Sif Aðalsteinsdóttir fæddist 17. september 1943 í Reykjavík. Hún lést 24. nóvember 2018.
Foreldrar hennar voru María Björg Björnsdóttir, f. 7.2. 1916, d. 10.7. 2007. og Aðalsteinn Guðjónsson verslunarmaður, f. 16.12. 1899, d. 29.12. 1982. Systkini hennar eru Steinunn Aðalsteinsdóttir, f. 9.5. 1941, og Örn Aðalsteinsson, f. 13.8. 1948.
Sif giftist 19.9. 1964 Jóni Baldvini Stefánssyni fæðingarlækni, f. 15.9. 1942. Börn þeirra eru 1) Ívar Már rafmagnsverkfræðingur, f. 28.2. 1965, kvæntur Svandísi Írisi Hálfdánardóttur hjúkrunarfræðingi, börn a) Alma Dagbjört, b) Alex Kári, c) Ottó Már. 2) María Birna, f. 14.2. 1967, tómstunda og félagsmálafræðingur gift Baldri Þór Sveinssyni rafeindavirkja, börn a) Bylgja Sif, b) Benedikt Jón, c) María Lind, d) Elín Lára. 3) Vilborg Mjöll, f. 30.6. 1969, lyfjafræðingur gift Friðriki Magnússyni viðskiptafræðingi, börn a) Hugrún María, b) Magnús Baldvin, c) Jón Stefán. 4) Margrét Lára heimilislæknir, f. 9.10. 1980, synir a) Gunnar Aðalsteinn, b) Birgir Hafsteinn, barnsfaðir Jóhann Haukur Gunnarsson. Sambýlismaður Steinar Örn Sigurðsson, starfsmaður í álverinu Straumsvík, börn a) Aron Örn, b) Margrét Mæja.
Sif ólst upp í foreldrahúsum í Hlíðunum, Reykjavík. Fjölskyldan dvaldi til margra ára sumarlangt í bústað í Mosfellssveit, þar er gnótt af heitu vatni og hefur Sif iðkað sund frá bernskuárum. Sif lauk gagnfræðiprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1960. Hún nam síðan eitt ár í verslunarskóla í Englandi. Hún vann í Landsbankanum þar til fjölskylda hennar fluttist í A-Húnavatnssýslu með aðsetur á Héraðshælinu á Blönduósi. Í átta ár þar á eftir bjó hún með fólkinu sínu í Svíþjóð. Frá endurkomu til Íslands hefur heimilið verið Geitland 1, Fossvogshverfi.
Útför Sifjar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 4. desember 2018, klukkan 15.
Fyrir mörgum árum sat Sif á veröldinni við fjölskyldubústaðinn á Þingvöllum
og skrifaði sendibréf til mín. Hún lýsti á myndrænan hátt sólríkum
sumardegi, algjört logn og fjöllin spegluðust í tæru Þingvallavatni. Hún
skrifaði einnig að hún saknaði mín. Þegar hún var við nám í Englandi dvaldi
hún hjá rosknum, auðugum hjónum. Hún sagði síðar með stolti, að henni hafi
verið ekið um í Rolls Royce. 10 árum síðar ók hún um í Volkswagen Bjöllu
með þrjú börnin sín og hefur væntanlega þótt vænni kostur. Við Sif
kynntumst síðla árs um það leyti, sem Surtsey reis úr sæ. Að loknum
stúdentadansleik á Gamla Garði sá ég hvar strákur var að bjóða henni í
gleðskap, en hún ekki áhugasöm. Ég greip tækifærið og bauð að aka henni
heim, sem hún þáði af tvennu illu. Á áfangastað bauð ég henni í bíó næsta
kvöld. Bíóferðin var í Bæjarbíó Hafnarfirði, en heimferðin varð ævilöng.
