Hlíf Guðjónsdóttir fæddist 3. apríl 1923 á Viðborði á Mýrum, A-Skaft. Hún lést 21. nóvember 2018.
Foreldrar hennar voru Pálína Jónsdóttir, f. 22. okt. 1885, d. 11. des. 1941, og Guðjón Gíslason, f. 3. júl. 1885, d. 3. mars 1937. Þau bjuggu á Viðborði á Mýrum og síðan á Kotströnd í Ölfusi.
Hlíf átti fimm systkini, þau eru öll látin, þau hétu Halldóra Nanna, f. 1917, d. 2000; Gísli Friðgeir, f. 1918, d. 1986; Hjörtur, f. 1921, d. 2003; Inga Jenný, f. 1925, d. 2008, og Sigurlaug, f. 1927, d. 2003.
Hlíf giftist 28. okt. 1944 Tómasi B. Guðmundssyni, bónda, f. 17. ágúst 1923.
Börn Hlífar og Tómasar eru: 1) Pálína Ingibjörg, f. 1943, maki Sigurjón Bergsson. Synir þeirra Bergur Tómas, Gylfi Birgir og Guðjón Ægir, d. 2009. Þau eiga átta barnabörn og tvö barnabarnabörn. 2) Sigríður, f. 1944, maki Árni I. Sigvaldason. Börn þeirra Ívar og Hlíf Ingibjörg. Þau eiga tvö barnabörn. 3) Víðir, f. 1946, maki Elísabet Guðmundsdóttir. Synir þeirra eru Emil og Andri. Þau eiga níu barnabörn. 4) Guðmundur Smári, f. 1954, maki Sigríður Ósk Zoëga Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Brynjar, Otri og Hólmfríður Fjóla. Þau eiga tvö barnabörn. 5) Ragnheiður, f. 1957, maki Brynjólfur Magnússon. Dætur hennar eru Kristín og Bryndís. Hún á átta barnabörn. Brynjólfur á fjögur börn og 11 barnabörn. 6) Jóna Brynja, f. 1958, maki Helgi Helgason. Dætur hennar eru Þóra Hlíf, Eydís Eir og Eygló. Hún á sex barnabörn. Helgi á þrjú börn. Hlíf flutti 12 ára frá Viðborði með fjölskyldu sinni að Kotströnd í Ölfusi. Hún missti ung foreldra sína, systkinahópurinn tvístraðist, en hélt alltaf góðu og kærleiksríku sambandi. Í veikindum foreldranna reyndust nágrannar á Sandhól í Ölfusi vel og hélst vinskapur, sérstaklega við Pál, ævina út.
Hlíf og Tómas hófu búskap í Kópavogi 1941, byggðu sitt fyrsta hús, Lindarbrekku. Fluttu 1951 að Otradal í Arnarfirði og hófu hefðbundinn sveitabúskap. Fluttu 1961 að Breiðabólsstað í Ölfusi, stýrðu búi fyrir Hlíðardalsskóla. 1990 brugðu þau búi og fluttu í Lýsuberg 13, Þorlákshöfn, og bjuggu þar síðan Áttu þar sem fyrr góða nágranna, enda góðir nágrannar sjálf, með Smára, son sinn, og Sirrý tengdadóttur í sömu götu.

Aðalstarf Hlífar var húsmóðurstarfið og uppeldi barnanna. Heimilið stórt og mikill gestagangur. Húsmóðir, sem gerði allt sjálf, eins og það væri engin fyrirhöfn. Brosið og mildin einkenndi hana.
Hún vann ýmis önnur störf, t.d. í eldhúsi á Hlíðardalsskóla. Reyndist ungum nemendum þar vel. Börn hændust að henni, barnabörnin áttu sérstakan sess. Mikill dýravinur, hafði sérstaka ánægju af hestum. Náttúruunnandi. Ljóðelsk. Vel ritfær, nutu þess margir af afkomendunum að fá skemmtileg bréf frá henni.
Hún var í kórum, nú síðast í kór eldri borgara í Þorlákshöfn, Tónum og Trix.
Hafði ánægju af að ferðast og ferðuðust hjónin með börn sín og gjarnan öðrum ættingjum, mikið um landið, bæði hálendi og láglendi.
