Óttarr Möller fæddist í Stykkishólmi 24. október 1918. Hann lést á Hrafnistu Reykjavík 19. desember 2018.
Foreldrar hans voru William Thomas Möller, f. 6.4. 1885, d. 17.4. 1961, og Kristín Elísabet Sveinsdóttir, f. 2.8. 1879, d. 4.1. 1926. Seinni kona Williams Thomasar var Margrét Jónsdóttir, f. 24.10. 1905, d. 18.1. 2003.
Alsystkini: Guðrún Sveina, f. 3.7 1914, d. 18.2. 1994, og Jóhann, f. 7.2. 1920, d. 26.2. 2011. Hálfsystkini: Agnar, f. 3.12. 1929, d. 12.6. 2010, Kristín, f. 4.1. 1940, d. 21.10 2014, og William Thomas, f. 12.1. 1942.
Óttarr kvæntist 20. febrúar 1948 Arnþrúði Kristinsdóttur Möller, f. 29. nóvember 1923, d. 24. febrúar. 2009. Dætur þeirra eru: 1) Emilía Björg, f. 1950, maki Valgeir Ástráðsson. Hún var áður gift Óskari Kristjánssyni, látinn. Dætur hennar og Óskars eru a) Arna, gift Sigurði Jóhanni Stefánssyni og eiga þau þrjú börn, b) Anna Margrét, gift Eiríki Benedikt Ragnarssyni, eiga þau tvo syni, c) Emilía Björg, á hún tvær dætur. 2) Kristín Elísabet, f. 1951, maki Jóhannes Jóhannesson. Börn þeirra eru a) Arnar Gylfi, í sambúð með Díönu Brá Bragadóttur, eiga þau eina dóttur, b) Bergþór, c) Alexandra Rós, í sambúð með Kristjáni Val Sigurjónssyni. Áður átti Kristín Sigfús Helga Helgason, kvæntur Hildi Markúsdóttur og eiga þau þrjá syni, og Auði Helgadóttur og á hún tvo syni. 3) Erla, f. 1954, maki Sigurður Kristinn Sigurðsson. Börn þeirra eru a) Óttarr Þór, í sambúð með Guðrúnu Tinnu Valdimarsdóttur, eiga þau tvær dætur, b) Arnþrúður Dögg, gift Sindra Páli Kjartanssyni, eiga þau tvær dætur, c) Sigurður Kristinn, í sambúð með Stefaníu Steinarsdóttur og eiga þau tvo syni. 4) Auður Margrét, f. 1959, maki Guðmundur Már Stefánsson. Dætur þeirra a) Signý Ásta, í sambúð með Kristjáni Ara Úlfarssyni, eiga þau einn son, b) Ásdís Björk, í sambúð með Antoni Ellertssyni, eiga þau tvo syni, og c) Edda Rún.
Óttarr ólst upp í Möllershúsi í Stykkishólmi, en faðir hans var póst- og símstöðvarstjóri þar 1910-1954. 30. júní 1927 kvæntist faðir hans síðari konu sinni, Margréti Jónsdóttur, sem gekk þeim systkinum í móðurstað.
Þau Arnþrúður bjuggu fyrst í Mávahlíð 36, síðan í Vesturbrún 24 og svo í Efstaleiti 12.
Óttarr brautskráðist frá Verzlunarskóla Íslands 1936, stundaði verslunarnám í Bretlandi og nam skipaútgerð við New York-háskóla 1942-46. Þá sat hann námskeið hjá War Shipping Administration fyrir yfirmenn skipafélaga.
Óttarr réðst til Eimskipafélags Íslands 1938 og starfaði á skrifstofum þess í New York og í Reykjavík. Hann var viðskiptalegur framkvæmdastjóri hjá Sameinuðum verktökum um tíma. Hann var forstjóri Eimskipafélagsins 1962-1979.
