Anna Hildur Árnadóttir fæddist í Skál á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu 27. maí 1938. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 15. október 2018.
Foreldrar hennar voru Árni Kristinn Árnason, bóndi í Skál á Síðu, f. á bænum Á, á Síðu 3. ágúst 1904, d. 6. október 1989, og Jóhanna Pálsdóttir, f. í Ytri Dalbæ í Landbroti 1. september 1913, d. 28. ágúst 2006. Árni og Jóhanna eignuðust fimm börn. Systkini Önnu eru: Guðrún, f. 28. febrúar 1941, Sigurbjörn, f. 23. ágúst 1942, Guðríður, f. 14. apríl 1945, og Páll, f. 15. apríl 1945, d. 10. júní 2016. Árið 1958 giftist Anna Hildur eiginmanni sínum Steingrími Lárussyni, f. 5. maí 1933, d. 24. október 2014. Foreldrar Steingríms voru hjónin Lárus Ólafur Steingrímsson bóndi í Hörgslandskoti á Síðu, f. á Kálfafelli í Fljótshverfi 11. nóvember 1905, d. 6. september 1977, og Sigurlaug Margrét Sigurðardóttir, f. í Oddgeirsbæ í Reykjavík 2. september 1910, d. 12. febrúar 1978. Dætur Önnu og Steingríms eru: 1) Lilja Sigríður, f. 7. mars 1958. Synir Lilju eru: Alexander Jón, f. 12. maí 1992, og Aaron Thomas, f. 6. júní 1995, maki Melanie Frei. 2) Jóhanna Kristín, f. 17. mars 1961, maki Logi Ragnarsson, f. 18. febrúar 1960. Börn þeirra eru Halla Hrund, f. 12. mars 1981, maki Kristján Freyr og dóttir þeirra er Hildur Kristín, f. 24. október 2014, og Haukur Steinn, f. 13. ágúst 1990.
Anna ólst upp í Skál á Síðu. Hún lauk grunnskóla, vann einn vetur fyrir sér í vist á Kirkjubæjarklaustri og fór síðan 15 ára að vinna fyrir sér í vist á heimilum í Reykjavík. Hún stundaði nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1955-1956. Anna hóf síðan búskap í Hörgslandskoti árið 1956 með Steingrími Lárussyni. Hún var ásamt eiginmanni sínum metnaðarfullur sauðfjár- og kúabóndi, framleiddi úrvalsvörur og fylgdist vel með nýjungum í sínu fagi. Þau hjónin voru samhent og fengu endurtekið viðurkenningu Mjólkurbús Flóamanna fyrir framleiðslu á úrvalsmjólk ásamt því að framleiða gæðakjöt alla sína búskapartíð. Anna starfaði einnig í hlutastarfi á seinni árum samhliða búskapnum utan heimilis sem félagsliði hjá öldruðum. Anna var áhugasöm um að tileinka sér nýjungar og lauk 2004 eins árs fjarnámskeiði í ritvinnslu og upplýsingatækni. Anna var í fjölmörg ár í kirkjukór Prestbakkakirkju og um árabil í kvenfélagi hreppsins. Anna var mikil húsmóðir og lagði mikla rækt við heimilið. Hún var listakokkur sem með útsjónarsemi sinni og dugnaði útbjó allan mat og bakkelsi fyrir heimilið.

Anna var mikil hannyrðakona og bar heimilið vott um fallegt handbragð. Vettlingarnir og sokkarnir frá henni voru rómaðir að gæðum og voru eftirsóttir bæði innan og utan fjölskyldu.
Anna og Steingrímur brugðu búi 2007 og fluttu til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu til dánardags.
Útför Önnu Hildar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 2. nóvember 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er úr nægu að taka af góðum minningum um ömmu Önnu - enda var ég svo heppin að fá að eyða stórum parti úr hverju ári fyrir austan fyrstu 20 ár ævinnar.

Eins og lóan kemur á vorin mætti ég með rútunni austur í Kot þar sem amma var í essinu sínu og kenndi mér réttu tökin í sauðburðinum hratt og örugglega. Minningar frá smölun að hausti færa mér ilm af flatköku og hangikjöti hennar ásamt yl frá hlýrri heimaprjónaðri lopapeysu í köldu rigningarveðri. Jólaferðirnar í Kotið voru síðan alltaf bestar en þá dró amma fram fallegu silfruðu örþunnu jólakúlurnar sem virtust að minnsta kosti 100 ára og sem við hengdum saman á gervitréð í stofunni ásamt glerfuglinum sem komið var fyrir á efstu greininni. Sömu ánægju veittu páskaferðirnar með útiveru í fjósi og fjárhúsi þar sem ómótstæðilegar kótelettur í raspi og karamellu Royalbúðingur söddu hungrið að degi loknum.

