Helga Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 16. maí 1922. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 13. desember 2018.
Foreldrar hennar voru Kristinn Árnason, f. 23. október 1885, d. 9. mars 1966, og Guðbjörg Árnadóttir, f. 9. febrúar 1881, d. 28. september 1961.
Systkini Helgu voru Sigmar, f. 31. október 1909, d. 3. mars 1978, Unnur Árný, f. 12. ágúst 1912, d. 27. júlí 1932, Haraldur, f. 20. júní 1915, d. 24. september 2006, Elín Stefanía, f. 15. maí 1917, d. 28. janúar 1958, og Áslaug, f. 7. janúar 1920, d. 17. maí 1999.
Helga giftist 4. desember 1948 Kjartani Bergmann Guðjónssyni, f. 11. mars 1911, d. 17. desember 1999. Foreldrar hans voru Guðjón Kjartansson, f. 24. október 1868, d. 11. september 1937, og Sólveig Árnadóttir, f. 25. nóvember 1876, d. 2. maí 1968.
Börn Helgu og Kjartans Bergmanns eru: 1) Guðbjörg Kristín, f. 4. desember 1946. Sonur hennar er Kjartan Páll Eyjólfsson, f. 30. október 1969, kvæntur Hildigunni Garðarsdóttur. Börn þeirra eru: Andri Fannar, f. 15. nóvember 1997, og Garðar Sölvi, f. 27. júlí 2004, búsett í Reykjavík. 2) Sólveig Kjartansdóttir, f. 24. maí 1950. Eiginmaður hennar er Hreinn Guðnason, búsett í Eyjafirði. 3) Unnur Kjartansdóttir, f. 23. mars 1955. Eiginmaður hennar er Ingi Guðmar Ingimundarson, búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru: a) Hlynur Ingason, f. 30. apríl 1979, kvæntur Erlu Maríu Magnúsdóttir, börn þeirra eru Magnús Ingi, f. 18. september 2006, og Sara Dís, f. 31. maí 2014, b) Helga Ingadóttir, f. 28. apríl 1981, dóttir hennar er Unnur Birta Helgadóttir, f. 27. september 2011, og c) Kjartan Þór Ingason, f. 2. nóvember 1991. Sambýlismaður hans er Damian Marek Idzikowski.
Helga ólst upp á Bragagötu 30 í Reykjavík og bjó þar mestan hluta ævinnar ásamt eiginmanni sínum og fjölskyldu. Seinni árin bjó Helga ásamt eiginmanni sínum á Skúlagötu 20. Síðasta árið dvaldist Helga á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.
Útför Helgu fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 21. desember 2018, klukkan 13.

