Jón Rafns Antonsson fæddist í Reykjavík 24. mars 1947. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. nóvember 2018.
Foreldrar Jóns voru hjónin Anton E. Grímsson mjólkurfræðingur, f. í Vestmannaeyjum 14. október 1924, d. 11. júní 2014, og Svava Jónsdóttir húsfreyja, fædd í Neskaupstað 13. júní 1927.
Systkini: Grímur, f. 30. júní 1948; Gísli, f. 28. september 1954; Rúnar, f. 18. apríl 1958.
Eiginkona Jóns er Guðrún Clausen flugfreyja, f. 27. nóvember 1951. Foreldrar hennar voru Holger Peter Clausen kaupmaður, f. 14. júní 1917, d. 20. nóvember 1980, og Sólveig Clausen kaupkona, f. 30. október 1924, d. 20. desember 1995.
Börn Jóns og Guðrúnar eru: 1)Sólveig Andrea, f. 28. júlí 1974. Sambýlismaður hennar er Hilmir Víglundsson, f. 12. ágúst 1976. Börn þeirra: a) Guðrún Andrea Sólveigardóttir, f. 21. mars 1990, sambýlismaður hennar er Þorbjörn Þór Sigurðarson, f. 18. febrúar 1989, saman eiga þau dótturina Andreu Rafns, f. 12 ágúst 2016, b) Hekla Rán, f. 20. ágúst 2005, c) Víkingur Rafns, f. 21. febrúar 2010. 2) Svava Hróðný, f. 17. desember 1985. Eiginmaður hennar er Stefán Jónsson, f. 8. maí 1982. Börn þeirra eru: a) Jón Þorkell, f. 2. apríl 2010, b) Hrafnkell Bragi, f. 28. nóvember 2013.
Jón Rafns, eða Nonni eins og hann ávallt var kallaður, ólst upp í Reykjavík og gekk þar í skóla. Háskólanám stundaði hann í Noregi og lærði þar byggingartæknifræði. Eftir námið fluttist hann aftur til Reykjavíkur og hóf störf á Arkitektastofu Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafs Sigurðssonar auk þess að kenna við Iðnskólann í Reykjavík. Hann sótti sér kennararéttindi og kenndi í Iðnskólanum allt fram til 60 ára aldurs.
Árið 1980 stofnaði Jón eigin teikni- og ráðgjafarskrifstofu, Teiknistofuna Röðul. Vorið 2007 lauk hann námi til MBA frá Háskóla Íslands. Var þetta í fyrsta sinn sem nám af þessu tagi var kennt á Íslandi og var hann því í fyrsta útskriftarhópnum.
Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. nóvember 2018, klukkan 11.
Að missa pabba sinn er erfitt og sársaukafullt.
Veit ekki hvernig ég á að byrja að skrifa minningarorð um þig. Bjóst ekki við því að ég væri að fara að gera það svona snemma.
Á þessum erfiðu tímum höfum við verið að rifja upp lífið og stundir okkar saman. Þú hefur eflaust heyrt í okkur í þessa daga sem við vöktum yfir þér innst inni hlegið og grátið með okkur.
Það sem þú varst góður maður og alltaf tilbúinn til að hjálpa og aðstoða. Alltaf var gott að leita ráða hjá þér hvort sem það var vegna vinnunnar, börnunum, ástinni og lífinu. Þú varst ávallt tilbúin að hlusta og varst bestur í að hlusta á okkur, allar stelpurnar þínar, og hristir oft hausinn yfir okkur og þeim uppátækjum sem okkur datt í hug.
Alltaf endaðir þú samræður við okkur svona: Stelpur mínar, þið hafið þetta bara eins og þið viljið.
Stuðningur þinn og mömmu þegar ég var ólétt af Guðrúnu okkar er ómetanlegur. Þú hjálpaðir mér að klára alla mína skólagöngu og að berja mig áfram í náminu. Enda varst þú stoltur af mér þegar ég útskrifaðist sem innanhússarkitekt 1998.
Við gátum endalaust talað um hönnun og verkefni sem við vorum bæði að sinna og höfðum gaman af. Aðstoðuðum hvort annað þegar á þurfti.
Einnig aðstoðuðum við hvort annað þegar þörf var á og alltaf komst þú með lausn á því sem ég var að reyna leysa hverju sinni.
Þú varst alltaf tilbúinn í að passa börnin mín, ná í þau á æfingar, í skóla og annað tilfallandi. Þér fannst gott að eyða tíma með þeim og vildir hafa þau hjá þér. Ég var öfunduð af því að eiga pabba sem bað um að fá að passa börnin. Enda munu börnin okkar aldrei gleyma þér eða því sem þú kenndir þeim um lífið.
Ómetanlegar eru þessar tvær helgar sem Víkingur og Hekla voru hjá ykkur núna í lok október eftir að þú og mamma komuð heim frá Spáni. Mikil tilhlökkun var hjá krökkunum að fá ykkur heim og daginn eftir voru þau strax komin í dekur hjá ömmu og afa. Alltaf vildir þú ná í þau strax eftir skóla á föstudegi og skila þeim í matarboði í Jakaselinu á sunnudeginum. Vildir eyða sem mestum tíma með þeim.
Fyrir nokkrum vikum varstu að kenna Víkingi að mála, blanda saman litum og mála hluti úr náttúrunni. Hann átti að koma án síma og I-pad svo þessar græjur myndu ekki trufla. Þarna áttu þið tveir góðan dag saman.