Þegar ég hugsa til baka kemur samt hljóðið í kleinujárninu hennar einhvern veginn alltaf upp í hugann og klingrið þegar deigið var skorið. Hún beitti járninu af öryggi, vandvirkni og hraða  - skorið var niður í 300 kleinur hið minnsta og svo gjarnan hent í snúða eða hjónabandssælu næsta dag. Við baksturinn sönglaði amma gjarnan lag og hveitið þyrlaðist upp þegar við snerum rösklega við kleinunum. Í Kotinu var ekkert bakkelsi keypt úr búð, ekki einu sinni brauðið og allar sultur búnar til heima -  úr rifsberjum úr garðinum, rabarbaranum við hlöðuna eða krækiberjum sem við sóttum inn að Þverá.

Dagarnir hófust árla morguns með mjöltum og aldrei endaði vinnudagurinn fyrr en að loknum seinni mjöltum klukkan sjö. Á háannatíma, til dæmis í sauðburði og heyskap, var vinnudagurinn langt fram á kvöld. Amma stýrði mjöltum og rak hin ýmsu verk eftir árstíma þess á milli ásamt því að elda tvisvar sinnum á dag, oft ofan í 10-20 manns á sumrin og svo voru kvöldin nýtt vel, t.d. í prjónaskap. Í ofanálag þá var allt hreint og strokið í Kotinu - þvotturinn brakandi ferskur af snúrunni ofan við bæinn og heimilið fallegt með hekluðum dúkum og útsaumuðum myndum eftir ömmu.
Já, ég held því hiklaust fram að amma, með sínum ótrúlega myndarskap, hefði getað starfrækt öll Icelandair-hótelin sofandi - og öll hótel landsins vakandi! Þvílík atorka, yfirsýn, útsjónarsemi og vandvirkni allt í senn.  Ekkert slór, ekkert hálfkák og áfram með smjörið - eins og hún sagði iðulega. Og það var sama hversu hratt maður vann - aldrei komst maður með tærnar þar sem amma var með hælana. Ekki vera að gufast þetta sagði hún gjarnan ef einhver okkar vinnumannanna á bænum var ekki með hugann við verkefnið. Enda voru allir yfirleitt með hugann við efnið í sveitinni - sem skilaði framúrskarandi útkomu, þar með talið verðlaunamjólk ár eftir ár. Oft hugsa ég til allra verðlaunagripanna sem stóðu hógværir í hillunni í eldhúsinu í Kotinu en höfðu hvetjandi áhrif á okkur öll. Þeir eru minnisvarði um þá alúð sem amma og afi sýndu dýrunum og metnað þeirra til að skila framúrskarandi vöru. Sami metnaður rann í öllum æðum búsins, hvort sem um var að ræða hangikjötsgerð eða umhverfisvernd, og setti mark sitt á þá sem að heimilinu komu.
Þrátt fyrir stöðugar annir minnist ég þess aldrei að amma hafi kvartað undan álagi - að hún yrði að taka sér frí eða að það væri leiðinlegt í vinnunni eins og fólk talar gjarnan um í dag. Þvert á móti ólu hún og afi upp í manni að það var gleði í kringum verkin - gleði að fá að framkvæma þau og sjá hlutina verða að veruleika. Það var mikil samvinna á milli allra, líka nágrannabæja ef þurfti, og lagt upp úr því að gera hlutina vel. Því meira sem við höfðum að gera, því skemmtilegra þótti okkur. Það var ekkert jafn mikið sport og að vera vakin snemma til að snúa heyinu úti á túni eða vera sett á næturvakt í sauðburði. Skemmtilegast af öllu var þó vinnuandinn við að koma heyinu inn í hlöðu ef óveður vofði yfir. Þá unnu allir saman sem einn maður þar til síðasti bagginn var kominn í hús. Á hverju kvöldi þökkuðu amma og afi okkur vinnufólkinu fyrir alla hjálpina og því fór maður ánægður í háttinn ekki bara eftir að hafa séð verkin tala, heldur leið manni eins og framlag manns hefði skipt sköpum og væri vel metið. Það var ansi gott veganesti út í lífið og ég hugsa stundum til mannauðsfræða dagsins í dag og stjórnun. Það mætti ýmislegt nýta úr Kotinu.
