Margrét Þórdís Ámundadóttir fæddist í Reykjavík 30. september 1933. Hún lést 8. desember 2018.
Foreldrar hennar voru Nanna Helga Ágústsdóttir, f. 2. júní 1912, d. 6. febrúar 2011, og Ámundi Sigurðsson, f. 29. júní 1905, d. 8. ágúst 1976. Margrét var elst þriggja systkina, bræður hennar voru þeir Sigurður, f. 17. janúar 1937, d. 21. apríl 2000, og Jón Örn, f. 20.3. 1944, d. 31.10. 2016.
Margrét giftist æskuást sinni Guðmundi Gunnari Einarssyni 15.4. 1954.
Börn þeirra eru Nanna María, f. 1954, Þórunn Svava, f. 1957, Gunnar Örn, f. 1960, og Ingigerður Helga, f. 1968. Margrét og Guðmundur eiga níu barnabörn: Margréti Rós, Hörpu Hlín, Nönnu Björk, Helgu Katrínu, Ástu Maríu, Ragnhildi, Guðmund Gunnar, Aron Inga og Ragnheiði Millu. Þau eiga níu barnabarnabörn.
Margrét var húsmóðir og hannyrðakona. Hún var menntuð í skermasaum og hélt mörg námskeið í þeirri iðn. Hún vann í mörg ár með manni sínum í þeirra fyrirtæki.
Margrét var útivistarkona og þau Guðmundur kynntust í skátahreyfingunni ung að aldri. Um tíma stundaði hún golf af kappi.
Útför Margrétar fer fram frá Seljakirkju í dag, 19. desember 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.
Nafna mín, elsku nafna mín.
Aðra eins konu eins og hana ömmu Möddu er erfitt að finna. Hún var í minni
upplifun best í öllu því sem hún gerði. Sama hvort að iðjan var æskileg
eður ei, hún fór alltaf alla leið!
Hún var skapandi, skemmtileg, klár, frambærileg og falleg.
Hún var svo falleg að þegar þau afi fluttu til Winnipeg 1955 var skrifað um
það í þarlendum blöðum að hún væri flutt í bæinn. Í greininni var örugglega
verið að tala um hvað hún væri frambærileg og klár, en ég man mest eftir
orðunum um glæsileika hennar og fallegu stóru myndina sem fylgdi
greininni.
Það var eins og hún amma væri tvær manneskjur í einni og báðar lifðu þær í
fullri gnægð og á ystu brún.
Hún amma mín var nefnilega ekki bara glæsilegasta kona bæjarins, hún var
líka mesti alkóhólisti sem ég hef kynnst.
Ég var oft að passa hana þegar að afi gat ekki meir og það sem ég upplifði
þar var ótrúlegra en lélegasti skáldskapur.
Útsjónarsemin, krafturinn og fyrirhyggjan var ótrúleg.
Hún amma kenndi mér svo margt,
Hún kenndi mér að borða góðan mat.
Hún kenndi mér að spila þriggja manna brids.
Hún kenndi mér að halda glæsiveislur.
Hún kenndi mér að reikna í huganum.
Hún kenndi mér að ég get ekki borið ábyrgð á fullorðinni manneskju.
Hún kenndi mér að ég verð að setja mörk.
Hún kenndi mér að lengi getur vont versnað.
Hún kenndi mér að gefast aldrei upp.
Þegar ég tel þetta upp þá hljómar þetta svo neikvætt, en það var gott að
læra þetta, gott veganesti að vita meira hvað maður vill og vill ekki í
lífinu.
Það er gott veganesti að kunna að setja mörk og að gefast aldrei upp!
Hún amma mín kenndi mér margt, sumt kenndi hún mér af því að það var
eitthvað sem hún vildi kenna mér. Miðla frá einni kynslóð til
annarrar.
Annað kenndi hún mér í gegnum það að ég bjó hjá henni, umgekkst hana og
elskaði hana meira en orð fá lýst.
Ég tókst á við hana. Já ég tókst á við hana og lengi vel þá var ég í
einskonar ratleik lífsins með henni. Ég var alltaf að leita að víninu sem
hún var búin að fela hér og þar.
Ég veit ekki hvað ég fór oft með hana í meðferð eða upp á spítala. Enda
skiptir það ekki mál í dag.
En svo var það hin hliðin. Góða, örláta, brjálæðislega skemmtilega amma mín
sem vildi alltaf spila við mig og ræða lífið og allt sem því fylgir.
Hún var svo glæsileg. Ég man hvað ég var stolt af henni, stolt af því að
eiga svona klára, fallega, fína ömmu. Fyrir utan hvað ég var stolt af henni
þegar hún náði að vera edrú.
Þegar árin liðu þá fór þessi mikla neysla sem hún var í að hafa áhrif á
hana. Hún fór að gleyma og rugla. Setningar eins og ís er besti
eftirrétturinn eru klassískar í okkar fjölskyldu.
Tollurinn fyrir lífernið sem hún lifði var að það voru örugglega ekki mörg
bein í líkamanum sem hún átti eftir að brjóta og það litaði óneitanlega
hennar efri ár.
Amma byrjaði ekki að drekka svona illa fyrr en ég var orðið stálpað
barn.
Þegar ég hugsa út í það hvað ég gerði með þeim og af hverju það var svona
frábært að fá að vera hjá þeim, þá hljómar það ekki merkilegt. Ég bara fékk
að stússast með þeim, hjálpa til í eldhúsinu, pússa silfrið, taka til í
bílskúrnum eða rúnta um bæinn.
Það var einn æðislegur leikur sem við lékum.
Við fórum í bíltúr eitthvert út í buskann og svo átti ég að leiðbeina þeim
réttu leiðina heim. Þetta hljómar ekki merkilegt, en það var það.
Líklegast af því að við áttum góð, djúp tilfinningaleg tengsl og það
dýrmæta var að við vorum saman. Eitt það dýrmætasta sem barn getur fengið
er að fá óskipta athygli og það gaf amma mér.
Hún amma kenndi mér margt og það dýrmætasta er hvað tengsl eru mikilvæg.
Djúp tilfinningaleg tengsl og það að geta talað um alvöru mál.
Það er ekkert sem toppar það!
Alltaf þegar ég heimsótti hana, sama hvernig ástandið var, þá tók hún utan
um andlit mitt og kyssti mig á kinnarnar og sagði Nafna mín, elsku nafna
mín.
Ég elskaði hana svo mikið og hún elskaði mig.
Nafna mín, elsku nafna mín, hvíldu í friði og góða ferð í næsta
partí.
P.S. Ég bið að heilsa afa
Margrét Rós Harðardóttir.