Leifur Kristinn Guðmundsson fæddist 19. september 1934 í Reykjavík. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 25. september 2018.

Foreldrar hans voru Guðmundur Hjörleifsson trésmiður, f. 1. október 1890 í Halakoti í Vatnsleysustrandarhreppi, d. 12. september 1982, og kona hans Guðrún Jónsdóttir, f. 23. júlí 1897 á Lambanesreykjum í Fljótum, Skagafirði, d. 27. júní 1977. Föðurforeldrar Leifs voru Hjörleifur Steindórsson, bóndi á Seli í Grímsneshreppi, og kona hans Kristín Jónsdóttir. Móðurforeldrar voru Jón Halldórsson, trésmiður í Reykjavík, og kona hans Sigurlaug Anna Rögnvaldsdóttir.

Leifur gekk í Austurbæjakólann og síðan Gagnfræðaskóla Austurbæjar sem í fyrstu var til húsa á Lindargötu í Ingimarsskóla (Franska spítalanum) en fluttist síðar á Skólavörðuholtið. Hann lauk námi þar 1951. Eftir það fór hann í Iðnskólann í Reykjavík, sem þá var við Tjörnina, og lærði vélvirkjun. Hann var samhliða á samningi hjá Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar við Nýlendugötu. Eftir það fór hann í Vélskólann og lauk þar vélstjóranámi 1958. Hann bætti svo við sig þriðja árinu í rafmagnsdeildinni og fékk þá aukin vélstjórnarréttindi og full réttindi til að vinna í raforkuverum. Leifur var mikill námsmaður og fékk sérstaka viðurkenningu fyrir námsárangur í Vélskólanum. Hann hóf nám í tæknifræði við háskóla í Þýskalandi en hætti af fjárhagsástæðum. Það hafði einnig áhrif að hann var kominn með fjölskyldu og hálfbyggt hús í Garðahreppi.

Leifur vann um skeið í Vélsmiðju Eysteins Leifssonar, var verkstjóri í Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar til 1965, sölumaður hjá Olíufélaginu hf. 1965-1979, eftir það tjónaskoðunarmaður hjá Könnun hf. og síðustu árin rak hann eigið tjónaskoðunarfyrirtæki, eða þar til hann varð 70 ára.

Leifur kvæntist 22. júlí 1961 Sigrúnu Þuríði Runólfsdóttur, f. 6. desember 1939 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Runólfur Ásmundsson, verkamaður í Reykjavík, f. 20. apríl 1894 á Hnappavöllum í Öræfum, d. 8. nóvember 1971, og kona hans Sveinbjörg Pálína Vigfúsdóttir, f. 12. janúar 1904 á Flögu í Skaftártungu, d. 30. janúar 2005. Börn Leifs og Sigrúnar eru Runólfur Birgir, f. 28. september 1958 í Reykjavík, og Hjördís, f. 6. febrúar 1962 í Reykjavík, d. 19. janúar 2003.

Leifur fæddist á Unnarstíg 2 í Reykjavík og bjó þar og víðar í bænum með foreldrum sínum og oft frændfólki og ömmu og afa. Leifur og Sigrún hófu búskap árið 1961 í íbúð og í sambýli með móðursystur Leifs í Þingholtsstræti 30. Samhliða hóf Leifur að byggja einbýlishús í Aratúni 4, Garðahreppi (nú Garðabæ) og fluttust þau þangað árið 1962 um haustið. Þar bjuggu þau allt til ársins 2005 þegar þau fluttu í Jökulgrunn 22 í Reykjavík. Þar var heimili Leifs til andlátsdags.

Útför Leifs fer fram í kyrrþey að hans eigin ósk.