Amma var með mikinn áhuga á hestum og ég á ófáar minningar þar sem við fórum saman að kíkja á hrossin og jafnvel að gá eftir folaldi ef sá var árstíminn. Hestarnir frá Skál voru í sérstöku uppáhaldi enda sterk tenging við heimahagana - og hún naut þess að sjá fjölga í rauðblesótta stóðinu. Ég gleymi því aldrei í einni slíkri ferð þegar amma setti múl á einn folann - hann Sindra hennar Blesu sem þá var tæplega fjögurra vetra, og gaf mér frá þeim afa. Að fá að þeysast á honum á kvöldin fyrir austan og svo í Reykjavík, ásamt Þyt og Eldingu fram yfir tvítugt á veturna var hin mesta gæfa og uppspretta margra samtala við ömmu um hvernig gengi með litla stóðið. Stolt var ég eins og hún að eiga hest frá mínum bæ.
Amma var umhyggjusöm með eindæmum. Hún fór ekki í manngreinarálit, mat fólk út frá heiðarleika og vinnusemi - ekki efnum eða auratali. Hún kom til dyranna eins og hún var klædd, og þótti afar vænt um samferðafólk sitt í sveitinni sem hún reyndi að hjálpa ef þurfti sem og okkur í fjölskyldunni. Hún vann sér t.d. til frægðar að senda mér 10 sortir af smákökum sem fylltu heila ferðatösku fyrir jólin þegar ég bjó í Danmörku og mætti ætíð með óteljandi heimabakaðar kökur í afmælin hennar Hildar Kristínar sem hún dýrkaði og dáði og passaði mikið.
Að fara vel með var eitthvað sem amma lagði mikla áherslu á. Mér er það afar minnisstætt þegar ég fór fyrst að búa rúmlega tvítug að amma mætti til mín með ostaskera, hnífa, potta, eggjaskera og fleira, hvert og eitt innvafið í bréf og vandlega pakkað í kassa. Margt af þessu var augljóslega lengi notað og ekki af nýjustu gerð. Þessu hafði hún verið að safna fyrir mig í gegnum árin - tekið til hliðar eitt af hverju tóli sem hún átti tvennt af til að nýta áfram. Ég hugsa ávallt til þessa í kringum IKEA-auglýsingarnar fyrir jólin - amma hefði hreinlega gert út af við IKEA með nýtni sinni! Hennar kynslóð þekkti einfaldlega ekki slíkt spreð að kaupa allt nýtt, eins og amma hefði sagt, og hún var staðráðin í að fara vel með sitt svo aðrir gætu notið góðs af því.
Amma lagði líka alltaf mikið upp úr menntun og studdi mann með ráðum og dáðum alla skólatíð. Sama gilti um áhugamálin - henni fannst gaman að fylgjast með píanónámi og vildi að maður sinnti því vel. Hún var spennt fyrir nýjum tækifærum og hvatti mig til að takast á við þau bæði heima og erlendis. Áður en ég flutti nú að síðustu til Boston var amma búin að heyra að hér væri nokkuð kalt á veturna. Því fylgdi okkur heill bónuspoki af hennar eftirsóttu heimaprjónuðum sokkum og vettlingum á fjölskylduna. Það minnir mig á hversu stutt það er síðan hún var svo atorkusöm og hress. Þessar gersemar geymi ég nú vel sem munu hlýja okkur fjölskyldunni áfram.
Það er ekki sjálfsagt að fá fyrirmyndir eins og ömmu Önnu í vöggugjöf. Ég finn að hluti hennar lifir í mér áfram að minnsta kosti bað ég Hildi Kristínu vinsamlegast að vera handfljót við afmælisbaksturinn hennar í síðustu viku, ekkert slór, og ekkert hálfkák - þó að aðalkakan hafi að vísu verið Betty Crocker hér í Boston, enda er ég enn að vinna í því að komast með tærnar þar sem amma Anna var með hælana!

Elsku amma, takk fyrir allar gæðastundirnar, uppeldið og gildin góðu. Ég er staðráðin í að halda þeim á lofti í leik og starfi og mun hugsa til þín út ævina með hlýju og þakklæti.

Þín


Halla Hrund.