Valgarður Egilsson fæddist á Grenivík 20. mars 1940. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 17. desember 2018.

Foreldrar hans voru Egill Áskelsson, kennari, sjómaður og bóndi í Hléskógum í Grýtubakkahreppi, f. 28. febrúar 1907 d. 25. janúar 1975 og Sigurbjörg Guðmundsdóttir f. 22. ágúst 1905, d. 10. desember 1973, húsfreyja frá Lómatjörn.

Systkini Valgarðs eru Sigurður Hreinn Egilsson, f. 26. september 1934, Lára Egilsdóttir, f. 23. desember 1935, Bragi, f. 19. júní 1937, d. 28. mars 1958, Áskell Hannesson Egilsson, f. 28. ágúst 1938, d. 1. september 2002, Egill Egilsson, f. 25. október 1942, d. 13. desember 2009, óskírður Egilsson f. 1944, d. 1944 og Laufey Egilsdóttir f. 5. ágúst 1947.

Eftirlifandi eiginkona Valgarðs er Katrín Fjeldsted læknir og fv. alþingismaður, f. 6. nóvember 1946, for. Lárus Fjeldsted forstjóri f. 30. ágúst 1918, d. 9. mars 1985 og Jórunn Viðar, f. 7. desember 1918, d. 27. febrúar 2017.

Börn Valgarðs og Katrínar eru Jórunn Viðar, f. 16. júní 1969, Einar Vésteinn, f. 26. júní 1973, d. 3. mars 1979, Vésteinn, f. 12. nóvember 1980 og Einar Steinn, f. 22. ágúst 1984. Dóttir Valgarðs af fyrra sambandi er Arnhildur, f. 17. ágúst 1966, móðir: Dómhildur Sigurðardóttir kennari.

Valgarður keppti í hlaupi og sundi á yngri árum og setti Íslandsmet í 500 metra bringusundi haustið 1958.

Valgarður varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1961. Hann lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1968 og doktorsprófi frá University College í London tíu árum síðar. Hann starfaði sem sérfræðingur í frumumeinafræði við Rannsóknastofu Háskóla Íslands frá árinu 1979 og var yfirlæknir frá árinu 1997 til 2010 er hann lét af störfum. Hann var klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 2004.

Valgarður var virkur í félagsstörfum, var m.a. formaður Listahátíðar í Reykjavík 1990 og 1994 og varaforseti Ferðafélags Íslands. Hann leiðsagði ferðamönnum um árabil, einkum um eyðibyggðir við norðanverðan og austanverðan Eyjafjörð.

Eftir Valgarð liggur fjöldi vísindagreina og nokkrar útkomnar bækur: Leikritið Dags hríðar spor (1980), sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Hann þýddi leikritið Amadeus eftir Peter Shaffer ásamt Katrínu konu sinni, en það var sýnt í Þjóðleikhúsinu 1982. Eftir hann eru ljóðabækurnar Ferjuþulur (1985), Dúnhárs kvæði (1988) og Á mörkum (2007), endurminningabækurnar Waiting for the South Wind (2001) og Steinaldarveislan (2014) og smásögurnar Ærsl (2017). Þá skrifaði hann í Árbækur Ferðafélags Íslands.

Útför Valgarðs verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 28. desember kl. 15.

Við andlát Valgarðs Egilssonar er fallinn frá einstakur hæfileikamaður; vísindamaður, listamaður, sögumaður, náttúruunnandi, vinur.

Valgarður var okkur læknanemum óvenjulegur en mikilvægur lærifaðir. Ég minnist ekki kennslu hans í frumulíffræði, þótt þær lexíur hafi eflaust verið ágætar - nei, ég man fyrst þegar hann flutti okkur kostulegt, frumort kvæði á menningarkvöldi læknanema haustið 1990 og hélt svo áfram og brýndi fyrir okkur mikilvægi þess að láta ekki hræðslu við álit annarra, spéhræðslu, halda aftur af okkur, stöðva okkur í að leita sannleikans og tjá okkur. Það ráð var mikilvægt veganesti ungu fólki út í lífið og ég held að það megi fullyrða að Valgarður hafi gengið þar á undan með góðu fordæmi. Leiftrandi, lágstemmdur húmor, meitlaður í enskri menningu, skarpt og óvenjulegt auga fyrir stærra samhengi hlutanna, svipur sem oft var ærið sposkur - frábær blanda sem ásamt óvenjulega lítilli spéhræðslu gerði manninn að alveg þrælskemmtilegum læriföður og félaga við ótal tækifæri.

Ólöf kona mín hélt sýningu í galleríi Kling og Bang haustið 2004 og þá varð Valgarður við ósk hennar um að taka þátt. Hann stóð þar, talaði við fólk um allt á milli himins og jarðar og útskýrði mál sitt með teikningum - talandi skáld sem varð líka myndlistarmaður í sömu andrá. Það sem hann sagði var frábært; óvenjulegar tengingar, óvenjuleg sýn, hrein snilli - og á sama tíma gat hann teiknað allt beint á blöð sem fóru svo upp á veggi. Valgarður var listamaður, jafnvígur á mörg form listarinnar.

Hann var líka vísindamaður sem vann að rannsóknum í þágu sjúklinga af elju áratugum saman og var svo allra manna skemmtilegastur í matsal Landspítala við Hringbraut. Best var að mæta undir klukkan eitt, ef maður vildi ná spjalli, spjalli sem maður hugsaði svo oft um út daginn, því skörp sýn hans á menn og málefni hvíldi oft með manni áfram.


Fyrir rúmum þremur árum gengum við feðgar með Valgarði og fleirum um Viðey, til að heyra sögur af því þegar sá heimsþekkti listamaður Richard Serra setti upp listaverkið Áfanga í eynni. Valgarður hafði verið formaður Listahátíðar í Reykjavík á þessum tíma og sagði sögur af því hvernig þetta kom allt til og meðal annars af því hvernig hann óð með konu Serra á bakinu og leiðandi listamanninn sjálfan úr Geldinganesi, þar sem kom til greina að setja upp verkið. Þótt hreystimennið Valgarður væri augljóslega ekki eins léttur í spori og fyrrum, þá dró hann ekkert af sér í þúfum Vestureyjar og manaði meira að segja son minn 13 ára í kapphlaup, enda enn sprettharður með afbrigðum.

Við hjónin áttum því láni að fagna að vera nágrannar Valgarðs og Katrínar í meira en áratug. Heimili þeirra einstaklega fallegt, dásemdar garður framan við húsið og Valgarður oft þar úti við þegar maður gekk hjá. Hann minnti okkur reglulega á það að við gætum alltaf fengið skessujurt í kjötsúpu í garðinum hjá sér og þyrftum ekki að spyrja leyfis - iðulega bauð hann okkur inn í kvöldhressingu. Heimili þeirra hjóna var einstakt menningarheimili - ég man eitt kvöld fyrir mörgum árum þegar heimsókn okkar Ólafar til þeirra hjóna breyttist í allsherjar ljóðalestur, þar sem fólk skiptist á að fara með þau fegurstu ljóð sem ort hafa verið á íslenska tungu. Maður var svo sannarlega uppveðraður þegar maður gekk út af þeim fundi, út í haustnóttina, með ljóðabók upp á vasann. Og ekki í eina skiptið enda þau hjón gestrisin og gjafmild með eindæmum.

Á leiðarenda fyllist hugurinn ótal myndum af einstökum manni. Missir Katrínar og afkomenda þeirra er mikill og er hugur okkar Ólafar hjá þeim í sorg þeirra.

Páll Matthíasson.