Óttarr var ráðunautur í siglingamálum í stjórnskipaðri nefnd sem fór til Rússlands 1959. Þá var hann í stjórn og stjórnarformaður Flugfélags Íslands um tíma, í stjórn Flugleiða hf., Tollvörugeymslunnar hf. , Slippstöðvarinnar á Akureyri, Ferðaskrifstofunnar Úrvals, í stjórn og framkvæmdastjórn Eimskipafélags Reykjavíkur og í stjórn Íslenskrar endurtryggingar.
Þá var Óttarr formaður fulltrúaráðs og yfirstjórnar St. Jósefsspítala, Landakoti, og sat í orðunefnd hinnar íslensku fálkaorðu. Hann var í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Ísland og í framkvæmdastjórn þess, í fulltrúaráði Hins íslenska fornritafélags, í stjórn Heimdallar og síðar í fulltrúaráði og í fjármálaráði Sjálfstæðisflokksins. Óttarr var einnig heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi. og félagi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur og frímúrarareglunni á Íslandi um áratuga skeið.

Óttarr var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1964 og stórriddarakrossi 1971 fyrir störf að siglingamálum, ásamt fjölmörgum orðum og viðurkenningum erlendra ríkja.
Útför Óttars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 8. janúar 2019, klukkan 13.

Í dag kveðjum við Óttarr Möller tengdaföður minn, 100 ára gamlan heiðursmann.
Það var ómetanleg reynsla og skóli fyrir mig ungan manninn að kynnast þessum mæta manni fljótlega eftir ég kynntist dóttur hans Erlu árið 1975. Allt frá fyrstu kynnum var auðfundið að þar fór hreinskiptinn kraftmikill persónuleiki sem um leið var hlýr og góður maður.
Smám saman uxu kynni okkar Óttarrs sem urðu að vináttu sem aldrei bar skugga á í blíðu og stríðu, vináttu sem varð að einni minni mestu gæfu.
Óttarr Möller var mótaður af því umhverfi sem hann ólst upp við, fæddur og uppalinn í Stykkishólmi þar sem danska var töluð á sunnudögum. Hann  missti móður sína 8 ára gamall og fór þá um sinn til vandalausra en kom svo síðar aftur heim þegar faðir hans kvæntist seinni konu sinni, Margréti, sem reyndist þeim systkinunum hin besta móðir. Með nánum kynnum var auðvelt að finna að góðir siðir og gott uppeldi úr foreldrahúsum í Stykkishólmi, þó ekki hafi allaf verið úr miklu að spila, var gott veganesti þegar út í lífið kom. Lífið á Íslandi á millistríðsárunum var sérstakur heimur en Óttarr réð sig til starfa hjá Eimskipafélagi Íslands árið 1938. Hjá Eimskip vann hann sig upp í stöðu forstjóra af einskærum dugnaði og ósérhlífni sem óhjákvæmilega varð til þess að sóst var eftir starfskröftum hans víða í samfélaginu vegna dugnaðar og meðfæddra stjórnunarhæfileika. Óttarr var harður í horn að taka þegar það átti við en ætíð sanngjarn og sáttfús þegar svo bar undir. Óttarr sat í mörgum stjórnum og ráðum, var ma. stjórnarformaður Flugfélags Íslands, sat í stjórn Flugleiða svo eitthvað sé nefnt. Þá þótti honum vænt um þegar nunnurnar á Landakoti báðu hann um að koma til yfirstjórnar Landakotsspítala. Það er ljóst að vinnudagar þessa mæta manns voru oft langir en það var einstakt lán hans að eiga Lillu sem eiginkonu sem sá um heimilið og uppeldi dætra þeirra af einstakri móðurást og  glæsimennsku. Hún stóð þétt við hlið hans í hans erilsama starfi og annaðist móttökur erlendra og innlendra gesta á heimili þeirra á Vesturbrún 24 ásamt ferðalögum og öllu því sem  óhjákvæmilega fylgdi því að Óttarr gegndi mikilvægum embættum í samfélaginu.
