Kristrún Sæbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 1. október 1971. Hún lést af slysförum á Selfossi 31. október 2018.
Foreldrar hennar voru Róshildur Jónsdóttir sjúkraliði og Sæbjörn Valdimarsson blaðamaður, d. 2011. Fósturpabbi hennar frá fimm ára aldri var Eyþór Ingólfsson verkstjóri. Kristrún átti einn albróður, Björn Sæbjörnsson, kvæntur Önnu Sólrúnu Pálmadóttur, og tvö hálfsystkini, Stefán Óla Sæbjörnsson, sambýliskona Edda Hrund Halldórsdóttir, og Ingunni Eyþórsdóttur, sambýlismaður Nói Steinn Einarsson.
Synir Kristrúnar eru Frank Norman Eyþórsson, Safír Steinn Valþórsson og Sæbjörn Helgi Magnússon.
Kristrún stundaði nám við Menntaskólann í Kópavogi, lauk læknaritaranámi og sjúkraliðaprófi. Hún starfaði í ýmsum tískuvöruverslunum, á leikskóla og sem sjúkraliði, meðal annars á Landspítala, í Sóltúni og á Droplaugarstöðum.
Útför Kristrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 9. nóvember 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.
Ég sleit barnsskónum að miklu leyti í þinni umsjá. Þú varst viðstödd þegar ég tók fyrstu skrefin og fórst með mér í fyrsta sinn í bíó og útilegu. Þú kennir mér að elda humarsúpu og við hringjum í útvarpið og biðjum um óskalag, var það Kate Bush eða Bob Dylan? Humarsúpan mallar og þú prjónar á meðan eins og enginn sé morgundagurinn. Gerum góðlátlegt grín að mömmu sem bannar okkur að drekka malt af því það er áfengi í því. Þú gætir mín nótt sem dag með hjartað fullt af ást og gæsku. Allt með kossi kveður.
Árin líða, Stuðmannafrösunum fækkar, en áfram ertu mín stoð og stytta með útbreiddan faðminn sem angaði svo vel. Aldamótaárið skiptumst við á löngum tölvupóstum þar sem ég er stödd í Mexíkó. Ég hringi úr skítugum tíkallasíma í Víetnam og þú segist ekki trúa hvar ég er, ég tala við þig í marga klukkutíma á dag úr ódýra símaverinu í Barcelona, því rödd þín og hlýja er það eina sem veitir mér huggun við heimþránni. Þú segir mér að fara varlega og lesa Laxness.
Samband okkar verður stopulla en rofnar aldrei. Það er komið að kveðjustund. Þú situr í vínrauða sófanum sem Pálínu ömmu þótti svo vænt um, heima hjá pabba og mömmu í Sóltúni. Það var kaldhæðni örlaganna að okkar síðasta samtal snerist um að fara saman á myndina Lof mér að falla. Við föllumst í faðma og skiptumst á orðunum; ég elska þig. Þannig kvöddumst við alltaf.
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska eins og segir í okkar uppáhaldsbók sem situr nú með þinni áletrun uppi í hillu hjá mér systir mín Ljónshjarta. Mamma hefur alltaf sagt að lífið sé fyrirfram ákveðið. Síðasti vegspottinn í þínu flókna lífi var hálfgerð harmsaga sem endaði í miklum harmleik sem kostaði tvær manneskjur lífið. En þessi saga endar ekki hér.
Tíminn læknar ekki öll sár en ég vona að við, ástvinir þínir, munum í sameiningu getað beint þessari sáru reynslu í réttan farveg. Mamma hafði tilfinningu fyrir því að þú - augasteinninn hennar, myndir svífa inn í Sumarlandið á undan henni. Pabbi, sem ól þig upp frá fjögurra ára aldri og unni þér svo heitt, saknar þín manna mest en hann var síðastur okkar í fjölskyldunni til að hitta þig. Gullkálfarnir þínir þrír, Frank Norman, sem er mér sem bróðir, Safír Steinn, sem ég var tengd frá fyrsta augnabliki, og Sæbjörn Helgi, sem mig langar svo að kynnast betur, eru dýrmætir afleggjarar þínir sem munu minna okkur á þig um aldur og ævi. Við munum rækta garðinn og halda minningu þína í heiðri saman.
Eftir sit ég með ótal spurningar. Hver á núna að naglalakka á mér hægri höndina? Hver á að dekstra við lasagnað? Með hverjum á ég að fara út að borða, sem er svo örlátur að þjórféð er hærra en reikningurinn sjálfur? Hver á að dansa við mig Stuðmannadansinn? Hver á að segja mér sögur af Ingunni langömmu á vappi í Suðursveitinni okkar? Hver á að veita börnum mínum athygli af slíkri aðdáun að þeim líður eins og þau séu rokkstjörnur á Wembley? Hver á að gera jólin fullkomlega stjórnlaus? Er líf eftir þetta líf?
Full þakklætis fyrir allt sem þú gafst mér og börnunum mínum kveð ég þig í hinsta sinn. Megi himnanna smiðir taka höfðinglega á móti þér með blómstrandi kóngaliljum, blásandi í básúnur, syngjandi sitt fegursta ljóðaval þú mikli fagurkeri og sjarmör. Sveipuð gylltum ljóma, björt og falleg, eins og ég mun ávallt minnast þín.
Hvíldu í friði, umvafin englum og sólargeislum, elsku systir mín. Þar sem þú ert - skín alltaf sól.
Fjölskyldu Guðmundar Bárðarsonar, sem fórst ásamt systur minni í eldsvoðanum á Selfossi, votta ég mína dýpstu samúð.
Ég elska þig,
Ingunn Eyþórsdóttir.