Birna Jóhanna Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 5. apríl 1931. Hún lést á Landspítalanum 1. janúar 2019.
Foreldrar hennar voru Kristín Júnía Einarsdóttir og Jón Björgvin Jónsson.
Systkini hennar voru Óskar Jónsson hálfbróðir, Erna Sigurveig Jónsdóttir og Sigurður Jónsson. Erna er ein eftirlifandi þeirra.
Hinn 1. apríl 1961 giftist Birna manni sínum, Haraldi Ólafssyni. Foreldrar hans voru Sesselja Ólafsdóttir og Ólafur Jósúa Guðmundsson. Birna og Haraldur bjuggu á Patreksfirði, lengst af á Strandgötu 19. Haraldur lést í sjóslysi 5. júní 1990. Dóttir þeirra er Kristín Viggósdóttir og maður hennar er Hilmar Jónsson. Börn þeirra eru Haraldur Kristinn, Bárður og Birna Kristín. Barnabörnin eru: Aðalbjörg Birna Haraldsdóttir, Jökull Myrkvi Haraldsson, Elsa María Bárðardóttir, Freyja Sif Bárðardóttir, Sara Bárðardóttir, Blíða Líf og Bjarmi Þór.
Minningarathöfnin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. janúar 2019, klukkan 13.
Birna Jóhanna verður jarðsett í Patreksfjarðarkirkjugarði 19. janúar 2019 klukkan 14.
Að alast upp hjá Birnu ömmu voru forréttindi, það var allt gert fyrir mig sama hvort ég suðaði um pening í bíó eða baka pönnsur eða klatta nálægt miðnætti ef þess þurfti. Eftir að afi dó árið 1990 þá varð ég þinn maður í lífinu. Við ferðuðumst saman, fórum í heimsóknir útum allt land, brunuðum á ættarmót á tveggja ára fresti og svo allar ferðirnar sem þú skutlaðir mér út á golfvöll, þær skipta hundruðum. Ég upplifði marga af þínum vinum sem mína, því maður var með þér í heimsóknum öll kvöld og yfirleitt langt fram yfir miðnætti og ég þá mjög ungur og átti að vera löngu sofnaður.
Skemmtilegast fannst mér á Túngötunni hjá Ninnu og Júlla.
Þú varst nú ekki mikið að skipta þér af hvað maður gerði í lífinu, en það voru nokkrir hlutir samt. Þú lagðir mikla áherslu á að ég kláraði stúdentspróf. Ég kláraði það og mikið varstu stolt af mér, ég held að enginn á Íslandi hafi klárað það jafnvel og ég að þínu mati. Einnig varstu nú alltaf að tuða í mér að hvenær ég skyldi læra á nikkuna sem ég fékk frá afa. Ég er ekki búinn að vinna neitt í því, en ég skal lofa þér að svo verður og þá ertu velkomin til mín í stofuna að hlusta á. Svo er það sem ég get ekki framkvæmt fyrir þig og það er að safna hári. Þú varst nú alltaf svo sár þegar að ég mætti ný krúnurakaður. Æi, þú varst með svo fallegt hár sem barn. Þá er það fín málamiðlun ég læri á nikkuna í staðinn og fæ að sleppa því að safna hári.
Ég bjó nú hjá þér í nokkuð langan tíma á efri árum. Alltaf á sumrin eftir grunnskóla þegar ég kom vestur að vinna. Svo þegar ég var á sjónum að þá sá ég strax að hvernig þú hugsaðir um afa þegar hann var á sjó. Það var alltaf smurt nesti fyrir mann og það var alltaf heitur matur þegar ég kom heim. Sama hvað klukkan var. En þú varst alltaf stressuð þegar ég vann á sjónum, hvort ég kæmi ekki örugglega heill heim.
Svo verð ég nú að minnast á allar bílferðirnar þínar. Þú hélst því alltaf fram að þú værir hörku ökumaður. Sem var nú kannski rétt en samt bara fyrir 20-30 árum. Þau skipti sem þú keyrðir með mann í Reykjavík að þá þurfti maður nú iðulega að valsa nærbrókina. Eitt skipti vorum við að keyra suður í bæinn og tókum einn puttaling upp í. Svo ert þú að keyra í Vattafirðinum að mig minnir. Þá kemur skyndilega blindhæð og þú ekur eins og rallý ökumaður yfir eina blindhæðina og gleymdir beygjunni sem var fyrir aftan hana. Við skutumst út í móa með öll dekk fríhjólandi. Afsökunin fyrir þessu var ekki of mikill hraði á malarvegi, nei puttalingurinn talaði svo mikið.
