Guðrún Frances Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík 22. maí 1937. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 23. október 2018.
Guðrún var dóttir Ágústar H. B. Nielsen, f. 29. júlí 1908 í Kaupmannahöfn, d. 13. desember 1959 í Los Angeles, og Katrínar Oddsdóttur, f. 12 desember 1917 í Mosfellshrepp í Kjós, d. 18. apríl 1966 í Reykjavík. Foreldrar Guðrúnar gengu í hjónaband 14. nóvember 1936 en þau slitu samvistum eftir stutt hjónaband.
Guðrún ólst upp í Reykjavík hjá móðurömmu sinni Þuríði Jónsdóttur, f. 7. nóvember 1889 á Kalastöðum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, d. 22. nóvember 1983 í Reykjavík.
Sammæðra systur Guðrúnar eru Þuríður Davíðsdóttir, fædd 23. mars 1948 í Reykjavík, Lára Davíðsdóttir, fædd 22. ágúst 1950 í Reykjavík, og Ásthildur Davíðsdóttir, fædd 12. nóvember 1951 í Reykjavík.
Samfeðra systkini Guðrúnar eru Sharon Nielsen, fædd 3. apríl 1947 í Los Angeles, d. 8. júní 1978 í Los Angeles, Lorraine Nielsen, f. 8. október 1948 í Los Angeles, August Jr. Nielsen, f. 28. febrúar 1950 í Los Angeles, d. 30. ágúst 2013 í Los Angeles og Christian Frederick Nielsen, f. 24. mars 1951 í Los Angeles, d. júlí 1977 í Texas.
Sambýlismaður og barnsfaðir Guðrúnar var Þorsteinn Guðjón Freydal Valgeirsson, f. 6. apríl 1936, d. 23. apríl 1984. Þau slitu samvistum 1956.
Sonur þeirra var Kristján Friðrik Þorsteinsson, f. 29. mars 1957 á Akranesi, d. 23. ágúst 1998 í Svíþjóð.
Guðrún kvæntist árið 1958 Magnúsi Guðjónssyni, f. 16. desember 1934 í Reykjavík, d. 25. janúar 2010 í Reykjavík. Þau slitu búi 1987.
Börn þeirra hjóna voru Katrín Þuríður Magnúsdóttir, fædd 23. nóvember 1964 í Reykjavík, Guðjón Hermann Magnússon, fæddur 27 maí 1966 í Reykjavík, og Ágústa Særún Magnúsdóttir, fædd 16. maí 1967 í Reykjavík.
Útför Guðrúnar verður gerð frá Garðakirkju í dag, 13. nóvember 2018, klukkan 13.