Það er svo óraunverulegt að líf sem hefur gert svo margt, búið til svo margt, lagað svo margt, kennt manni svo margt, alltaf verið til staðar - sé allt í einu slokknað. Horfið, nema minningarnar og löngunin til að halda í það aðeins lengur. Óendanlega sterk löngun til að fá að halda í það sem var og sleppa því aldrei. Þannig líður mér þegar ég kveð elsku pabba minn. Ég kveð hann með gleði vegna allra minninganna og því sem hann gerði fyrir mig og aðra, en tárum vegna þess að fá ekki að vera með honum lengur í þessari tilvist.
Pabbi var mikill hagleiksmaður, það lék allt í höndum hans. Þúsundþjalasmiður. Hann hafði gaman af því að skapa og halda hlutum vel við. Hann var vandvirkur fram í fingurgóma þannig að stundum þótti mér, syninum, nóg um. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hann var að gera upp vélsleða sem hann keypti tjónaðan og lagði mikla áherslu að allt yrði fullkomið. Ég sá hann leggja mikla vinnu í að rétta járnstykki sem var alls ekki nauðsynlegt og að auki þá myndi það felast undir öðru járnstykki og því enginn koma til með að sjá það. Þegar ég benti pabba á það sagði hann bara en ég mun alltaf vita af því. Hann byggði húsið í Aratúni og sumarbústaðinn í Grímsnesinu. Í bústaðnum fékk hann útrás fyrir smíðar og sköpun og gat alltaf fundið sér verkefni svo sem að stækka pallinn, byggja baðhús, breyta baðhúsinu, setja upp heitan pott, byggja gufubaðshús og stækka bústaðinn. Hann vílaði ekki fyrir sér að skera bústaðinn í tvennt, toga aðra hliðina út og byggja á milli þannig að ómögulegt var að sjá annað en að bústaðurinn hefði alltaf verið svona.
Pabbi á ættir að rekja á Vatnsleysuströndina og í Skagafjörðinn, en fæddist á Unnarstíg 2 í Reykjavík og bjó þar og víðar í bænum með foreldrum sínum og oft frændfólki sinu og ömmu og afa. Þau fluttu nokkuð oft á milli íbúða á meðan þau þurftu að stóla á leigumarkaðinn sem hefur líklega verið ótryggur þá eins og nú. Kröfurnar voru ekki miklar og stundum varð baðið að víkja til að koma öllum fyrir og nýta plássið betur. Pabbi fór í Austurbæjarskólann og svo Gagnfræðaskóla Austurbæjar sem fyrst var staðsettur á Lindargötunni í Ingimarsskóla (Franska spítalanum), en fluttist síðar á Skólavörðuholtið. Eftir það fór hann í Iðnskólann sem þá var við Tjörnina og lærði þar vélvirkjun. Hann var samhliða á samningi hjá Kristjáni Gíslasyni í vélsmiðjunni við Nýlendugötu. Eftir það fór hann í Vélskólann í Sjómannaskólahúsinu. Þar tók hann tveggja ára vélstjóranám og bætti svo við sig þriðja árinu í rafmagnsdeildinni og fékk þá aukin vélstjórnarréttindi og full réttindi til að vinna í raforkuverum. Pabbi var mikill námsmaður og varð efstur á vélstjóraprófinu og næstefstur í rafmagnsdeildinni. Hann hafði líka áhuga á að læra meira og var, ásamt vinum sínum, að skoða möguleika á að fara í MIT háskólann í Bandaríkjunum. Það var hins vegar allt of dýrt og því ákváðu þeir félagar að fara í þýskan háskóla til að læra tæknifræði. Þrátt fyrir að systur pabba, þær Erna og Ína, styddu hann fjárhagslega í náminu eftir megni, þá reyndist það of dýrt. Á þessum tíma var hann líka kominn með fjölskyldu og hálfnaður við að byggja húsið í Aratúni. Heimþráin kallaði því í hann.