Ég hlæ nú alltaf upphátt þegar að þú varst nærri búin að keyra inn í íbúðina þína á elliheimilinu á Patró. Þrumaðir á handriðið og stórskemmdir bílinn. Afsökunin var að þú hafir ruglast á bremsu og bensíngjöf. Síðast þegar ég vissi þá er bremsan alltaf í miðjunni. Svo er ekki hægt að gleyma því þegar þú varst að keyra eftir strætó og hann bremsar á rauðu ljósi og þú þrumaðir aftaná hann. Afsökunin var sú að hann hefði neglt niður á gulu ljósi. Ég get því miður ekki vitnað um það í þessari sögu, en ég held að það tengist nú eitthvað bilinu á milli ykkar.
Svo þegar að þú fluttir í bæinn að þá vantaði mig bíl og þú lánaðir mér þinn bíl, en því miður var það ekki hægt að þú varst að keyra um götur bæjarins þannig að það var ákveðið að þú fengir ekki bílinn aftur. Fyrirgefðu amma mín en ég gerði Reykjavík að öruggari stað fyrir vikið. Það var iðulega minnst á að Haraldur hefði nú tekið bílinn og ég held innst inni að þetta var seint og illa fyrirgefið.
Það sem þú hélst mest uppá í þessu lífi að öllum ólöstuðum var án efa dóttir mín. Í skírninni þegar að þú heyrðir mig segja nafnið á henni og að ég hafi látið Birnu nafnið sem seinna nafn, þá man ég hversu stolt þú varst og ánægð. Viðstaddir heyrðu það nú reyndar alveg líka hversu ánægð þú varst. Sumir héldu reyndar að þú værir að ljúka þinni jarðvist þá, því þetta kom þér svo í opna skjöldu. Enda var ég búinn að segja að hún yrði ekki skírð í höfuðið á neinum.
Svo getur maður ekki skrifað þessa grein án þess að minnast á allar sjómannadagshelgarnar sem þú þurftir að þola mig og alla mína vini. Ætli það hafi ekki verið 2005 þegar við byrjuðum á að hafa fiskisúpu fyrir gesti og gangandi á föstudeginum fyrir sjómannadag. Fyrsta árið voru nú bara nokkrir strákar eflaust á bilinu 5-6. Svo fór þetta að spyrjast út og næstu ár óx þetta bara og óx. Endaði að mig minnir 2009 og þá voru eitthvað yfir 40 manns. Hljómsveitir og skemmtikraftar sem ætluðu að troða upp á helginni mættu í súpuna. Allt þetta rúmaðist fyrir í lítilli íbúð á ellismell. Fólk sem ég hafði aldrei séð áður var farið að spyrja mig hvort það mætti ekki koma í súpuna. Svarið var alltaf já. Þetta var hefð sem þú vildir alls ekki missa því félagsskapurinn var yndislegur, mikið hlegið og eflaust drukkið miklu meira en var hlegið. Sama hvaða axarsköft ég og vinir mínir gerðu á þessum klassísku sumarfylleríum þá stóðstu alltaf með okkur og talaðir okkar máli. Enda varstu svo stolt að því að eiga í góðum samskiptum við vini mína. Þú varst ein af okkur, svo komu þessir strákar hver á eftir öðrum og spurðu hvort þeir mættu kalla þig ömmu. Þú varst nú ekki maður með mönnum ef þú kallaðir Birnu ekki Birnu ömmu. Ég veit ekki hvað oft ég hringdi í þig á böllum að koma að ná í mig því eitthvað fór úrskeiðis þar ber hæst eggjagrínið sem fór úr böndunum og ballið þar sem ég reif rassinn úr buxunum með einhverja dömuna í trylltum dansi.
Alltaf þegar eitthvað bjátaði á þá gat ég leitað til þín hvort það voru kvennamál eða annað. Ég kom alltaf fyrstur til þín með stelpurnar sem ég var að deita til þín. Á öðru til þriðja deiti þá dró ég með þær á Hrafnistu til að sýna þér.
Eitt sem mér finnst þurfa að koma fram það er ást þín á sveitinni þinni sem þú varst sem barn, Hnappavellir. Þú talaðir alltaf um Hnappavelli og Öræfasveitina með blik í auga. Síðast þegar ég keyrði þar fram hjá með börnin að þá baðstu okkur að vinka Hnappavöllum og það gerðum við fyrir þig. Ég valdi þetta lag sérstaklega fyrir þig að þegar ég og þitt einvala lið ber þig út úr kirkjunni þá mun sveitin mín hljóma.
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín,
yndislega sveitin mín,
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.
(Sigurður Jónsson)
Elsku besta amma mín, þú fórst aðeins of fljótt fyrir mig og börnin en nú geturðu dansað inn í eilífðina með Halla afa. Næst þegar við hittumst þá sit ég með nikkuna og þið hjónin dansið gömlu dansana.
Kv. Hallinn þinn.
Haraldur Kristinn Hilmarsson.