Það er erfitt að skrifa niður minningu um þig með fáum orðum, elsku mamma, söknuðurinn er mikill en huggun í harmi hvað þú skilur eftir þig mikið af fallegum og góðum minningum, sem yndisleg móðir og amma.
Þú varðst aldrei rík af auðæfum en varst alltaf tilbúin að deila með öðrum því sem þú áttir og hafðir að gefa. Alltaf tilbúin að hjálpa öðrum, Þú hafðir hjarta úr skíra gulli.
fyrsta heimili okkar systkina var Álftamýrin, Svo fallega litla húsið okkar í Blesugrófinni, Bústaðarblettur. Þaðan eigum við margar mjög skemmtilegar og ljúfar minningar.
Það var stór garður fyrir utan með rólu og vegasalti, sem pabbi gerði fyrir okkur systkinin. Það voru rifsberjatré kringum garðinn, sem við fengum auðvitað að tína af og borða. Við húsið var einnig lítill matjurtagarður, þar gróðursettum við helst kartöflur og rabarbara sem mamma sultaði rabarbarasultu úr af bestu list, gleymum ekki nýbakaðri hjónabandssælu, sem þú bakaðir með sultunni þinni á milli og auðvitað vöfflunum.
Á Bústaðarblettinum varstu heimavinnandi húsmóðir, ásamt því varstu að passa börn systra þinna og ættingja, alls voru fimm aukabörn.
Þú sast aldrei auðum höndum, þú varst mikil handavinnukona og prjónaðir lopapeysur, húfur, sokka og vettlinga fyrir alla fjölskylduna og seldir lopafatnað í verslun.
Hannyrðir voru þitt helsta áhugamál og eru ófá ísaumuðu fallegu verkin, sem þú skilur eftir þig, þá helst, púðar myndir og dúkar.
Ekki má gleyma að minnast á fallega skírnarkjólinn, sem þú heklaðir eftir að fyrsta barnabarnið kom í heiminn og hafa öll sex barnabörnin verið skírð í honum ásamt fjórum langömmubörnum þínum og mun hann um ókomna tíð vera notaður innan fjölskyldunnar.
Þú sinntir húsverkunum af miklum metnaði, heimilið var alltaf mjög hreint og vel skipulagt, allt var straujað sama hvort það voru tuskur eða rúmföt.
Gleymum ekki útileguferðunum okkar á sumrin. Þá var keyrt út í sveit og tjaldað við læk og notið sveitasælunnar. Rúlluðum í leiðinni heimsókn til ættingja, sem bjuggu út á landi.
Kaggarnir þínir á þessum árum voru, Trabbinn og WV bjalla.
Oft var farið í sunnudagsbíltúra í Eden í Hveragerði og splæst í ís og heilsað upp á apana. Og keyptir tómatar, gúrkur og hverabrauð. Á hverju sumri var farið í berjamó og tekið með nesti, heitt kakó og kleinur. Og farið heim með full box af berjum, keypt skyr og rjómi og berin sett út á.
Hver jól, föndraðir þú með okkur jólaskraut og bakaðir margar góðar smákökur og lagtertur, þú varst búin að skreyta og þrífa allt húsið þegar við vöknuðum á aðfangadagsmorgun.
Nær öll uppeldisárin voru gæludýr á heimilinu, því þú varst mikill dýravinur og erum við þakklát fyrir að alast upp með dýrum sem hluta af fjölskyldunn og hefur það fylgt okkur, þar sem við höfum öll verið miklir dýravinir og haft gæludýr á heimilum okkar.
Þegar leiðir ykkar pabba skildu, fluttum við börnin með þér í Breiðholtið, bjuggum við þar hjá þér þar til við uxum úr grasi.
Þegar við vorum orðin nógu stálpuð til að geta verið ein heima, fórstu að vinna hjá Nóa Síríus, og starfaðir þar við ýmis framleiðslustörf í mörg ár, svo breyttirðu til árið 1986 og fórst þá að vinna við verslunarstörf, í stuttan tíma, því sama ár fluttir þú svo til Gautaborgar í Svíþjóð, þar sem þú bjóst og starfaðir í 14 ár.
Fyrsta barnabarnið fæddist 1983 og urðu þau svo sex talsins og fjögur langömmubörn.
Barnabörnin nutu sín alltaf hjá ömmu Gunnu, eins og þau kölluðu þig alltaf, þú varðst alltaf mjög gamansöm og barngóð. Og bauðst oft upp á sjálfa þig, þar sem þú tókst að þér mörg skemmtileg hlutverk. t.d. sem Stúfur jólasveinn, tókst út úr þér tennurnar og settir á þig slæðu og hlóst, mátaðir páskakjól níu ára dótturdóttur þinnar og settir í þig spennur og slaufur, svona mætti lengi telja.
Þú föndraðir og gerðir ýmis flott handverk með þeim, eftir þeirra óskum, þú varst mjög góður leiðbeinandi.
Börnin máttu alveg hoppa í rúminu þínu og búa til hús úr stólunum og sængunum þínum. Yngsta dótturdóttirin fékk að punta þig eitt sinn upp, og taka af þér módelmyndir. Þú hafðir bara sjálf svo gaman þessu, að gleðjast og gantast með barnabörnunum.
Mamma átti líka setbað á meðan hún bjó í Svíþjóð, börnin elskuðu það, því amma átti alltaf allskonar litrík og vel lyktandi freyðiböð.
Við bjuggum öll systkinin á tímabili líka í Svíþjóð. Margar skemmtilegar minningar eru til frá þeim tíma.
Auðvitað var hún með í öllum Lisebergsferðum og stoppaði í lottó básum, til að reyna að fá leikfangavinninga fyrir barnabörnin, sem henni tókst nokkuð vel með.
Það verður að minnast á stærstu sorg hennar í lífinu.
Frumburður hennar Kristján Friðrik, var sendur á Breiðuvík aðeins níu ára gamall en hann dvaldi þar í fimm ár.
Kiddi eins og hann var kallaður svipti sig lífi aðeins 41 árs gamall.
Mamma jafnaði sig aldrei og hrakaði andlegri heilsu hennar mikið.
Stærsta löngun mömmu var að finna systkini sín samfeðra í Bandaríkjunum sem voru fjögur talsins, en hún tapaði öllum tengslum við þau eftir fráfall föður síns, sem dó ungur.
Í apríl á þessu ári fundum við einu eftirlifandi systir hennar Lorraine, sem er búsett í Los Angeles. Lorraine hafði einnig sjálf leitað að systur sinni, henni mömmu, í mörg ár.
Þær náðu aldrei að hittast í eigin persónu en þær náðu þó að vídeó-spjalla, Þær tjáðu hvor annarri, það sem bjó þeim í hjarta og köstuðu fingurkossum á hvor aðra.
Mamma var þá því miður orðin mjög langt leidd í sjúkdómi sínum og gerði sér ekki grein fyrir tengslum þeirra.
Enn hafði mjög gaman að spjalla við systur sína  og var viss um að hún hefði nú séð hana einhvers staðar áður.
Lorraine hlakkaði mikið til að koma til Íslands þann 17. nóvember næstkomandi og fá loks þann langþráða draum uppfylltan að hitta mömmu en endurfundir þeirra fá að bíða um sinn.
En við systkinin munum hitta hana þegar hún kemur og minnast þín með henni.
Takk fyrir allt, elsku mamma.


Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)

Þín

Katrín Þuríður Magnúsdóttir, Guðjón Hermann Magnússon og Ágústa Særún Magnúsdóttir.