Víkingur minn býr að því alla ævi að hafa átt góðan afa sem hann leit svo upp til.
Alla sunnudaga komum við í mat í Jakaselið sem voru oft háværir og fjörugir tímar. Mamma var jafnvel búin að vera elda allan daginn eða þú að nudda kjöt til að grilla. Þú elskaðir að grilla.
Í gamla daga vorum við oft tvö ein þegar mamma var að vinna og hún oft ekki heima í marga daga. Á þeim tíma varst þú yngri og ég ein. Þú að byggja Jakaselið og mikið að gera á Teiknistofunni, einnig kenna í Iðnskólanum, þar sem ég eyddi mörgum tíma á kennarastofunni að horfa á klukkuna og bíða eftir þér meðan þú varst að kenna.
Alla daga keyrðir þú mig í skólann og náðir í mig í hádeginu í Ísaksskóla til að keyra mig heim. Keyrslan hélt áfram þegar ég var í Tjarnarskóla og svo í Verzló.
Ekki tókst þú hádegismat í mörg ár því keyrslan hélt aftur áfram þegar Svava og Guðrún fóru í Ísaksskóla.
Þetta lýsir þér svo mikið að vera alltaf til staðar fyrir okkur stelpurnar þínar.
Alltaf eldaðir þú kvöldmat fyrir mig þegar mamma var að vinna, jafnvel þótt að þú værir að byggja og reyna að gera það á kvöldin og um helgar. Ég var mikið með þér á þeim tíma, alltaf dröslaðist ég með.
Svikinn héri var mjög vinsæll og töluðum við ennþá um það og hlógum til síðasta dags að hann hafi verið ansi oft í matinn.
Við ferðuðumst mikið um landið á mínum yngri árum og er ekki sá hóll, fjall eða vatn sem ég hef ekki séð með þér og mömmu. Við vorum á gamla bronkóinum þar sem ég svaf aftur í. Hversu mikið ég sá ? En eitthvað situr eftir. Og allar sögurnar sem þú gast sagt okkur um hvern stað. Að ógleymdum öllum útilegunum og ferðunum inn í Þórsmörk.
Þú hefur svo sannarlega hjálpað mér svo mikið í gegnum árin. Vannst með mér verkefni í skólanum þegar ég var í Milano og þar sendum við á milli handteiknaðar teikningar á faxi.
Sumarið sem ég útskrifaðist komst þú svo til Milano og áttum við góðan tíma saman. Við Ferðuðumst um Toskana tvö ein í 10 daga. Óplanað ferðalag sem var svo skemmtilegt og margar góðar minningar frá þessum tíma.
Þú varst svo glaður með alla tengdasyni þína. Svo ánægður að fá stráka inn í fjölskylduna þar sem þú hafðir verið einn með okkur stelpunum. Ekki var það verra að fá afastrákana þína þrjá loksins.
Fórst strax í það að byggja sjóræningjahús á milli trjánna í garðinum og svo var formleg opnun á húsinu með strákunum.
Það eru svo margar minningar, góðar minningar sem poppa upp að ég gæti skrifað bók um þig.
Því betri pabba er ekki hægt að finna. Mann sem kenndi mér svo margt, hjálpaðir mér, leiðbeindir mér, varst til staðar fyrir mig og góður vinur .
Nú þegar ég var farin að vinna sjálfstætt og réð þá meira mínum tíma kom ég svo mikið við uppi í Jakaseli, fékk mér kaffi með þér og ræddum málin í hádeginu. Þær stundir voru svo góðar.
Þú varst líka duglegur að droppa inn hjá mér sem eru líka ómetanlegar stundir.
Mamma og þú voruð svo samrýmd hjón og mikið saman. Fallegri hjón var ekki hægt að finna.
Þú gerðir allt fyrir hana eins og okkur.
Minning þín lifir í hjarta mínu, minning um okkur.
Við stelpurnar þínar verðum að læra að lifa með því að þú fórst allt of snemma frá okkur. En eins og þú sagðir oft við okkur mínu hlutverki er lokið uppeldislega séð, þar sem við værum allar komnar til manns, menntaðar og búnar að stofna okkar eigin fjölskyldu.
Nú gætir þú bara gefið ráð, því alltaf áttir þú síðasta orðið.
Mig óraði ekki fyrir því að þú færir svona snemma frá okkur en send þú okkur styrk.
Trúi því að þú hafir verið kallaður til að sinna mikilvægu hlutverki hjá englunum og horfir á okkur alla daga til að leiðbeina okkur í þessari miklu sorg.
Við stelpurnar pössum mömmu sem þú sást alltaf um og hjálpum henni að komast í gegnum þetta saman.
Minning af góðum pabba og afa lifir um ókomna tíð, því betri mann var ekki hægt að finna.
Er hjartað mitt þungt sem blý,
Því burt þú varst kallaður á örskammri stundu
Í huganum hrannast upp sorgarský
Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða
Svo fallegur, einlægur og hlýr
En örlög þín ráðin mig setur hljóða
Við hittumst samt aftur á ný
Megi algóður Guð þína sálu nú geyma
Gæta að sorgmæddum, græða djúp sár
Þó kominn sért yfir í aðra heima
Mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Höf. ók)
Kveðja.
Þín dóttir
Sólveig Andrea.