Pabbi kynntist mömmu árið 1956, en þá voru þau bæði á balli á Kirkjubæjarklaustri. Pabbi fór reyndar aldrei á ballið því hann var driver fyrir félaga sína. Mamma kom ásamt öðrum vonbiðli í bílinn, en þegar hún sá pabba átti hinn engan séns. Það var ást við fyrstu sýn. Hann tuttugu og eins og hún sextán. Þau stofnuðu svo sína kjarnafjölskyldu og árið 1958 fæddist ég og svo 1962 Hjödda systir.
Pabbi hafði margt fleira til að bera. Hann var fimur með gífurlegan sprengikraft. Sprettharður eins og vindurinn og hefði getað orðið góður frjálsíþróttamaður. Um tíma stundaði hann badminton af krafti. Lofthræðsla var ekki til í honum og var hann því fenginn til að setja upp örbylgjumastrið á Landssímahúsinu við Austurvöll á sínum tíma. Hann var samt manna hógværastur og vildi aldrei trana sér fram. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hann flytja ræðu eða slá sér á brjóst. Mannasættir var hann mikill og valdi alltaf frið í stað bardaga. Hann var náttúruunnandi og útivistarmaður, gekk á fjöll og gisti í tjaldi á jöklum. Þá hafði hann gaman af að vera á gönguskíðum með mömmu og vinafólki sínu í ósnortinni, snæviþakinni, kyrrlátri, íslenskri víðáttu. Órétti og spillingu þoldi hann illa og hætti nokkuð snemma að kjósa gamla flokkinn sinn. Undir það síðasta kaus hann Pírata þótt hann væri ekkert mjög sammála þeim. Taldi samt að það væri skásti kosturinn tímabundið til að koma á heiðarlegu þjóðfélagi. Í lokin var það svo Sósíalistaflokkurinn sem fékk hans atkvæði. Hann vildi ekki vera byrði á skattborgurum og hafnaði dýrri röntgenrannsókn undir það síðasta, enda hefði það ekkert upp á sig nema kostnað fyrir samfélagið sagði hann. Hann vildi heldur ekki láta aðra hafa fyrir sér og kaus að hafa útför sína í kyrrþey. Það var honum líkt.
Pabbi gat lagað allt. Hann gerði upp ófáa bíla, þvottavélar, sláttuvélar, alls kyns rafmagnstæki og í raun hvað sem er. Hann gerði upp rafmagnsorgel og mölbrotið píanó þótt hann kynni ekki sjálfur að spila á hljóðfæri. Hann hafði reyndar eitthvað prófað harmonikku sem drengur, en ekki haft nægan áhuga. Það kom ekkert á óvart að hann væri farinn að gera við tannlæknaverkfærin hjá tannlækninum sínum þegar á leið. Og það eru aðeins nokkrir mánuðir síðan hann reif alla klæðningu af einni hlið sumarbústaðarins og setti upp nýja. Ennþá styttra er síðan hann var á fullu að hjálpa mér að endurgera baðherbergi. Undir það síðasta var hann að panta alls kyns græjur á netinu og tæpri viku fyrir andlátið fékk hann send tæki frá Amazon sem hann ætlaði að nota til að laga pípulagnirnar í húsinu þeirra mömmu. Hann gerði sér þá reyndar grein fyrir að hann myndi ekki gera það sjálfur, en vonaðist til að geta verið til staðar á meðan viðgerðin færi fram.
Pabbi fagnaði 84 ára afmælisdegi sínum 19. september s.l. Þá var hann orðinn nokkuð þreyttur og lá fyrir, en við fjölskyldan hans vorum með honum og áttum góða stund. Daginn eftir veiktist hann mikið og var fluttur á spítala. Honum hrakaði síðan hratt og lést aðfaranótt 25. september s.l. á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut. Þar fékk hann einstaklega góða þjónustu og aðhlynningu. Við fjölskyldan hans vorum hjá honum síðustu dagana og þar gafst tækifæri til að þakka honum fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur og segja honum hversu vænt okkur þótti um hann. Við gátum kvatt hann fallega. Undir lokin var hann örugglega hvíldinni feginn, en mikið hefði ég viljað hafa hann heilbrigðan hjá okkur lengur. Hvíl í friði, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt.
Þinn sonur,


Runólfur Birgir Leifsson.