Eitt sinn verða allir menn að deyja segir í texta Vilhjálms Vilhjálmssonar í laginu Söknuður eftir Jóhann Helgason. Já þannig er víst gangur lífsins en alltaf er það nú jafn erfitt þegar kemur að kveðjustundinni sjálfri. Í dag kveð ég í hárri elli ömmu mína Helgu Kristindóttur eða Helgu ömmu eins og við barnabörnin kölluðum hana. Yndisleg, kærleiksrík og góðhjörtuð kona sem gaf okkur öllum svo mikið.
Það var alltaf gott að koma til Helgu ömmu og Kjartans afa á Bragagötuna, þar sem þau amma og afi bjuggu mestan hluta ævi sinnar, og síðar á Skúlagötuna. Segja má að leikið hafi ákveðinn ljómi yfir Bragagötu 30. Þarna hafði stórfjölskyldan í móðurætt búið alla tíð en þau síðustu í stórfjölskyldunni sem þar bjuggu af þeirra kynslóð voru amma og afi. Þegar ég var um sex ára gamall flutti ég ásamt foreldrum mínum og systur tímabundið á Bragagötuna til ömmu og afa vegna flutninga hjá okkur. Ég varð því það lánsamur að fá að búa í þessu merka fjölskylduhúsi sem hafði þá með búsetu okkar systkina hýst fjórar kynslóðir ættliða hvorki meira né minna þar sem bæði hafði verið fagnað lífsins gleðistundum og tekist á við sorgina á erfiðum tímum. Já á Bragagötunni tóku amma og afi okkur fjölskyldunni opnum örmum. Afi hinn merki íþróttafrömuður, glímukappi sem hann var og fyrrum skjalavörður á Alþingi og amma þessi góða kærleiksríka kona og stoð og stytta bæði afa og fjölskyldunnar í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Þau amma og afi voru samstíga í lífsins ólgusjó og samheldin í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Segja má með réttu að gagnkvæm virðing hafi ávallt einkennt þeirra samband. Nægjusöm voru þau og laus við allt lífsgæðakapphlaup og trú og trygg sínu fólki.
Fátt gladdi þau meira en þegar við systkinin komum í heimsókn til þeirra og síðar barnabarnabörnin til ömmu á Skúlagötuna. Margar góðar minningar koma upp í hugann þegar hugurinn reikar til baka. Á mínum yngri árum man ég t.d. eftir þeim tímum er ég og afi röltum endrum og sinnum í Sundhöllina upp á Barnónsstíg og tókum sundsprett og æfingar í útiskýlinu. Minningin um ilminn af bakkelsinu og hlýlegu viðmóti ömmu þegar við afi komum heim eftir sundferðirnar rennur mér seint úr minni. Oft var gripið í spil við okkur systkinin og spilað t.d. ólsen ólsen, Svarti-Pétur, vist og Rommí. Þá var gaman og mikið hlegið. Þar gleymdi hún amma sér oft og ljómaði og brosti sínu breiðasta þegar í ljós kom hver vann og hver tapaði. Þar sem undirritaður var á tíðum frekar tapsár leyfði hún amma litla stráknum oft að vinna endrum og sinnum við mikla ánægju undirritaðs. Já svona var hún amma, hugsaði alltaf um fjölskylduna og hag hennar í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur.
Mér er minnisstæð ein skemmtileg saga sem ég heyrði af og til af Bragagötunni. Þannig atvikaðist að ég hafði farið með frænku minni henni Guðbjörgu Kristínu (Bubbu frænku) niður í geymslu á Bragagötunni þegar ég var lítill í þeim erindagjörðum að ná í salernispappír sem vantaði upp í íbúð. Þar sem ég var frekar fyrirferðarmikill á mínum yngri árum tók ég mig til og lokaði hurðinni á geymslunni. Læsingin var víst þannig úr garði gerð að ekki var hægt að opna hurðina innan frá. Við vorum því föst þarna niðri í geymslunni ég og Bubba, en engir snjallsímar voru vitaskuld til staðar á þessum tíma til að bjarga okkur úr ógöngunum. Þarna hafði Bubba kappklætt mig í bláa úlpu af afa til þess að halda á mér hita þar sem geymslan var frekar köld. Mikið voðalega eru þau lengi þarna niðri skilst mér að amma hafi sagt þegar að ekkert hafði spurst til okkar í þó nokkurn tíma. Að lokum ákvað amma þó á endanum að fara niður í geymslu og athuga með okkur. Eftir á þegar í ljós kom hvernig í pottinn var búið var víst mikið hlegið og alla tíð síðan þegar atvikið var rifjað upp á góðum stundum.
Á seinni árum bjó amma á Skúlagötu 20, fyrst með afa, en eftir andlát hans bjó hún þar einsömul allt þangað til hún fór undir það síðasta á hjúkrunarheimilið Skógarbæ. Mikill samgangur var ávallt á milli fjölskyldunnar og ömmu. Systurnar hugsuðu líka einstaklega vel um móður sína allt til dauðadags. Þá var hún Sólveig (Solla frænka) nánast upp á dag í daglegu sambandi við hana ömmu þar sem hún Solla er búsett fyrir norðan í Eyjafirðinum. Alltaf var gott að koma í heimsókn til ömmu á Skúlagötuna og fá sér kaffibolla og smá að maula með kaffinu. Það verður því skrýtið þegar maður keyrir eða labbar fram hjá Skúlagötunni í náinni framtíð að geta ekki kíkt til ömmu í einn kaffibolla og spjallað við hana um daginn og veginn. Það var þó ómetanlegt að geta fagnað með henni níutíu og fimm ára afmælinu í Hannesarholti á síðasta ári þar sem öll stórfjölskyldan var saman komin á þessum merka áfanga í lífi hennar.
Hún amma hafði alla tíð mjög gaman af því að hlusta á tónlist þrátt fyrir að spila ekki sjálf á hljóðfæri. Mig grunar að hún hefði örugglega verið á sama máli og Nóbelsskáldið okkar Halldór Kiljan Laxness  sem sagði að tónlistin væri hin æðsta listgrein, ef hún amma hefði verið spurð álits á því. Tónlistin skipaði þannig sess í hennar lífi þrátt fyrir að hún léti ekki mikið á því bera. Við systkinin sungum oft lög sem við höfðum lært fyrir bæði ömmu og afa þegar við komum í heimsókn til þeirra. Þá man ég eftir að amma rifjaði á tíðum upp þegar mamma og pabbi tóku eitt sinn söng minn upp fyrir ömmu og afa þegar ég var yngri og söng lögin sem ég hafði þá lært í Ísaksskóla fyrir gömlu hjónin. Það fannst þeim gaman. Undir lokin kom ég stundum við í Skógarbæ og greip þá píanónóturnar með mér. Við löbbuðum þá ganginn inn í samkomusal þar sem ég settist við píanóið og spilaði nokkur vel valin lög fyrir hana, oft íslensk dægurlög. Já, þetta er fallegt lag, sagði amma á stundum og ljómaði öll upp og raulaði með þegar hún mundi eftir laginu sem spilað var hverju sinni. Laxness sagði: ... og þegar ég dey, þá vil ég heyra tónlist & Já tónlistin mun óma í dag og alla daga þér til heiðurs amma mín.



Að liðnum ævidegi við leggjum, amma kæra,
ljúfar, heitar þakkir, sem blóm á þína gröf.
Þú áttir göfugt hjarta, er ávallt var að færa,
okkur blessun sanna, þá dýru lífsins gjöf.


Um unaðsríka bernsku við áttum samfylgd þína,
af umhyggju þú hlúðir, að þroska í hreinni sál.
Og ljós frá þínum kærleika léstu ætíð skína,
á leiðir okkar allra, og skildir barnsins mál.

Nú, elskulega amma við þökkum þér af hjarta,
þína góðu leiðsögn, er okkur veittir hér.
Hvar ævisporin liggja, við blessum minning bjarta,
um bernskustundir glaðar, sem áttum við hjá þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)


Elsku amma. Nú veit ég að þér líður vel og ert komin á góðan stað með Kjartani afa og öðrum ættingjum og vinum sem kvatt hafa þetta jarðneska líf.
Minning þín mun lifa um ókomna framtíð.
Hvíl í friði elsku amma.
Þinn,


Hlynur.