Útför Hlífar fer fram frá Kotstrandarkirkju í Ölfusi í dag, 4. desember 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Einn af ævintýrastöðum bernsku minnar var Breiðabólsstaður í Ölfusi. Þaðan á ég mínar fyrstu minningar af íslenskri sveit. Ég man enn eftirvæntinguna þegar heimreiðin að bænum blasti við. Mér virtist leiðin löng í þá daga. Heimahúsið á aðra hönd en útihúsin á hina og aðeins fjær blasti Hlíðardalsskóli við með öllum sínum byggingum. Það var eitthvað óvenju búsældarlegt við staðinn og má ekki hvað síst þakka það reisulegu skólahúsinu sem gaf umhverfinu virðulegan blæ. Þarna höfðu aðventistar byggt upp sannkallaða menningarmiðstöð og var Breiðabólsstaður partur af henni enda var þjóðrækni snar þáttur í öllu safnaðarstarfi. Ég er ekki fjarri því að söfnuðurinn hafi í þá daga lagt töluvert upp úr hinni hreinu ímynd sveitarinnar þar sem kenna mátti menntaæskunni til verka en um leið draga björg í bú. Víst er að ekkert vantaði upp á vinnusemina og dyggðugt líferni á Breiðabólsstað þar sem Tommi frændi réði ríkjum í búskapnum en heima fyrir fór Hlíf með bústjórn. Ég minnist þess hvað mér þótti ömmubróðir minn karlmannlegur í fasi. Hlíf bar með sér einstakan þokka en þær amma voru miklar vinukonur og var greinilegt að ömmu þótti mjög vænt um mágkonu sína. Ég varð þess snemma áskynja að sérstakri birtu stafaði af nafninu Hlíf. Hún var einstaklega mild og glaðleg á sinn hógværa hátt, en það sem skipti ekki síður máli í mínum huga á þessum árum voru góðgerðirnar sem lagðar voru á borð. Hvergi fékk ég betri kleinur og það var ekkert hégómamál fyrir ungan strák. Og átti ég þó góðu að venjast hjá ömmu sem var sérdeilis myndarleg í matseld og bakstri. Á Breiðabólsstað man ég best eftir mér í eldhúsinu enda var það hjarta staðarins. Þar sátum við amma iðulega þegar við komum í heimsókn. Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni gengið til stofu. Eldhúsið var persónulegra, og þar var ilmur af kaffi, kökum og kleinum. Þannig var það einnig hjá ömmu. Eftir að ég komst á unglingsár liðu mörg ár án þess ég hefði nokkuð af Tomma og Hlíf að segja. Löngu síðar setti ég mig aftur í samband við þau en þá fýsti mig að vita meira um eigin ætt. Var þá ekki í kot vísað enda mundu fáir jafn langt aftur og þau. Og kleinurnar voru enn á sínum stað. Eins og amma voru þau Tommi og Hlíf meðal frumbyggja Kópavogs. Þegar ég hóf markvisst að safna til sögu bæjarins voru þau mínir bestu heimildarmenn en afi og amma voru þá fallin frá. Þau höfðu hafið búskap sinn í Reykjavík í upphafi stríðs en leist ekki á blikuna þegar ótti við loftárásir Þjóðverja var sem mestur. Fréttir bárust af skæðum loftárásum á evrópskar borgir og þegar loftvarnarflautur voru þeyttar í höfðastaðnum vegna þýskra flugvéla yfirgáfu þau heimili sitt og lögðu leið sína í Kópavog þar sem afi og amma buðu upp á öruggt skjól. Þau Tommi og Hlíf fluttu þangað alfarin árið 1942, en Kópavogur var þá lítið annað en sveit, og bjuggu þau þar í tíu ár. Síðar áttu þau eftir að búa jafn lengi í Otradal í Arnarfirði, áður en þau fluttu að Breiðabólsstað. Saga þeirra er löng og þau hafa víðar drepið niður fæti. Á síðustu árum hef ég notið þess að ræða við þau hjón um gömlu dagana og orðið margs vísari. Er ég þeim báðum þakklátur fyrir alla þolinmæðina, því þó eldra fólki geti verið gleði í að ræða liðna tíð getur reynt á þolrifin að þurfa að svara smásmugulegum spurningum sagnfræðings sem vill vita sífellt meira. Ég er þakklátur fyrir að Tommi sé enn á meðal okkar en finn sárt til að Hlíf sé farin, ekki hvað síst hans vegna. Þau eignuðust marga afkomendur sem nú sakna ættmóður sinnar. Hlíf var elskuð og dáð af öllum. Hún á eftir að lifa lengi í hugum okkar.

Leifur Reynisson.