Fyrsta ferðalag okkar var til Vestmannaeyja með Náttúrufræðifélaginu og þar
staðfestum við ást okkar og sköpun Surtseyjar. Árið 1961, á ágústkvöldi var
ég virkur þátttakandi í þeim atburði að æskufélagi minn féll útbyrðis frá
síldarskipi og drukknaði. Ég var næstum farin sömu leið. Erfiðar hugsanir,
angist og ístöðuleysi sigldi í kjölfarið og Bakkus lá í leyni. Faðir minn,
sem var sjómaður reyndist mér vel, en takmarkalaus ást okkar Sifjar kom mér
á réttan kjöl. Sonur okkar var hændur að föður mínum, en sambúð okkar
Sifjar hófst á heimili foreldra minna. Eitt sinn sagði afi: Undarlegt að
hugsa sér, að drengurinn mun ekki muna eftir mér. Þá svaraði Sif: Stefán,
þú átt stað í hjarta hans, drengurinn gleymdir þér ekki. Skömmu síðar
þurfti Sif að útskýra fyrir syni sínum, að afi væri dáinn. Þegar við Sif
kynntumst var hún bankamær og lífeyrislán hennar gerði okkur kleift að
kaupa íbúð í Hlíðunum, sem var hornsteinn að húsi í Fossvogi, Geitland 1,
sem er enn fjölskylduhús. Við Sif vorum áhugasöm að starfa á landsbyggðinni
og völdum A-Húnavatnssýslu og dvöldum á Héraðshælinu á Blönduósi, en Sif er
Húnvetningur í báðar ættir og störfuðu tvær móðursystur hennar á Hælinu,
matráðskona og iðjuþjálfi. Fjölskyldan bjó síðan í átta lærdómsrík ár í
Svíþjóð. Nokkuð áður en við fluttum aftur til Íslands fæddist yngsta dóttir
okkar. Sif ræktaði garðinn við húsið sitt í Svíþjóð, sem stóð við
skógarjaðar. Hún hefur gjarnan varið tíma sínum í garðinum í Fossvogi enda
eru rósirnar hennar einstakar. Af sömu alúð hefur hún hlúð að fólkinu sínu.
Við fjölskyldan höfðum tækifæri að ferðast víða á Íslandi og um heiminn.
Sonur okkar og tengdadóttir voru við störf og nám í Vancouver í Kananda og
fengu heimsóknir í tvígang. Í fyrra skiptið fór Sif og yngsta dóttir
hennar, þegar stúlka barnabarn fæddist. Síðar var yngsta dóttir okkar í
námi í sex ár í Óðinsvéum. Að auki eigum við Sif ættingja í báðar ættir í
Ameríku, sem unnt var að heimsækja. Ferðinni var þó iðulega heitið í
sælureit fjölskyldunnar við Þingvallavatn, en fegurðin þar og þögn er engu
lík. 55 ára sambúð okkar Sif endurspeglar tilveruna, endurminningar eru í
hugsun, máli og myndum, en minningin um alúðlega og hugprúða konu toppar
allt. Lífið er ekki ein þrautalaus ganga og í mótvindi vorum við Sif klók
að ná áttum og stóðum saman, enda Sif umburðarlynd. Sif greindist með
Alzheimer, en við öll í fjölskyldunni höguðum seglum eftir vindi. Við
lærðum að iðulega eru ráðstafanir skrefinu á eftir og eigum við ljúfsárar
minningar frá síðustu árum. Sif dvaldi frá hausti 2017 á Skjóli við
framúrskarandi atlæti, en þrjú ár þar á undan var hún í dagdvöl á Eir og
reyndist vel. Líkn og kyrrð helgaði kveðjustundina. Hún var frjáls frá
þjáningum, sem höfðu heltekið líkama og hugsun. Sif var á Þingvöllum á
vetrarkvöldi, algjört logn, fullt tungl speglaðist í tæru Þingvallavatni.
Stjörnubjart og norðurljós leiftruðu. Það varð stjörnuhrap og Sif steig upp
til himna.