láru, og varð hún strax einn okkar besti vinur. Okkur varð fljótt tamt að nefna þau bæði í sömu andrá því svo náin urðu þau okkur að við fórum ósjálfrátt að líta á þau sem hluta af fjölskyldu okkar. Líf fjölskyldna okkar fléttaðist saman á svo margan hátt. Við ferðuðumst oft saman til útlanda, auk þess sem við fórum um Ísland og eru ógleymanlegar ferðir upp á hálendið, þar sem Kalli naut sín við að aka yfir vöð á hinum ýmsu hálendisvegum. Í ferðalögum okkar kom í ljós hvað Kalli var skipulagður og búinn að undirbúa sig og kynna sér staðhætti. Aldrei hvarflaði að manni að ekki væri allt öruggt þó að mörg vöðin á hálendinu væru ógnvekjandi.
Kalli hafði einlægan áhuga á fólki og hafði gaman af því að rifja upp sögur af löngu gleymdu fólki sem við höfðum kynnst sem ungir drengir og oft gleymdum við okkur við slíkar upprifjanir. Kalli var ákveðinn, duglegur og traustur og hafði svipaðan húmor og við hin þrjú. Við gætum rakið mörg dæmi þessara eiginleika hans. Kalli hafði oft á orði að hlutirnir ættu bara að vera í lagi, þá væri hann ánægður.

Eitt sinn fannst honum dragast úr hömlu að ég setti upp löngu keypt ljós í stofunni heima hjá okkur hjónum. Daginn eftir mætti Kalli að loknum vinnudegi með verkfæri og ljósið er á sínum stað, það á örugglega eftir að kalla fram góðar minningar í framtíðinni.
Á þeim tíma sem Kalli og Lára bjuggu í London heimsóttum við þau tvisvar sinnum og áttum saman góða daga. Eitt sinn fórum við hjónin ásamt Kalla á söngleik, Lára var heima með Hörð, þar sem barnagæsla brást á síðustu stundu. Kalli var á bíl og svo vildi til að best var að keyra í gegnum Brixton-hverfið í London. Um þessar mundir höfðu geisað þar óeirðir og hafði ég á orði hvort það væri öruggt að fara þar um. Steini, það hlaupa allir í felur þegar þeir sjá okkur. Þetta reyndust orð að sönnu því við urðum ekki vör við neitt á ferð okkar.

Þetta er lýsandi dæmi um áræðni og húmor sem Kalli átti nóg af. Það var alltaf hægt að treysta á Kalla og í hugann koma svo margar birtingarmyndir þess. Hann var fyrstur á vettvang á slysadeild þegar Sveinbjörn, sonur okkar, var fluttur þangað eftir að ekið hafði verið á hann og við foreldrarnir staddir í útlöndum. Drengurinn slapp vel en Kalli hélt okkur upplýstum og önnur mál hjá Kalla voru sett á bið á meðan hann sinnti okkur.

Kalli heimsótti aldraða móður mína oft á meðan hún lifði og var þeim vel til vina. Hafði hún á orði að það væri ekki til betri drengur. Ég held að þeir sem þekktu Kalla geti tekið heilshugar undir þessi orð.

Síðustu dagar hafa verið fjölskyldu og vinum Kalla erfiðir, hann fór svo skyndilega og okkur fannst að framundan væru tímar þar sem Kalli gæti farið að njóta meira ávaxtanna af því sem hann hafði stofnað til. Við töluðum um að við færum að njóta lífsins, ferðast ennþá meira saman og hann var ákveðinn í koma því til leiðar að við hjónin lærðum að spila golf.

Góður maður er genginn, harmur okkar allra er mikill en mestur þó fjölskyldunnar sem sér á eftir eiginmanni, föður, afa, bróður og syni. Hugur okkar er hjá þeim öllum og berum við þá von í brjósti að góðar minningar um góðan mann lýsi upp dimma tíma.

Þorsteinn og Sigríður.