Eitt var það sem Óttarr minntist oft á og segir margt um manninn og það voru verkamennirnir á höfninni, hann var málkunnugur þeim mörgum vegna tíðra ferða hans niður á bryggju og suma taldi hann til vina sinna. Guðmundur jaki formaður Dagsbrúnar, sem var góður vinur Óttarrs þrátt fyrir að þeir tækjust stundum á, lét hafa það eftir sér að þegar samningar náðust um fastráðningu hafnarverkamanna og mötuneyti hafi það verið eitt af því sem hann var hvað stoltastur af á sínum ferli, en sá árangur tókst með samkomulagi þeirra félaga, þetta þótti stórt skref á þeim tíma þegar það var stigið.
Þrátt fyrir langa vinnudaga og ábyrgðarmikil störf átti Óttarr góðar stundir í sínu einkalífi, stundaði hestamennsku, ferðaðist um landið í löngum hestaferðum, átti marga góða og ljúfa gæðinga en hafði sjálfur mest gaman af að ríða harðviljugum skaphestum, hafði gaman af að glíma við þá. Hann kom sér upp góðri aðstöðu á Helluvaði á Rangárvöllum þar sem hann hafði hesta og síðar þegar um hægðist kom sér upp kindum og hafði mikið gaman af fjárbúskapnum. Þá keypti hann sér land í nágrenni Helluvaðs og hóf þar uppgræðslu, þar stendur nú Gilsbakki sem ásamt öðru er orðin skógræktarjörð í eigu okkar Erlu og fjölskyldu okkar. Það var oft gestkvæmt á Helluvaði og dæturnar ásamt barnabörnum og tengdasonum dvöldust þar löngum stundum með Óttarri afa og ömmu Lillu. Það var athyglisvert að þegar Óttarr hafði dregið sig í hlé frá daglegum störfum hvað fjölskyldan skipti hann miklu máli, allt annað var hjóm eitt sagði hann. Hann undi sér hvergi betur en í sveitinni og hefði örugglega orðið góður bóndi sem sást vel á því að fljótlega eftir að hann kom sér upp kindum var hann kominn með einn hæsta dilkaþunga í sveitinni, allt vandlega skráð og mikið spjallað við bændur. Meðfædd tónlistagáfa stytti Óttarri oft stundir við úrlausn flókinna verkefna en þá settist hann niður við píanóið eða með harmonikkuna og spilaði löngum stundum og samdi ef því var að skipta. Óttarr hafði yfir sér virðuleik og festu en alltaf var stutt í glettni og gáska þegar það átti við. Á góðum stundum var spilað og sungið á Helluvaði.
Þeir sem þessum manni kynntust áttu auðvelt með að finna hversu traustur maðurinn var. Óttarri var mikill sómi sýndur víða  erlendis og prýddur krossum og heiðursmerkjum margra landa sem mátu hans störf mikils, sjálfur gerði hann lítið úr þessum heiðri og lét gera miniatura af þessum merkjum til þess vera minna áberandi, gerði lítið af því að flíka vegtyllum, gerði meira af því að láta verkin tala. Óttarr var félagi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur og hafði mikla ánægju af, þá var hann mjög virkur í starfi Frímúrarareglunar á Íslandi, þar voru honum falin ábyrgðarstörf, þá mat hann boðskap Reglunnar og allt það góða starf sem þar er unnið mikils og taldi hann það vera eitt af sínum mestu gæfusporum að ganga í Frímúrararegluna.
Löngum starfsdegi Óttars Möller er lokið og miklu var komið í verk.
Ég vil að leiðarlokum þakka þessum heiðursmanni samfylgdina og vináttuna. Vináttu og kynni sem hafa átt ríkan þátt í því að gera mig að talsvert mikið betri manni en ég hefði nokkurn tíma orðið ef hans hefði ekki notið við. Börn, barnabörn og langafabörn kveðja nú góðan afa en góðar minningar munu hjálpa til við að sefa söknuð þeirra.
Far þú í Guðs friði.


Sigurður Kr. Sigurðsson.